Spánverjavígin – Reykjafjörður (+1615)

SPÁNVERJAVÍGIN 1615

Sumarið 1615 höfðu þrjú spænsk skip stundað hvalveiðar við landið og strandað í Reykjarfirði á Ströndum þann 21. september. Eftir strandið voru þeir fimm daga skipreika meðfram strandlengjunni en enduðu loks í Jökulfjörðum þar sem leiðir þeirra skildust. Hluti hópsins sigldi til Dýrafjarðar þar sem þeir voru drepnir 5. október við Skaganaust yst á norðanverðum Dýrafirði. Annar hópur komst inn í Ísafjarðardjúp og í Æðey.

Þegar fréttist að Baskarnir væru í Æðey safnaði sýslumaðurinn Ari Magnússon í Ögri að sér miklu liði og fór á skipum út í eyjuna. Þegar þangað var komið voru þar fyrir aðeins fimm menn og voru þeir allir vegnir. Hinir höfðu farið út á Sandeyri á Snæfjallaströnd að skera hval. Þangað héldu þá menn Ara í Ögri og luku verki sínu. Víg þessi mæltust misjafnlega fyrir, en Ari sýslumaður hélt mikla sigurhátíð með liði sínu eftir þá landhreinsun sem hann þóttist hafa framkvæmt. Þess ber að geta, Ara til varnar, að á þessum tíma hafði konungur gefið út þá tilskipun að erlendir sjómenn væru réttdræpir hvar sem til þeirra næðist ef þeir yrðu uppvísir af ránum og óspektum.

Strandamaðurinn Jón lærði Guðmundsson virðist hafa mótmælt drápunum og fyrir það þurft að hrökklast af Vestfjörðum undan Ara vegna skrifa sinna um málið. Örfáir Spánverjar sem lifðu af komust til Vatneyrar við Patreksfjörð þar sem þeir höfðu vetursetu áður en þeir komust undan með enskum sjómönnum vorið 1616.

Árið 1615 í september gerðist sá atburður í Reykjarfirði hinum syðri á Ströndum að þrjú hvalveiðiskip frá Spáni rak á land undan hafís í ofsaveðri. Höfðu þeir legið inn á firðinum. Skipverjar voru Baskar 82 eða 83 að tölu. Lentu þeir í deilum við bændur og hafði það raunar einnig komið fyrir árið áður. Skipbrotsmenn fréttu af haffæru skipi að Dynjanda í Jökulfjörðum og sigldu á átta skipsbátum sem notaðir voru til hvalveiðanna norður fyrir Hornstrandir og í Jökulfirði. Ekki fannst þeim skútan á Dynjanda merkilegt skip en tóku hana samt til nota. Um 50 skipverjar sigldu skipinu úr Jökulfjörðum og suður með Vestfjörðum. Tveir skipsbátar með 14 mönnum fóru til Súgandafjarðar og áfram þaðan að Fjallaskaga í Dýrafirði. Höfðu þá verið send boð norðan úr Árneshreppi á Ströndum um Spánverjana um alla Vestfirði. Höfðu þeir einnig verið lýstir réttdræpir. Dýrfirðingar fóru að Spánverjunum á Fjallaskaga og drápu þá alla utan einn sem komst undan. Hann bjargaðist í Dynjandaskútuna og hélt hún til Patreksfjarðar og hertóku Spánverjar hús kaupmanna þar og höfðu í þeim vetursetu. Síðan hertóku þeir enska fiskiskútu út á miðum er þeir reru til fiskjar. Logn var og komst skútan því ekki undan. Einnig náðu þeir öðru ensku fiskiskipi síðar og sigldu til Spánar er byr gafst. Þarna komust undan 50 manns.

Tveir skipsbátarnir með 18 mönnum héldu inn til Æðeyjar í Ísafjarðardjúpi og settust þar að. Ekki veittust þeir að heimamönnum að öðru leyti en því að fá hjá þeim mjólk og eldivið. Reru þeir til fiskjar um Djúpið og skutluðu hvali sér til lífsviðurværis. Sýslumaður Ísfirðinga, Ari Magnússon í Ögri, safnaði að sér miklu liði eftir að hafa lýst skipbrotsmennina réttdræpa á þingi í Súðavík. Þegar svo fréttist í Ögur að Spánverjar hefðu skutlað hval og hluti þeirra væri staddur við hvalskurð á Sandeyri var látið til skarar skríða gegn þeim. Fimm Spánverjar voru í Æðey og voru þeir allir drepnir og líkin flett klæðum, bundin saman og varpað í sjóinn. Rak þau seinna í Fæti, nesinu milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar vestan Djúps. Síðan hélt liðið að Sandeyri í hvassviðri og var varla fært upp á land. Sendi Ari eftir séra Jóni Þorleifssyni út að Snæfjöllum. Jón þessi var faðir Snæfjalladraugsins sem áður er getið. Þarna var líka staddur séra Jón Grímsson í Árnesi og heimaprestur í Ögri.

Dugði nú ekki minna en þrír prestar Ara til fulltingis. Slógu þeir síðan hring um bæinn. Voru nú allir Spánverjarnir felldir 13 að tölu. Líkin voru flett klæðum, skorin rauf í háls þeirra til að spyrða þau saman og að því búnu sökkt í sjó. Eftir afrek þetta hélt Ari sýslumaður liðsmönnum sínum sigurfagnað í Ögri af víni Spánverjanna. Mæltust manndráp þessi misjafnlega fyrir á Íslandi. Sagt er að Spánverjar þeir er undan komust hafi komist til Spánar og sagt yfirvöldum frá meðferð Íslendinga á hinum útlendu skipbrotsmönnum. Hafi þá komið til tals að senda flota herskipa til Íslands til hefnda.

Spánverjavígin á Youtube (trailer). Spænskur þáttur um atburðina á Íslandi 1615.

Leitir að Baskaflökunum í Reykjafirði:

Hér eru greinar og upplýsingar um leiðangra sem hafa verið farnir til þess að freista þess að finna flökin í Reykjafirði. Sjá hér: Leitir að flökunum í Reykjafirði

Heimildir og greinar:

Leitir að skipsflökunum í Reykjafirði

Skipin sem sukku í Reykjafirði árið 1615

Heimild: Morgunblaðið 10.ágúst 2000.

Stærsta flakið talið á um 100 metra dýpi

HAUSTIÐ 1615 fórust þrjú spænsk skip í ofsaveðri við Strandir. Mannbjörg varð, en skipverjarnir sem voru frá Baskalandi á Spáni lentu í erjum við landsmenn en þeir munu hafa rænt sér til bjargar. Deilurnar enduðu með því að Vestfirðingar vógu alls um 40-50 Baska í Dýrafirði og Æðey á  Ísafjarðardjúpi. Einn hópur komst hins vegar undan til Patreksfjarðar og eru Spánverjarnir taldir hafa siglt til Bretlands. Þessir atburðir eru þekktir sem Spánverjavígin í Íslandssögunni.

Engin merki fundust um flakið.

Úr Reykjafirði. Bærinn Naustvík, sem og víkin sem ber sama nafn.

Árangurslausri leit að stærsta skipinu lauk á mánudaginn eftir fimm daga leit.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur var leiðangursstjóri leitarmanna. Hann segir mjög aðdjúpt á þessum slóðum og því líklegt að skipið hafi runnið niður snarbratta hlíð sem nær allt niður á 100 m dýpi. Slíkt dýpi hafi verið köfurunum ofviða.

Alls tóku átta kafarar þátt í leitinni í Naustvík og Ytri-Naustvíkum sem eru í norðanverðum Reykjafirði.

„Samkvæmt samtímaheimildum sökk stærsta skipið af þessum þremur þarna,“ segir Bjarni. „Það er haft eftir Jóni lærða Guðmundssyni sem var alþýðufræðimaður og var sjálfur um borð.“

Bjarni telur ástæðuna vera þá að mest allt góss hafi náðst úr stærsta skipinu sem skemmdist tiltölulega lítið við strandið. Því hafi góssið ekki dreifst um fjarðarbotninn eins og e.t.v. hefði mátt vænta. Hann segir þó ágætar líkur á því að flakið finnist, væntanlega í ágætu ástandi. Eftir því sem skipsflök liggja dýpra, því heillegri séu þau. Þar sé meiri kuldi, minna súrefni og ekkert ljós. Til leitar þurfi þó betri búnað, m.a. fjarstýrða neðansjávarmyndavél.

Næst leitað að minni skipunum.

Hin skipin tvö skemmdust meira og annað þeirra mun hafa brotnað í tvennt. Bjarni telur góðar líkur á því að hægt verði að finna flök þeirra. Hann segir samtíma heimildir geta þess að þau hafi farist við Kesvogskot. Í tímans rás hafi hinsvegar staðsetning þess gleymst en Bjarni telur sig nú hafa fundið Kesvogskot á ný. Rústirnar sem Bjarni telur vera Kesvogskot eru utar í Reykjafirði en fjörðurinn grynnkar mjög þegar utar dregur. „Þar eru allar aðstæður miklu betri til köfunar. Það verður væntanlega næsta viðfangsefni,“ sagði Bjarni.

Kort: LMI.IS (Landmælingar Íslands).

Bjarni segir að skyggni til köfunar í Reykjafirði hafi verið ágætt. Fyrstu dagana hafi hinsvegar gríðarlegur fjöldi margglyttna gert köfurunum lífið leitt. „Við erum allir með brunabletti á vörum og kinnum,“ sagði Bjarni sem sjálfur fékk að kenna á margglyttunum.

