Heimild: Morgunblaðið 28. júlí 2010
Fundu flak bresks olíuskips
Júlí 28, 2010
Höfundar: Árni Sæberg – Hjalti Geir Erlendsson
Fundist hefur flak breska olíuskipsins SS Shirvan sem sökkt var skammt undan ströndum Íslands í nóvember árið 1944.
Varð fyrir árás sama þýska kafbáts og Goðafoss.
Vísbendingar sjómanna um að skipsflak væri að finna á hafsbotni skammt undan Garðskaga leiddu til þess að vísindamenn á vegum Hafmyndar ehf. og Háskóla Íslands héldu í könnunarleiðangur um hafsvæðið ásamt Landhelgisgæslunni.
Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðisns fengu að fljóta með í ferðina sem farin var á varðskipinu Tý.
Notast var við íslenskan kafbát, af gerðinni Gavia, við leitina að flakinu. Kafbáturinn, sem er í eigu Háskóla Íslands, er framleiddur af íslenska fyrirtækinu Hafmynd ehf.


Flak Shirvans liggur á hliðinni á um 100 metra dýpi og af myndum að dæma hefur skipið brotnað í þrjá parta. Af fyrstu rannsóknum að dæma bendir fátt til þess að olía sé enn í tönkum skipsins.
Örlagavaldur Goðafoss
Líklegast þótti að um flak Shirvans væri að ræða. Getgátur voru uppi um hvort flakið væri af Goðafossi, sem var grandað í sömu árás og Shirvan. Það fær þó ekki staðist sé tekið mið af stærð og staðsetningu flaksins.

Hinn 10. nóvember 1944 var skipalest á siglingu til Íslands. Í fararbroddi var skip Eimskipafélagsins, Goðafoss, en í hópnum var einnig breska olíuskipið SS Shirvan. „Mikið óveður varð til þess að Shirvan villtist af leið,“ segir Óttar Sveinsson, höfundur bókarinnar Útkall: Árás á Goðafoss. „Shirvan lenti í klóm þýsks kafbáts sem grandaði skipinu með tundurskeyti.
Skipið stóð eftir árásina í ljósum logum en með elju náði hópur áhafnarmeðlima að komast í björgunarbáta, margir mjög illa leiknir.“ Óttar segir að skipverjar Goðafoss hafi náð að bjarga 19 skipbrotsmönnum um borð. „Stuttu síðar komst Goðafoss sjálfur í skotfæri hjá þýska kafbátnum sem grandaði honum með afleiðingum sem flestir Íslendingar kannast við.“
Það er af Shirvan að segja að skipið rak mannlaust, í ljósum logum, á haf út þar sem það sökk.

__________________________________________________________________


Hefurðu upplýsingar? Viltu bæta einhverju við eða laga?
Bætum við söguna um SHIRVAN! Hafðu samband: diveexplorer@dive-explorer.com
Heimildir og linkar:
Ein athugasemd við “Shirvan (+1944)”