Greinasafn fyrir merki: Bolungarvík

Heiðrún II ÍS-12 (+1968)

Þann 4. febrúar 2018 voru 50 ár liðin frá því að Heiðrún II ÍS 12 fórst í Ísafjarðardjúpi.

Það var aðfararnótt 5. febrúar 1968 sem Heiðrún II ÍS 12 fórst í Ísafjarðardjúpi. Með skipinu fórust sex menn. 

Horft frá höfninni í Bolungarvík í átt að Snæfjallaheiði. (Mynd; Ja.is)

Sunnudagsmorgunninn þann 4. febrúar 1968, um kl. 10:00 fyrir hádegi, fór frá Brimbrjótnum í Bolungarvík Heiðrún II. Óveður var þá þegar skollið á, og átti að bjarga skipinu með því að sigla því til öruggrar hafnar á Ísafirði, en við Brimbrjótinn var skipið í hættu.

Ferðin gekk vel til móts við Hnífsdal, en bilana hafði gætt í radar, dýptarmælum og talstöð. Fyrir utan Hnífsdal varð radarinn óvirkur og komst ekki í lag eftir það.

Páll Páls­son GK-360 frá Sand­gerði. Síðar Heiðrún II ÍS-12. Ljós­mynd/Ó​laf­ur Árna­son (mbl.is/200 mílur 12-2-2018)

Var skipinu því siglt í var undir Snæfjallaströnd. Ofsaveður var þá þegar komið á, sem enn átti eftir að versna.

Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. febrúar heyrðist síðast til skipsins, og fullvíst má telja að Heiðrún II hafi farist um það leyti, um 2,7 sjómílur undan Vébjarnarnúpi.

Sjókort sem sýnir staðsetningu á hvar Heiðrún II liggur. Þarna er dýpi allt að 130 metrar. (Sjókrort; Nobeltech Navigator)

Heiðrún II ÍS 12

Heiðrún II var smíðuð árið 1963 á Akranesi og var 150 tonna eikarskip með 470 hestafla Krumhout vél. Skipið var í eigu Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík og var talið traust og gott sjóskip. Skipið var áður gert út frá Sandgerði undir nafninu Páll Pálsson GK 360. 

Með skipinu fórust sex manns

  • Rögnvaldur Sigurjónsson, 52 ára, skipstjóri
  • Ragnar, 18 ára sonur Rögnvalds
  • Sigurjón, 17 ára sonur Rögnvalds
  • Páll Ísleifur Vilhjálmsson, 31 árs, vélstjóri
  • Kjartan Halldór Kjartansson, 23 ára
  • Sigurður Sigurðsson, 17 ára

Hefurðu meiri upplýsingar um Heiðrúnu slysið? Hafðu samband, höfum söguna á einum stað, og í lagi. Sendu póst á mig; diveexplorer@dive-explorer.com.

Heimildir og tenglar