Í júlí 1942 var skipalestin QP-13 að koma frá norður Rússlandi, hafnarborginni Arkhangelsk. Veður út af Vestfjörðum var nokkuð slæmt, mikil þoka og þar af leiðandi lítið skyggni. Þegar þarna var komið voru skipin í skipalestinni 19 talsins.
Norður út frá Straumnesi (Grænlandssundi) lá tundurdulfabelti, sem hafði verið lagt af Bretum, til þess að stöðva eða granda kafbátum Nasista í seinni heimstyrjöldinni. Skipalestin QP-13 villtist, og fann ekki réttu leiðina í gegnum tundurtuflabeltið og sigldi inn í það. Úr varð eitt mesta sjóslys í Íslandssögunni. 6 skip fórust með 240 manns.
Skipin sem fórust og sukku í þessu slysi voru:
- HMS NIGER – Minesweeper (UK-Royal Navy) 149 fórust
- FREIGHTER HYBERT (USA) 17 fórust
- FREIGHTER HEFFRON (USA)
- FREIGHTER MASSMAR (USA)
- RODINA (USSR) 39 fórust
Skip sem skemmdust:
- AMERICAN ROBIN
- FREIGHTER EXTERMINATOR
- FREIGHTER JOHN RANDOLPH



__________________________________________________________
Grein eftir Friðþór Eydal sem birtrist í Morgunblaðinu 5 júlí 2014.
Í dag er vígður minnisvarði í Bolungarvík um mesta sjóslys og björgunarafrek Íslandssögunnar. Nærri 240 manns fórust og rúmlega 250 björguðust við hættulegar aðstæður eftir að skipalest bandamanna sigldi inn í breskt tundurduflabelti skammt norður af Straumnesi að kvöldi 5. júlí 1942.
Slysið hefur ekki hlotið mikla almenna athygli hér á landi enda um erlend skip að ræða og ríkjandi fréttabann í hringiðu heimsstyrjaldarinnar síðari. Áhafnir þriggja fylgdarskipa sem veittu skipalestinni vopnaða vernd á siglingunni unnu einstætt björgunarafrek og mótorbáturinn Vébjörn frá Ísafirði hélt einnig til aðstoðar þrátt fyrir mikla hættu.
Eftirfarandi er stutt frásögn af slysinu sem byggð er á sama efni í bók minni Vígdrekar og vopnagnýr sem út kom árið 1997, ásamt frekari könnun á skjalfestum gögnum og öðrum samtímaheimildum.
Bandamenn héldu uppi umfangsmiklum birgðaflutningum til hafna í Norður-Rússlandi í síðari heimsstyrjöldinni. Til ársloka 1942 sameinuðust skipalestir í Hvalfirði til siglingar á þessari hættulegu siglingaleið. Nafntogaðasta skipalest sögunnar, PQ-17, hélt úr Hvalfirði 27. júní 1942 og sama dag lét skipalestin QP-13 úr höfn við Hvítahaf á vesturleið. Mættust þær 2. júlí og skömmu síðar hófust linnulausar árásir á PQ-17 sem lyktaði með því að 20 kaupskipanna 32 sem lögðu upp var grandað.
Ferð QP-13 var viðburðalítil framan af en undan Langanesi skildi leiðir skipa sem héldu til Skotlands og 19 skipa sem stefndu með Norðurlandi til Hvalfjarðar. Hvasst var af norðaustan með litlu skyggni og erfitt að ná staðarákvörðun. Stuðst var við dýptarmælingar og kl. rúmlega fimm síðdegis 5. júlí sýndist staðsetning geta verið um 21 sjómílu norð-norð-vestur af Horni. Mynduðu skipin tvær samsíða raðir til siglingar um 7 sjómílna breiða rennu með landinu innan við breskt tundurduflabelti út af Straumnesi.
Um kl. 18 var talið að skipin færu að nálgast Horn og var stefnunni breytt til suðvesturs. Tveimur klukkustundum síðar tilkynnti forystuskipið, H.M.S. Niger, að sést hefði til lands að Horni. Skyldi þegar breytt um stefnu til vesturs fyrir Kögur og Straumnes.
40 mínútum síðar tilkynnti herskipið að landsýnin hefði verið borgarísjaki og skyldi stefnunni aftur breytt til suðvesturs til þess að sleppa við tundurduflin. Örskömmu síðar sá áhöfn annars fylgdarskips hvar Niger sundraðist í sprengingu og svo til samtímis lentu fimm kaupskip einnig á tundurduflum og sukku.
Bresku togararnir Lady Madeleine og St. Elstan hófu þegar leit að kafbátum og vörpuðu djúpsprengjum. Skipstjóri frönsku korvettunnar Roselys ályktaði réttilega að skipin hefðu lent á tundurduflum og hóf þegar björgun skipbrotsmanna og togararnir einnig skömmu síðar. Var það ekki auðunnið verk í norðaustan brælu og slæmu skyggni innan um stórhættuleg segultundurdufl.
Einstætt björgunarafrek
Björgunarstarfið tók um sex og hálfa klukkustund og náði Roselys 179 skipbrotsmönnum. Heimildum ber ekki saman um heildartölu þeirra sem bjargað var en benda til að þeir hafi verið a.m.k. 254. Er það eitt mesta björgunarafrek við Íslandsstrendur og hlutu áhafnir skipanna þriggja verðskuldaða viðurkenningu fyrir frammistöðuna.
Atburðir kvöldsins fóru ekki fram hjá íbúum í Aðalvík sem fylgdust með útvarpsfréttum af talningu í alþingiskosningunum sem fram fóru sama dag. Var hald manna að mikil sjóorrusta stæði skammt undan landi. Síldarbátar á leið til Siglufjarðar höfðu leitað vars í Aðalvík vegna brælunnar og fékk yfirmaður bresku ratsjárstöðvarinnar á Sæbóli vélbátinn Vébjörn frá Ísafirði til þess að halda til björgunar. Náðust nokkur lík sem sett voru um borð í Roselys um nóttina. Ritaði breska flotastjórnin Halldóri Sigurðssyni skipstjóra þakkarbréf fyrir þátt áhafnarinnar á Vébirni í björgunaraðgerðunum.
Auk H.M.S. Niger fórust rússneska skipið Rodina og bandarísku skipin Hybert, Heffron, Massmar og John Randolph. Framhluti Lyberty-skipsins John Randolph, fannst á reki út daginn eftir og var dreginn til Reykjavíkur. Flutningaskipið Exterminator sem sigldi undir Panamafána náði til hafnar af eigin rammleik þrátt fyrir miklar skemmdir. A.m.k. eitt annað skip hlaut minni skemmdir.
Lík rekur af hafi
Slysið var versta áfall bandamanna við Íslandsstrendur í styrjöldinni. Alls munu nærri 500 manns hafa verið á skipunum sex sem fórust, þar á meðal nokkrar konur og börn á Rodyna auk fjölmargra skipbrotsmanna af skipum sem sökkt hafði verið í fyrri skipalestum. Með Niger fórust 146, þ.ám. tugir manna af breska beitiskipinu Edinburgh en einungis átta mönnum var bjargað. Heimildir benda til þess að a.m.k. 253 hafi farist.
Eitt lík rak í Aðalvík og nokkur á Ströndum vikurnar eftir slysið. Nokkur til viðbótar fundust á reki og var eitt flutt til Bíldudals og fjögur til Ísafjarðar og jarðsett þar. Sex lík sem rak á svæðinu frá Barðsvík að Bjarnarnesi voru greftruð í Furufirði ásamt „beinum úr hermannslíki“ sem fundust rekin þar um haustið. Eitt lík rak í Guðlaugsvík við innanverðan Húnaflóa, annað í Skálholtsvík og eitt á Kolbeinsá. Voru þau flutt til greftrunar í Reykjavík. Björgunarskip settu nokkur lík á land í Reykjavík og voru a.m.k. 16 bandarískir sjómenn og sjóliðar af áðurnefndum skipum jarðsettir þar auk þriggja úr áhöfn Niger.
Af munum og búnaði líkamsleifanna á Ísafirði, Bíldudal og í Furufirði var talið mega ráða að þær væru af Bandaríkjamönnum. Að styrjöldinni lokinni stóð Bandaríkjastjórn fyrir sameiningu líkamsleifa fallinna hermanna og sjómanna í stórum grafreitum á nokkrum stöðum í Evrópu og víðar um heim. Voru allar líkamsleifar á Íslandi, Grænlandi og í Kanada fluttar heim til Bandaríkjanna árið 1947. Líkið sem rak í Aðalvík var af ungum breskum sjóliða af H.M.S. Niger og var hann grafinn í Staðarkirkjugarði en fluttur í breska hermannagrafreitinn í Reykjavík eftir stríð.
___________________________
Uppfært: 25.07.2021
Neðansjávarmyndir af skipsflökum úr skipalestinni QP-13
Flikr síða Gunnars Birgissonar; Myndir síðan 2010.
___________________________
Hefurðu frekari upplýsingar? Hafðu samband við mig, sendu mér póst: diveexplorer@dive-explorer.com
Do you have more information? Something to share? Please contact me; diveexplorer@dive-explorer.com
___________________________
Heimildir og linkar: