Flugvélar

Það er ekki eingöngu skip sem hafa lent í greipum Ægis, heldur einnig flugvélar. Í íslensku flugsögunni eru nokkrar vélar sem hafa hafnað í sjónum. Sumar hafa farist sökum bilunnar, veðurs eða jafnvel vegna stríðsátaka. Þá eru nokkur flugvélaflök ófundin.

Hér eru nokkrar af þeim flugvélum sem hafa brotlent í sjónum. Þær eru mun fleiri, sérstaklega var um nokkrar flugvélar, bæði bandamanna sem og þýskar sem fórust í seinni heimstyrjöldinni.

  • Northrop N-3PB (+1941) Norsk sjóflugvél sem var að koma til lendingar í Fossogi. 2 menn komust lífs af.
  • Lockheed Ventura I (+1944) herflugvél sem var að taka á loft frá Reykjavíkurflugvelli og hafnaði í sjónum við Álftanes. 3 menn fórust.
  • TF-ISG (+1951) Glitfaxi, farþegaflugvél með 20 manns innanborðs á leið til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum. Flakið hefur aldrei fundist.
  • TF-AIS (+1966) Sjúkraflugvélin sem var á leið til Neskaupstaðar og fannst aldrei. Tveir menn voru innanborðs.
  • TF-ORN (+1987) Flugvél af gerðinni Piper Chieftain fórst í aðflugi að Ísafjarðarflugvelli. Flugmaðurinn fórst í slysinu.

Aðrar tengdar fréttir

Visir.is 10. mars 2023

Fengu flug­véla­brak og líkams­leifar í trollið

Áhöfnin á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK-255 fékk líkamsleifar og flugvélabrak í troll skipsins á miðvikudag, þegar skipið var að veiðum á Reykjaneshrygg. 

Líkamsleifarnar verða varðveittar um borð þar til skipið kemur til hafnar eftir um tólf daga.

Að sögn Kristjáns Ólafssonar skipstjóra var meðal annars um að ræða skrúfu flugvélarinnar og stélpart. Sterkur grunur er uppi um hvaða vél er að ræða. Kristján segir áhöfnina hafa fengið fyrirmæli um varðveislu líkamsleifanna og að farið verði með þær af virðingu.

Í skriflegum svörum Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, segir að kennslanefnd lögreglu muni rannsaka líkamsleifarnar þegar þær koma í land og rannsóknarnefnd samgönguslysa brakið úr flugvélinni.

Það var mat lögreglu að ekki væri ástæða til að flýta för skipsins vegna fundarins.

Rúv.is 22. mars 2023

Flugvélamótorinn af Cessnu sem fórst í febrúar 2008

Talið er að vélin hafi hrapað í sjóinn rúmar 50 mílur vestur af Keflavíkurflugvelli. Vélin var bandarísk en flugmaðurinn 35 ára Breti.

Flugvélamótor sem kom í veiðarfæri togarans Hrafns Sveinbjarnarsonar úr Grindavík í byrjun mánaðarins er af bandarískri ferjuflugvél sem fórst út af Reykjanesi ellefta febrúar 2008. Vélin, sem var tveggja hreyfla ferjuflugvél af gerðinni Cessna 310 missti afl á báðum hreyflunum á leið frá Grænlandi til Íslands.

Hrafn kom til hafnar í Grindavík í morgun, en í veiðarfærin kom einnig brot úr hauskúpu. Rannsókn þess hluta málsins er í höndum kennslanefndar ríkislögreglustjóra. Flugmaðurinn, 35 ára Breti, var einn um borð.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum í dag segir að Hrafn hafi verið að veiðum vestan við Reykjanes, en brakið kom í veiðarfærin þann áttunda mars. Rætt var við skipstjórann, Kristján Ólafsson, í fréttum þann tíunda en skipverjar kláruðu túrinn og komu ekki að landi fyrr en snemma í morgun. „Við verðum ekki varir við að það komi neitt á toginu. Við erum í Jökuldýpinu um 50 mílur vestur af Reykjanesinu. Þegar við förum að hífa inn á dekk þá sjáum við að það er einhver aðskotahlutur þarna. Við sjáum svo að það er flugvélamótor á bobbingalengjunni. Þegar við hífum lengra inn sjáum við að það er meira af ytra byrði flugvélar í trollinu, dreift um allt trollið og hangandi í því. Þannig urðum við varir við þetta í fyrsta kasti. Það kom ekkert öðruvísi á okkur þarna,“ sagði Kristján í hádegisfréttum RÚV tíunda mars.

(IS) Hefurðu frekari upplýsingar? Geturðu bætt við upplýsingum á þessa síðu? Hafðu samband, sendu mér tölvupóst: diveexplorer@dive-explorer.com.

(EN) Do you have additional information? Please contact me. Email; diveexplorer@dive-explorer.com