Línuveiðarinn Papey GK-8 (áður Kakali ÍS 425) fór á veiðar frá Reykjavíkurhöfn í febrúar 1933. Um borð voru 17 skipverjar.
Þegar Papey GK8 var um tvær sjómílur frá Engey rakst skipið á þýska flutningaskipið Brigitte Sturm, sem var á leið til Reykjavíkur frá Stykkishólmi.
Stefni Brigitte Sturm stóð langt inn í Papey við áreksturinn sem sökk á skammri stundu.
8 skipverjar komust lífs af en 9 manns drukknuðu. Allir nema vélstjórarnir voru undir þiljum þegar slysið átti sér stað. Því var talað um að menn hafi sogast niður með skipinu er það skyndilega sökk, en það hafði sokkið á aðeins 2 til 3 mínútum samkvæmt frásögnum vitna.
Sjóréttur var haldinn og lesa má hluta þess í heimildum Morgunblaðsins þann 22. febrúar 1933.

Um Papey GK-8
Línuveiðarinn Papey var smíðaður í Hollandi árið 1913 (1914?). Hann var 107 bruttólesta með 220 HA 3 þrennslu gufuvél. Var hann í sinni fyrstu ferð, nýlega leigður af Guðmundi Magnússyni skipstjóra af Útvegsbankanum. Guðmundur komst lífs af úr slysinu, en var illa haldinn. Áður hafði Papey verið í eigu Vals í Hafnarfirði.

Skipsflakið af Papey
Ekki hef ég upplýsingar um hvar flakið af Papey sé að finna eða hvort það hafi fundist, og þar af leiðandi hvort kafað hafi verið niður á það.
Samkvæmt upplýsingum frá tíma slyssins þá er talað um að flakið sé að finna á 35 metra dýpi, tvær sjómílur VNV af Engey. Almennt dýpi á þessum slóðum er 30 til 50 metrar.

Ef þú hefur frekari upplýsingar um þetta slys, upplýsingar um flakið eða eitthvað frekar þá geturðu komið því á framfæri með því að skrifa hér á síðunni, eða senda mér tövlupóst á: diveexplorer@dive-explorer.com
__________________________________________________
Heimildir og upplýsingar: