Stærsta, og jafnvel sú lengsta flakaleit á Íslandi hlýtur að teljast vera leitin að „Gullskipinu„. Leitin hefur spannað fjölmörg ár en leit að flakinu hefur staðið frá 1960.
En er sagan um Gullskipið sönn ? Eða er hún bara þjóðsaga ? Var virkilega einhver fjársjóður um borð ?
Het Wapen van Amsterdam eða „Gullskipið“ eins og Íslendingar eiga til með að þekkja það undir því nafni.

Het Wapen van Amsterdam (stundum nefnt gullskipið) var hollenskt skip sem sigldi frá Austur-Indíum árið 1667. Það strandaði á Skeiðarársandi 19. september 1667. Skipið var hlaðið dýrmætum varningi og með 200 manns innanborðs. Af þeim björguðust 60 eftir mikla hrakninga en hinir 140 létust úr sjóvolki og kulda. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að finna skipið í sandinum en þær hafa ekki borið árangur. Ýmsir töldu að skipið hefði borið verðmætan farm frá Austur-Indíum sem hefði grafist með flakinu í sandinn en á móti hafa menn bent á heimildir sem gefa til kynna að skipið hafi verið rifið og viðir þess nýttir í áratugi eftir strandið.
Leitin að gullskipinu
Saga skipulegrar leitar að skipsflakinu í sandinum hófst á því að Bergur Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri fékk árið 1960 leyfi frá forsætisráðherra til að leita að skipinu gegn hlut í því sem fyndist. Leitin hófst samt ekki fyrr en árið 1971 þegar hópur athafnamanna með Kristinn Guðbrandsson, kenndan við fyrirtækið Björgun, innanborðs kom að málinu í samstarfi við Berg. 1974 kom ábending frá starfsmönnum Varnarliðsins um skipsflak á ákveðnum stað í sandinum. Uppgröftur leiddi ekkert í ljós en 1981 sýndu mælingar annað flak á öðrum stað en talið var að skipið hefði strandað. Mikill uppgröftur var hafinn þar með 50 milljón króna ríkisábyrgð árið 1983 en þegar til kom reyndist það vera flak af þýska togaranum Friedrich Albert frá Getsemünde sem strandaði 19. janúar 1903.
Bækur og kvikmyndir
Tvær barnabækur eftir Ármann Kr. Einarsson frá 7. áratugnum fjalla um leit að gullskipinu, Óli og Maggi með gullleitarmönnum 1966 og Óli og Maggi finna gullskipið 1968. Kvikmynd Ágústs Guðmundssonar Gullsandur frá 1985 fjallar um tvo bandaríska hermenn sem hyggjast leita að skipinu. 1986 kom síðan út ævisagan Kristinn í Björgun eftir Árna Johnsen þar sem saga leitarinnar er rakin.
Heimildir:
21. aldar leit að Het Wapen Van Amsterdam (Gullskipinu)
Heimild; Vísir.is; 02 apríl 2019
Leit að gullskipi á Skeiðarársandi hefur hvergi nærri verið hætt. Þetta sagði Gísli Gíslason lögfræðingur sem hefur ekki gefist upp á þessu fjársjóðsævintýri þrátt fyrir nokkrar flækjur en rætt var við Gísli í Reykjavík síðdegis í dag. Fram kom í fréttum í apríl 2016 að leit hefðist að nýju að skipinu, sem Gísli hefði umsjón með með hjálp erlends fjármagns.

Leitað hefur verið að skipinu áður og var gerð viðamikil leit að því á 9. áratug síðustu aldar, en með tækniþróun hafa aðstæður breyst mikið.
Til stóð hjá Gísla að hefja leit síðasta sumar og hafði mikil undirbúningsvinna farið fram, en til stóð að nota dróna í leitinni. Leitinni hefur þó seinkað vegna þess að þeir drónar sem til stóð að nota við leitina eru hernaðardrónar, sem ekki eru seldir nema til vinveittra ríkja fyrirtækisins, sem staðsett er í Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna.
Fara átti yfir þau gögn sem dróninn safnaði yfir veturinn og reyna að finna einhverjar vísbendingar um strönduð skip sem gætu líkst gullskipinu, en Gísli telur hátt í 100 skip hafa strandað við Skeiðarársand. Þá stóð til að fá leifi til að ná í sýni úr skipinu til að rannsaka.
Nú hefur Minjastofnun gefið út leyfi til hlutafélagsins 1667 ehf., sem Gísli Gíslason á, og heimilar leit að skipinu á Skeiðarársandi. Enn er unnið að samkomulagi við landeigendur og Gísli segir að tveggja ára undirbúningsvinna hafi alltaf miðað að því að gera þetta í sátt og samlyndi og samkvæmt lögum. Hann hefur sett saman alþjóðlegan hóp sérfræðinga sem mun einbeita sér að því að nýta nýjustu tækni við leitina. Leitin mun hefjast í sumar en Gísli leggur mikla áherslu á að fyrst í stað verði eingöngu um að ræða að flogið verði yfir svæðið með drónum og jafnvel lítilli þyrlu eða flugvél.
„Við erum á þessari stundu ekki að fara í nokkurt jarðrask eða utanvegaakstur. Fyrst í stað miðar þetta að því að reyna að greina frávik í mælingum á sandinum og staðsetja hvar skipið gæti mögulega legið.“
Gunnar A. Birgisson, kafari og sérfræðingur í leit að sokknum skipum, er hluti af teymi 1667 ehf. Hann telur að blandaðri tækni verði beitt í sumar við leit í sandinum. „Það er erfitt að beita rafsegulbylgjum þar sem sandurinn er svo segulmagnaður. Þá málma, sem eiga að vera í skipinu, er erfitt að finna með rafsegulmæli. Við þurfum að beita öðrum aðferðum og við erum klárir í það.“ Gunnar er atvinnumaður á þessu sviði. Hann reiknar með að skipið liggi á tíu til tuttugu metra dýpi í sandinum. Hann hefur siglt með ströndinni fyrir utan Skeiðarársand og einnig kannað fjöruna. „Við erum enn í þeim fasa að safna frekari gögnum og það er mjög mikilvægt.“
Frétt Rúv 23.07.2020 – Telja sig geta fundið gullskipið við Skeiðarársand
Leitin að hollenska gullskipinu Het Wapen van Amsterdam sem strandaði á Skeiðarársandi 26. janúar árið 1667 hefur enn ekki borið árangur. Víða var fjallað um slysið á sínum tíma og eftirmálar strandsins voru miklir. Vonir eru bundnar við að með nýrri tækni verði loks hægt að finna skipið á næstu mánuðum.
Í Fiskifréttum kemur fram að undirbúningur að leit að gullskipinu hafi staðið yfir í þrjú ár en forsætisráðuneytið hafi loks veitt félaginu Anno 1667 leyfi til leitar í janúar 2017. Félagið hyggist með nýrri leitartækni finna flakið, og nokkur verðmæti sem í því eru, í sumar.
Líklega verðmætasti farmur sem farið hefur til spillis hér í grennd
Het Wapen var gríðarstórt skip, um 156 fet á lengd og 34 fet á breidd og um 7-900 tonn. Það voru um 300 manns um borð þegar skipið fórst. „Hollendingar voru í forystu í siglingum og búnir að taka við af öðrum nýlenduþjóðum. Mikil menning blómstraði í Hollandi og var þetta skip með mikinn farm sem metinn var á 43 tunnur gulls. Þaðan var nafnið Gullskipið dregið,“ segir Þorvaldur Friðriksson fornleifafræðingur sem hefur mikið rannsakað og fjallað um strandið. Hann segir farm skipsins líklega þann verðmætasta sem farið hefur til spillis við Íslandsstrendur.
„Hver vill skrifa um gullskipið?“
Þorvaldur kynntist sögu skipsins þegar hann nam sagnfræði við Háskóla Íslands undir handleiðslu Björns Þorsteinssonar, prófessors í sagnfræði. „Björn hafði farið til Englands og rannsakað ensk skjöl. Hann fann heimildir sem aldrei höfðu sést á Íslandi,“ segir Þorvaldur. „Hann var gríðarlega skemmtilegur kennari og gaman að vera í tímum hjá honum.“
Hann minnist þess að mæta í tíma til Björns einn örlagaríkan morgun þegar kennarinn tilkynnti yfir hópinn: „Jæja, krakkar, þeir eru að fara að leita að gullskipinu. Er ekki einhver sem vill skrifa um það?“ Þorvaldur rétti samstundis upp hönd enda þekkti hann til málsins.
Heimsókn til Þórbergs Þórðarsonar
Björn tilkynnti Þorvaldi nokkrum dögum síðar að nú skyldi hann kynna hann fyrir vini sínum. Vinurinn sem þeir sóttu heim var enginn annar en Þórbergur Þórðarson skáld sem bauð félaga sínum og nemanda hans innfyrir í eftirminnilegan kaffibolla. „Við fengum kaffi hjá Þórbergi og Margréti og Þórbergur er frá Hala í Suðursveit. Þar vissu menn mikið um þetta skip,“ segir Þorvaldur. Þórbergur sagði sögur og deildi vitneskju sinni af málinu á meðan hann gekk um gólf og svo þuldi hann vísu:
Flestir af því fengu nóg
svo fælist hrafn og refurinn,
því út er kominn um allan skóg
indíanski þefurinn.
„Þetta er brot úr vísu sem svo reyndist vera lausnin á gátunni um farminn. Indíanski þefurinn vísar til kryddsins sem var í skipinu og skógarnir lyktuðu af kanil og pipar,“ segir Þorvaldur.
Silki, demantar og perlur
Björgun hf. leitaði skipsins árið 1983 og þá var margt rannsakað, meðal annars hvað mætti búast við að hefði verið um borð í skipinu. „Það getur verið merkilegt að skoða það því níutíu árum eftir að skipið strandaði var enn verið að ná úr því einhverju dóti. Í farmskrá skipalestarinnar eru 2.718 demantar en þar af voru 2.486 í skipinu Amersfort sem náði heilu og höldnu til Hollands. Því hafa verið í mesta lagið 232 demantar um borð í Het Wapen en þeir voru í vörslu skipstjórans Reinhart Brinkman og hann lifði strandið af,“ segir Þorvaldur sem grunar að skipstjórinn hafi komist í land með töluvert af demöntum í vasanum. „Það er ekki vitað hvað um þá varð en það sem sannarlega var enn um borð er vefnaðarvara, silki, bómullarklæði, krydd, negull, te og indígólitur.“
Ný tækni blæs leitinni byr undir báða vængi
Sögur fóru af því að í kjölfar strandsins hefði fólk í Öræfum sofið vel í silkiklæðum sem skolast hefði á land úr farminum. En hluti af honum hefur áreiðanlega aldrei fundist og þar má meðal annars nefna koparstangir sem voru um borð sem Þorvaldur segir að hafi verið staðsettar svo neðarlega í skipinu að þær hljóti að hafa sokkið með því. „Mér skilst það séu 35 tonn af koparstöngum,“ segir hann.
Einnig voru perlur um borð í skipalestinni, samkvæmt farmskránni en ekki er vitað hve mikið af þeim voru um borð í Het Wapen. „En þetta er stórkostlegt skip og merkileg saga,“ segir Þorvaldur sem fylgdist með leitinni árið 1982. „Þá var borað og upp kom járnstöng. Það fannst hins vegar ekki neitt nema gamall þýskur togari en það sannar ekkert um skipið sjálft,“ segir hann. Hann sé vongóður um að með nýrri tækni og betri tækjum takist að finna það sem eftir er af skipinu. „Nú eru menn komnir með ný tæki á Skeiðarársand og það er stórkostlegt að fylgjast með.“
Rætt var við Þorvald Friðriksson í Sumarmálum á Rás 1.
Leitin að Gullskipinu – RÚV 13.03.2022
Heimildarmynd um leitina að Gullskipinu, Het Wapen van Amsterdam, sem var hlaðið gersemum þegar það fórst í nágrenni við Skeiðarársand árið 1667 og hefur aldrei fundist. Dagskrárgerð: Jón Ársæll Þórðarson og Steingrímur Jón Þórðarson.
RÚV heimildarþáttur 13.03.2022 – Linkur:
Heimildir og tenglar:
- Frétt DV 19.04.2016; Leit að gullskipinu hefst á ný
- Frétt DV 23.04.2016; Leitin að Gullskipinu á Skeiðarársandi
- Heimasíða leitarhópsins; Anno1667
- Frétt á Vísi þann 02.04.2019; Leit að hollensku fjarsjóðsskipi heldur áfram
- Frétt RÚV 23.07.2020; Telja sig geta fundið gullskipið við Skeiðarársand
- RÚV heimildarþáttur 13.03.2022
Ein athugasemd við “Leitin að „Gullskipinu“”