Leiðangurinn, sem stóð yfir í fimm daga, er samvinnuverkefni Fornleifafræðistofunnar, Minjavarðar Vesturlands og Köfunarskólans.

Í Reykjafirði á Ströndum.

Heimildir og greinar:

________________________________________________________

Heimild RÚV – 29.09.2009

Leitað 400 ára baskneskra skipa

Leit er hafin að skipum Baskneskra hvalveiðimanna sem fórust fyrir nærri 400 árum. Kafarar í fylgd fornleifafræðinga hófu leitina í Reykjafirði á Ströndum í síðustu viku.

Í lok september árið 1615 fórust þrjú skip Baskneskra hvalveiðimanna í Reykjafirði á Ströndum. Þau mörðust í sundur á milli hafíss og kletta nálægt Naustvík. Flestir spánverjanna komust af en þeirra biðu ill örlög af hendi Ara sýslumanns í Ögri sem lét taka þá af lífi í smánarlegum fjöldamorðum. Greint er frá þesum atburðum í samtímaheimild Jóns lærða Guðmundssonar.

Leiðangur undir stjórn Árna Kópssonar, kafara studdist við frásögu Jóns Lærða við leitina að flökum skipanna.

Byrjað var að kortleggja svæðið með botnssónar og þar komu fram jákvæðar vísbendingar.

Fjarstýrð köfunarkúla var send niður á staðinn en þær þústir sem komu fram á sónar reyndust ekki vera skipssflök. Þó að Baskaskipin hafi ekki fundist í þessari umferð skilaði leiðangurinn árangri og leggur grunn að frekari rannsóknum.

Í Reykjafirði á Ströndum. Naustvík. (Ljósmynd; Gunnar Nikulásson, flikr myndasíða)

Heimildir og greinar:

Rúv; 29.09.2009

Aðrar leitir ?

DiveExplorer- 19.07.2021

Nú eru nokkuð mörg ár síðan síðasti leiðangur var farinn í Reykjafjörð til að freista þess að finna þessi skipsflök. Heimildir, tækni og úrræði hafa þróast síðan síðasti leiðangur var farinn.. Er ekki kominn tími á að fara út á sjó og leita að skipsflökum ?

Hafðu samband við mig ef þú hefur einhverjar upplýsingar um þennan atburð, eða hefur einhvern grun um hvar þessi flök geta legið. Förum yfir heimildir og gögn, könnum hvort það séu ekki einhverjir þarna úti sem vilja leggja sitt af mörkum til að leita að sögunni. Sendu mér póst: diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og sögur um Spánverjavígin 1615

Hér eru upplýsingar/heimildir um atburðina í Reykjafirði og Spánverjavígin 1615.

Sjá hér: SPÁNVERJAVÍGIN – REYKJAFJÖRÐUR (+1615)

Lati-Brúnn (+1928)

Flak Lata-Brúns fundinn

Skrokkur hákarlaskipsins Lata-Brúns er fundinn. Það var kafarinn Erlendur Guðmundsson á Akureyri sem fann hann er hann kafaði í Siglufirði 1. júlí síðastliðinn. 


Með honum í för var Pétur Davíðsson. Meðfylgjandi mynd tók Erlendur og sendi Síldarminjasafninu og sjást þar tvö af böndum skipsins sem rísa upp úr sandbotninum og móta útlínur skipsins. Fyrir þremur árum stóð safnið að leit sem gerð var að Lata-Brún í samvinnu við kafaraklúbb í Reykjavík þar sem Einar Magnús Magnússon og Árni Kópsson komu við sögu ásamt Björgunarsveitinni Strákum. 

Líkan af Lata-Brún. Smíðað af Njerði S. Jóhannssyni. (Heimasíða; siglfirdingur.is/latibrunn/)

Leitin að þessu gamla skipi bar þá ekki árangur vegna slæms skyggnis af völdum þörungagróðurs. Lati-Brúnn var eitt af fyrstu þilskipum Siglfirðinga og byggður á Eyrinni 1857 af Jóhanni Kröyer í Höfn. Hann gekk til hákarlaveiða til 1910 en eftir það notaður til síldveiða í allmörg ár og síðast var hann notaður sem slógprammi í höfninni.

Hann sökk 1928 þar sem hann lá bundinn við Svíastaurana svokölluðu syðst á Pollinum.

Staðsetning á Lata-Brún kemur heim og saman við upplýsingar frá Jörgen Hólm og Birni Þórðarsyni frá árinu 1990 og teiknað var þá á kort Síldarminjasafsins yfir fornleifar á hafsbotni Siglufjarðar.

Heimildir & greinar: