Sumarið 1936 var línubáturinn Örn GK-5 (áður E/s Batalder, áður Pétursey RE-277) á síldarveiðum út af Norðurlandi. Áhöfnin taldi 19 manns.
Þann 08. ágúst 1936 skall á svartaþoka og norðvestan rok og stórsjór á síldarmiðum fyrir norð-asutan land. Skip leituðu því eitt af öðru vars, en sigling gekk hægt sökum hversu skipin voru mikið hlaðin. Þegar síldarskipin komu til hafnar, öll nema Örn GK-5, fór fram leit að skipinu.

Er varðskipið Ægir var statt á Húsavík á leið til leitar fannst annar nótabáturinn á reki, mannlaus. Töluvert brak úr skipinu fannst vestan Mánáreyja og er talið að skipið hafi farist á þeim slóðum. Hinn nótabáturinn fannst síðan mannlaus á reki undan Melrakkasléttu.

Um skipið:
Örn GK-5 var smíðað í Noregi árið 1903, og var því 33 ára þegar hann sökk. Skipið var stálskip, 103 brúttólestir að stærð. Vélin var 203 ha 2.ja þöppu gufuvél. Skipið var fyrst gert út frá Noregi, en síðan selt til Færeyja. Árið 1927 keypti O. Ellingsen í Reykjavík skipið sem þá hét Pétursey RE-277.
Ekki var vitað hvað það var sem kom fyrir skipið en öll áhöfn þess fórst. Talið var ólíklegt að veður hefði orðið honum að tjóni, en hallast að því að jafnvel ketilsprenging hefði orðið í skipinu og það sokkið á svipstundu, en það verður aldrei vitað til fulls.

Þeir sem fórust með skipinu:
Úr Reykjavík:
Ólafur V. Bjarnason, skipstjóri, 60 ára, Frakkastíg 26, kvæntur og átti uppkomin börn.
Steinn Ásbjörnsson, stýrimaður, 28 ára, Rauðará við Hverfisgötu, ókvæntur.
Eggert Ólafsson, 1. vélstjóri, 27 ára, Grettisgötu 79, kvæntur en barnlaus.
Frá Hafnarfirði:
Guðmundur Guðmundsson, nótabassi, 57 ára, Gunnarssundi 3. Hann var kvæntur og átti 2 börn innan við fermingu og 3 uppkomin.
Skúli Sveinsson, 2. vélstjóri, 34 ára, Brekkustíg 25. Hann var kvæntur en barnlaus.
Guðmundur Albertsson, matsveinn, 23 ára, Vesturbraut 22, kvæntur og átti eitt barn.
Sigurður Sveinsson, háseti 53 ára, Hverfisgötu 7, kvæntur og átti eitt barn innan við fermingu. Þorsteinn Guðmundsson, háseti, 40 ára, Merkurgötu 14, kvæntur og átti 1 barn.
Jón Bjarnason, háseti, 37 ára, Selvogsgötu 16 B. Kvæntur og átti 3 börn í ómegð.
Heimildir og linkar
- Morgunblaðið 24.maí 1996; Gáfu líkan af línubátnum Erni GK-5
- Upplýsingar úr skipaskrá Lloyd´s
- Heimasíða Þórhalls S. Gjöveraa; L.v Pétursey
- Tímarit.is; Ægir; Línuveiðarinn Örn GK ferst 09. ágúst 1936
- Allkunne.no; Batalder
- Heimasíðan WreckSite.com; FV Orn
Uppfært 09.09.2020
Algengt er að leifar skipsflaka komi upp með veiðarfærum. Svo virðist sem áhöfnin á togaranum Klakka SH-510 hafi einmitt fengið leifar af skipsflaki í trollið er það var á rækjuveiðum út af Skjálfandaflóa þann 04. september 2020.

Samkvæmt Facebook síðu eins skipverjans, Guðmundar Geirs Einarssonar þá kom upp með veiðarfærunum hvorki meira né minna en skipsklukka. Mjög oft er nafn skipanna skráð á skipsklukkuna. Svo virðist einmitt hafa verið í þessu tilviki því nafnið „BATALDER“ var grafið á bjölluna.
Leiða má líkur að því að þar sem skipsklukkan kom upp, eða í námunda við þann stað þar sem leifarnar komu upp með veiðarfærunum sé komin staðsetning á flaki BATALDER, sem síðar varð að skipinu ÖRN GK-5 (+1936).
Staðsetningin þar sem Klakki var á veiðum ber saman við heimildir um mögulegan stað þar sem ÖRN GK-5 sökk með allri áhöfn innanborðs. Dýpi á þessum slóðum er 100 til 200 metrar, og líklegast leðjubotn.





Heimildir og linkar
- Facebook síðan; Sokkin skip við Ísland
- DV.is, 09.09.2020; Bjalla úr skipi sem hvarf við Íslandsstrendur árið 1936 fundin
Heimild: Morgunblaðið 11.09.2020; 200 mílur; Nátengt fjölskyldunni
„Þessi saga hefur fylgt fjölskyldunni nánast alla mína tíð og það er vægast sagt sérkennilegt að skipsbjallan hafi komið upp með trolli skips, sem er nátengt okkur,“ segir Torfi Björnsson á Ísafirði.
Hann vísar til þess að skipsbjalla úr gufuskipinu Erni GK kom upp með rækjutrolli Klakks ÍS á föstudag, en skipið var þá á rækjuveiðum á utanverðum Skjálfanda. Þar sást síðast til Arnarins 9. ágúst 1936, en skipið fórst þann dag með 19 manna áhöfn. Meðal skipverja var Jóhann Rósinkrans Símonarson, afi Torfa, en útgerðarmaður Klakks er Gunnar, sonur Torfa.

Einhvers konar fyrirboði?
„Pabbi var á öðrum síldarbát sem var á austurleið og þeir mættu Erninum fyrir miðjum Skjálfanda. Talið var að Örninn væri á leið til Siglufjarðar með fullfermi af síld. Þarna mættust þeir feðgarnir og veifuðu hvor öðrum, það var í síðasta skipti sem þeir sáust. Skömmu síðar gerðist eitthvað sem olli því að skipið sökk með manni og mús. Eðlilega vöknuðu margar spurningar um hvers vegna skipið sökk og þessi fundur svarar þeim ekki. Það er hins vegar stórfurðulegt að skipsbjallan finnist á þennna hátt og ég velti fyrir mér hvort þetta sé einhvers konar fyrirboði,“ segir Torfi Björnsson, tæplega 93 ára gamall Ísfirðingur.
Örninn var smíðaður í Noregi 1903 og bar nafnið Batalder. Skipið var selt til Færeyja og síðan til Íslands 1927.
________________________
Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum?
Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com