TF-AIS (+1966)

TF-AIS var sjúkraflugvél af gerðinni Beechcraft.

TF-AIS var eitt af þessum slysum í íslenskri flugsögu þar sem flakið af flugvélinni hefur aldrei fundist. Minnir margt á flugvélina Glitfaxa (+1951), sjá hér.

Það var snemma árs 1966, eða 18 janúar, þar sem óskað var eftir sjúkraflugvélin austur á Neskaupsstað til að flytja 6 ára dreng á sjúkrahús. Drengurinn hafði fengið flís í augað.

Tveggja manna áhöfn var í TF-AIS, Sverri Jónsson, flugstjóri og Höskuldur Þorsteinsson, flugmaður. Lögðu þeir frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 18:30. Veðurskilyrði á austfjörðum voru slæm. Lentu þeir fyrst á Egilsstaðarflugvelli til að taka eldsneyti. Lögðu þeir af stað frá Egilsstaðarflugvelli klukkan 21:43. Flug þaðan að Norðfirði tók um 10-15 mínútur. Klukkan 22:05 hóf TF-AIS aðflug að flugvellinum á Neskaupsstað. Klukkan 22:12 er haft samband við flugvélina, en ekkert heyrðist frá henni. Mjög fljótlega var sett af stað leit að vélinni og fóru fyrstu björgunarsveitarmenn á vegum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík um borð í flugvél Flugfélag Íslands klukkan 22:53.

Eins og fram kom þá var slæm veðurskilyrði á tíma flugsins, dimm él, slæmt skyggni og myrkur. Frost var á bilinu -6 til -15 stig.

Staðsetning flugvallarins í Norðfirði (BINF) – (Kort; Skyvector)
Sjúkraflugvélin TF-AIS, af gerðinni Beechcraft.

Leitin að TF-AIS

Umfangsmikil leit var gerð af vélinni og að mönnunum tveimur sem voru í henni. Ekkert var í fyrstu hvort vélin hafi hafnað í sjó eða á landi. Leit hófst skömmu eftir að síðast heyrðist frá flugvélinni.

Síðustu skilaboðin voru klukkan 22:12, en þá gaf flugmaðurinn upp að hann sé að lækka flugið úti fyrir Norðfirði “ er að byrja að sjá niður“ eins og hann kallaði það. Eftir það ekkert meira frá TF-AIS en vélin voru kölluð upp á mínútu fresti til klukkan 22: 26. Var þá flugturninum á Egilsstöðum tilkynnt um hver staðan væri, að samband við TF-AIS hafi rofnað. Haldið var síðan áfram að kalla upp vélina, viðstöðulaust.

200 manns leituðu að TF-AIS, ásamt 14 bátum sem leituðu meðfram ströndu. 8 flugvélar tóku þátt sömuleiðis í leitinni og aðstoðuðu við að flytja leitarhópa.

Leitin að TF-AIS bar engan árangur. Á þessum tíma var talað um að þetta hafi verið umfangsmesta leit sem ráðist hefur verið í að týndum mönnum.

Mennirnir tveir sem fórust með TF-AIS

  • Sverrir Jónsson, flugstjóri
  • Höskuldur Þorsteinsson, flugmaður.

Bæði Sverrir og Höskuldur voru giftir og áttu fimm börn hvor.

Sverrir Jónsson til vinstri. Höskuldur Þorsteinsson til hægri.
Sjó/dýptarkort af Norðfirði (Kort; Navionics)

Flugvélin TF-AIS

Flugvélin TF-AIS var af gerðinni Beechcraft C-45H. Hún var keypt frá Danmörku (OY-DAY) og skráð á Íslandi 8. apríl 1964. Vélin var ætluð til farþega- og vöruflutninga.

Flugvélin var smíðuð í Bandaríkjunum, í Wichita, Kansas í maí 1954 af Beech Aircarft Corporation. Í Seinni heimstyrjöldinni (WWII) voru yfir 5000 þúsund slíkar vélar smíðaðar, en voru þá nefndar C-45.

Beechcraft flugvélarnar voru tveggja hreyfla, af gerðinni Pratt & Whitney, 450 hestafla (ha.). Vænghaf: 14,5m, Lengd: 10.30m. Farþegafjöldi 8 og einn í áhöfn. Hámarksflugtaksþyngd: 3970 kg. Flughraði: 412 km. Flugdrægni 2000km. Flughæð: 6,250m

Raðnúmer TF-AIS var 52-10801.

Flakið af TF-AIS

Eins og fram hefur komið þá hefur flakið af flugvélinni TF-AIS aldrei fundist. Leit að flakinu á landi og á sjó fór fram og þann 25.janúar 1966 fannst í fjörunni milli Gerpis og Barðsness björgunarvesti úr flugvélinni TF-AIS. Sjá hér.

Vestið var enn innpakkað, ekki blásið út þar sem það fannst í fjörunni Sandvík. Vestið var staðfest af flugmönnum frá Flugsýn sem staddir voru í Norðfirði. Á vestið var stimpluð dagsetning síðasta skoðunardags og upphafsstaðir skoðunarmanns.

Þar hjá fannst líka lítill pakki, sem ekki var kannast við.

Olíuflekkir fundust á nokkrum stöðum. Tekin voru sýni úr þeim, en engir þeirra reyndust vera í flugfari.

Töldu menn að þar sem björgunarvestið hafi fundist í Sandvík þá hefði flugvélin TF-AIS að líkendum hafnað í sjónum utan Barðanes, því vindáttin hafi verið slík að þangað hefði vestið varla farið hefði vélin lent inni á flóanum. Kemur það þó fram í heimildum að um getgátur séu um að ræða.

Kort sem sýnir Sandvík (rauður kassi) þar sem björgunarvesti úr flugvélinni TF-AIS fannst. Talið er að TF-AIS hafi farist fyrir utan Barðsnes (Kort, LMI)
Sjókort sem sýnir dýpi fyrir utan Barðanes

Hefurðu upplýsingar um TF-AIS? Eitthvað sem þú vilt bæta við? Hafðu samband, skrifaðu hér á síðuna eða sendu mér tölvupóst: diveexplorer@dive-explorer.com

Information, something about the TF-AIS airplane? Write me an email: diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir / Upplýsingar / Tenglar

Talisman EA 23 (+1922)

Talisman EA 23 var þilskip (Kútter) ætlaður til fiskveiða og flutnings, m.a. á fiskiafurðum.

Talisman lagði frá Akureyri 18.-19. mars 1922, og var ferðinni heitið til Vestmannaeyja með 200 tunnur af beitisíld. Frá Akureyri fór skipið til Siglufjarðar.

Talisman strandar við Súgandafjörð

Talisman fór frá Siglufirði fimmtudaginn 23 mars. kl. 21:30 og hreppti stórhríð um miðjan dag. í Húnaflóanum fékk það áfall; brotnaði þá ofan af káetunni og hana fyllti að sjó. Skipið hélt síðan áfram vestur fyrir land. Um laugardagsnótt sáu skipverjar vita og álitu það vera Straumnesvita.

Beygðu þeir þá að landi og ætluðu að hleypa inn á Ísafjarðardjúp. En vitinn, sem þeir sáu var ekki, á Straumnesi heldur vestan megin Súgandafjarðar og af þessum orsökum sigldu þeir til skipbrots upp á Sauðanes, milli Súgandafjarðar og Önundarfjarðar, Súgandafjarðarmegin.

Þar gekk óbrotinn sjór á land. Skipið brotnaði þegar allmikið og gerðu sjö af skipverjunum tilraun að komast á stórsiglunni til lands. 4 af þeim komust lífs af, og heilir á húfi en 3 fórust. Þeir 9 sem eftir voru á skipsfjöl fórust allir, því skipið brotnaði mjög fljótt.

Alls fórust því 12 menn en fjórir komust af.

Kort sem sýnir strandstað Talisman, við Kleifavík. Skipbrotsmennirnir komust í skjól á Stað, sem var um 30 mínútna ganga frá strandstað. (Kort/heimild: Tíminn 1963)
Strandstaður Talisman (rauður kassi) og svo Staður (rauður hringur) þar sem skipbrotsmennirnir komust í skjól. Kálfeyri (blár kassi) er þar sem Einar Guðbjartsson komast í land. (Loftmynd; map24 – Atlas kort)

Um þilskipið Talisman

Talisman (þýðing; „verndargripur“) var þilskip (kútter), 40 til 50 smálesta (46 rúmlesta) fiskiskip. Smíðaður í Englandi 1876. Keyptur frá bretlandi um aldamótin (1900). Talismann var eign Ásgeirs Péturssonar, (keyptur 1917) útgerðarmanns á Akureyri. Hafði Ásgeir endurbætt skipið eftir að það hafi komið í hans eigu, meðal annars bætt við hjálparvél, 40 hestafla Hein-vél.

Rætt var um það á þeim tíma að skipið hafi verið gott sjóskip, og ætið aflasælt.

Skipslíkan af Talisman EA 23. (Heimild, heimasíða Þórhallur Sófusson Gjöverad)

Þeir fjórir sem lifðu af strandið

  • Einar Guðbjartsson, Grenivík (Hann komst til Kálfeyrar eftir strandið)
  • Jakob Einarsson, Akureyri (Viðtal í Vísi 23.12.1966)
  • Jóhann Sigvaldason, Hörgárdal
  • Arinbjörn Árnason úr Möðruvallasókn, háseti

Þeir sem fórust í sjóslysinu

Nöfn þeirra sem fórust í sjóslysinu, alls 12 manns. En lík þeirra allra fundust, á víð og dreifð um kletta og sker. Sumir þeirra höfðu drukknað, aðrir fórust úr vosbúð og kulda.

  • Mikael Guðmundsson (f.1886-d.1922), Skipstjóri Talisman, frá Hrísey, búsettur á Akureyri.
  • Þorsteinn Jónsson, Grímsnesi, 2. stýrimaður
  • Stefán Arngrímsson, Akureyri, vélarstjóri
  • Stefán Jóhansson, Nunnuhóli í Möðruvallarsókn, matreiðslusveinn
  • Sigurður Þorkellsson, Siglufirði
  • Jóhannes Jóhannesson, Kúgili í Þorvaldsdal
  • Benedikt Jónsson, Akureyri (líkið af honum fannst fyrst)
  • Sæmundur Friðriksson, Glerárþorpi
  • Ásgeir Sigurðsson (fóstursonur skipseiganda)
  • Sigtryggur Davíðsson, Dalvík
  • Bjarni Emilsson, Hjalteyri
  • Gunnar Vigfússon, Siglufirði
Mikael Guðmundsson frá Hrísey (f.1886 – d.1922) var skipstjóri Talismann EA23. En hann fórst í þessu hörmulega sjóslysi þann 25.mars 1922.
Mjög vel gert myndband sem Eyþór Edvardsson gerði um Talisman EA 23 og um atburðinn í Súgandafirði. Hlekkur hér;

Strandstaðurinn og flakið af Talisman

Vantar upplýsingar!

Hefurðu frekari upplýsingar um þennan atburð? Hefurðu upplýsingar um strandstað Talisman eða eitthvað um flakið? Hafðu samband við mig, sendu mér tölvupóst; diveexplorer@dive-ecxplorer.com, eða skrifaðu hér á síðuna.

Upplýsingar, tenglar og heimildir: