Laust eftir hádegi þann 10. nóvember 1944 var Goðafossi, farþegaskipi Eimskipafélags Íslands, sökkt af þýskum kafbáti skammt utan við Garðskaga. Með skipinu fórust 43, fjórtán skipverjar og tíu farþegar auk 19 skipverja af olíuskipinu Shirvan sem áhöfn Goðafoss hafði bjargað stuttu áður. Aðeins 19 var bjargað, þar af einum skipverja af Shirvan. Þetta atvik markar djúp spor í íslenska siglingasögu enda mesta blóðtaka sem Íslendingar hafa orðið fyrir af völdum stríðsátaka. Svavar Hávarðsson leit til baka og rifjaði upp atburðarásina þennan örlagaríka dag.

Strax í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari lýstu Þjóðverjar yfir bannsvæði umhverfis Bretlandseyjar. Upphaflega markmiðið var að knýja Breta til uppgjafar með því að koma í veg fyrir birgðaflutninga til landsins. Þjóðverjar hófu strax kafbátaárásir á skip og hjuggu þeir djúp skörð í kaupskipaflota bandamanna, sérstaklega á fyrstu árum styrjaldarinnar.
Úlfahjörð
Kafbátahernaður Þjóðverja var áhrifaríkastur þegar þeir söfnuðust saman í svokallaðar úlfahjarðir og réðust á skipalestir. Undir forystu reyndra kafbátaforingja gátu þessir hópar kafbáta valdið ótrúlegum skaða. Í september 1940 réðust til dæmis kafbátar á skipalest sem taldi 41 skip og sökktu 12 þeirra og í október sama ár var ráðist á skipalestina SC-7 þar sem aðeins 15 skip af 35 náðu höfn í Bretlandi. Þjóðverjar misstu ekki einn einasta kafbát í þessum tveim árásum.
Árið 1944 var vitað að senn drægi að lokum heimsstyrjaldarinnar. Hernaðarstyrkur bandamanna óx dag frá degi á meðan iðnaðarmáttur og stríðsframleiðsla Þjóðverja dróst saman. Þjóðverjar voru á undanhaldi á helstu vígstöðvum og það átti einnig við um úthöfin. Seint á árinu 1943 höfðu þýskir kafbátar hætt að gera hópárásir og tóku að sigla einir. Ein ástæðan var að eldsneytisskortur var farinn að há Þjóðverjum og í stað þess að flakka um úthöfin í hópum lágu þeir við strendur og réðust á skip þegar þau komu af hafi. Innsiglingarleiðir stærri hafna var eitt þeirra uppáhalds fylgsni.
Skipalestin UR-142
Í byrjun nóvember árið 1944 var Goðafoss á heimleið með skipalestinni UR-142 eftir tæplega mánaðar ferð til New York með viðkomu í Loch Ewe á Skotlandi. Goðafoss, sem hafði áfallalaust verið í siglingum öll stríðsárin, var forystuskip lestarinnar en auk þess voru fjögur önnur kaupskip og fimm vopnaðir togarar. Engin herskip fylgdu skipalestinni sem var ekki óvenjulegt. Vopnaðir togarar sáu yfirleitt um varnir þeirra skipalesta sem íslensk skip sigldu með. Þegar skipalestin nálgaðist Ísland um kvöldið 9. nóvember lenti hún í slæmu veðri og ákvað skipstjórinn á Goðafossi, Sigurður Helgason, að bíða af sér veðrið.
Þar sem Goðafoss var forystuskip skipalestarinnar var komið merkjum til hinna skipanna um að gera slíkt hið sama. Þegar birti af degi kom í ljós að skipin hafði rekið í sundur og voru ekki lengur í sjónfæri hvert við annað. Í grennd við Goðafoss voru þó þrjú af skipunum, eitt kaupskip og tvö fylgdarskip. Þar sem skipstjórinn á Goðafossi vissi ekki hvar hin skipin voru sigldi hann ásamt hinum skipunum þremur hefðbundna leið fyrir Garðskaga á leið til Reykjavíkur. Ekki leið á löngu þangað til Goðafoss sigldi fram á tvo björgunarbáta af einu af skipunum úr lestinni, breska olíuskipinu Shirvan, sem brann við sjónarrönd. Í bátunum tveim voru 20 skipsbrotsmenn, margir þeirra illa særðir. Hlynnt var að þeim þegar þeir voru komnir um borð og þar fór fremstur í flokki Friðgeir Ólason læknir sem var farþegi um borð í Goðafossi ásamt eiginkonu sinni og þremur ungum börnum.
Svartur fáni á lofti
Þýski kafbáturinn U-300 undir stjórn foringjans Fritz Heins hafði grandað breska olíuskipinu fyrr um morguninn. Ólíkt því sem tíðkaðist ákvað kafbátaforinginn að bíða í nágrenninu, sennilega til að tryggja að olíuskipið sykki en einnig í von um að fleiri skip bæri að. Stuttu eftir að skipsbrotsmennirnir voru komnir um borð drógu fylgdarskipin upp svartan fána, en það var merki um það að kafbátur væri í grennd. Einn skipsverja á Goðafossi var á þessari stundu að sækja fatnað fyrir skipsbrotsmennina í einn af fjórum björgunarbátum skipsins en var litið af tilviljun yfir hafflötinn á bakborða. Þar sá hann því sem líktist hvítri rák sem nálgaðist skipið hratt. Um aðeins eitt gat verið að ræða.
Sjö metra langt tundurskeyti kafbátsins U-300 skall á skipið rétt aftan við miðja bakborðssíðuna og sprakk af svo miklu afli að það lyftist upp af haffletinum. Hávaðinn og titringurinn sem fylgdi sprengingunni var yfirþyrmandi og skipið kastaðist 35 til 40 gráður yfir í stjórnborða. Sumir farþeganna misstu meðvitund við höggið, aðrir, sérstaklega þeir sem voru í vélarrúmi og neðan þilja, létu líklega lífið samstundis.

Goðafoss sekkur
Risavaxið gat kom á bakborðssíðu Goðafoss sem einn eftirlifenda hefur lýst sem svo að strætisvagn hefði komist fyrir í því. Skipið sökk hratt, að talið er á sjö til tíu mínútum. Menn sem horfðu á hildarleikinn frá Garðskagavita sögðu að fyrst hafi skipið sigið rólega niður að aftan en síðan hafi það farið lóðrétt niður með stefnið á undan.
Eftir að skipið var horfið sjónum sáu þeir ekkert á sjónum, enga lífbáta og ekkert fólk, aðeins fylgdarskipin sem leituðu kafbátarins. Þeir sem lifðu sprenginguna af áttu um fátt að velja. Farþegar og áhöfn söfnuðust saman á bátadekkinu og reyndu að losa um björgunarbáta og fleka. Þegar tekist hafði að koma bát og flekum frá skipinu varð hver og einn að reyna að bjarga sér. Það var erfitt að komast á flekana með því að stökkva af skipinu, svo að flestir þurftu að henda sér í sjóinn og synda að rekaldi til að halda sér á floti.
Sökkvandi skipið var dauðagildra og allir vissu eftir tíðar björgunaræfingar að nauðsynlegt var að komast töluvert frá skipinu til að eiga það ekki á hættu að sogast niður með því þegar það sykki. Þetta var erfitt í öldurótinu og ekki síst fyrir þá sem voru meira eða minna slasaðir. Einhverjum tókst það þó.

Eftirlifendur
Óttar Sveinsson skrifaði bók um árásina á Goðafoss árið 2003 og talaði þá við nokkra eftirlifendur slyssins. Lýsingar þeirra eru eina leiðin til að nálgast skilning á því sem gerðist á þeim mínútum sem tók Goðafoss að sökkva og klukkutímunum áður en þeim sem lifðu var bjargað.
Einn hásetinn á Goðafossi þurfti að stökkva í sjóinn og tók með sér lítinn dreng þar sem hann sá hvergi foreldra hans. „Það þurfti afl til að komast frá soginu. Allt í einu missti ég takið á drengnum. Aðeins ein hugsun komst að. Bjarga sér, bjarga sér, komast – upp, upp, upp. Anda. Ég saup sjó, brimsaltan sjó, og fann til yfirþyrmandi óþæginda í munni, nefi og eyrum.“ Annar skipverji sagði frá því að ömurlegast hafi honum þótt að horfa á fólkið sem flaut um allan sjó innan um brak úr skipinu. Erfiðast var að hlusta á neyðaróp barnanna og geta ekkert gert til að bjarga þeim. Fram hjá honum flaut einn breski sjómaðurinn af Shirvan. „Þetta var maðurinn sem hafði fengið eldgusu framan í sig, augun farin, nefið brunnið, hendur og allt.
Ég sá þennan mann koma fljótandi fram hjá okkur í sjónum, liggjandi á bakinu. Andlitið var skelfilega brunnið en vesalings maðurinn var enn á lífi þarna í köldum sjónum.“ Annar skipverji komst á fleka. „Vinnufélagar mínir voru þarna í kringum mig, ýmist lifandi, látnir eða í bráðum lífsháska. Það var svo stutt síðan við höfðum verið að búa okkur undir heimkomu en nú vorum við blautir og kaldir á björgunarfleka meðan breskir korvettumenn jusu djúpsprengjum frá borði.“ Skipsbrotsfólkið beið allan eftirmiðdaginn eftir hjálp. Það vissi að björgun gat dregist því gæsluskipin höfðu skipanir um að einbeita sér að því að finna kafbátinn, fólkið varð að bíða.
Milli fjögur og fimm um daginn var fólkinu loks bjargað, flestum af gæsluskipinu Northern Reward. Eftir að um borð var komið hélt leitin að kafbátnum áfram í ellefu klukkustundir. Klukkan hálf þrjú aðfaranótt 11. nóvember kom Northern Reward inn á Reykjavíkurhöfn með skipsbrotsmennina. Þaðan voru flestir fluttir á Sjúkrahúsið í Laugarnesi.
Leitin að Goðafossi
Flakarannsóknarfélag Íslands, sem er félagsskapur atvinnukafara, áhugakafara, sérfræðinga og söguáhugamanna, hefur það sem eitt af sínum meginmarkmiðum að finna flakið af Goðafossi.
Tilgangur félagsins er ekki að kafa niður á flakið, heldur einfaldlega að staðsetja það. Félagsmenn eru meðvitaðir um hversu miklu máli flakið skiptir fjölmarga, og mikilvægi þess að staðsetja það þess vegna.
Flakinu verður sýnd sama virðing og um grafreit eða kirkjugarð sé að ræða. Ætlunin er ekki að hreyfa við neinu enda gengur það gegn siðareglum félagsins.
Landhelgisgæslan hefur einnig leitað flaksins sem sýnir að þessari sögu lýkur ekki fyrr en flakið er fundið. Það má segja að Goðafoss nái ekki höfn fyrr. ■
Helstu heimildir:
- Óttar Sveinsson, Árás á Goðafoss.
- Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir, Í skotlínu.
- Tómas Þór Tómasson, Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945

At 14.59 hours on 10 Nov, 1944, the Godafoss from the storm scattered convoy UR-142 was hit by one LUT torpedo from U-300 off Reykjanes and sank within seven minutes. The ship had stopped against orders to rescue survivors from the burning Shirvan when torpedoed. 14 crew members and ten passengers, among them a family of five (two young doctors returning from Harvard and their 3 children) were lost. 43 (24 dead and 19 survivors). (uboat.net)

Frétt Vísi; 28.11.2020
Furðulegt að flakið af Goðafossi finnist ekki
Í grænum bragga í Garðinum reynir Ásgeir Hjálmarsson skipstjóri að varpa ljósi á það hvar Goðafossi, skipi Eimskipafélagsins, var sökkt í síðari heimsstyrjöld. Hann sýnir líkan af Goðafossi og húsum í Garðinum, sem hann er búinn að smíða, til að fá sem nákvæmasta staðsetningu á atburði, sem reyndist mesti mannskaði Íslendinga í stríðinu.
Í þættinum Um land allt kemur fram að Garðmenn telja sig vita nokkurn veginn út frá lýsingum sjónarvotta og skipverja sem björguðust hvar staðurinn er. Samt hefur flakið ekki fundist.
„Þetta er bara óskiljanlegt,“ segir Ásgeir.

Garðskagi geymir mikla stríðssögu. Þar gerði breski herinn fyrsta flugvöll Suðurnesja og þar má enn sjá móta fyrir flugbrautinni.

Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com
Heimildir og tenglar:
- Uboat.net
- http://www.ruv.is/frett/segir-ekki-buid-ad-finna-godafoss
- https://www.dv.is/frettir/2016/09/17/leitin-ad-godafossi-stendur-enn/
- https://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/2179792/
- http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3731134
- http://m.vf.is/frettir/telur-sig-hafa-fundid-flak-godafoss-i-faxafloa/24354
Ein athugasemd við “Goðafoss (+1944)”