Greinasafn fyrir merki: Mýrar

Balholm (+1926)

E.s. Balholm var norskt fiskiskip. Balholm lagði frá Oddeyrartanga, Akureyri, þann 2. desember 1926 og var ferðinni heitinni til Hafnarfjarðar, án viðkomu.

Um borð voru 24 manns (Upplýsingar um að það hafi líka verið 23 manns) .

Verið var að flytja fisk fyrir Kveldúlfsfélagið. Um borð var einnig „verðpóstur“.

Talið var að skipið hafði farist nóttina 6. -7. desember. Samkvæmt samtímaheimildum var talið að Balholm hafi farist fyrir innan skerjagarðsins á Mýrum. Ástæðuna var ekki vitað. Á þessum tíma hafi verið stormur, vont sjóveður. Vindur hafði gengið í hávestur með ofviðrisbyljum og þrumuverðri.

Hvort veðurfarið hafi verið orsakavaldurinn, sem er líklegasta skýringin þá voru líka hugmyndir um að ekki hafi verið næg kol um borð til að halda gufukatlinum gangandi.

Einnig má minnast á að fleiri skip hafa farist á þessum slóðum, m.a. Emelie og Sophie Wheatly sem fórust á „Mýrunum“ árið 1907.

Möguleg siglingleið Balholm frá Akureyri (2.12.1926) til Hafnarfjarðarhafnar. Á Ökrum, á Mýrum, skolaði á land braki úr skipinu Balholm, sem og einu líki. Enn öðru líki átti eftir að skola á land. Rauður kassi á Ökrum sýnir mögulega staðsetningu á flaki Balholm. (Kort; map.is)

Lík og brak úr skipsflaki rekur á land

12. desember hafði lík skolað á land skammt frá Ökrum á Mýrum. Hægt var að staðfesta hver hinn látni var. En skilríki fundust á líkinu. Reyndist þar vera Steingrímur Hansen, 18 ára frá Sauðá, Sauðárkróki.

Við frekari leit á svæðinu fundust bútar úr allstóru skipsflaki, þó ekki með neinu nafni á. Ýmislegt annað rak á land, eins og bút úr mahogniskáp og sitthvað fleira.

Síðar rak á land í námunda við Akra, stólar, mynd af kvenmanni, brot úr björgunarbát og svo björgunarhringur merktur BALHOLM.

Síðar mun annað lík hafa rekið á land, við Hvalseyjar (Hvaleyjum) , og líka við Knararnesi á Mýrum (Má vera að þarna gæti verið lík af háseta af skipinu Baldri?) .

Atlas kort sem sýnir mögulegt strandsvæði, staðsetningu á flaki BALHOLM. Kortið sýnir líka staðsetningu á Ökrum, Mýrum, þar sem brak úr flakinu rak á land, sem og einum sem fórst með skipinu. Einu öðru líki rak á land við Hvalseyjar. (Kort; Atlas, Landmælingar Íslands).

Hverjir fórust með Balholm?

Misræmi eru í tölum um fjölda þeirra sem voru um borð. Heimildir hafa verið um 19 manns hafi verið í áhöfn, og 5 farþegar. Alls 24 manns. En líka að um 23 manns hafi farist með skipinu. Bæði Íslendingar (þá alls 5) og útlendingar (18 norðmenn) sem voru um borð. Heildarlisti yfir þá sem fórust hefur ekki fundist.

Hér eru nöfn þeirra, sem heimildir eru til um, sem fórust með Bolholm.

 • Waage, ??, Skipstjóri
 • Theodór V. Bjarnar, verslunarmaður, Rauðará, Reykjavík
 • Karólína Jónasdóttir, 18 ára, Strandgötu 35, Akureyri
 • Ingibjörg J. Loftsdóttir, 22 ára, Gránufélagsgötu 51, Akureyri
 • Steingrímur Hansen, 18 ára, Sauðá, Sauðárkróki
 • Guðbjartur Guðmundsson, 2. vélstjóri, Sólvöllum, Reykjavík

Líkið af Theodóri og Steingrími ráku á land.

