Northrop N-3PB (+1941?)

Í ágúst 2002 fann Landhelgisgæsla Íslands flak af flugvél í Skerjafirði. Fannst flakið er sjómælingabátur Landhelgisgæslunnar var við fjölgeislamælingar í firðinum. Er kafarar landhelgisgæslunnar fóru niður á flakið og hófu frekari rannsóknir á því kom í ljós að um var að ræða norska her-sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB. Þessar flugvélar voru notaðar í seinni heimstyrjöldinni en norðmenn voru með aðstöðu í Skerjafirði á stríðsárunum.

NORTHROP N-3PB

Þessar flugvélar eru sjaldgæfar, en ekki voru margar framleiddar í stríðinu. Í kringum 1970 fannst ein slík herflugvél í Þjórsá. Henni var lyft upp, gerð upp og príðir hún núna safn í flugminjasafni í Gardemeri í Noregi.  Einu merkingarnar sem hafa fundist á vélinni en það eru norskir einkennislitir undir vængjum og númer á olíukæli. Svo virðist vera að flugvélin hafi farist í lendingu því að svokallaðir flapsar eru niðri, skrúfublöð bogin og flot rifin af. Flugvélar þessarar gerðar gátu borið um 2000 pund af sprengjum, þ.e. tundurskeytum, djúpsprengjum eða venjulegum sprengjum. Þar sem flugvélin var í notkun á stríðstímum þegar hún fórst verður að reikna með sprengjum í eða við flakið. Köfunarbann er í gildi bæði vegna hættu á sprengjum og þar sem líkur benda til að um vota gröf sé að ræða.

Fornleifavernd ríkisins hefur gefið út friðlýsingarskjal þar sem flak Northrop flugvélarinnar sem fannst í Skerjafirði 27. ágúst 2002 er friðlýst.  Friðlýsingin felur í sér köfunarbann yfir flakinu og í 20 metra radíus í kringum það.  Friðlýsingin gildir þar til annað verður ákveðið af Fornleifavernd ríkisins í samráði við Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneyti. 

Multibeam mynd(Fjölgeislamæling)

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa haft yfirumsjón með köfun við flakið og rannsókn á því. Þeir hafa aflað sér margvíslegra heimilda um það m.a. frá Northrop Gruman verksmiðjunum, flugsafninu í Kaliforníu og breska og norska sendiráðinu.

Eins og áður hefur komið fram fannst vélin með fjölgeislamæli sem bandaríski sjóherinn lánaði Landhelgisgæslunni síðasta sumar.  Einu merkingarnar sem hafa fundist á vélinni eru norskir einkennislitir undir vængjum og númer á olíukæli.  Flugvélin var í notkun á stríðstímum og því má reikna með sprengjum í eða við flakið.  Ekki hefur verið staðfest hvort áhöfn vélarinnar fórst er hún sökk á sínum tíma og hvort líkamsleifar eru í vélinni.

Kort sem sýnir staðsetninguna á flugvélaflakinu.

Landhelgisgæslan hefur haldið áfram rannsókn á flugvélarflakinu sem fannst í síðustu viku í Skerjafirði og hefur m.a. verið í sambandi við norska sendiráðið og Northrop flugvélaverksmiðjurnar í Kaliforníu sem smíðuðu vélina. Einnig hefur Landhelgisgæslan fengið gögn frá upplýsingamiðstöð NATO varðandi vopnabúnað flugvélarinnar.

Mynd: GAVIA AUV (Teledyne.com)

Landhelgisgæslan hefur staðfest að flakið er af sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB og virðist hún hafa farist í lendingu því að svokallaðir flapsar eru niðri, skrúfublöð bogin og flot rifin af. Ekki hefur enn tekist að staðfesta hvort líkamsleifar eru í vélinni en staðfest er að flugstjórnarklefi er lokaður.

Samkvæmt norskum heimildum gætu verið lík þriggja manna í flakinu en Landhelgisgæslan á von á upplýsingum varðandi það frá breskum yfirvöldum þar sem flugvélin var undir breskri yfirstjórn á stríðsárunum.

Þrátt fyrir ítarlega leit hefur ekki tekist að finna aðrar merkingar á vélinni en norska einkennisliti undir vængjum og númer á olíukæli sem sent hefur verið til Northrop í Kaliforníu.

Flugvélar þessarar gerðar gátu borið um 2000 pund af sprengjum, þ.e. tundurskeytum, djúpsprengjum eða venjulegum sprengjum. Þar sem flugvélin var í notkun á stríðstímum þegar hún fórst verður að reikna með sprengjum í eða við flakið.

Köfunarbann verður áfram í gildi bæði vegna hættu á sprengjum og þar sem líkur benda til að um vota gröf sé að ræða. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að fylgst sé með umferð yfir flakinu, að sögn Landhelgisgæslunnar.

Mynd: GAVIA AUV (Teledyne.com)

Heimildir:

  • LHG.is
  • Köfun.is
  • Minjavernd Íslands
  • Teledyne.com (GAVIA AUV)

Inger Benedikte „Kolaskipið“ (+1924)

SS INGER BENEDIKTE (KOLASKIPIÐ)

Inger Benedikte var norskt gufuskip sem íslenskur togari „Skallagrímur“ lenti í árektri við árið 1924. Áreksturinn varð til þess að Inger sökk á Ytri höfn Reykjavíkur.

Árið 1927 unnu kafarar að því að ná upp kolum sem voru í skipinu. Notast var við dínamít við að sprengja upp flakið svo auðveldara var að komast að kolunum. Svo gerist sá hörmulegi atburður að það verður ótímabær sprenging sem verður til þess að þrír menn dóu. (DiveExplorer 2019-5-9)

Tvígeislamynd (e. Side Scan Sonar Image) af flaki Inger Benedikte. (DiveExplorer 2019-5-8)

_____________________________________________________

Inger Benedikte

Prammi sem sökk í siglingaleið á ytrihöfn Reykjavíkurhafnar eftir árekstur við íslenskan togara. Lítið eftir af honum, en hægt að sjá stálplötur og bita á botninum.

Þann 10. júlí árið 1927 var brugðið á það ráð að fá Þórð Stefánsson kafara til þess að sprengja flakið til að skipaumferð stafaði ekki hætta af því.

Sjókort sem sýnir staðsetningu á flaki Inger Benedikte.

Allmargir menn voru að vinna við að sprengja flakið. Þórður kom sprengiefninu fyrir í hvert sinn, en fór upp að því loknu upp á kafarabátinn. Vír lá frá sprengiefninu í bátinn, og þegar hann var kominn hæfilega langt í burtu var sprengt með rafstraum. Í þetta sinn hafði sprengingin mistekist. Var þá sótt lítið eitt af dýnamiti og ætlaði Þórður niður með það. En rétt í því að hann var að ljúka við að búa sig, sprungu dýnamítspatrónurnar sem í bátnum voru án nokkurrrar sjáanlegrar ástæðu. Þrír menn fórust við sprenginguna en Þórður slapp ómeiddur.

Inger Benedicte liggur á um 15 metra dýpi á leirbotni rétt undan Örfirisey í Reykjavík. Prammin er úr stáli. Ekki mikið eftir af prammanum en þó má sjá stálplötur og bita sem liggja á botninum. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hvernig pramminn hefur litið út í upphafi en hann virðist vera uþb. 40 m. langu og 6-7 m breiður. (Heimild; kofun.is)

_____________________________________________________

Frétt úr Tímaritinu ÆGIR

Hinn 29. desember s. 1. sigldi togarinn »SkalIagrímur« á stórt gufuskip »Inger Benedicte«, sem lá á ylri höfninni, hlaðið kolum. Sökk »Inger Benedicte« að vörmu spori en skipshöfnin komst upp í togarann. Hafnarstjóri gerði þegar ráðstafanir til að merkja staðinn, þar sem skipið liggur á botni. Sjóréttur var þegar haldinn út af slysinu. Skipstjóri »Skallagríms«, Guðmundur Jónsson, var í landi um jólin en hafði fengið í sinn stað, skipstjóra Guðmund Sigurjónsson til að vera með skipið þessa ferð og var hann skipstjórinn er áreksturinn varð.

GPS staðsetning:

64 09.718 N – 021 55.878 V

Heimildir:

Aðrar heimildir:

  • Built by Sunderland SB Co. Ltd., Sunderland (#119); 1946 grt, 1207 nrt, 2800 dwt. 232.1 x 37.1 x 20.1; 2-cyl. compound engine (NE Mar. Eng. Co. Ltd., Sunderland), 203 nhp On December 29th, 1924, the Norwegian cargo ship SS INGER BENEDICTE, owned at the time of her loss by Jacob Kjøde A/S, Bergen, was on a voyage from Grimsby to Reykjavik with coal, when she sank after a collision with an Icelandic trawler.
  • Read more at wrecksite: https://www.wrecksite.eu/wreck.aspx?194884

E/s REYKJAVÍK (+1908)

Flóabáturinn E/S Reykjavík var í vöru og fólksflutningum til verslunarstaðarins Skógarnes, á sunnanverðu Snæfellsnesi þegar hann strandaði á skeri vorið 1908.

Besta veður var þann 13. maí 1908 þegar strandið átti sér stað, logn og sléttur sjór. Um borð í E/s Reykjavík voru 20 farþegar, mikið af nauðsynjavörum, og timpur í nýtt verslunarhús í Skógarnesi. Við strandið kom gat á skipið, en það losnaði fljótlega af skerinu og rak stutta leið þar til það sökk. Allir um borð komust í björgunarbáta, eða stórum uppskipunarbát sem var um borð. Því björgunarbátar voru ekki nægir en engum varð meint af og komust allir í land í Skógarnes. Allur farmurinn sökk með skipinu og því varð mikið tjón við þetta strand.

Rústir gamla verslunarstaðarins í Skógarnesi (Ljósmynd; Ragnar Edvardsson – 12.05.2018)

Við þetta strand varð tjón Tangs verslunarinnar í Skógarnesi mjög mikið og tók verslunarmanninn Jónas alla ævi að greiða seljendum fyrir þær vörur sem hann hafði keypt.

Verslun í Skógarnesi hélt áfram um nokkur ár, þar til hún lagðist af árið

Leitin að flaki E/s Reykjavík hófst árið 2015. Gerðar voru áætlanir og loks var farið vorið 2018 til leitar. Í þeirri leit fundu Arnar Þór Egilsson og Ragnar Edvardsson leifar af flakinu.

Í Skógarnesi (Ljósmynd; Ragnar Edvardsson – 12.05.2018)
Frétt Morgunblaðsins um fund flaksins af Reykjavíkinni (www.mbl.is – 22.05.2018)

Staðsetning flaksins fannst með hliðarhljóðbylgjutæki/tvígeislamæli (e. side scan sonar), ásamt því að vera staðfest með neðansjávarmyndavélum.

Málmbútur úr E/s Reykjavík (+1908). (Mynd: AÞE/RE mai 2018)
Málmbútur úr E/s Reykjavik (+1908) (Mynd AÞE/RE maí 2018)

Köfun niður á flakið hefur ekki farið fram en skipulagning vegna þess er í vinnslu.

Sjólagt leitardag var með besta móti (Ljósmynd; Ragnar Edvardsson – 12.05.2018)
Í Skógarnesi (Ljósmynd; Arnar Þór Egilsson – 12.05.2018)

Heimildir og tenglar:

Standard – Skútan (+1917)

Standard er nafn á flaki skútu, sem kafararnir Erlendur Bogason og Öivind Kaasa, fundu á botni Pollsins á Akureyri í byrjun desember árið 1996. Erlendur telur sig hafa upplýsingar um að þetta sé skútan Standard. Hann hefur gert ýmsar mælingar á flakinu og mældist kjölurinn 55 metra langur en heildarlengd flaksins er yfir 60 metrar. Ástand flaksins er nokkuð gott miðað við þann tíma sem það hefur verið neðansjávar enda er mikið ferskvatn í pollinum og skjólgott á þessum stað.

Samkvæmt þýskum gögnum, sem til eru á skrifstofu Samherja á Akureyri, hóf þýska fyrirtækið NORDSEE síldveiðar í hringnót við Ísland sumarið 1905. Móðurskip fyrir þessar veiðar var seglskipið Standard, sem smíðað var í Bandaríkjunum árið 1876. Skipið var gert klárt í Norderham gufuskipum og fór ásamt fimm til Íslands. Gufuskipin drógu móðurskipið til Íslands og til baka aftur að lokinni sumarvertíð hér við land, sem stóð frá 15. júlí til 15. september. Móðurskipið Standard lá á Pollinum en veiðiskipin fóru á miðin og lönduðu afla sínum um borð í móðurskipið.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á árið 1914 var síldveiðum með hringnót hætt. Í byrjun stríðsins, í ágúst árið 1914, var Standard kyrrsett á Akureyri en í óveðri árið 1917 losnaði skútan frá, rak á land, skemmdist og sökk. Nú er hún einn skemmtilegasti köfunarstaður sem völ er á með sögulegan bakgrunn og auðveldu aðgengi þar sem hún liggur 70-100 metra fyrir utan Eimskipabryggjuna á Akureyri.

_____________________________________________________________________

Skútan STANDARD liggur um 70-100 metra fyrir utan Eimskipabryggjuna á Akureyri. Lítil bauja er sjáanleg þegar staðið er á bryggjunni og ef synt er að þessari bauju þá liggur spotti frá henni niður að flaki skútunnar. Spottinn endar við miðja skútuna.  

Skyggni getur verið ágætt eftir að verður hefur verið gott í einhverja daga. Skyggnið getur hinsvegar orðið lítið sem ekkert ef vindur eykst og öldurót en einnig vegna leysinga og sanddæluskipa.

Staðsetning á Skútunni í Pollinum, við Akureyri. (Mynd; Google Earth)

Óvenju mikið er af sæfíflum á skrokki skútunnar, flakið er bókstaflega þakið þeim. Þar er líka mikið af þorsk, ýsu og öðrum fisktegundum eins og jafnan í skipsflökum hér við land. Skútan er ein af skemmtilegri köfunarstöðum við landið og vel þess virði að heimsækja ef reynsla og réttindi eru í samræmi við kröfur staðarins. Áður nefndur spotti endar við miðja skútuna á um það bil 16 metra dýpi. Hins vegar eru 27 metrar niður á botninn sem skútan liggur á. Innviði skútunnar eru engin enda var hún bara notuð til flutninga og því engar vistaverur um borð.

ATH! FÁ ÞARF SÉRTAKT LEYFI HAFNARYFIRVALDA Á AKUREYRI TIL AÐ FÁ AÐ KAFA Í SKÚTUNA.

GPS hnit: 65° 40.970’N – 18° 4.947’W

Heimildir & linkar:

Wirta „Sykurskipið“ (+1941)

Skipið hét Wirta (áður; NIPPON) og strandaði það á Leirboða í Skerjafirði 24. janúar árið 1941 nánar tiltekið um klukkan 11 um morguninn. Það var u.þ.b. 7.000 smálestir.

Samkvæmt samtíða heimildum var talað um það meðal sjómanna við Faxaflóa að kolareykur frá Reykjavík hafi byrgt áhöfn skipsins sýn á leið þess til Reykjavíkur og orðið þess valdur að skipinu var siglt í strand. Sjómenn sögðu að þessi mikli kolareykur hafi einnig nokkru áður gert það að verkum að áhöfn bresks togara sigldi skipi sínu í strand á sama stað. Svo virðist sem þeim togara hafi verið bjargað af strandstað.

Grein þar sem fjallað er um strand Wirta (Heimild: )
E/s Wirta var finnskt flutningaskip, 7000 rúmlesta,120 metra langt og 7,8 metra breitt. (ljósmynd fengin frá Richard Cox)


Wirta var full af sykri sem flytja átti til Finnlands en þar í landi var mikill skortur á sykri sérstaklega á spítölum landsins. Skipstjóri Witra sagði það meira tjón að tapa sykrinum en að missa skipið og segir það nokkuð um þörfina sem þá hefur verið á þessari vöru sem meira en nóg er af nú á dögum. Áhöfn skipsins voru uppgjafa finnskir hermenn og björguðust þeir allir. Var þeim stefnt norður á Siglufjörð svo þeir gætu komist um borð í finnsk skip sem þar var í höfn og farið með því til síns heima.

Staðsetning á flaki e/s Wirta (Kort; Google Earth)


Það tókst að bjarga um 1300 smálestum af sykrinum um borð í íslensk skip en ekki tókst að bjarga skipinu og var það sokkið á aðeins 4 dögum. Nú geta kafarar hinsvegar notið þess að snerta á sögunni með því að kafa á þessum slóðum.

Sjókort sem sýnir staðsetningu á flaki e/s Wirta. (Sjókort; Navionics)

___________________________________________________

  • Dýpi: 18 metrar
  • GPS hnit: YYY-XXX

Akkeri sem var á skipinu stendur nú sem minnisvarði fyrir utan hús Sportkafarafélags Íslands í Nauthólsvík.

E/s Wirta hét áður NIPPON. Það var byggt í Bretlandi árið 1908 og sjósett árið eftir, eða 1909. Fyrst um sinn var það í eigu Swedish East Asiatic Line. Árið 1936 var það selt til finnska fyrirtækisins Wappu O/Y og nefnt WIRTA. Var það því 30 ára gamalt þegar það sökk á Skerjafirði.

___________________________________________________

Köfun á Wirtu (Sykurtskipið). (Skjáskot; Frétt Rúv, Landinn, 07.11.2011)

Hefurðu upplýsingar? Komdu þeim á framfæri, sendu mér tölvupóst; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir:

Tordenskjold (+19??)

Laugardaginn 21. apríl 2012 fann kafarinn, Erlendur Guðmundsson flak Tordenskjolds á botni Siglufjarðar þar sem það hefur legið í nærri 90 ár.

Um skeið hefur verið samvinna milli Erlends og Síldarminjasafnsins um að grafast fyrir um staðsetningu flaksins.

Heimasíða:
http://www.navalhistory.dk/Danish/Skibene/T/Tordenskjold(1854).htm#Fotos

Þótt Tordenskjold hafi verið freigáta búin til styrjalda þá endaði hann „lífdaga“ sína ekki síður sem nokkurs konar síldarminjar, hálfgrafnar í sand og litríkan sjávargróður.


Hér sést m.a. freigát­an Tor­d­enskjold á ol­íu­mál­verki danska lista­manns­ins Vil­helms Arnesen (1865-1948). Af vefn­um Sigl­f­irðing­ur

En eins og áður hefur komið fram hér á fréttavefnum, var sá gamli dreginn yfir Atlantsála eftir að hann lauk hernaðarhlutverki sínu og var notaður sem lagerskip í síldarhöfninni frægu – rúinn öllum fyrri búnaði og virðuleika.


Búist til köfunar, Laufey, Þorbergur og Erlendur – Ljósm: ÖK

Skipið var sjósett 1852, og var það 50.4 m. á lengd og 12.9 m. á breidd, 1.453 tonn og bar allt að 80 fallbyssur. Stærð flaksins kemur heim og saman við þessi mál og mörg önnur söguleg atriði staðfesta að þarna liggur Tordenskjold.                                                               

Hluti skutsins rís upp úr sandinum – ljósm. Erlendur Guðmundsson

Erlendur Guðmundsson er atvinnukafari og býr á Akureyri. Eitt helsta áhugamál hans er neðansjávarljósmyndun og kvikmyndun. Hann var hér með konu sinni, Laufeyju Böðvarsdóttur, og syni þeirra, Þorbergi, sem einnig kafaði við þessa leit.                                                                                                                                                           Ekki verður gefið meira upp að sinni um staðsetningu flaksins en að það liggur norðan Eyrarinnar (Siglufjarðareyrar/Þormóðseyrar/Hvanneyrar).

Næsta skref í athugun Síldarminjasafnsins á Tordenskjold er að fá kafara Fornleifaverndar ríkisins til að skoða skipsleifarnar. 

Heimildir og tenglar: