Kútter Ingvar ferst við Viðey. 20 manns farast.
Alla fyrstu vikuna í apríl 1906 hafði geysað stórviðri sunnanlands, og átti það eftir að versna. Fréttir bárust um að Kútter Ingvar, sem var í eigu Duus verslunar hefði sést suður í Garðsjó og hefði laskast í óveðrinu. Skemmdir hefðu orðið á seglbúnaði skipsins.

Skömmu fyrir hádegi þann, 7. apríl, sást til fiskiskips frá Reykjavík. Töldu menn að þar væri komin Kútter Ingvar, en sökum veðurs var erfitt að sjá það með vissu. Þó voru allar líkur á því þar sem seglbúnaður þess skips var laskaður.
Áhöfn Ingvars ætlaði fyrst að sigla þá venjulegu leið milli Örfirseyjar og Engeyjar inn á Reykjavíkurhöfn, en náði því ekki sökum skemmds seglbúnaðar. Hraktist skipið norður með Engey, en síðan reyndu menn að sigla inn sundið milli Engeyjar og Viðeyjar. En sú leið er hættuleg skipum sökum grynninga og skerja syðst í sundinu, og þar fyrir innan. Það sem gerði þessa siglingu enn hættulegri var veðurofsinn og brimið á sundinu.
Þegar Kútter Ingvar var á móts við Viðeyjartún, steytti það á blindskeri. Talið er að skipverjar hafi reynt að kasta út akkeri til þess eins að halda skipinu föstu. Fólk í Laugarnesi og Viðey sáu þegar skipið strandaði.
Á þessum tíma var bátur í Viðey en sökum veðurs treystu menn sér ekki til að leggja í björgunarleiðangur. Þá sömu sögu var að segja frá Reykjavík, en þar urðu fjöldi fólks vitni að þessum hörmungum en gátu ekkert gert til að koma mönnunum til bjargar. Svo fór sem fór að nánast allir skipverjar enduðu í sjónum og týndu lífi sínu. Hafði einn skipverjanna náð að binda sig við siglutréð, en eftir 3 klukkustunda baráttu við hafið og veðraöflin fórst hann einnig.
Í þessu slysi dóu 20 manns, og urðu fjöldi fólks sjónarvottar af því án þess að geta nokkuð að gert. Mikið var rætt í kjölfar þessa slyss, og komu þá upp hugmyndir að hafa tiltækann björgunarbúnað eða bát.
Kútter Ingvar var gert til fiskveiða, 77 smálestir að stærð. Kútter Ingvar var ekki eina skipið sem fórst þennan dag, en skipin „Emilie“ og „Sophie Wheatley“ (einnig minnst á í færslu um Balholm) hurfu einnig út á sjó. Með þessum þremur skipum fórust 68 manns, sem verður að teljast mikil blóðtaka á einum degi.
Mikið er til af heimildum um Ingvarsslysið, þeir sem hafa áhuga að kynna sér þessa sögu geta nýtt sér eitthvað af krækjunum sem eru hér neðar á síðunni.


Leitin að flaki Kútter Ingvars, akkerið finnst
Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi hafði forgöngu fyrir því að koma af stað leit að flakinu. Örlygur fékk í lið með sér Stefán S. Skúlason, kafara við leitina. Örlygur hafði sankað að sér gögnum og upplýsingum um atburðina og hófu skipulagða leit á slysstaðnum. Eftir einhverja leit og köfun á vettvangi fannst akkeri er talið vera úr flaki Kútter Ingvars. Akkerið fannst u.þ.b. 80 árum eftir atburðina.

Þessu akkeri var komið fyrir í Viðey, og settur á það minningarskjöldur, til þess að minnast þessa sorglega slyss, sem og annarra sem urðu þennan dag. Stendur nú akkerið á ströndinni í Viðey og snýr að vettvangi slyssins, Hjallaskeri.
Ekki eru frekari heimildir fyrir því hvort eitthvað fleira hafi fundist af flakinu eða hvort reynt hafi verið að leita eitthvað frekar. Eftir slysið rak á fjörur í Viðey timbur úr Ingvari og voru fjalirnar m.a. notaðar til byggingar á íbúðarhúsi í eynni.
Þar sem nú eru meira en 100 ár liðin frá þessum atburði er flakið og allir mögulegir gripir eða munir sem tengjast því friðaðir skv. þjóðminjalögum.



Hefurðu frekari upplýsingar… komdu þeim á framfæri.. hafðu samband við mig: diveexplorer@dive-explorer.com
Heimildir:
- Morgunblaðið, lesbók 5.apríl. 1986
- Morgunblaðið, öld liðin, 9 apríl 2006
- Wikipedia um Kútter Ingvar
- https://afangar.com/stridssaga/hjallasker/