Um skipið Balholm

Balholm var norskt gufuskip, smíðað í Bergen, Noregi árið 1917-1918. 1610 smálestir að stærð, brúttó. Sagt var að Balholm hafi verið vandað skip. (Þó voru sögusagnir uppi á sínum tíma að Balholm hafi verið „algerlega ósjófært – leki eins og hrip“.

Ekki er til ljósmynd af skipinu, sem fundist hefur að svo stöddu.

D/S BALHOLM (MTQK)
Bygd av J. Meyer’s Shipbuilding Co., Zalt-Bommel (# 432)
1044 brt, 590 nrt, 1620 t.dw. 214.9 x 33.3 x 14.2
3Exp. (Arnhemsche Stoomsleephelling Maats., Arnhem), 145 NHK
1917: Nov.: Levert som BALHOLM for J. M. Johannessen, Bergen
1919: Jan.: Overført til A/S Balholm (J. M. Johannessen), Bergen
1926: 06.12.: Grunnstøtte på Akra i Faxafjordur på reise Akureyri – Hafnafjördur
med fisk. Været oppgis å ha vært snøstorm. Hele besetningen, 20 mann, omkom

Balholm var vátryggt hjá Sjóvátryggingarfélaginu Æolus í Noregi. A.V. Tulinus var umboðsmaður þess hér á Íslandi.

Að auki

Heimildir voru til um að nóbelsskáldið Halldór Laxnes hafi átt pantað far með skipinu áður en það hafði lagt upp í þessa örlagaríku ferð, árið 1926. En af einhverjum ástæðum hafi Halldór misst af skipinu.

Skipstjórinn á Balholm var ungur að aldri, (Waage?) -, en hann hafði verið nýkvæntur og var kona hans með í för í þessari ferð. Bæði týndu lífinu með Balholm.

Skipsflakið Balholm

A. V. Tulinus sem var umboðsmaður Sjóvártryggingafélags skipsins. Fékk hann aðila að nafni Larsen til Íslands til að leita skipsins, eða braksins úr því.

Larsen fer upp á Mýrar árið 1927, sumarið eftir hvarf Balholm. En heimildir voru til um það frá ábúendum úr sveitinni, m.a. frá Jóni Samúelssyni, bónda á Hofsstöðum, að sjá mátti eitthvað standa upp úr sjónum, ekki mjög langt frá landi. Taldi Jón að sennilegast um „bómu“ hafi verið að ræða, sem stæði 3 álnir upp úr sjónum, S.S.V af Hjörsey og vestur af Knarrarnesi, álíka langt frá hvorum stað, eða um 4 sjómílur.

Samkvæmt Larsen þá hefur Balholm strandað og brotnað á skeri. Skipið hafi svo kastast yfir skerið, brotnað og sokkið og liggur svo við hlið þess. Dýpið sé um 8 metrar á fjöru.

Skipsflakið er í norður af Þormóðsskeri og vestur af Hjörsey. Flakið hafði fundist 22. júní 1926. Um hálfu ári eftir strandið.

Dýptarkort sem sýnir skerjagarðinn vestan við Hjörsey. Er þetta svæðið þar sem flakið af Bolholm liggur? Samkvæmt heimildum frá árinum 1926-1927 þá átti flakið að vera norðan við Þormóðssker og fyrir vestan Hjörsey. (Kort, Navionics).

Tenglar, heimildir og upplýsingar

Hefurðu upplýsingar um BALHOLM, eða nánari staðsetningu á flaki þess. Eitthvað sem þú vilt bæta við? Hafðu samband, skrifaðu hér á síðuna eða sendu mér tölvupóst: diveexplorer@dive-explorer.com

Shipwreck information, something about Balholm? Write me, email: diveexplorer@dive-explorer.com

Gamlaeyri – Mýrar Snæfellsnes (+1870)

Af og til stingst upp úr sandinum leifar gamalla tíma, og þá eru gömul skipsströnd/skipsflök meðtalin.

Á Snæfellsnesi, á Mýrunum við Gömlueyri eru tvö slík flök að finna.

Á Gömlueyri eru tvö skipsflök af frönskum skútum (fiskiduggur) sem strönduðu í fjörunni árið 1870. Veður var gott á tíma strandsins og komst áhöfnin öll lífs af í land. Annað skipið hét „Puebla“ frá Dieppa en hitt „Saint Joseph“ frá Portrieux. Samkvæmt heimildum er ekki ólíklegt að þessir staðir séu gamlir fiskibæir við Ermasundið.

Gamlaeyri er um það bil 5km langt sandrif. (Kort; Map.is-18.03.2020)

Það var þann 29. mars 1870 sem Ólafur Þorvaldsson (1830- ) bóndi á Litla-Hrauni opnaði bæ sinn um morguninn á leið í búið sitt þegar útlendir menn, alls 43 talsins voru staddir á jörð hans. Þeir virtust allir vera sæmilega vel á sig komnir og lítt hraktir og ómeiddir. Ljóst var að þarna voru á ferð áhöfn strandaðs skips eða skipa.

Bærinn Litlahraun er um 5 km frá strandstaðnum (Kort; Atlas, LMI.is)

Í mars mánuði 2020 flaug Axel Sölvason yfir Gömlueyri og náði neðangreindum ljósmyndum af öðru skipsflakinu. Ljósmyndir Axels sýna að skipsflakið gamla sést enn vel og er greinilegt í sandinum.

Hvort þarna sé skipsflakið af Puebla eða Saint Joseph er ekki vitað. (Þó ég giska á að þetta sé Puebla, miðað við heimildir??)

Á tíma strandsins var vitað að Saint Joseph var gamalt skip og illa farið. Puebla var nýrra skip, og heillegra eftir strandið en Saint Joseph. Reynt var að koma Puebla aftur út á sjó en án árangurs.

Uppboð á sjóreki og strandgóssi úr báðum skipunum urðu í nálægum sveitum þar sem mikið af vörum voru seldar.

Gamlaeyri – Skipsskrokkur (Ljósmynd; Axel Sölvason, mars 2020)
Gamlaeyri – Skipsskrokkur (Ljósmynd; Axel Sölvason, mars 2020)
Gamlaeyri – Skipsskrokkur (Ljósmynd; Axel Sölvason, mars 2020)

Lík reka á land í Staðarsveit

Á svipuðum tíma og á svipuðum slóðum þar sem frönsku skúturnar St. Joseph og Puebla strönduðu þá ráku á land 20 lík, í Staðarsveit, og svo mögulega eitt því til viðbótar (alls 21 lík) þó nokkuð vestar.

Samkvæmt heimildum töldu menn að þarna hefði ein önnur skúta farist eða jafnvel tvær, og að þær áhafnir hefði ekki verið eins heppnar og þær sem björguðust á land í Gamlaeyri.

Hefurðu upplýsingar sem þú getur bætt við í þessar heimildir? Hafðu samband, sendu mér töluvpóst; diveexplorer@dive-explorer.com.

Do you have any additional informations about this shipwrecks? Please contact me: DiveExplorer.

Heimildir og tenglar:

 1. Bókin Snæfellingar og Hnappdælingar, eftir Þorstein Jónsson – 2000.
 2. Tímarit.is (Þjóðólfur 16. apríl 1870)
 3. Instagram síða Harðar Hauks

Saga Pourquoi pas?

Saga skipsins og atburðanna á Mýrunum

Franska hafrannsóknarskipið Pourquoi pas? hafði stundað rannsóknir í Norður-höfum sumarið 1936. Þann 15. september var það á heimleið eftir að hafa dvalið nokkra daga í Reykjavík en förinni var fyrst heitið til Kaupmannahafnar. Þennan sama dag voru Akranesbátarnir á leið sinni að leggja net í Miðnessjó.Þeir voru komnir suður fyrir Garðsskaga þegar veðurfréttir bárust til þeirra. Það spáði fárviðri ! Þeir sneru því við einn af öðrum Á bakaleið blasti við þeim óvenjuleg sjón. Stórt tígulegt seglskip með miklum siglutrjám, margfléttuðum reiða og stórum  reykháf miðskips. Einnig hafði þetta skip hjálparvél sem notuð var í logni líkt og nú. Þetta var Pourquoi pas? Akurnesingarnir  vonuðu að skipverjar á Pourquoi pas? hefðu heyrt veðurfregnirnar.

