Heiðrún II ÍS-12 (+1968)

Þann 4. febrúar 2018 voru 50 ár liðin frá því að Heiðrún II ÍS 12 fórst í Ísafjarðardjúpi.

Það var aðfararnótt 5. febrúar 1968 sem Heiðrún II ÍS 12 fórst í Ísafjarðardjúpi. Með skipinu fórust sex menn. 

Horft frá höfninni í Bolungarvík í átt að Snæfjallaheiði. (Mynd; Ja.is)

Sunnudagsmorgunninn þann 4. febrúar 1968, um kl. 10:00 fyrir hádegi, fór frá Brimbrjótnum í Bolungarvík Heiðrún II. Óveður var þá þegar skollið á, og átti að bjarga skipinu með því að sigla því til öruggrar hafnar á Ísafirði, en við Brimbrjótinn var skipið í hættu.

Ferðin gekk vel til móts við Hnífsdal, en bilana hafði gætt í radar, dýptarmælum og talstöð. Fyrir utan Hnífsdal varð radarinn óvirkur og komst ekki í lag eftir það.

Páll Páls­son GK-360 frá Sand­gerði. Síðar Heiðrún II ÍS-12. Ljós­mynd/Ó​laf­ur Árna­son (mbl.is/200 mílur 12-2-2018)

Var skipinu því siglt í var undir Snæfjallaströnd. Ofsaveður var þá þegar komið á, sem enn átti eftir að versna.

Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. febrúar heyrðist síðast til skipsins, og fullvíst má telja að Heiðrún II hafi farist um það leyti, um 2,7 sjómílur undan Vébjarnarnúpi.

Sjókort sem sýnir staðsetningu á hvar Heiðrún II liggur. Þarna er dýpi allt að 130 metrar. (Sjókrort; Nobeltech Navigator)

Heiðrún II ÍS 12

Heiðrún II var smíðuð árið 1963 á Akranesi og var 150 tonna eikarskip með 470 hestafla Krumhout vél. Skipið var í eigu Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík og var talið traust og gott sjóskip. Skipið var áður gert út frá Sandgerði undir nafninu Páll Pálsson GK 360. 

Með skipinu fórust sex manns

  • Rögnvaldur Sigurjónsson, 52 ára, skipstjóri
  • Ragnar, 18 ára sonur Rögnvalds
  • Sigurjón, 17 ára sonur Rögnvalds
  • Páll Ísleifur Vilhjálmsson, 31 árs, vélstjóri
  • Kjartan Halldór Kjartansson, 23 ára
  • Sigurður Sigurðsson, 17 ára

Hefurðu meiri upplýsingar um Heiðrúnu slysið? Hafðu samband, höfum söguna á einum stað, og í lagi. Sendu póst á mig; diveexplorer@dive-explorer.com.

Heimildir og tenglar

Vélbátur (+19??)

Lítill mótorbátur fannst fyrir tilviljun þegar Hafmynd (Teledyne) var að prófa kafbátinn Gavia á Viðeyjarsundi skammt frá Skarfaskeri. Reyndist þetta vera 8 metra langur stálbátur, afturbyggður. Heiti bátsins er ekki vitað, eða hvenær eða hvers vegna hann sökk. Hann liggur uppréttur á 8 metra dýpi.

Tvígeislamælingar í leiðangri þann 05. júní 2015. (Sónargögn; Arnar Þór Egilsson. dagsett 05.06.2015)
Tvígeislamælingar í leiðangri þann 05. júní 2015. (Sónargögn; Arnar Þór Egilsson. dagsett 05.06.2015)
Kortamynd af staðsetningu vélbátsins. (Mynd: Google Earth – 2002)
Sjókort/ dýptarkort af svæðinu kringum Skarfasker (Kort: Navionics – 04.10.2019)

Gps hnit vélbáts er: 64° 09,602 – 21° 52, 875 (Gæti verið einhver skekkja)

__________________________________________________________________

Heimild: Scuba.is

Bátsflak finnst á Viðeyjarsundi

Bátsflak hefur fundist á Viðeyjarsundi. Bátsflakið kom fram fyrir tilviljun á sónartæki kafbáts sem fyrirtækið Hafmynd er að þróa.
Flakið fannst sl.haust þegar kafbáturinn var við leit á svæðinu.

Síðustu helgi tók scuba.is þátt í leiðangri til að rannsaka flakið nánar. Kafarar í leiðangrinum voru Vilhjálmur Hallgrímsson, Einar Magnús Magnússon, Sveinn Magnússon, Brynjar Gestsson og Árni Ingason.

Flakið liggur á botninum nálægt Skarfaskeri í Viðeyjarsundi á um 16 metra dýpi. Flakið er af afturbyggðum, opnum stálbát sem er rúmir 8 metrar á lengd og tæpir 4 metrar á breidd. Flakið er vélbátur og hefur skrúfuhlíf verið utan um skrúfuna. Skrúfan fannst þó ekki og er stefnisrörið tómt.

Leiðangursmönnum sem köfuðu niður að flakinu er ekki kunnugt um, um hvaða bát er að ræða eða hvers vegna hann fórst.

Eins og sést á meðfylgjandi sónarmynd er flakið frekar heillegt. Flakið er að miklu leiti sokkið í leirkenndan botninn að framanverðu en afturhlutinn stendur vel upp úr botninum. Yfirbyggingin að aftanverðu er einnig úr stáli. Á henni er einn gluggi sem snýr aftur. Yfirbyggingin er vel opin að framaverðu og má leiða líkum að því að gengið hafi verið inn í hana að framanverðu frá dekkinu, í gegn um tréhurð sem nú er horfin.

Tvígeislamæling (e. side scan sonar) úr kafbátnum Gavia (Heimild; scuba.is / Teledyne.com)

Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir:

  • Scuba.is

Kingfisher H-830 (+1912)

20. apríl, árið 1912, sama ár og farþegaskipið Titanic fórst, þá fórst í grennd við Sólheimasand, í Vestur-Skaptafellssýslu, enskur botnverpingur. Skipið hét Kingfisher og var frá bresku borginni Hull. Skipið er talið hafa rekist á sker, og brotnað upp. Það átti að hafa gerst eins og fyrr sagði undan Sólheimasandi, fyrir mynni Jökulsár.

Samkvæmt heimildum er talið að skipverjar hafi náð að komast í björgunabáta eða frá skipinu en svo farist á leið í land.

Annars eru fáar greinar eða upplýsingar um þetta slys í íslenskum tímaritum eða fréttum.

Togarinn Kingfisher (Mynd: Morgunblaðið 01.10.2019)

_____________________________________________________________________

Heimild: Lögberg, fimmtudaginn 06. júní 1912

Frá Íslandi

Reykjavík. 24. Apríl 1912.

Nóttina milli föstudags og laugardags s.l. strandaði enskur botnvörpungur úti fyrir Sólheimasandi, 60 til 80 faðma frá landi, rétt vestan við mynnið í Jökulsá.

Þar er sker og á það lenti skipið og brotnaði þegar mikið. Skipið heitir Kingfisher og er frá Hull. Um skipverja vita menn ekkert, en líklegast talið að þeir hafi farið í bátana og druknað allir.

Björgunarskipið Geir er nú þar eystra, en þó ekki talið nokkurt útlit fyrir, að það geti neitt að gert þarna.

Hluti áhafnarinnar sem fórust í skipsskaðanum (Mynd; Morgunblaðið 01.10.2019)

Heimildir og tenglar: