Standard – Skútan (+1917)

Standard er nafn á flaki skútu, sem kafararnir Erlendur Bogason og Öivind Kaasa, fundu á botni Pollsins á Akureyri í byrjun desember árið 1996. Erlendur telur sig hafa upplýsingar um að þetta sé skútan Standard. Hann hefur gert ýmsar mælingar á flakinu og mældist kjölurinn 55 metra langur en heildarlengd flaksins er yfir 60 metrar. Ástand flaksins er nokkuð gott miðað við þann tíma sem það hefur verið neðansjávar enda er mikið ferskvatn í pollinum og skjólgott á þessum stað.

Samkvæmt þýskum gögnum, sem til eru á skrifstofu Samherja á Akureyri, hóf þýska fyrirtækið NORDSEE síldveiðar í hringnót við Ísland sumarið 1905. Móðurskip fyrir þessar veiðar var seglskipið Standard, sem smíðað var í Bandaríkjunum árið 1876. Skipið var gert klárt í Norderham gufuskipum og fór ásamt fimm til Íslands. Gufuskipin drógu móðurskipið til Íslands og til baka aftur að lokinni sumarvertíð hér við land, sem stóð frá 15. júlí til 15. september. Móðurskipið Standard lá á Pollinum en veiðiskipin fóru á miðin og lönduðu afla sínum um borð í móðurskipið.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á árið 1914 var síldveiðum með hringnót hætt. Í byrjun stríðsins, í ágúst árið 1914, var Standard kyrrsett á Akureyri en í óveðri árið 1917 losnaði skútan frá, rak á land, skemmdist og sökk. Nú er hún einn skemmtilegasti köfunarstaður sem völ er á með sögulegan bakgrunn og auðveldu aðgengi þar sem hún liggur 70-100 metra fyrir utan Eimskipabryggjuna á Akureyri.

_____________________________________________________________________

Skútan STANDARD liggur um 70-100 metra fyrir utan Eimskipabryggjuna á Akureyri. Lítil bauja er sjáanleg þegar staðið er á bryggjunni og ef synt er að þessari bauju þá liggur spotti frá henni niður að flaki skútunnar. Spottinn endar við miðja skútuna.  

Skyggni getur verið ágætt eftir að verður hefur verið gott í einhverja daga. Skyggnið getur hinsvegar orðið lítið sem ekkert ef vindur eykst og öldurót en einnig vegna leysinga og sanddæluskipa.

Staðsetning á Skútunni í Pollinum, við Akureyri. (Mynd; Google Earth)

Óvenju mikið er af sæfíflum á skrokki skútunnar, flakið er bókstaflega þakið þeim. Þar er líka mikið af þorsk, ýsu og öðrum fisktegundum eins og jafnan í skipsflökum hér við land. Skútan er ein af skemmtilegri köfunarstöðum við landið og vel þess virði að heimsækja ef reynsla og réttindi eru í samræmi við kröfur staðarins. Áður nefndur spotti endar við miðja skútuna á um það bil 16 metra dýpi. Hins vegar eru 27 metrar niður á botninn sem skútan liggur á. Innviði skútunnar eru engin enda var hún bara notuð til flutninga og því engar vistaverur um borð.

ATH! FÁ ÞARF SÉRTAKT LEYFI HAFNARYFIRVALDA Á AKUREYRI TIL AÐ FÁ AÐ KAFA Í SKÚTUNA.

GPS hnit: 65° 40.970’N – 18° 4.947’W

Heimildir & linkar:

Wirta „Sykurskipið“ (+1941)

Skipið hét Wirta (áður; NIPPON) og strandaði það á Leirboða í Skerjafirði 24. janúar árið 1941 nánar tiltekið um klukkan 11 um morguninn. Það var u.þ.b. 7.000 smálestir.

Samkvæmt samtíða heimildum var talað um það meðal sjómanna við Faxaflóa að kolareykur frá Reykjavík hafi byrgt áhöfn skipsins sýn á leið þess til Reykjavíkur og orðið þess valdur að skipinu var siglt í strand. Sjómenn sögðu að þessi mikli kolareykur hafi einnig nokkru áður gert það að verkum að áhöfn bresks togara sigldi skipi sínu í strand á sama stað. Svo virðist sem þeim togara hafi verið bjargað af strandstað.

Grein þar sem fjallað er um strand Wirta (Heimild: )
E/s Wirta var finnskt flutningaskip, 7000 rúmlesta,120 metra langt og 7,8 metra breitt. (ljósmynd fengin frá Richard Cox)


Wirta var full af sykri sem flytja átti til Finnlands en þar í landi var mikill skortur á sykri sérstaklega á spítölum landsins. Skipstjóri Witra sagði það meira tjón að tapa sykrinum en að missa skipið og segir það nokkuð um þörfina sem þá hefur verið á þessari vöru sem meira en nóg er af nú á dögum. Áhöfn skipsins voru uppgjafa finnskir hermenn og björguðust þeir allir. Var þeim stefnt norður á Siglufjörð svo þeir gætu komist um borð í finnsk skip sem þar var í höfn og farið með því til síns heima.

Staðsetning á flaki e/s Wirta (Kort; Google Earth)


Það tókst að bjarga um 1300 smálestum af sykrinum um borð í íslensk skip en ekki tókst að bjarga skipinu og var það sokkið á aðeins 4 dögum. Nú geta kafarar hinsvegar notið þess að snerta á sögunni með því að kafa á þessum slóðum.

Sjókort sem sýnir staðsetningu á flaki e/s Wirta. (Sjókort; Navionics)

___________________________________________________

  • Dýpi: 18 metrar
  • GPS hnit: YYY-XXX

Akkeri sem var á skipinu stendur nú sem minnisvarði fyrir utan hús Sportkafarafélags Íslands í Nauthólsvík.

E/s Wirta hét áður NIPPON. Það var byggt í Bretlandi árið 1908 og sjósett árið eftir, eða 1909. Fyrst um sinn var það í eigu Swedish East Asiatic Line. Árið 1936 var það selt til finnska fyrirtækisins Wappu O/Y og nefnt WIRTA. Var það því 30 ára gamalt þegar það sökk á Skerjafirði.

___________________________________________________

Köfun á Wirtu (Sykurtskipið). (Skjáskot; Frétt Rúv, Landinn, 07.11.2011)

Hefurðu upplýsingar? Komdu þeim á framfæri, sendu mér tölvupóst; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir: