Jamestown (+1881)

Jamestown var heljarstórt seglskip 100 m á lengd og um 20 m á breidd. Skipið strandaði við Hvalsnes á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar við Hafnir á Suðurnesjum. Skipið var engin smásmíði, líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879. Farmur skipsins var timbur og tókst bændum að bjarga mestu af því áður en skipið brotnaði við Hestaklett þar sem leyfar þess liggja enn.

Hestaklettur liggur fyrir opnu hafi og þarf því að kafa þarna í góðu sjólagi. Botninn er grýttur, klettar og möl með þaraskógi.
Dýpið er aðeins um 7 metrar við klettinn og aðstæður til köfunar eru því góðar.

Strandstaður Jamesstown við Hestaklett í Höfnum 1881. (Kort; ja.is)

Áhugahópur um Jamestown strandið var stofnað 2016. Tilgangur hópsins er m.a. að safna saman upplýsingum um hvað varð um farm skipsins.

Talið er að í skipinu hafi verið um 100 þúsund plankar sem notaðir voru til húsbygginga og smíði ýmis konar gripa á Suðurnesjum og víðar á landinu.

Frekari heimildir:
https://www.youtube.com/watch?v=OfllGhPqkoo

___________________________________________________________________

Upplýsingar og frásögn um skipið er að finna í grein á http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Seglskipið Jamestown

Upphaflega birtist þessi grein í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001.
Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.

Á morgni sunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.

Hið 6-mastraða Wyoming frá Bath í Maine. Eitt af stóru seglskipunum í eigu sömu útgerðar í Bath en þau báru öll heiti eftir ríkjum Bandaríkjanna. Myndin er af málverkinu ,,The Pride of the Yard“ eftir Thomas M. Hoyne, III. Ljósmynd: Maine Maritime Museum. http://www.bathmaine.com.
Heimild; http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen2 er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. (Einhver hluti farmsins mun hafa verið eðalviður og eftirsóttur til fínsmíða. Sem dæmi má nefna að Gunnhildur Daðadóttir í Reykjavík á 60 ára gamla þýska fiðlu. Til að bæta hljómgæðin setti Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður nýja sálu (en það er pinni innan í fiðlunni undir stólnum (nefnist á ensku „sound post’’) og notaði til þess við úr Jamsetown sem hann fékk hjá manni í Keflavík. Með honum fékkst mun þéttari hljómur úr fiðlunni).


Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa, eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Skömmu eftir að ég flutti í Hafnir um áramótin 1978/79 heyrði ég talað um strand þessa stórskips og varð forvitinn um frekari vitneskju, fór m.a. að reyna að kynna mér hvað væri til af heimildum um strand Jamestown. Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa3 frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins ú Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar4, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir5 (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins. Hins vegar fann ég ekkert um skipið sjálft, sögu þess né áhafnarinnar.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). 17 árum seinna, 1996 varð tilviljun til þess að ég fór að reyna að grafast fyrir um skipið sjálft og hver hefði orðið afdrif áhafnarinnar. Með hjálp Veraldarvefsins komst ég í samband við umsjónarmenn sjóminjasafna á austurströnd Bandaríkjanna. Í fyrstu bar leitin engan árangur – mér var vísað frá manni til manns.

En þá komst ég í samband við Dan Conlin safnvörð hjá ,,Maritime Museum of the Atlantic“ í Halifax á Nova Scotia í Kanada. Hann gat frætt mig um skipið auk þess sem hann vísaði mér á David Hayward aðstoðarmann í rannsóknadeild ,,Maine Maritime Museum“ í Bath í bandaríkinu Maine. Fór þá að greiðast úr málinu. Auk ýmissa upplýsinga, sem Dan Conlin sendi mér, sendi David Hayward mér ljósrit af fréttum af skipinu Jamestown sem birst höfðu á sínum tíma í dagblaðinu Bath Daily Times6. Í ljós kom að þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.

Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip uppúr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.

Fyrsta úrklippan er úr Bath Daily Times í desember 1880. Þar segir sem dæmi um hraðar hendur að Bath Iron Works hafi einungis verið 4 daga að smíða stóra akkerissvindu úr stáli fyrir seglskipið Jamestown sem þá lá við bryggju í Eastport. En sú vinda sem fyrir var varð ónýt og er það tekið fram að sú hafi verið smíðuð í Providence á Rhode Island.

Önnur úrklippa er úr sama dagblaði þann 10 febrúar 1881 eða 2 mánuðum síðar. Þar segir: ,,Skipið Jamestown, sem var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum, var undir stjórn W. E. Whitmore skipstjóra sem er frá þessari borg (Bath) en áður hafði hann tekið við skipstjórn í St. John í New Braunswick snemma í nóvember á síðasta ári og er engu líkara en að óheppni fylgi skipstjóranum því nokkrum dögum eftir að lagt hafði verið úr höfn var lagst að bryggju í Bliss Harbor þar sem 4 úr áhöfninni struku og sem neyddi skipstjóran til að bíða eftir nýjum mönnum frá Boston. Og varla hafði skipið siglt nema örfáa daga þegar skipstjórinn neyddist til að leggjast að bryggju á Deer Isle vegna akkerisvindu, sem hafði bilað, og tafði það skipið í tæpan mánuð. Um 18 þúsund dollurum hafði verið varið í viðgerðir á Jamestown í St. John. Jamestown, sem er 1888,77 tonn, var smíðað í Richmond 1879 fyrir James. M. Hagar.“

Á öðrum stað í sama dagblaði undir dálkafyrirsögninni ,,Marine Journal“ og undir ,,Disasters“ er fjallað ítarlegar um Jamestown. Þar segir: St. John. NB. 17. febrúar (1881). Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Whitmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool“ Síðan er rakin sagan sem getið er í úrklippunni hér á undan en síðan er bætt við: ,, Hún (Jamestown) mun hafa verið vel tryggð og farmurinn jafnframt tryggður. Hún (Jamestown) var yfirgefin á 43.10 v-lengdar og 22° nl-breiddar, sem er vestan Írlands, þegar stýri og björgunarbátar höfðu laskast og áhöfnin úrvinda af þreytu. 27 voru um borð að meðtalinni eiginkonu og barni skipstjórans. Þeim var bjargað af eimskipinu Ethiopia frá New York og sett á land í Glasgow 16. febrúar 1880 (sic)“.

Næsta úrklippa er úr dagblaðinu Bath Daily Times frá 18 febrúar 1881 og er úr sama dálki og sú næsta hér á undan og þar segir: ,,Moville 16. febrúar. Eimskipið Ethiopia frá New York er komið. Meðferðis hafði það áhöfnina af Jamestown sem lagði upp frá St. John í New Braunswick áleiðis til Liverpool, en skipið fannst stjórnlaust á reki um 600 mílur undan strönd Írlands.“

Og barlestin ……..

Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“ Það sem er örugglega rétt í þessu, og ber saman við blaðagreinar frá þessum tíma, er að barlestin var málmgrýti frá Deer Isle-námunni. Ástæða þess að einhvern grunaði að um silfur hefði verið að ræða er líklega vegna þess að saman við hefur verið svokallaður ,,klinker“ sem myndast í málbræðsluofnum. Þar með telst kenningin um silfurbarlestina afsönnuð.

Sorglegur endir skipstjórnarferlis

Í Bath Daily Times 13. nóvember 1905 er minningargrein9 um W. E. Whitmore skipstjóra og kaupsýslumann sem dó snögglega eftir hjartaáfall tæplega sjötugur að aldri. William E. Whitmore, sem átti að baki langan feril sem sjómaður og skipstjóri á langferðaskipum hafði einmitt verið skipstjóri hins stóra Jamestown – seglskipsins sem yfirgefið var á hafinu sunnan Írlands snemma í febrúar 1881 og strandaði á Suðurnesjum 26. júní sama ár. Jamsetown var þá einungis rúmlega ársgamalt og líklega hefur W.E. Whitmore verið á meðal fyrstu skipstjóra þess, ef til vill hefur hann tekið við af fyrsta skipstjóranum C.H. Kidder.

Glæsilegustu skipin á höfunum

Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers“ á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.

Í Ferðaminningum Sveinbjarnar Egilssonar7 (en afi hans og nafni var rektor á Bessastöðum og Menntaskólans í Reykjavík) er að finna lýsingar á seglskipunum, langferðaskipunum sem voru í förum fram yfir aldamótin 1900. Sveinbjörn hélt utan að loknu prófi frá Latínuskólanum8 1894 en í stað þess að hefja háskólanám var hann í siglingum um allan heim fram yfir 1900. Um það leyti sem Jamestown strandar í Höfnum var Sveinbjörn háseti á jagtinni Henriette sem flutti vörur á Ströndinni fyrir föður hans, kaupmann í Hafnarfirði. Í bókum sínum fer Sveinbjörn ekki dult með hrifningu sína á stóru seglskipunum og stjórnendum þeirra. Hann lýsir t.d. sögufrægri kappsiglingu seglskipanna Loch Linnet, sem hann var háseti á, og Falls of Clyde árið 1889 en bæði voru þá á leið til Rangoon. Falls of Clyde var stærra skip, um 2000 tonn, að sögn Sveinbjarnar (eða svipað að stærð og Jamestown). Lýsing hans á þessari kappsiglingu, og þeirri sjón að sjá svo stórt og glæsilegt seglskip sigla hraðbyri í miklum sjó, er afar myndræn. (Ferðaminningar I, bls. 315).

Sjómaður fram í fingurgóma

W.E. Whitmore fæddist í Arrowsic í Maine 1834 af sjómönnum og skipasmiðum í báðar ættir. Faðir hans var skipstjóri á langferðaskipum og móðurafi hans gerði út kaupskip frá Bath en í Arrowsic og Bath voru þá margar þekktustu skipasmíðastöðvar Bandaríkjanna. W.E. Whitmore fór á sjóinn 14 ára sem liðléttingur á barkinum Globe þar sem bróðir hans P.M. Whitmore var skipstjóri og 18 ára hafði hann lært siglingafræði af föður sínum og réðst sem háseti á seglskipið Delaware.

Í 3 ár sigldi hann undir skipstjórn Jarvis Patten og hafði þá unnið sig upp í stöðu 3. stýrimanns. W.E. Whitmore fylgdi Patten skipstjóra yfir á mun stærra seglskip, Falcon (1100 tonn) þar sem hann var í fyrstu fullgildur háseti, þá 2. stýrimaður og svo 1. stýrimaður. Falcon sigldi á milli Bandaríkjanna, Fakklands og Bretlands með bómull og tóbak. Skipið strandaði í svartaþoku við Bretanskaga. Patten skipstjóri tók þá við nýbyggðu seglskipi, John Patten, í eigu eigin útgerðar og réð W.E. Whitmore sem 1. stýrimann. Það þótti fréttnæmt í þá daga að skipið borgaði sig upp með einni vel heppnaðri ferð með bómull til Kronstadt í Rússlandi. Jarvis Patten skipstjóri var kallaður heim frá Rússlandi til að taka við nýju skipi útgerðarinnar, Transit. Hinn ungi W.E. Whitmore stýrimaður var áfram um tíma á skipinu John Patten en fór aftur sem 1. stýrimaður hjá Jarvis Patten skipstjóra á Transit.

Þegar hér er komið sögu árið 1861 er Þrælastríðið, borgarastyrjöldin í Bandaríkjunum hafin en hún stóð til 1865. Það var því hættulegt fyrir norðanmann að láta á sér bera syðra og siglingar við Austurströnd Bandaríkjanna ekki eins sjálfsagðar og áður. Útgerð Pattens og félaga var að láta smíða fyrir sig gufuskipin Idaho og Montana og átti það eftir að hafa sín áhrif á framtíð unga stýrimannsins W.E. Whitmore á Transit. Á meðan á borgarstyrjöldinni stóð sigldi Transit fyrst bandarískra skipa til Uleaborg í Finnlandi en með því jukust möguleikar í fraktflutningum á sjó, ekki síst innan Evrópu.

Átta ára úthald án hvíldar

Þegar Transit kom aftur til London úr Finnlandsförinni biðu Patten skipstjóra boð um að koma heim og taka við skipstjórn nýja gufuskipsins Idaho og fyrsta stýrimanni W.E. Whitmore, þá einungis 25 ára gömlum, var falin skipstjórnin á Transit sem hann hafði með höndum í sjö og hálft ár samfellt – allan þann tíma í langferðum heimshorna á milli og kom aldrei nærri heimaslóð sinni en London, Glasgow eða Liverpool. Eftir nærri 8 ára úthald gafst W.E. Whitmore skipstjóra loks tækifæri til að heimsækja Bath og Kennebec í Maine. Þá hafði hann hitt bandarískan skipstjóra í Antwerpen, Ellis Percy frá Phippsburg, sem hann þekkti og gat tekið að sér skipstjórnina á Transit.

Kolakaupmaður

Eftir að hafa hvílst heima um hríð ákveður þessi mikli sjómaður að venda kvæði sínu í kross. Í stað þess að falast eftir fleyi og föruneyti snýr hann sér að viðskiptum – gerist umsvifamikill í kaupum og sölu á kolum í nokkur ár. Þrátt fyrir velgengni mun hann hafa farið að langa á sjóinn aftur, eins og títt er um reynda sjómenn.

Aftur á sjóinn

Og þar kom að kunningi hans og vinur, Guy C. Goss fyrrum skipstjóri, lét smíða sérstaklega fyrir hann skipið Belle of Bath – stórt og glæsilegt (1400 tonna) seglskip, – reyndar svo glæsilegt að um það voru skrifaðar greinar í dagblöð, vegna mjög vandaðs frágangs vistarvera og annars innanskips og ekki síst vegna merkilegrar stafnstyttu í líki fagurrar stúlku sem gerð var af þekktum listamanni á þessum tíma; tréskurðarmeistaranum og myndhöggvaranum Charles A. Sampson en hann fékkst einkum við að skreyta skip með listaverkum.

Fyrsta og síðasta óhappafleyið

W.E. Whitmore var 6 ár samfellt með Belle of Bath sem skipstjóri og meðeigandi en seldi þá sinn hlut í skipinu og hugðist taka sér hvíld heima fyrir sem hann mun hafa átt verðskuldaða eftir strangt úthald. Hann var enn að njóta hvíldarinnar þegar James M. Hagar frá Richmond leitaði til hans og bað hann að fara til Fíladelfíu og taka þar við skipstjórn Jamestown, 2000 tonna seglskips. W.E. Whitmore skipstjóri sló til eftir að hafa kynnt sér hið nýlega skip og m.a. séð að á þilfari þess voru vistarverur (reyndar hús) sem gerðu honum kleift að hafa með sér eiginkonu sína og kornunga dóttur en kona hans hafði farið marga ferðina með honum á Belle of Bath. Hann tók við skipinu í St. John í New Braunswick og var ferðinni heitið til Bristol í Englandi með timburfarm. Í ofviðri brotnaði stýrið af skipinu, áhöfninni var bjargað snemma í febrúar 1881 en skipið endaði standað mannlaust í Höfnum á Íslandi 26. júní 1881.

Til annarra starfa

Það þarf ekki að leiða getum að því að afdrif Jamestown hafa haft mikil áhrif á jafn reyndan skipstjóra og W.E. Whitmore. Eftir að gufuskipið Ethiopia hafði sett skipbrotsmenn á land í New York veturinn 1881 halda þau hjón ásamt dóttur aftur til Bath í Maine þar sem hann snéri sér aftur að kolaviðskiptum sem hann stundaði í rúma 2 áratugi. Hann hafði verið á eftirlaunum síðustu árin.

W.E. Whitmore kvæntist 1861 fröken M.J. Swett. Hún var dóttir E.P. Swett sem hafði verið umsvifamikill skipasmiður í Arrowsic og Bath. Þau eignuðust soninn Fred E. Whitmore (sem síðar bjó í Boston) og dótturina Jennie.

Á strandstaðnum 1881:

Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Því til sönnunar höfum við grein í bandaríska dagblaðinu Bath Daily Times þann 2. desember 1881. Þar segir: Flotamálaráðuneytinu hefur borist skýrsla Wadleigh sjóliðsforingja, dagsett 12. október 1881, um strand skipsins Jamestown. Hún er á þessa leið: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.“ Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston“. Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu ,,Endurbætt 1879 af H.W. Stone“ og á annari ,,Edisons einkaleyfi. 21 ágúst 1856, H.N. Stone, Boston“.


Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið.

Neðan við fréttina af skýrslu Wadleigh sjóliðsforingja í Bath Daily Times er leiðrétting þar sem segir að ýmislegt í skýrslu sjóliðsforingjans sé ónákvæmt ef ekki rangt. Sem dæmi er nefnt að merking á Jamestown hafi ekki verið á bógum heldur einungis á skuti, skipið hafi verið 1600 tonn en ekki 1200 að stærð og að þilfarsvindurnar hafi einungis verið tvær.

Lýsing á timburflutningum og hleðslu skipa í Pensacola við Mexíkóflóa á 19. öld.

Heimildir & greinar:

 • 1) Leó M. Jónsson f. 1942 í Reykjavík. Skrifað haustið 2000. © Öll réttindi áskilin.
 • 2) sr. Sigurður Brynjólfsson Sívertsen (1808-1887) fyrrum prestur á Útskálum í meira en 50 ár. Suðurnesjaannáll hans er m.a. prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri (III). Höf. sr. Jón Thorarensen. Útg. Bókaútgáfan Þjóðsaga 1971.
 • 3) Faxi. Tímarit útgefið af Málfundafélaginu Faxa í Keflavík. Ritstjóri Helgi Hólm. 230 Reykjanesbæ.
 • 4) Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum. f. 1864, d. 1947. Hreppstjóri Hafnahrepps í um 40 ár. Safnaði ýmsum fróðleik og skráði en sumt af því birtist í bókum og tímaritum, m.a. í Sunnleskum sagnaþáttum.
 • 5) Sunnlenskir sagnaþættir. Samantekt Gunnar S. Þorleifsson. Bókaútgáfan Hildur, Reykjavík 1981. Þáttur Ólafs nefnist ,,Silfurfarmur á sjávarbotni í Höfnum“.
 • 6) Þar sem vísað er í úrklippur úr dagblaði er átt við Bath Daily Times. Vitnað er í eftirfarandi tölublöð BDT 1880-1905: 2. des. 1880, 2. des 1881, 10. febrúar, 18. febrúar 1881, 8. apríl 1881, 25 júlí 1881, 21. nóv. 1881 og 13. nóv. 1905.
 • 7) Sveinbjörn Egilsson. ,,Ferðaminningar“ bók í 2 bindum. Útgefandi Ísafoldarprensmiðja h.f. Reykjavík 1949.
 • 8) Latínuskólinn var menntaskóli í Reykjavík þar sem Sveinbjörn Egilsson útskrifaðist 1894.
 • 9) Bath Daily Times. 13. nóv. 1905. Minningargrein um W.E. Whitmore.
 • 10) Ferlir.is; heimasíða
 • 11)https://sofn.reykjanesbaer.is/static/files/bokasafn/vidburdir/Jamestown/vef-stora.pdf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s