Þann 16. febrúar árið 1944 náði þýski flugherinn að valda bandamönnum miklum skaða er þrjár sprengjuflugvélar gerðu árás á olíuflutningaskipið El Grillo. Skipið hafði legið undir akkerum frá haustinu 1943 og þjónustað flota bandamanna sem birgðaskip, það var því mikilvægur hlekkur fyrir sjóhernað þeirra. Þessu gerðu Þjóðverjar sér grein fyrir, þrátt fyrir að nokkur orustuskip lægju undir akkerum í Seyðisfirði þennan dag þá beindust árásir sprengjuflugvélanna þriggja eingöngu að olíuskipinu El Grillo. Telja má fullvíst að njósnir hafi búið að baki árásinni því að flugvélarnar komu snögglega yfir fjallgarðana og hófu markvissa árás á skipið.
Skipsverjar El Grillo hófu varnarskothríð með einni af loftvarnarbyssum skipsins en árangurslaust því ein af sprengjunum sem varpað var að skipinu hæfði skut skipsins þannig að það sökk til hálfs.
Áhöfnin, alls 48 menn, komst klakklaust úr skipinu eftir árásina án þess að nokkurt mannfall yrði. Yfirvöld breska hersins tóku svo ákvörðun um að sökkva skipinu og var það gert seinna um kvöldið. Hvaða ástæður lágu að baki ákvörðun þeirra er ekki vitað en mikið magn olíu var enn um borð í skipinu.



Skipið er gríðarlega stórt með 9000 tonna burðargetu en algengt er að loðnuskip í dag séu með um 1000-1500 tonna burðargetu. Skipið var líka vel vopnum búið, prýtt tveimur fallbyssum og fjórum loftvarnarbyssum auk fjögurra rakettubyssa sem sérstaklega voru ætlaðar til varnar gegn árásum steypiflugvéla. Einnig voru djúpsprengjur um borð en bandaríski herinn aðstoðaði Landhelgisgæsluna við að fjarlægja þær allar fyrir utan eina sem liggur á botninum rétt við síðu skipsins. Einnig er enn um borð kveikibúnaður þessara sprengja en ólíklegt er að köfurum stafi hætta af honum nema þeir taki þá ákvörðun að fara á flakk um innviði skipsins. Af öðrum vopnabúnaði er allt á sínum stað fyrir utan eina fallbyssu sem lyft var upp og komið fyrir í bænum sem minnisvarða um hið mikla mannvirki sem þarna liggur á botninum.
Fyrstur manna til að kafa niður að flakinu var Grímur Eysturoy Guttormsson kafari en köfunin var þá sú lengsta sem vitað var um hérlendis, eða 44 metrar. Grímur, sem nú er látinn, kafaði alls 81 sinni niður að flakinu.

Árið 1952 reyndu Olíufélagið hf. og Hamar hf. að dæla allri olíunni úr flakinu og þá náðust um 4.500 tonn en talið var að allt að 1000 tonn væru enn eftir. Jóhann Grétar Einarsson, símstöðvarstjóri á Seyðisfirði, man vel eftir þessum aðgerðum en ástæðuna fyrir því að reynt var að ná olíunni upp telur Jóhann einkum þá að menn hafi óttast leka frá flakinu. Olían sem náðist upp kom sér síðan vel í olíuhallæri sem þá var í landinu. El Grillo hefur hins vegar reynst Seyðfirðingum mikill baggi en olíumengunar frá skipinu hefur orðið vart í gegnum tíðina.
Árið 2000 var bráðabirgðaviðgerð framkvæmd á nokkrum lekastöðum og í febrúar 2001 tók svo Umhverfisráðuneytið af skarið og bauð út verkið við að fjarlægja þær eftirstöðvar af olíu sem eru um borð. Í kjölfar ákvörðunar Umhverfisráðuneytisins um að fjarlægja olíuna hafa heyrst umræður sem snúast um að lyfta skipinu upp af botni fjarðarins. Slíkt væri án efa ógerningur og mikill skaði væri af því að eiga nokkuð við flakið eftir að olían um borð hefur verið fjarlægð því flakið er án efa einhver sá stærsti stríðsminjagripur landsins.
Þó svo að flakið sé flestum hulið þá eru margir kafarar sem njóta þeirra forréttinda að geta nálgast það og svifið yfir því gagnteknir af stórfengleika þess.

Byggingarlag skipsins er líkt hefðbundnum Liberty skipum frá þessum árum. Á framenda skipsins er bakkinn en stýrishúsið er miðskips. Á aftari hluta skipsin er lágreist yfirbygging. þar má finna vélarrúm skipsins og vistarverur áhafnarinnar.
Víða má sjá línur og drauganet víða á skipinu þannig að ráðlegt er að horfa vel í kring um sig og fara varlega og hafa góða hnífa með í för. Það er gjarnan dimmt yfir á köfunarstaðnum og skyggni getur verið slæmt þannig að ráðlegt er að vera með góð ljós.
Heimild:
Fréttablaðið 15. maí 2020
Vonandi búnir að stöðva olíuleka El Grillo
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar luku í dag við að steypa yfir hluta flaks El Grillo á Seyðisfirði sem úr hefur lekið olía. Aðgerðin var nokkuð snúin; það er erfitt að steypa neðansjávar en stjórnandi verksins segir það hafa gengið vonum framar.
„Við kláruðum að steypa í dag en við þurfum að fara aftur niður að skipinu á morgun og skoða hvernig til hefur tekist,“ segir Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, sem stjórnaði framkvæmdunum. Áhöfnin á varðskipinu Þór hefur unnið með séraðgerðasveitinni síðan á föstudag í síðustu viku við að undirbúa aðgerðirnar. Í gær var hafist handa við að steypa fyrir olíulekann.Um helgina verður kafað aftur niður að skipinu. Veðurspáin er ekki sérlega hagstæð á morgun. Landhelgisgæslan
El Grillo var breskt olíubirgðaskip sem sökkt var af þýskum flugvélum þar sem það lá á Seyðisfirði árið 1944. Skipið liggur nú á botni fjarðarins á 32 metra dýpi og hefur olía sést í sjónum í kringum það annað slagið síðan. Í fyrra fundu kafarar svo lekann við tanka skipsins.
Til að steypa fyrir lekann var notast við rör sem kafað var með niður að flakinu en sjö kafarar hafa þurft að skiptast á að beina rörinu á rétta staði því hver þeirra getur aðeins verið í kafi í 20 mínútur í senn. „Steypan er fljót að þorna þarna. Hún er orðin þurr að mestu leyti á svona 40 mínútum,“ segir Sigurður. „Þannig þetta þarf allt að ganga eins og smurð vél.“Varðskipið Þór við bryggju á Seyðisfirði eins og El Grillo forðum. Landhelgisgæslan
Og það var einmitt það sem gerðist. Framkvæmdin gekk vonum framar að sögn Sigurðar þó að hann sé ekki alveg tilbúinn að hrósa fullum sigri strax í dag. Kafari verður sendur niður að skipinu á morgun með myndavél, ef veður leyfir, til að athuga hvort steypan haldi ekki örugglega. Þá verður einnig að skoða allt flakið aftur til að sjá hvort leki nokkuð einhver olía annars staðar frá því.Sjö kafarar hafa unnið að verkefninu. Landhelgisgæslan
Blaðagreinar og umfjöllun:
Rúv.is ; http://www.ruv.is/frett/a-hafsbotni-i-75-ar
Heimildir:
- Sjómælingar Íslands
- Sportkafarafélag Íslands
- Teledyne (GAVIA AUV)
- Dive.is