Norska flutningaskipið „SS ULV“ frá Haugasundi, Noregi, hvarf 20. janúar 1931, og að öllum líkendum sokkið í námunda við Þaralátursgrunn á Ströndum.
Sigldi „ULV“ frá Siglufirði áleiðis til Súgandafjarðar. „ULV“ var hlaðið 1600 smálestum af salfiski á vegum Kveldúlfsfélagsins. Þegar skipið kom ekki fram, var óttast um afdrif þess og farið var til leitar. Ýmiss skip ásamt varðskipinu Ægi leituðu sjóleiðina án árangurs.

8 dögum síðar varð vart við rekald af skipinu „ULV“ á Þaralátursnesi á Ströndum. Var þá talið að skipið hefði hefði farist á þessum slóðum.
Reki varð af stýrishúsi skipsins, mikið af timbri, stólar og sængurklæðum. Út frá þessu var talið að skipið hefði farist mjög nálægt landi, eða á nesinu sjálfu. Var það Eiríkur bóndi á Dröngum sem hafði látið vita eftir að auglýst hafði verið eftir skipinu í útvarpsfréttum.
17 manns voru í áhöfn skipsins, auk eiginkonu skipstjórans og 4 íslenskir farþegar. Skipsstjóri ULV hét Lange. Nöfn íslensku farþeganna sem fórust voru Hreggviður Þorsteinsson kaupmaður, Jón Kristjánsson vélamaður, Ólafur Guðmundsson fiskimatsmaður (umsjónarmaður skipsins) og Aage Larsen mótoristi. Alls fórust því 22 manns.

Skipið „ULV“ var 1471 brúttó smálestir, og lestaði 2175 smálestir. Það var byggt árið 1902 í 1. klassa. Eigandi skipsins var O. Kvilhaug í Haugasundi.


Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com