Skipið hét Wirta (áður; NIPPON) og strandaði það á Leirboða í Skerjafirði 24. janúar árið 1941 nánar tiltekið um klukkan 11 um morguninn. Það var u.þ.b. 7.000 smálestir.
Samkvæmt samtíða heimildum var talað um það meðal sjómanna við Faxaflóa að kolareykur frá Reykjavík hafi byrgt áhöfn skipsins sýn á leið þess til Reykjavíkur og orðið þess valdur að skipinu var siglt í strand. Sjómenn sögðu að þessi mikli kolareykur hafi einnig nokkru áður gert það að verkum að áhöfn bresks togara sigldi skipi sínu í strand á sama stað. Svo virðist sem þeim togara hafi verið bjargað af strandstað.

Wirta var full af sykri sem flytja átti til Finnlands en þar í landi var mikill skortur á sykri sérstaklega á spítölum landsins. Skipstjóri Witra sagði það meira tjón að tapa sykrinum en að missa skipið og segir það nokkuð um þörfina sem þá hefur verið á þessari vöru sem meira en nóg er af nú á dögum. Áhöfn skipsins voru uppgjafa finnskir hermenn og björguðust þeir allir. Var þeim stefnt norður á Siglufjörð svo þeir gætu komist um borð í finnsk skip sem þar var í höfn og farið með því til síns heima.
Það tókst að bjarga um 1300 smálestum af sykrinum um borð í íslensk skip en ekki tókst að bjarga skipinu og var það sokkið á aðeins 4 dögum. Nú geta kafarar hinsvegar notið þess að snerta á sögunni með því að kafa á þessum slóðum.
___________________________________________________
- Dýpi: 18 metrar
- GPS hnit: YYY-XXX
Akkeri sem var á skipinu stendur nú sem minnisvarði fyrir utan hús Sportkafarafélags Íslands í Nauthólsvík.
E/s Wirta hét áður NIPPON. Það var byggt í Bretlandi árið 1908 og sjósett árið eftir, eða 1909. Fyrst um sinn var það í eigu Swedish East Asiatic Line. Árið 1936 var það selt til finnska fyrirtækisins Wappu O/Y og nefnt WIRTA. Var það því 30 ára gamalt þegar það sökk á Skerjafirði.
___________________________________________________

Hefurðu upplýsingar? Komdu þeim á framfæri, sendu mér tölvupóst; diveexplorer@dive-explorer.com
Heimildir: