Arctic Convoy QP-13 (+1942)

Í júlí 1942 var skipalestin QP-13 að koma frá norður Rússlandi, hafnarborginni Arkhangelsk. Veður út af Vestfjörðum var nokkuð slæmt, mikil þoka og þar af leiðandi lítið skyggni. Þegar þarna var komið voru skipin í skipalestinni 19 talsins.

Norður út frá Straumnesi (Grænlandssundi) lá tundurdulfabelti, sem hafði verið lagt af Bretum, til þess að stöðva eða granda kafbátum Nasista í seinni heimstyrjöldinni. Skipalestin QP-13 villtist, og fann ekki réttu leiðina í gegnum tundurtuflabeltið og sigldi inn í það. Úr varð eitt mesta sjóslys í Íslandssögunni. 6 skip fórust með 240 manns.

Skipin sem fórust og sukku í þessu slysi voru:

  • HMS NIGER – Minesweeper (UK-Royal Navy) 149 fórust
  • FREIGHTER HYBERT (USA) 17 fórust
  • FREIGHTER HEFFRON (USA)
  • FREIGHTER MASSMAR (USA)
  • RODINA (USSR) 39 fórust

Skip sem skemmdust:

  • AMERICAN ROBIN
  • FREIGHTER EXTERMINATOR
  • FREIGHTER JOHN RANDOLPH
Kort sem sýnir staðsetningar á tundurduflabeltum sem voru lögð út frá Straumnesi, af Bretum, í seinni heimstyrjöldinni. (Kort; Lhg.is)
Sjókort sem sýnir staðsetningar á flökum skipalestarinnar QP-13. (Sjókort)
HMS Niger (N73) var hluti af QP-13 og sökk (Mynd; Wikipedia)

__________________________________________________________

Grein eftir Friðþór Eydal sem birtrist í Morgunblaðinu 5 júlí 2014.

Í dag er vígður minnisvarði í Bolungarvík um mesta sjóslys og björgunarafrek Íslandssögunnar. Nærri 240 manns fórust og rúmlega 250 björguðust við hættulegar aðstæður eftir að skipalest bandamanna sigldi inn í breskt tundurduflabelti skammt norður af Straumnesi að kvöldi 5. júlí 1942.

Slysið hefur ekki hlotið mikla almenna athygli hér á landi enda um erlend skip að ræða og ríkjandi fréttabann í hringiðu heimsstyrjaldarinnar síðari. Áhafnir þriggja fylgdarskipa sem veittu skipalestinni vopnaða vernd á siglingunni unnu einstætt björgunarafrek og mótorbáturinn Vébjörn frá Ísafirði hélt einnig til aðstoðar þrátt fyrir mikla hættu.

Eftirfarandi er stutt frásögn af slysinu sem byggð er á sama efni í bók minni Vígdrekar og vopnagnýr sem út kom árið 1997, ásamt frekari könnun á skjalfestum gögnum og öðrum samtímaheimildum.

Bandamenn héldu uppi umfangsmiklum birgðaflutningum til hafna í Norður-Rússlandi í síðari heimsstyrjöldinni. Til ársloka 1942 sameinuðust skipalestir í Hvalfirði til siglingar á þessari hættulegu siglingaleið. Nafntogaðasta skipalest sögunnar, PQ-17, hélt úr Hvalfirði 27. júní 1942 og sama dag lét skipalestin QP-13 úr höfn við Hvítahaf á vesturleið. Mættust þær 2. júlí og skömmu síðar hófust linnulausar árásir á PQ-17 sem lyktaði með því að 20 kaupskipanna 32 sem lögðu upp var grandað.

Ferð QP-13 var viðburðalítil framan af en undan Langanesi skildi leiðir skipa sem héldu til Skotlands og 19 skipa sem stefndu með Norðurlandi til Hvalfjarðar. Hvasst var af norðaustan með litlu skyggni og erfitt að ná staðarákvörðun. Stuðst var við dýptarmælingar og kl. rúmlega fimm síðdegis 5. júlí sýndist staðsetning geta verið um 21 sjómílu norð-norð-vestur af Horni. Mynduðu skipin tvær samsíða raðir til siglingar um 7 sjómílna breiða rennu með landinu innan við breskt tundurduflabelti út af Straumnesi.

Um kl. 18 var talið að skipin færu að nálgast Horn og var stefnunni breytt til suðvesturs. Tveimur klukkustundum síðar tilkynnti forystuskipið, H.M.S. Niger, að sést hefði til lands að Horni. Skyldi þegar breytt um stefnu til vesturs fyrir Kögur og Straumnes.

40 mínútum síðar tilkynnti herskipið að landsýnin hefði verið borgarísjaki og skyldi stefnunni aftur breytt til suðvesturs til þess að sleppa við tundurduflin. Örskömmu síðar sá áhöfn annars fylgdarskips hvar Niger sundraðist í sprengingu og svo til samtímis lentu fimm kaupskip einnig á tundurduflum og sukku.

Bresku togararnir Lady Madeleine og St. Elstan hófu þegar leit að kafbátum og vörpuðu djúpsprengjum. Skipstjóri frönsku korvettunnar Roselys ályktaði réttilega að skipin hefðu lent á tundurduflum og hóf þegar björgun skipbrotsmanna og togararnir einnig skömmu síðar. Var það ekki auðunnið verk í norðaustan brælu og slæmu skyggni innan um stórhættuleg segultundurdufl.

Einstætt björgunarafrek

Björgunarstarfið tók um sex og hálfa klukkustund og náði Roselys 179 skipbrotsmönnum. Heimildum ber ekki saman um heildartölu þeirra sem bjargað var en benda til að þeir hafi verið a.m.k. 254. Er það eitt mesta björgunarafrek við Íslandsstrendur og hlutu áhafnir skipanna þriggja verðskuldaða viðurkenningu fyrir frammistöðuna.

Atburðir kvöldsins fóru ekki fram hjá íbúum í Aðalvík sem fylgdust með útvarpsfréttum af talningu í alþingiskosningunum sem fram fóru sama dag. Var hald manna að mikil sjóorrusta stæði skammt undan landi. Síldarbátar á leið til Siglufjarðar höfðu leitað vars í Aðalvík vegna brælunnar og fékk yfirmaður bresku ratsjárstöðvarinnar á Sæbóli vélbátinn Vébjörn frá Ísafirði til þess að halda til björgunar. Náðust nokkur lík sem sett voru um borð í Roselys um nóttina. Ritaði breska flotastjórnin Halldóri Sigurðssyni skipstjóra þakkarbréf fyrir þátt áhafnarinnar á Vébirni í björgunaraðgerðunum.

Auk H.M.S. Niger fórust rússneska skipið Rodina og bandarísku skipin Hybert, Heffron, Massmar og John Randolph. Framhluti Lyberty-skipsins John Randolph, fannst á reki út daginn eftir og var dreginn til Reykjavíkur. Flutningaskipið Exterminator sem sigldi undir Panamafána náði til hafnar af eigin rammleik þrátt fyrir miklar skemmdir. A.m.k. eitt annað skip hlaut minni skemmdir.

Lík rekur af hafi

Slysið var versta áfall bandamanna við Íslandsstrendur í styrjöldinni. Alls munu nærri 500 manns hafa verið á skipunum sex sem fórust, þar á meðal nokkrar konur og börn á Rodyna auk fjölmargra skipbrotsmanna af skipum sem sökkt hafði verið í fyrri skipalestum. Með Niger fórust 146, þ.ám. tugir manna af breska beitiskipinu Edinburgh en einungis átta mönnum var bjargað. Heimildir benda til þess að a.m.k. 253 hafi farist.

Eitt lík rak í Aðalvík og nokkur á Ströndum vikurnar eftir slysið. Nokkur til viðbótar fundust á reki og var eitt flutt til Bíldudals og fjögur til Ísafjarðar og jarðsett þar. Sex lík sem rak á svæðinu frá Barðsvík að Bjarnarnesi voru greftruð í Furufirði ásamt „beinum úr hermannslíki“ sem fundust rekin þar um haustið. Eitt lík rak í Guðlaugsvík við innanverðan Húnaflóa, annað í Skálholtsvík og eitt á Kolbeinsá. Voru þau flutt til greftrunar í Reykjavík. Björgunarskip settu nokkur lík á land í Reykjavík og voru a.m.k. 16 bandarískir sjómenn og sjóliðar af áðurnefndum skipum jarðsettir þar auk þriggja úr áhöfn Niger.

Af munum og búnaði líkamsleifanna á Ísafirði, Bíldudal og í Furufirði var talið mega ráða að þær væru af Bandaríkjamönnum. Að styrjöldinni lokinni stóð Bandaríkjastjórn fyrir sameiningu líkamsleifa fallinna hermanna og sjómanna í stórum grafreitum á nokkrum stöðum í Evrópu og víðar um heim. Voru allar líkamsleifar á Íslandi, Grænlandi og í Kanada fluttar heim til Bandaríkjanna árið 1947. Líkið sem rak í Aðalvík var af ungum breskum sjóliða af H.M.S. Niger og var hann grafinn í Staðarkirkjugarði en fluttur í breska hermannagrafreitinn í Reykjavík eftir stríð.

___________________________

Uppfært: 25.07.2021
Neðansjávarmyndir af skipsflökum úr skipalestinni QP-13

Flikr síða Gunnars Birgissonar; Myndir síðan 2010.

___________________________

Hefurðu frekari upplýsingar? Hafðu samband við mig, sendu mér póst: diveexplorer@dive-explorer.com

Do you have more information? Something to share? Please contact me; diveexplorer@dive-explorer.com

___________________________

Heimildir og linkar:

Melckmeyt (+1659)

de Melckmeyt (Mjaltarstúlkan)

Í gömlu höfninni í Flatey, liggja tvö flök, annað þeirra hollenskt kaupfar „de Melckmeyt“ (Mjaltarstúlkan) og hitt, dönsk skonnortta sem hét Charlotte (+1882).

Loftmynd af Flatey og gömlu höfninni við Flatey, þar sem flökin liggja. (Google Earth)

Á Íslandi hafði sjávarfornleifafræðileg athugun aldrei farið fram áður. Þó var vitað, og hefur verið staðfest enn frekar í beinu framhaldi af rannsóknunum, að feikimörg skipsflök liggja á sjávarbotni við Íslandsstrendur. Er mér ekki örgrannt um að vitað sé um enn eldri flök heldur en Melchmeyt, hér við land, þó það hafi ekki borist til eyrna minjavörslunar í landinu enn. Nefni ég hugsanleg Baska-flök, enskar duggur frá 15. öld og þýska kugga frá 12-14. öld.

Til Íslands komu menn í upphafi vega á haffærum fleyum. Án þeirra væri engin byggð í landinu. Í dag eru haffær fley, stærri og kröftugri en fyrrum, undirstaða búsetu í landinu. Þessi saga ferða yfir Atlantshafið er saga landsins sjálfs og því er það skylda okkar að hlúa að henni sem og öðum þáttum sögunnar.

Án sjávarfornleifafræðilegrar reynslu verður fundur skipsflaka af því tagi, sem getið var hér að ofan tiltölulega gagnslaus, en ef þau kynnu að finnast, yrðu þau hugsanlega ævintýramönnum að bráð. Áhugamaður um köfun og skipsflök lætur boð og bönn ekki aftra sér frá eilitlu fikti við hugsanleg „gömul“ flök og er það skiljanlegt að mörgu leyti.

Aðdragandi

Þann 8. ágúst 1992 voru áhugakafararnir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason að kafa einu sinni sem oftar í Höfninni gömlu við Flatey. Er Höfnin þessi inni í gömlum gýg sem nú gerir engum mein, beint fyrir utan þorpið í kallfæri frá ströndinni og heitir eyjan Hafnarey. Fundu þeir félagar bátsflak (yngra flak), sem lá utan í Hafnareynni vestanverðri.

Nokkru síðar, eða þann 22. ágúst, voru þeir Erlendur og Sævar aftur við köfun og enn að leita að flaki. Ástæðan fyrir því var að þeim félögum hafði borist til eyrna upplýsingarnar í Ballarárannál um að hollenskt kaupfar hafi sokkið í Höfninni árið 1659. Var það einn bænda í eynni, Magnús Arnar Jónsson, sem hafði bent þeim á annálinn og upplýsingarnar þar. Þegar þeir höfðu rótað eilítið í þaranum fundu þeir hvítan disk með bláu skrauti á. Stuttu síðar fundu þeir flakið (eldra flak) sjálft undir þara, sandi og leir.

Sögulegt yfirlit, ágrip „Skonnortan Charlotte frá Rudkøbing á Langalandi kom frá Kaupmannahöfn til Flateyjar og losaði þar vörur í maí 1882. Skipið var 82 tonn og skipstjóri P. Petersen.

25. maí, þegar Charlotte var ferðbúin frá Flatey, slitnaði hún upp og rak upp í kletta vestanvert í Hafnarey. Áhöfn virðist öll hafa bjargast. Uppboð á skipsflakinu og því, sem bjargaðist af varningi, var haldið í Flatey í júní 1882. Í skjölum sýslumanns Barðastrandasýslu er m.a. að finna farmskrá skipsins við brottför frá Kaupmannahöfn í apríl 1882 og farmskrá, þegar skipið var ferðbúið frá Flatey 23. maí 1882. Einnig er þar listi yfir allt, sem bjargað var og selt á uppboðinu.“

Á Handels- og Søfartsmuseet í Kronborg í Helsingör er að finna nánari upplýsingar um skonnortuna. Þar kemur m.a. fram að skipið var byggt í Hobro árið 1857 og því breytt í Álaborg árið 1861. Eitt dekk var á því og tvö möstur. Afturskipið var flatt, stefnið „krølle“ og „kravel“ úr eik. Lengdin var 76,3 (fetþ), breiddin 17,8 (fetþ) hæðin eða dýptin 9,1 (fetþ).

Skipstjórinn hét fullu nafni Peter Jensen Petersen og var hann jafnframt útgerðarmaður til hálfs við Carl Petersen skipstjóra, og keyptu þeir félagar Petersen skipið í apríl 1879 á kr. 12.000 danskar.

Skipið slitnaði upp við festar vegna þess að akkeriskeðjan brast og 5 manna áhöfn var bjargað í land. Flakið var selt á uppboði og keypti það J. Gudmansen kaupmaður á kr. 910. Farmurinn var einnig seldur og fengust fyrir hann ca. 4.800 kr. Ekki er alveg víst að flakið í Flatey sé umrædd Charlotte.

Eldra flakið

Árið 1659 var hollenskt kaupfar sent til Íslands með verslunarvarning til handa Íslendingum. Frá Íslandi átti skipið að taka þær vörur sem frá Íslandi komu að öllu jöfnu, fengið staðfest í annálum, enda stangast þau lítillega á eftirfarandi klausur úr annálum.

Í Kjósarannál er sagt frá skipsskaðanum á eftirfarandi hátt:

„Í Septembri brotnaði skip hollenzkt við Flatey á Breiðafirði, tapaðist góss og einn maður. Smíðuð dugga úr því skipi um veturinn.“.

Ballarárannáll hermir eftirfarandi um þennan skipsskaða árið 1659:

„Eitt varð eptir á Flateyjarhöfn, og var fraktað með blautan fisk, 60.000 fiska, og nokkuð kjöt. En um haustið, þá það var búið til siglingar, kom geysilegur norðan stormur, svo það brotnaði á Flateyjarhöfn og í kaf, nema sást á það aptan. Þar sátu upp á mennirnir í sjórótinu og frostinu nær því um 2 dægur; urðu ej fyr sóttir fyrir veðrinu; andaðist einn af þeim, en allir hinir lítt færir, en urðu þó með heilbrigði. Rak upp á Flatey nokkuð eður mestallt af því, þeir áttu, en skipsfraktin heil fordjarfaðist öll. Fimmtán voru mennirnir, því skipið var stórt með 14 fallstykkjum, og þau náðust öll, með seglum og köðlum; náðust nokkur grjón og brauð. Höfðu þeir það sér til matar um veturinn, með því öðru, sem þeir til fengu, og góðgjarnir menn gáfu þeim. Þeir héldu stórustofuna í Flatey um veturinn eptir skipsbrotið.“

Árið eftir segir í Ballarárannál:

„Og smíðuðu (þeir) hér í Flatey þann vetur hafskip úr grenivið af stóru skipsmöstrunum og greniborðum. Kjölurinn á því var mér sagt, að verið hefði 26 álnir. Var hátt skip og breitt, og á því sigldu þeir allir skipsbrotsmennirnir um sumarið. Fengu þeir menn góðan vitnisburð af fólkinu í Flatey.“

Samkvæmt annálum, voru 60.000 „blautir fiskar“ um borð í skipinu og eitthvað af kjöti þegar það sökk. Ef reynt er að umreikna þetta yfir í burðargetu skipsins og reiknað með að fiskurinn hafi verið þorskur gæti dæmið litið þannig út:

Venjulegur saltfiskur, sem ekki er þurrkaður, er varla undir 1,5 kg og er þá lágt reiknað skv. viðtali sem ég átti við atvinnusjómann. Við skulum því reikna með að meðalþyngd fisksins hafi verið 1,5 kg. Samanlögð þyngd 60. 000 „blautra fiska“ verður því 90. 000 kg. Að auki var eitthvað af kjöti og ýmsum vistum fyrir áhöfnina. Meira máli skiptir þó að verulegur þungi hefur verið í þeim 14 fallstykkjum sem skipið bar. Þannig má ætla að skipið hafi alls ekki verið undir 100 tonnum. Sennilega töluvert meir.

Allan annan byrðinginn vantar í skipið. Ástæðan kann að vera sú, að Þegar skipið lagðist á hliðina, stóð sá er vantar alveg, eða að mestu, upp úr sjónum. Því gátu menn nálgast hann og nýtt aftur í annað skip eða, eins og er trúlegra, í hús (sjá Ballarárannál). Hinn byrðingurinn lagðist á botninn og yfir hann helltist ballestin. Hún var og er enn að miklum hluta yfir þeim byrðingnum.

Eftir öllu neðsta borðinu og neðst á böndunum niður við kjöl, var brunarönd. Við suðurendann beygði þessi brunarönd upp og hélt nær beint upp eftir allri síðunni. Einnig var borð eitt með ferhyrndu gati eða öllu heldur með ferhyrndu úrtaki (við reit I 8-9) brennt. Á milli voru lítil eða óveruleg merki bruna og engin merki bruna á ljósu borðunum. Er það túlkun mín að á milli þessara brunabletta hafi verið einskonar herbergi eða afmarkað rými þar sem eldur hefur ekki herjað. Einmitt í þessu herbergi var keramikið trúlega geymt. Giska ég á að við þær hamfarir sem geisuðu er skipið fórst hafi eldur kviknað ofarlega í skipinu. Smám saman hefur hann náð að komast í neðsta hluta skipsins en slokknað tiltölulega fljótt þegar sjór flæddi inn í skipið. Ljósu borðin, sem ég trúi að hafi verið dekkþiljur, hafa síðar lagst ofan á innri byrðing þegar skipið féll endanlega saman. Ekki virðist eldurinn hafa náð að bíta sig í ytri byrðinginn. Ferhyrnda gatið, sem ég gat um að ofan, gæti hugsanlega hafa verið fyrir einhverja stífu sem hefur tengst möstrunum eða seglabúnaðinum á einhvern hátt. Hvert hlutverk þess getur hafa verið annað er mér ekki ljóst.

Nær engin merki um bruna sáust á keramíkinu en hinsvegar voru nánast öll brot úr tini brennd. Voru brot þessi úr diskum áhafnarinnar og höfðu trúlega verið geymd í eldhúsi. Gæti eldurinn því hafa komið upp þar! Aðrir gripir en keramík sem funndust við eldra flakið voru skósóli, flöskur, blýstykki og naglar.

Tæplega 300 keramíkbrot fundust við rannsóknina og yfirgnæfandi meirihluti af Delftware-týpu, eða hvítglerjaður hvítleir („fiance“) með bláu skrauti. Voru m.a. blómaskraut, landslag, dýr og hjálmur goðsagnapersónu á meðal skrautsins. Keramík þetta er einkennandi fyrir 17. öldina. Ég giska á að samtals sé magnið u.þ.b. 30 kg og er þetta því sennilega stærsta safn 17. aldar keramíks frá einum stað, sem funndist hefur á Íslandi. Er því safnið mjög þýðingarmikið fyrir framtíðarannsóknir á Íslandi og þó víðar væri leitað. Mun keramíksafnið jafnvel skipta Hollendinga miklu máli. Nokkrum árum eftir að Melchmeyd sökk var keramíkverkstæði komið á legg í Þýskalandi sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að reynst hefur erfitt að greina sundur hollenskt keramík og keramík frá þessu versktæði. Flatey getur vel varpað ljósi á þetta atriði.

Þar sem þykkt borða í ytri byrðingi voru mæld, voru þau allt að 7 sm á þykkt. Neðarlega lágu borðin –_–_ , en þegar ofar kom, lágu hins-vegar borðin kant í kant eða rönd í rönd. Hlýtur þetta að vera skipstæknileg ráðstöfun af einhverju tagi (styrkur, sveigjanleiki, þétting o.s.frv.). Innri byrðingurinn virðist aftur á móti alltaf vera kant í kant.

Tel ég víst að byrðingur og bönd séu úr eik. Er það á skjön við upplýsingarnar í Ballarárannál um að borðin og jafnvel möstrin hafi verið úr grenivið. Reyndar má telja alla frásögnina í Ballarárannál um smíði haffærs skips í Flatey og brottför skipsbrotsmannanna þaðan fremur ótrúlega. Varla hefur verið sú aðstaða (verkfæri, kunnátta áhafnar eða heimamanna, aðstaða o.s.frv.) í Flatey sem leyfði smíði af þessu tagi. Hefur skip þetta verið rétt tæpir 15 m. Hefur það þá verið stærra en flest íslensk skip á þessum tíma. Ekki náðist kjölurinn og hlýtur það að hafa verið ákveðið vandamál.

Að lokum er vert að taka það fram að rannsókn þessi er afar lítil á mælikvarða venjulegra sjávarfornleifafræðilegra rannsókna. En hún er alltént einhverskonar byrjun og gaf okkur sem að henni stóðum geysilega dýrmæta reynslu sem kanski kemur að notum, þó síðar verði. Vissulega hefði verið gaman að fá að rannsaka aðeins stærri part af skipinu, en á því voru engin tök eins og ég hef skýrt út hér að framan.

Ég er þess fullviss að við Íslandsstrendur liggur fjársjóður af upplýsingum um sögu þessa lands hvort sem við köllum þá sögu verslunarsögu, almenna sögu eða einhverja annarskonar sögu. Sennilega er þessi sjóður stærri og áhugaverðari en við gerum okkur í hugarlund og á ég þá bæði við áþreifanlega gripi og upplýsingar. Til að veiða þennan fjársjóð úr hafinu þarf mikla þolinmæði og reynslu og mikinn fjárhagslegan stuð.

Hvað sem þessu líður hurfu Hollendingarnir á braut frá Flatey og það gerðum við einnig þó að við hefðum ekki dvalið í eynni nema hálfan mánuð.

Heimildir:

  • Bjarni F. Einarsson, 1994. „Mjaltastúlkan í gígnum.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1993. Reykjavík.
  • Heimasíða Wikipedia um sjávarfornleifafræði. Sjá hér.

________________________________________________________________

Hollenska skipið Melkmeyt, Mjaltastúlkan, sökk við Flatey á Breiðafirði árið 1659.

Skipið var hlaðið varningi, líklegast vöru sem skipverjar seldu vel álnuðum Íslendingum til að drýgja hlut sinn. Skip, eins og það sem lagðist að við Viðey, var líklega á ferð til ýmissa hafna Hollendinga á norðurslóðum til að sækja lýsi og fisk. Mesta magn leirkera, sem fundist hafa  í einni og sömu fornleifarannsókninni á Íslandi, fannst við köfun dr. Bjarna F. Einarssonar og félaga niður á flakið árið 1993 (sjá skýrslu Bjarna í Árbók hins íslenska Fornaleifafélags árið 1993), en ég var að nafninu til stjórnandi rannsóknarinnar, enda landkrabbi.

Leirkerabrotin í Melkmeyt eru miklar gersemar. Flest leirkerabrotin úr Melkmeyt eru hollensk að uppruna. Melkmeyt er í raun „Gullskipið“. Öll leit af Het Wapen van Amsterdam var út í hött.  

Ég fór árið 1995 gagngert til Hollands með brot af nokkrum leirmunum, sem mig grunaði að gætu verið lengra að komin en úr Harlem og Delft eða nærliggjandi plássum í Hollandi, þaðan sem meginþorri leirtausins er ættaður. Í Amsturdammi gekk þar á fund sérfræðings, sem heitir Jan M. Baarts. Jan samþykkti að skoða leirkerabrotin og myndir af öðrum brotum sem honum yrðu send. Hann var á sömu skoðun og ég. Skipverjarnir á Melkmeyt ætluðu greinilega að selja Íslendingum gæðadiska frá Ítalíu. En septembernótt árið 1659 gerði mikinn storm á Breiðafirði og eldur braust út um borð á Melkmeyt, sem kom í veg fyrir frekari sölumennsku skipverja.

Brotið hér að neðan er frá Norður-Ítalíu. Áður en ítölsku diskabrotin fundust í Flatey, höfðu sérfræðingar í Hollandi aldursgreint þessa tegund leirtaus til 1650-1660. Aldur brotanna í flaki Melkmeyts passar eins og flís í rass á þeirri aldursgreiningu og gerðafræði annarra forngripa í flakinu.

Brot af ítalskri skál sem fannst í flaki Melkmeyt við Flatey

Samkvæmt Kjósarannáll tókst meðal annars að bjarga hrísgrjónum úr flakinu og hafði áhöfnin þau til matar um veturinn, en Íslendingar gaukuðu að þeim öðru matarkyns og hafa vonandi fengið hrísgrjónagraut hjá Hollendingum og smá jenever sem þakkir fyrir hjálpina við skipbrotsmennina.

Gaman væri að heyra álit manna á því hvort ekki sé kominn tími til að klára rannsóknina í Viðey.

Þetta væri verkefni sem íslensk stórfyrirtæki gætu með góðu móti styrkt. Heyri ég gjarnan frá einu þeirra.

Heimildir & tenglar:

Wigry (+1942)

Wigry var pólskt flutningaskip sem var á leið frá Hafnarfirði til Bandaríkjanna. Aðalfarmur skipsins var fiskur. Þann dag sem Wigry lagði frá Hafnarfjarðarhöfn var stormur, mjög hvasst og lítið skyggni, innan við 100 metrar.

Allt gekk þó samkvæmt áætlun þar til einn af gufukötlum Wigra sprakk. Við sprenginguna slösuðust nokkrir skipverjanna. Við sprenginguna og það að skipið hafi misst einn gufuketil þá hafði skipið ekki nægt vélarafl til að halda í við veðrið.

Flutningaskipið Wigry.

Skipið rak þar til það strandaði. Samkvæmt fyrstu heimildum þá var talið að skipið hefði strandað undan strönd Skógarness á Snæfellsnesi. Það er ekki rétt. Skipið strandaði á skeri við Hjörsey á Mýrum.

Hjörsey. Kort Landmælingar Íslands (www.lmi.is)

Þegar Wigry strandaði náðu nokkrir skipverjar að losa björgunarbátanna. Þrír skipverjar neituðu þó að fara um borð í björgunarbátanna, og því miður þá drukknuðu þeir er Wigry sökk til botns.

Eins og fyrr sagði var veðrið afar slæmt og ekki bætti úr að komið myrkur. Ekki tókst að koma björgunarbátunum í land, svo skipverjarnir biðu um borð í þeim eftir betra veðri. En í veðurofsanum ultu björgunarbátarnir og nokkrir menn til viðbótar drukknuðu. Þeir menn sem höfðu slasast í ketilsprengingunni drukknuðu líka.

Fimm skipverjar náðu þó að halda sér upp í kili björgunarbátsins, en eftir því sem tímanum leið misstu þeir tökin, einn af öðrum þar til aðeins þrír urðu eftir á kilinum.

Þeir reyndu svo að synda í land, en aðeins tveimur tókst að komast lifandi í land. Annar þeirra missti meðvitundi en öðrum þeirra komast á sveitabæ til að kalla eftir hjálp.

Minningarvarði í Skógarnesi á Snæfellsnesi. Á þessum stað komu björgunarbátur Wigry í land. En einmitt þarna framundan fórst póstgufuskipið Phönix árið 1881. (Mynd; AÞE-2019)

Þeir tveir sem komust lífs af úr þessum harmleik voru annars vegar Íslendingurinn Bragi Kristjánsson og svo Pólverjinn Smolski.

Árið 1961 (9. september 1961) var reistur minnisvarði í Fossvogskirkjugarði um slysið.

Minningarreitur í Fossvogskirkjugarði um þá látnu sem voru um borð í Wigry. (Mynd; AÞE-2009)

Heimildir og tenglar:

Tryggvi – prammi (+1967)

Dýpkunarpramminn Tryggvi sökk á sundunum milli Viðeyjar og Engeyjar árið 1967. Varð eitthvert óhapp til þess að pramminn sökk, en átta manns voru um borð í prammanum. Komust þeir allir í björgunarbáta. Voru þeir í vinnu við dýpkun Sundahafnar þegar slysið varð til.

Pramminn hvílir nú á u.þ.b 14 metra dýpi. Rétt fyrir norðan pramman liggur pípulögn sem var lögð mörgum árum síðar.

Tvígeislamæling (Side Scan Sonar mynd) af prammanum Tryggva þar sem hann liggur. Fyrir norðan hann liggur pípulögn.
Sjókort sem sýnir staðsetninguna á Tryggva. Dýpi á þessum slóðum er um 20 metrar. (Kort; Navionics)

GPS staðsetning: 64° 10, 011 – 21° 53,121

Heimildir og tenglar:

Ross Cleveland (+1968)

Ross Cleveland var breskur togari sem fórst í aftakaveðri á Ísafjarðardjúpi 4. febrúar 1968. Skipið var yfir ísað sem gerði það að verkum að skipið lagðist á hliðina og sökk út af Arnarnesi. 19 manns fórust en aðeins einn maður komst lífs af.

Breski togarinn Ross Cleveland frá Hull. (Mynd; Wrecksite.eu)

Skipsflakið:

Skipsflak Ross Cleveland liggur á rúmlega 126 metra dýpi. Flakið situr upprétt á botninum, umvafið sjávargróðri í myrkrinu.

Kort sem sýnir staðsetningu á flaki Ross Cleveland. Á þessum slóðum er yfir 100 metra dýpi. (Kort; Google Earth)

Heimildargerð:

Þáttagerðarmenn á vegum bresku sjónvarpsstöðvarinnar BBC settu saman leiðangur árið 2002 til að heimildagera sögu Ross Cleveland og í þeim leiðangri settu þeir niður fjarstýrða neðansjávarmyndavél (e. Remotely Operated Vehicle „ROV“) til að mynda skipsflakið.

Að mér skilst þá hafi Árni Kópsson, kafari, veitt þeim aðstoð í þessum leiðangri.

ROV mynd af flaki Ross Cleveland (Mynd; BBC / Inside Out)
Sjókort sem sýnir staðsetningu á flaki Ross Cleveland. Sjávardýpi á þessum stað er yfir 120 metra dýpi. (Kort; Navionics)

__________________________________________________________________

50 ára minningarmyndband um Ross Cleveland slysið. (Myndband: Youtube, TheTenderden – 07.01.2018)

_________________________________________________________

Skýrsla vegna sjóprófs:

_________________________________________________________

Viltu vita meira? Hefurðu einhverjar upplýsingar? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; e-mail: diveexplorer@dive-explorer.com.

Do you want to know more? Do you have additional information?

Please contact me; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og krækjur:

Saga Pourquoi pas?

Saga skipsins og atburðanna á Mýrunum

Franska hafrannsóknarskipið Pourquoi pas? hafði stundað rannsóknir í Norður-höfum sumarið 1936. Þann 15. september var það á heimleið eftir að hafa dvalið nokkra daga í Reykjavík en förinni var fyrst heitið til Kaupmannahafnar. Þennan sama dag voru Akranesbátarnir á leið sinni að leggja net í Miðnessjó.Þeir voru komnir suður fyrir Garðsskaga þegar veðurfréttir bárust til þeirra. Það spáði fárviðri ! Þeir sneru því við einn af öðrum Á bakaleið blasti við þeim óvenjuleg sjón. Stórt tígulegt seglskip með miklum siglutrjám, margfléttuðum reiða og stórum  reykháf miðskips. Einnig hafði þetta skip hjálparvél sem notuð var í logni líkt og nú. Þetta var Pourquoi pas? Akurnesingarnir  vonuðu að skipverjar á Pourquoi pas? hefðu heyrt veðurfregnirnar.

En snúum okkur nú að skipverjum í seglskipinu.

Skipið var komið suður  móts við Garðsskaga og ógerlegt reyndist að komast suður fyrir Reykjanes. Skipverjar sneru þá við til að leita lægis en dimmviðri var mikið og  erfitt að átta sig á kennileitum. Um klukkan hálfsex á miðvikudagsmorgunn rakst skipið á sker og sáu skipverjar þá að þeir voru komnir inn á mikinn skerjaklasa og boðar allt í kring.

Leki kom að skipinu, og vélin stöðvaðist. Ætluðu skipverjar þá að fara að nota dælurnar, en þær gengu ekki. Voru þá undin upp segl, stórsegl og fokka. En nú sentist skipið í öldurótinu svo að segja af einu skerinu á annað uns það rakst á skerið Hnokka í Straumfirði, af meira afli en áður.

Það varð ketilsprenging við áreksturinn og brotnaði framstefni skipsins, svo að augljóst var að þessi ferð yrði ekki lengri. (Seinna var sagt svo frá að þeir hefðu villst á vitum og talið Akranesvitann vera Gróttuvitann og þess vegna haldið sig vera á allt öðrum slóðum en þeir voru). Brimið hreinlega gekk yfir skipið. Reynt var að setja út báta en þeir brotnuðu allir í spón. Skipverjar voru komnir í björgunarbelti eða bjarghringi og reyndu allir að haldast um borð í skipinu en þeir skoluðust fyrir borð einn af öðrum.

En nú víkur sögunni til manna í landi.

Það var morgunin eftir strandið að skipið sást úr landi. Sáust þó aðeins siglurnar og vissu menn ekki hvaða skip þetta var. Slysavarnafélaginu var þegar gert aðvart og fór varðskipið Ægir á strandstaðinn ásamt vélbátnum Ægi sem  flutti með sér björgunar-sveitina frá Akranesi , einnig fór varðskipið Hvidebjornen frá Danmörku á strandstað en það var í Hvalfirði þegar fregnin barst. Hér var um ferð upp á líf eða dauða að tefla. Engin gat vitað hvernig myndi ganga að koma 24 lesta báti eins og Ægi í gegnum brotsjóinn á Mýrunum. Stærri skipin komust ekki nær en að Þormóðsskeri, en vélbáturinn Ægir komst að slysstað, er veður lægði eða um hádegisbil. Þeir sáu að allt var um seinan, aðeins siglutré hins stóra skips, ásamt slitrum af reiðanum, stóðu upp úr brimlöðrinu, enginn maður var eftir í skipinu. Tóku skipverjar á Ægi þá til við að tína upp lík er flutu í björgunarbeltum í kringum skipið.

Aðeins einn maður komst lífs af, af 40.manna áhöfn. Var það þriðji stýrimaðurinn, Eugene Gonidec. Hann hafði verið í rúmi sínu undir þiljum er skipið strandaði. Þegar hann áttaði sig á hvað var  í gangi hljóp hann upp og náði sér í björgunarbelti en skolaðist fljótlega fyrir borð líkt og hinir. Hann var þó svo heppinn að laus landgöngubrú flaut fram hjá honum og náði hann taki á henni. Hélt hann sér í hana og barst að landi þar sem menn björguðu honum. Þessi maður var sá eini af áhöfninni sem komst lífs af. En hann var þó nær dauða en lífi er hann bjargaðist og næstum sjónlaus af sjávarseltu. En hann fékk strax góða hjúkrun og hresstist fljótt. Gonidec sagði frá því að þeir skipverjar hefðu haft með sér máf er þeir fóru frá Grænlandi fyrr um sumarið. Þeir höfðu síðan alið hann í búri. Einn af mönnunum á skipinu hét dr. Charcot og var hann mjög þekktur vísindamaður, hann lét það verða sitt síðasta verk, þegar hann sá hvernig komið var, að frelsa máfinn rétt áður en hann gekk sjálfur út í opinn dauðann. Þetta þótti mjög merkilegt enda var dr. Charcot  afar merkilegur maður.

Þegar björgunarmenn komu í land höfði 22 lík rekið upp í fjöruna. Hófu þeir handa ásamt fleirum sem fyrir voru, að safna þeim saman. Vélbáturinn Ægir flutti líkin til Akraness, en þar átti varðskipið Hvidebjornen að taka við þeim.  Vegna sjávargangs var siglt inn fyrir Viðey, og þar voru líkin sett í Hvidebjornen, sem sigldi með þau til Reykjavíkur. Þegar þangað kom voru líkin sett á bíla tvö og tvö. Öll voru líkin sveipuð frönskum fána. Þau voru flutt til Landakotskirkju þar sem fór fram sorgarathöfn.

Þann 20.september komu frönsku skipin L´Audacieux, sem var herskip og flutningaskipið L´Aude til að sækja líkin. Áður en þau voru flutt um borð var haldin minningar og kveðju athöfn um þá sem fórust og fór hún einnig fram í Landakots-kirkju. Athöfnin var mjög virðuleg og var öllum fyrirtækjum í Reykjavík lokað og fánar dregnir í hálfa stöng um allan bæ. Við athöfnina var viðstödd öll íslenska ríkisstjórnin, sendiherrar annara ríkja og fjöldi annara virðingamanna. Að kirkju-athöfninni lokni voru kisturnar bornar út, og settar í flutningabifreiðar er biðu við Túngötu, Kirkjustræti, Pósthússtræti og Tryggvagötu. Fluttu bifreiðarnar líkin að frönsku skipunum. Mörg þúsund manna fylgdu líkjunum eftir.Var síðan siglt með líkin til Frakklands þar sem þau voru jarðsett.

Pourqoui Pas? var ekki fyrsta skipið sem fórst á þessum stað.
Árið 1906 á Pálmasunnudag fórust 48 manns af tveim skipum á svipuðum slóðum og Pourquoui Pas?, 11. desember 1926 fórust þarna 23 manns af norsku skipi og fleiri hræðileg slys hafa orðið þar í gegnum tíðina.

Heimildir og greinar:

  • Morgunblaðið (Minn staður – Siglir með fólk að strandstað Pourqoui pas?) mánudaginn 31. júlí 2006·        
  • Morgunblaðið (Sjóslys – Harmleikurinn við Mýrar) sunnudaginn 10. september 2006
  • Jean-Baptiste Charcot, heimskautsfari, landkönnuður og læknir.  Höfundur Serge Kahn.

Grafvélin (+1970)

Ekki eru miklar heimildir/upplýsingar um þessa „Gömlu Grafvél“ annað en það sem kemur fram hér að neðan.

Grafvélin gamla, lengi notuð á árunum 1914 -1918 við dýpkunar á Reykjavíkurhöfn.

Grafvélin sökk svo í Sundahöfn 1970.

Dýpkunarbátur (gamla grafvélin) í Reykjavíkurhöfn.
(Heimild; Sarpur.is / Þjóðminjasafnið /
Mynd: Magnús Ólafsson 1862-1937, Ólafur Magnússon 1889-1954
Kort sem sýnir staðsetninguna á flaki „Grafvélarinnar“
(Mynd; Google Earth)
Tvígeislamæling (Side Scan sonar mynd) af flaki „Grafvélarinnar“.
(Mynd; DiveExplorer / JKÞ ; 8.5.2019)
Tvígeislamæling (Side Scan sonar mynd) af flaki „Grafvélarinnar“. Annað litróf.
(Mynd; DiveExplorer / JKÞ ; 8.5.2019)
Dýpkunarframkvæmdir hófust með grafvélinni í febrúar 1916.
(Heimild; faxafloahafnir.is / Mynd: ?
„Gamla Grafvélin“
(Heimild; Sarpur.is / Þjóðminjasafnið /
Mynd: Magnús Ólafsson 1862-1937, Ólafur Magnússon 1889-1954

GPS staðsetning: 64° 9.475’N – 21° 53.387’W

Hefurðu upplýsingar um „Grafvélina“ ? Hafðu samband við mig. Email: diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og greinar:

Tvígeislamæling (Side Scan sonar mynd) af flaki „Grafvélarinnar“. Google Earth overlay.
(Mynd; DiveExplorer / JKÞ ; 8.5.2019)
Tvígeislamæling (Side Scan sonar mynd) af flaki „Grafvélarinnar“. Google Earth overlay, nær.
(Mynd; DiveExplorer / JKÞ ; 8.5.2019)

Leitin að „Gullskipinu“

Stærsta, og jafnvel sú lengsta flakaleit á Íslandi hlýtur að teljast vera leitin að „Gullskipinu„. Leitin hefur spannað fjölmörg ár en leit að flakinu hefur staðið frá 1960.

En er sagan um Gullskipið sönn ? Eða er hún bara þjóðsaga ? Var virkilega einhver fjársjóður um borð ?

Het Wapen van Amsterdam eða „Gullskipið“ eins og Íslendingar eiga til með að þekkja það undir því nafni.

Hollenskt 17. aldar kaupskip „Flute“

Het Wapen van Amsterdam (stundum nefnt gullskipið) var hollenskt skip sem sigldi frá Austur-Indíum árið 1667. Það strandaði á Skeiðarársandi 19. september 1667. Skipið var hlaðið dýrmætum varningi og með 200 manns innanborðs. Af þeim björguðust 60 eftir mikla hrakninga en hinir 140 létust úr sjóvolki og kulda. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að finna skipið í sandinum en þær hafa ekki borið árangur. Ýmsir töldu að skipið hefði borið verðmætan farm frá Austur-Indíum sem hefði grafist með flakinu í sandinn en á móti hafa menn bent á heimildir sem gefa til kynna að skipið hafi verið rifið og viðir þess nýttir í áratugi eftir strandið.

Leitin að gullskipinu

Saga skipulegrar leitar að skipsflakinu í sandinum hófst á því að Bergur Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri fékk árið 1960 leyfi frá forsætisráðherra til að leita að skipinu gegn hlut í því sem fyndist. Leitin hófst samt ekki fyrr en árið 1971 þegar hópur athafnamanna með Kristinn Guðbrandsson, kenndan við fyrirtækið Björgun, innanborðs kom að málinu í samstarfi við Berg. 1974 kom ábending frá starfsmönnum Varnarliðsins um skipsflak á ákveðnum stað í sandinum. Uppgröftur leiddi ekkert í ljós en 1981 sýndu mælingar annað flak á öðrum stað en talið var að skipið hefði strandað. Mikill uppgröftur var hafinn þar með 50 milljón króna ríkisábyrgð árið 1983 en þegar til kom reyndist það vera flak af þýska togaranum Friedrich Albert frá Getsemünde sem strandaði 19. janúar 1903.

Bækur og kvikmyndir

Tvær barnabækur eftir Ármann Kr. Einarsson frá 7. áratugnum fjalla um leit að gullskipinu, Óli og Maggi með gullleitarmönnum 1966 og Óli og Maggi finna gullskipið 1968. Kvikmynd Ágústs Guðmundssonar Gullsandur frá 1985 fjallar um tvo bandaríska hermenn sem hyggjast leita að skipinu. 1986 kom síðan út ævisagan Kristinn í Björgun eftir Árna Johnsen þar sem saga leitarinnar er rakin.

Heimildir:

21. aldar leit að Het Wapen Van Amsterdam (Gullskipinu)

Heimild; Vísir.is; 02 apríl 2019

Leit að gullskipi á Skeiðarársandi hefur hvergi nærri verið hætt. Þetta sagði Gísli Gíslason lögfræðingur sem hefur ekki gefist upp á þessu fjársjóðsævintýri þrátt fyrir nokkrar flækjur en rætt var við Gísli í Reykjavík síðdegis í dag. Fram kom í fréttum í apríl 2016 að leit hefðist að nýju að skipinu, sem Gísli hefði umsjón með með hjálp erlends fjármagns.

Gunnar Birgisson, flaka-leitarmaður og kafari ásamt Gísla Gíslasyni frumkvöðli. Þeir eru hluti að teyminu sem standa að nýrri leit að flaki hollenska kaupskipsins Het Wapen Van Amsterdam, sem strandaði á Skeiðarársandi árið 1667. (Ljósmynd; DV 19.04.2016)

Leitað hefur verið að skipinu áður og var gerð viðamikil leit að því á 9. áratug síðustu aldar, en með tækniþróun hafa aðstæður breyst mikið.

Til stóð hjá Gísla að hefja leit síðasta sumar og hafði mikil undirbúningsvinna farið fram, en til stóð að nota dróna í leitinni. Leitinni hefur þó seinkað vegna þess að þeir drónar sem til stóð að nota við leitina eru hernaðardrónar, sem ekki eru seldir nema til vinveittra ríkja fyrirtækisins, sem staðsett er í Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna.

Fara átti yfir þau gögn sem dróninn safnaði yfir veturinn og reyna að finna einhverjar vísbendingar um strönduð skip sem gætu líkst gullskipinu, en Gísli telur hátt í 100 skip hafa strandað við Skeiðarársand. Þá stóð til að fá leifi til að ná í sýni úr skipinu til að rannsaka.

Nú hefur Minjastofnun gefið út leyfi til hlutafélagsins 1667 ehf., sem Gísli Gíslason á, og heimilar leit að skipinu á Skeiðarársandi. Enn er unnið að samkomulagi við landeigendur og Gísli segir að tveggja ára undirbúningsvinna hafi alltaf miðað að því að gera þetta í sátt og samlyndi og samkvæmt lögum. Hann hefur sett saman alþjóðlegan hóp sérfræðinga sem mun einbeita sér að því að nýta nýjustu tækni við leitina. Leitin mun hefjast í sumar en Gísli leggur mikla áherslu á að fyrst í stað verði eingöngu um að ræða að flogið verði yfir svæðið með drónum og jafnvel lítilli þyrlu eða flugvél.

„Við erum á þessari stundu ekki að fara í nokkurt jarðrask eða utanvegaakstur. Fyrst í stað miðar þetta að því að reyna að greina frávik í mælingum á sandinum og staðsetja hvar skipið gæti mögulega legið.“

Gunnar A. Birgisson, kafari og sérfræðingur í leit að sokknum skipum, er hluti af teymi 1667 ehf. Hann telur að blandaðri tækni verði beitt í sumar við leit í sandinum. „Það er erfitt að beita rafsegulbylgjum þar sem sandurinn er svo segulmagnaður. Þá málma, sem eiga að vera í skipinu, er erfitt að finna með rafsegulmæli. Við þurfum að beita öðrum aðferðum og við erum klárir í það.“ Gunnar er atvinnumaður á þessu sviði. Hann reiknar með að skipið liggi á tíu til tuttugu metra dýpi í sandinum. Hann hefur siglt með ströndinni fyrir utan Skeiðarársand og einnig kannað fjöruna. „Við erum enn í þeim fasa að safna frekari gögnum og það er mjög mikilvægt.“

Frétt Rúv 23.07.2020 – Telja sig geta fundið gullskipið við Skeiðarársand

Leitin að hollenska gullskipinu Het Wapen van Amsterdam sem strandaði á Skeiðarársandi 26. janúar árið 1667 hefur enn ekki borið árangur. Víða var fjallað um slysið á sínum tíma og eftirmálar strandsins voru miklir. Vonir eru bundnar við að með nýrri tækni verði loks hægt að finna skipið á næstu mánuðum.

Í Fiskifréttum kemur fram að undirbúningur að leit að gullskipinu hafi staðið yfir í þrjú ár en forsætisráðuneytið hafi loks veitt félaginu Anno 1667 leyfi til leitar í janúar 2017. Félagið hyggist með nýrri leitartækni finna flakið, og nokkur verðmæti sem í því eru, í sumar.

Líklega verðmætasti farmur sem farið hefur til spillis hér í grennd

Het Wapen var gríðarstórt skip, um 156 fet á lengd og 34 fet á breidd og um 7-900 tonn. Það voru um 300 manns um borð þegar skipið fórst. „Hollendingar voru í forystu í siglingum og búnir að taka við af öðrum nýlenduþjóðum. Mikil menning blómstraði í Hollandi og var þetta skip með mikinn farm sem metinn var á 43 tunnur gulls. Þaðan var nafnið Gullskipið dregið,“ segir Þorvaldur Friðriksson fornleifafræðingur sem hefur mikið rannsakað og fjallað um strandið. Hann segir farm skipsins líklega þann verðmætasta sem farið hefur til spillis við Íslandsstrendur.

„Hver vill skrifa um gullskipið?“

Þorvaldur kynntist sögu skipsins þegar hann nam sagnfræði við Háskóla Íslands undir handleiðslu Björns Þorsteinssonar, prófessors í sagnfræði. „Björn hafði farið til Englands og rannsakað ensk skjöl. Hann fann heimildir sem aldrei höfðu sést á Íslandi,“ segir Þorvaldur. „Hann var gríðarlega skemmtilegur kennari og gaman að vera í tímum hjá honum.“

Hann minnist þess að mæta í tíma til Björns einn örlagaríkan morgun þegar kennarinn tilkynnti yfir hópinn: „Jæja, krakkar, þeir eru að fara að leita að gullskipinu. Er ekki einhver sem vill skrifa um það?“ Þorvaldur rétti samstundis upp hönd enda þekkti hann til málsins.

Heimsókn til Þórbergs Þórðarsonar

Björn tilkynnti Þorvaldi nokkrum dögum síðar að nú skyldi hann kynna hann fyrir vini sínum. Vinurinn sem þeir sóttu heim var enginn annar en Þórbergur Þórðarson skáld sem bauð félaga sínum og nemanda hans innfyrir í eftirminnilegan kaffibolla. „Við fengum kaffi hjá Þórbergi og Margréti og Þórbergur er frá Hala í Suðursveit. Þar vissu menn mikið um þetta skip,“ segir Þorvaldur. Þórbergur sagði sögur og deildi vitneskju sinni af málinu á meðan hann gekk um gólf og svo þuldi hann vísu:

Flestir af því fengu nóg
svo fælist hrafn og refurinn,
því út er kominn um allan skóg
indíanski þefurinn.

„Þetta er brot úr vísu sem svo reyndist vera lausnin á gátunni um farminn. Indíanski þefurinn vísar til kryddsins sem var í skipinu og skógarnir lyktuðu af kanil og pipar,“ segir Þorvaldur. 

Silki, demantar og perlur

Björgun hf. leitaði skipsins árið 1983 og þá var margt rannsakað, meðal annars hvað mætti búast við að hefði verið um borð í skipinu. „Það getur verið merkilegt að skoða það því níutíu árum eftir að skipið strandaði var enn verið að ná úr því einhverju dóti. Í farmskrá skipalestarinnar eru 2.718 demantar en þar af voru 2.486 í skipinu Amersfort sem náði heilu og höldnu til Hollands. Því hafa verið í mesta lagið 232 demantar um borð í Het Wapen en þeir voru í vörslu skipstjórans Reinhart Brinkman og hann lifði strandið af,“ segir Þorvaldur sem grunar að skipstjórinn hafi komist í land með töluvert af demöntum í vasanum. „Það er ekki vitað hvað um þá varð en það sem sannarlega var enn um borð er vefnaðarvara, silki, bómullarklæði, krydd, negull, te og indígólitur.“

Ný tækni blæs leitinni byr undir báða vængi

Sögur fóru af því að í kjölfar strandsins hefði fólk í Öræfum sofið vel í silkiklæðum sem skolast hefði á land úr farminum. En hluti af honum hefur áreiðanlega aldrei fundist og þar má meðal annars nefna koparstangir sem voru um borð sem Þorvaldur segir að hafi verið staðsettar svo neðarlega í skipinu að þær hljóti að hafa sokkið með því. „Mér skilst það séu 35 tonn af koparstöngum,“ segir hann.

Einnig voru perlur um borð í skipalestinni, samkvæmt farmskránni en ekki er vitað hve mikið af þeim voru um borð í Het Wapen. „En þetta er stórkostlegt skip og merkileg saga,“ segir Þorvaldur sem fylgdist með leitinni árið 1982. „Þá var borað og upp kom járnstöng. Það fannst hins vegar ekki neitt nema gamall þýskur togari en það sannar ekkert um skipið sjálft,“ segir hann. Hann sé vongóður um að með nýrri tækni og betri tækjum takist að finna það sem eftir er af skipinu. „Nú eru menn komnir með ný tæki á Skeiðarársand og það er stórkostlegt að fylgjast með.“

Rætt var við Þorvald Friðriksson í Sumarmálum á Rás 1

Leitin að Gullskipinu – RÚV 13.03.2022

Heimildarmynd um leitina að Gullskipinu, Het Wapen van Amsterdam, sem var hlaðið gersemum þegar það fórst í nágrenni við Skeiðarársand árið 1667 og hefur aldrei fundist. Dagskrárgerð: Jón Ársæll Þórðarson og Steingrímur Jón Þórðarson.

RÚV heimildarþáttur 13.03.2022Linkur:

Heimildir og tenglar:

Spánverjavígin – Reykjafjörður (+1615)

SPÁNVERJAVÍGIN 1615

Sumarið 1615 höfðu þrjú spænsk skip stundað hvalveiðar við landið og strandað í Reykjarfirði á Ströndum þann 21. september. Eftir strandið voru þeir fimm daga skipreika meðfram strandlengjunni en enduðu loks í Jökulfjörðum þar sem leiðir þeirra skildust. Hluti hópsins sigldi til Dýrafjarðar þar sem þeir voru drepnir 5. október við Skaganaust yst á norðanverðum Dýrafirði. Annar hópur komst inn í Ísafjarðardjúp og í Æðey.

Þegar fréttist að Baskarnir væru í Æðey safnaði sýslumaðurinn Ari Magnússon í Ögri að sér miklu liði og fór á skipum út í eyjuna. Þegar þangað var komið voru þar fyrir aðeins fimm menn og voru þeir allir vegnir. Hinir höfðu farið út á Sandeyri á Snæfjallaströnd að skera hval. Þangað héldu þá menn Ara í Ögri og luku verki sínu. Víg þessi mæltust misjafnlega fyrir, en Ari sýslumaður hélt mikla sigurhátíð með liði sínu eftir þá landhreinsun sem hann þóttist hafa framkvæmt. Þess ber að geta, Ara til varnar, að á þessum tíma hafði konungur gefið út þá tilskipun að erlendir sjómenn væru réttdræpir hvar sem til þeirra næðist ef þeir yrðu uppvísir af ránum og óspektum.

Strandamaðurinn Jón lærði Guðmundsson virðist hafa mótmælt drápunum og fyrir það þurft að hrökklast af Vestfjörðum undan Ara vegna skrifa sinna um málið. Örfáir Spánverjar sem lifðu af komust til Vatneyrar við Patreksfjörð þar sem þeir höfðu vetursetu áður en þeir komust undan með enskum sjómönnum vorið 1616.

Árið 1615 í september gerðist sá atburður í Reykjarfirði hinum syðri á Ströndum að þrjú hvalveiðiskip frá Spáni rak á land undan hafís í ofsaveðri. Höfðu þeir legið inn á firðinum. Skipverjar voru Baskar 82 eða 83 að tölu. Lentu þeir í deilum við bændur og hafði það raunar einnig komið fyrir árið áður. Skipbrotsmenn fréttu af haffæru skipi að Dynjanda í Jökulfjörðum og sigldu á átta skipsbátum sem notaðir voru til hvalveiðanna norður fyrir Hornstrandir og í Jökulfirði. Ekki fannst þeim skútan á Dynjanda merkilegt skip en tóku hana samt til nota. Um 50 skipverjar sigldu skipinu úr Jökulfjörðum og suður með Vestfjörðum. Tveir skipsbátar með 14 mönnum fóru til Súgandafjarðar og áfram þaðan að Fjallaskaga í Dýrafirði. Höfðu þá verið send boð norðan úr Árneshreppi á Ströndum um Spánverjana um alla Vestfirði. Höfðu þeir einnig verið lýstir réttdræpir. Dýrfirðingar fóru að Spánverjunum á Fjallaskaga og drápu þá alla utan einn sem komst undan. Hann bjargaðist í Dynjandaskútuna og hélt hún til Patreksfjarðar og hertóku Spánverjar hús kaupmanna þar og höfðu í þeim vetursetu. Síðan hertóku þeir enska fiskiskútu út á miðum er þeir reru til fiskjar. Logn var og komst skútan því ekki undan. Einnig náðu þeir öðru ensku fiskiskipi síðar og sigldu til Spánar er byr gafst. Þarna komust undan 50 manns.

Tveir skipsbátarnir með 18 mönnum héldu inn til Æðeyjar í Ísafjarðardjúpi og settust þar að. Ekki veittust þeir að heimamönnum að öðru leyti en því að fá hjá þeim mjólk og eldivið. Reru þeir til fiskjar um Djúpið og skutluðu hvali sér til lífsviðurværis. Sýslumaður Ísfirðinga, Ari Magnússon í Ögri, safnaði að sér miklu liði eftir að hafa lýst skipbrotsmennina réttdræpa á þingi í Súðavík. Þegar svo fréttist í Ögur að Spánverjar hefðu skutlað hval og hluti þeirra væri staddur við hvalskurð á Sandeyri var látið til skarar skríða gegn þeim. Fimm Spánverjar voru í Æðey og voru þeir allir drepnir og líkin flett klæðum, bundin saman og varpað í sjóinn. Rak þau seinna í Fæti, nesinu milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar vestan Djúps. Síðan hélt liðið að Sandeyri í hvassviðri og var varla fært upp á land. Sendi Ari eftir séra Jóni Þorleifssyni út að Snæfjöllum. Jón þessi var faðir Snæfjalladraugsins sem áður er getið. Þarna var líka staddur séra Jón Grímsson í Árnesi og heimaprestur í Ögri.

Dugði nú ekki minna en þrír prestar Ara til fulltingis. Slógu þeir síðan hring um bæinn. Voru nú allir Spánverjarnir felldir 13 að tölu. Líkin voru flett klæðum, skorin rauf í háls þeirra til að spyrða þau saman og að því búnu sökkt í sjó. Eftir afrek þetta hélt Ari sýslumaður liðsmönnum sínum sigurfagnað í Ögri af víni Spánverjanna. Mæltust manndráp þessi misjafnlega fyrir á Íslandi. Sagt er að Spánverjar þeir er undan komust hafi komist til Spánar og sagt yfirvöldum frá meðferð Íslendinga á hinum útlendu skipbrotsmönnum. Hafi þá komið til tals að senda flota herskipa til Íslands til hefnda.

Spánverjavígin á Youtube (trailer). Spænskur þáttur um atburðina á Íslandi 1615.

Leitir að Baskaflökunum í Reykjafirði:

Hér eru greinar og upplýsingar um leiðangra sem hafa verið farnir til þess að freista þess að finna flökin í Reykjafirði. Sjá hér: Leitir að flökunum í Reykjafirði

Heimildir og greinar:

Leitir að skipsflökunum í Reykjafirði

Skipin sem sukku í Reykjafirði árið 1615

Heimild: Morgunblaðið 10.ágúst 2000.

Stærsta flakið talið á um 100 metra dýpi

HAUSTIÐ 1615 fórust þrjú spænsk skip í ofsaveðri við Strandir. Mannbjörg varð, en skipverjarnir sem voru frá Baskalandi á Spáni lentu í erjum við landsmenn en þeir munu hafa rænt sér til bjargar. Deilurnar enduðu með því að Vestfirðingar vógu alls um 40-50 Baska í Dýrafirði og Æðey á  Ísafjarðardjúpi. Einn hópur komst hins vegar undan til Patreksfjarðar og eru Spánverjarnir taldir hafa siglt til Bretlands. Þessir atburðir eru þekktir sem Spánverjavígin í Íslandssögunni.

Engin merki fundust um flakið.

Úr Reykjafirði. Bærinn Naustvík, sem og víkin sem ber sama nafn.

Árangurslausri leit að stærsta skipinu lauk á mánudaginn eftir fimm daga leit.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur var leiðangursstjóri leitarmanna. Hann segir mjög aðdjúpt á þessum slóðum og því líklegt að skipið hafi runnið niður snarbratta hlíð sem nær allt niður á 100 m dýpi. Slíkt dýpi hafi verið köfurunum ofviða.

Alls tóku átta kafarar þátt í leitinni í Naustvík og Ytri-Naustvíkum sem eru í norðanverðum Reykjafirði.

„Samkvæmt samtímaheimildum sökk stærsta skipið af þessum þremur þarna,“ segir Bjarni. „Það er haft eftir Jóni lærða Guðmundssyni sem var alþýðufræðimaður og var sjálfur um borð.“

Bjarni telur ástæðuna vera þá að mest allt góss hafi náðst úr stærsta skipinu sem skemmdist tiltölulega lítið við strandið. Því hafi góssið ekki dreifst um fjarðarbotninn eins og e.t.v. hefði mátt vænta. Hann segir þó ágætar líkur á því að flakið finnist, væntanlega í ágætu ástandi. Eftir því sem skipsflök liggja dýpra, því heillegri séu þau. Þar sé meiri kuldi, minna súrefni og ekkert ljós. Til leitar þurfi þó betri búnað, m.a. fjarstýrða neðansjávarmyndavél.

Næst leitað að minni skipunum.

Hin skipin tvö skemmdust meira og annað þeirra mun hafa brotnað í tvennt. Bjarni telur góðar líkur á því að hægt verði að finna flök þeirra. Hann segir samtíma heimildir geta þess að þau hafi farist við Kesvogskot. Í tímans rás hafi hinsvegar staðsetning þess gleymst en Bjarni telur sig nú hafa fundið Kesvogskot á ný. Rústirnar sem Bjarni telur vera Kesvogskot eru utar í Reykjafirði en fjörðurinn grynnkar mjög þegar utar dregur. „Þar eru allar aðstæður miklu betri til köfunar. Það verður væntanlega næsta viðfangsefni,“ sagði Bjarni.

Kort: LMI.IS (Landmælingar Íslands).

Bjarni segir að skyggni til köfunar í Reykjafirði hafi verið ágætt. Fyrstu dagana hafi hinsvegar gríðarlegur fjöldi margglyttna gert köfurunum lífið leitt. „Við erum allir með brunabletti á vörum og kinnum,“ sagði Bjarni sem sjálfur fékk að kenna á margglyttunum.

Leiðangurinn, sem stóð yfir í fimm daga, er samvinnuverkefni Fornleifafræðistofunnar, Minjavarðar Vesturlands og Köfunarskólans.

Í Reykjafirði á Ströndum.

Heimildir og greinar:

________________________________________________________

Heimild RÚV – 29.09.2009

Leitað 400 ára baskneskra skipa

Leit er hafin að skipum Baskneskra hvalveiðimanna sem fórust fyrir nærri 400 árum. Kafarar í fylgd fornleifafræðinga hófu leitina í Reykjafirði á Ströndum í síðustu viku.

Í lok september árið 1615 fórust þrjú skip Baskneskra hvalveiðimanna í Reykjafirði á Ströndum. Þau mörðust í sundur á milli hafíss og kletta nálægt Naustvík. Flestir spánverjanna komust af en þeirra biðu ill örlög af hendi Ara sýslumanns í Ögri sem lét taka þá af lífi í smánarlegum fjöldamorðum. Greint er frá þesum atburðum í samtímaheimild Jóns lærða Guðmundssonar.

Leiðangur undir stjórn Árna Kópssonar, kafara studdist við frásögu Jóns Lærða við leitina að flökum skipanna.

Byrjað var að kortleggja svæðið með botnssónar og þar komu fram jákvæðar vísbendingar.

Fjarstýrð köfunarkúla var send niður á staðinn en þær þústir sem komu fram á sónar reyndust ekki vera skipssflök. Þó að Baskaskipin hafi ekki fundist í þessari umferð skilaði leiðangurinn árangri og leggur grunn að frekari rannsóknum.

Í Reykjafirði á Ströndum. Naustvík. (Ljósmynd; Gunnar Nikulásson, flikr myndasíða)

Heimildir og greinar:

Rúv; 29.09.2009

Aðrar leitir ?

DiveExplorer- 19.07.2021

Nú eru nokkuð mörg ár síðan síðasti leiðangur var farinn í Reykjafjörð til að freista þess að finna þessi skipsflök. Heimildir, tækni og úrræði hafa þróast síðan síðasti leiðangur var farinn.. Er ekki kominn tími á að fara út á sjó og leita að skipsflökum ?

Hafðu samband við mig ef þú hefur einhverjar upplýsingar um þennan atburð, eða hefur einhvern grun um hvar þessi flök geta legið. Förum yfir heimildir og gögn, könnum hvort það séu ekki einhverjir þarna úti sem vilja leggja sitt af mörkum til að leita að sögunni. Sendu mér póst: diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og sögur um Spánverjavígin 1615

Hér eru upplýsingar/heimildir um atburðina í Reykjafirði og Spánverjavígin 1615.

Sjá hér: SPÁNVERJAVÍGIN – REYKJAFJÖRÐUR (+1615)