En snúum okkur nú að skipverjum í seglskipinu.

Skipið var komið suður  móts við Garðsskaga og ógerlegt reyndist að komast suður fyrir Reykjanes. Skipverjar sneru þá við til að leita lægis en dimmviðri var mikið og  erfitt að átta sig á kennileitum. Um klukkan hálfsex á miðvikudagsmorgunn rakst skipið á sker og sáu skipverjar þá að þeir voru komnir inn á mikinn skerjaklasa og boðar allt í kring.

Leki kom að skipinu, og vélin stöðvaðist. Ætluðu skipverjar þá að fara að nota dælurnar, en þær gengu ekki. Voru þá undin upp segl, stórsegl og fokka. En nú sentist skipið í öldurótinu svo að segja af einu skerinu á annað uns það rakst á skerið Hnokka í Straumfirði, af meira afli en áður.

Það varð ketilsprenging við áreksturinn og brotnaði framstefni skipsins, svo að augljóst var að þessi ferð yrði ekki lengri. (Seinna var sagt svo frá að þeir hefðu villst á vitum og talið Akranesvitann vera Gróttuvitann og þess vegna haldið sig vera á allt öðrum slóðum en þeir voru). Brimið hreinlega gekk yfir skipið. Reynt var að setja út báta en þeir brotnuðu allir í spón. Skipverjar voru komnir í björgunarbelti eða bjarghringi og reyndu allir að haldast um borð í skipinu en þeir skoluðust fyrir borð einn af öðrum.

En nú víkur sögunni til manna í landi.

Það var morgunin eftir strandið að skipið sást úr landi. Sáust þó aðeins siglurnar og vissu menn ekki hvaða skip þetta var. Slysavarnafélaginu var þegar gert aðvart og fór varðskipið Ægir á strandstaðinn ásamt vélbátnum Ægi sem  flutti með sér björgunar-sveitina frá Akranesi , einnig fór varðskipið Hvidebjornen frá Danmörku á strandstað en það var í Hvalfirði þegar fregnin barst. Hér var um ferð upp á líf eða dauða að tefla. Engin gat vitað hvernig myndi ganga að koma 24 lesta báti eins og Ægi í gegnum brotsjóinn á Mýrunum. Stærri skipin komust ekki nær en að Þormóðsskeri, en vélbáturinn Ægir komst að slysstað, er veður lægði eða um hádegisbil. Þeir sáu að allt var um seinan, aðeins siglutré hins stóra skips, ásamt slitrum af reiðanum, stóðu upp úr brimlöðrinu, enginn maður var eftir í skipinu. Tóku skipverjar á Ægi þá til við að tína upp lík er flutu í björgunarbeltum í kringum skipið.

Aðeins einn maður komst lífs af, af 40.manna áhöfn. Var það þriðji stýrimaðurinn, Eugene Gonidec. Hann hafði verið í rúmi sínu undir þiljum er skipið strandaði. Þegar hann áttaði sig á hvað var  í gangi hljóp hann upp og náði sér í björgunarbelti en skolaðist fljótlega fyrir borð líkt og hinir. Hann var þó svo heppinn að laus landgöngubrú flaut fram hjá honum og náði hann taki á henni. Hélt hann sér í hana og barst að landi þar sem menn björguðu honum. Þessi maður var sá eini af áhöfninni sem komst lífs af. En hann var þó nær dauða en lífi er hann bjargaðist og næstum sjónlaus af sjávarseltu. En hann fékk strax góða hjúkrun og hresstist fljótt. Gonidec sagði frá því að þeir skipverjar hefðu haft með sér máf er þeir fóru frá Grænlandi fyrr um sumarið. Þeir höfðu síðan alið hann í búri. Einn af mönnunum á skipinu hét dr. Charcot og var hann mjög þekktur vísindamaður, hann lét það verða sitt síðasta verk, þegar hann sá hvernig komið var, að frelsa máfinn rétt áður en hann gekk sjálfur út í opinn dauðann. Þetta þótti mjög merkilegt enda var dr. Charcot  afar merkilegur maður.

Þegar björgunarmenn komu í land höfði 22 lík rekið upp í fjöruna. Hófu þeir handa ásamt fleirum sem fyrir voru, að safna þeim saman. Vélbáturinn Ægir flutti líkin til Akraness, en þar átti varðskipið Hvidebjornen að taka við þeim.  Vegna sjávargangs var siglt inn fyrir Viðey, og þar voru líkin sett í Hvidebjornen, sem sigldi með þau til Reykjavíkur. Þegar þangað kom voru líkin sett á bíla tvö og tvö. Öll voru líkin sveipuð frönskum fána. Þau voru flutt til Landakotskirkju þar sem fór fram sorgarathöfn.

Þann 20.september komu frönsku skipin L´Audacieux, sem var herskip og flutningaskipið L´Aude til að sækja líkin. Áður en þau voru flutt um borð var haldin minningar og kveðju athöfn um þá sem fórust og fór hún einnig fram í Landakots-kirkju. Athöfnin var mjög virðuleg og var öllum fyrirtækjum í Reykjavík lokað og fánar dregnir í hálfa stöng um allan bæ. Við athöfnina var viðstödd öll íslenska ríkisstjórnin, sendiherrar annara ríkja og fjöldi annara virðingamanna. Að kirkju-athöfninni lokni voru kisturnar bornar út, og settar í flutningabifreiðar er biðu við Túngötu, Kirkjustræti, Pósthússtræti og Tryggvagötu. Fluttu bifreiðarnar líkin að frönsku skipunum. Mörg þúsund manna fylgdu líkjunum eftir.Var síðan siglt með líkin til Frakklands þar sem þau voru jarðsett.

Pourqoui Pas? var ekki fyrsta skipið sem fórst á þessum stað.
Árið 1906 á Pálmasunnudag fórust 48 manns af tveim skipum á svipuðum slóðum og Pourquoui Pas?, 11. desember 1926 fórust þarna 23 manns af norsku skipi og fleiri hræðileg slys hafa orðið þar í gegnum tíðina.

Heimildir og greinar:

 • Morgunblaðið (Minn staður – Siglir með fólk að strandstað Pourqoui pas?) mánudaginn 31. júlí 2006·        
 • Morgunblaðið (Sjóslys – Harmleikurinn við Mýrar) sunnudaginn 10. september 2006
 • Jean-Baptiste Charcot, heimskautsfari, landkönnuður og læknir.  Höfundur Serge Kahn.

Pourquoi-Pas? (+1936)

Pourquoi-Pas ? (sem þýðir: „hvers vegna ekki?“ á íslensku) var heiti sem franski vísindamaðurinn Jean-Baptiste Charcot notaði á nokkur rannsóknarskip sín. Frægast þessara skipa var Pourquoi-Pas ? IV sem var smíðað fyrir hann í Saint-Malo og sem hann ætlaði sér að nota í annan leiðangur sinn til Suðurskautslandsins.

Smíði skipsins hófst 1907 og því var hleypt af stokkunum 18. maí 1908. Pourquoi-Pas? var 825 tonna þrímastra barkskip með gufuvél, 40 metrar að lengd og 4,2 metrar á breidd. Skipsskrokkurinn var allur styrktur með stál- og sinkþynnum. Á skipinu var gríðarlega hár strompur og það hýsti þrjár fullbúnar rannsóknarstofur og bókasafn.

Síðasta ljósmyndin sem tekin var af Pourquoi-Pas? Hún var tekin út á sjó hinn 15. september 1936 af yfirmanni á íslenska varðskipinu Ægi. Svarti reykurinn bendir til að kolin hafi verið léleg.

Friðlýsingin á flakinu

Skipið telst vera frönsk eign, en eigandinn, Valline Charcot, sem er barnabarn Charcot´s, lítur á flak Pourquoi-Pas ? vera vota gröf og vill ekki að neitt sé snert eða tekið úr flakinu.

Pourquoi-Pas? var friðlýst þann 16. september 2003, að beiðni franska sendiráðsins, aðstandenda áhafnarinnar og Byggðasafns Borgarfjarðar.

Mynd/kort sem sýnir strandstað rannsóknarskipsins Pourquoi-Pas .

Strandstaðurinn og flak skipsins

Skipsflak Pourquoi-Pas? fannst árið 1960 af gömlum hjálmkafara. (Óþekkt, vantar meiri upplýsingar).

Leit fór aftur af stað undir stjórn fornleifafræðingsins Jean-Yves Blot árið 1984. Á tíma þeirrar leitar þá hafði gamli hjálmkafarinn verið látinn og ekki voru til upplýsingar um staðsetningu flaksins.

Flakið fannst þó eftir 2 til 3 daga leit.

(Sjá hér frétt um fyrirhugaða leit á sínum tíma í þessum link; http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2889199)

Flak Pourquoi-Pas? liggur á 12 metra dýpi á sléttum malar/grjót botni. Nokkur gróður er á flakastaðnum. Vegna sterkra strauma hefur dreifst mikið úr flakinu og liggur það á stóru svæði á víð og dreif. Margir munir hafa fundist við leit kafara á staðnum. Því miður í gegnum árin hefur verið mikið tekið úr flakinu, og hafa þeir munir glatast, eða hafa dreifst víða á milli manna. Upplýsingar hafa verið líka um að sérstakir leiðangrar hafi verið gerðir til að „stela“ úr flakinu. Frekari upplýsingar um það er þó erfitt að finna því kortlagning á flakinu fór svo seint fram og lítið skráð hvaða munir voru í flakinu.

Þó hefur Borgnesingurinn Svanur Steinarsson reynt að sinna flakinu, vernda og upplýsa og fræða áhugasama um þessa merku sögu og atburðanna sem urðu á Mýrunum og hvernig varð fyrir Pourquoi Pas?.

Kort sem sýnir staðsetningar á helstu munum og dreifingu flaksins á hafsbotni (Mynd 2013)

Mynd: Emmanuel Gavillet (heimild: http://www.pourquoi-pas.ch )
Mynd: Emmanuel Gavillet (heimild: http://www.pourquoi-pas.ch )

RÚV 17.01.2021 – ÞÁTTURINN FYRIR ALLA MUNI

Fjörutíu fórust og einn komst lífs af úr hræðilegu sjóslysi 16. september 1936. Þá fórst franska rannsóknarskipið Pourquoi-Pas? í miklu óveðri við Íslandsstrendur. Í þættinum Fyrir alla muni, sem er á dagskrá í kvöld, er rannsakað hvort stýri sem fannst og er merkt skipstjóranum tilheyrir skipinu í raun.

Franski vísindamaðurinn Jean-Baptiste Charcot var skipstjóri á Pourquoi-Pas? Skipið, sem smíðað var 1908, var þrímastra barkskip sem hýsti þrjár fullbúnar rannsóknarstofur og bókasafn. Charcot sigldi skipinu í fjölmarga rannsóknarleiðangra.

Eignaðist marga góða vini á Íslandi

Charcot lét af skipstjórn vegna aldurs árið 1925 en var áfram um borð sem leiðangursstjóri. Charcot og áhöfn hans komu oft við á Íslandi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir, bæði í Reykjavík, á Akureyri og Patreksfirði. Hann eignaðist marga góða vini hér á landi.

Sautján fundust aldrei

Skipið lenti í miklu og óvæntu óveðri út af Reykjanesi 16. september 1936. Það hraktist upp í Borgarfjörð og strandaði á skerinu Hnokka út af Álftanesi og Mýrum. Alls létust 40 manns, 23 fundust látnir og 17 var saknað og fundust aldrei. Aðeins einn einn lifði slysið af.

Kraftaverk ef stýrið er svo heillegt

Það sem eftir er af flakinu liggur enn í sjónum en ýmsir hlutir úr skipinu hafa fundist hér og þar í gegnum tíðina. Sigurður Helgi Pálmason og Viktoría Hermannsdóttir, umsjónarmenn þáttarins Fyrir alla muni, fengu ábendingu um stýri sem er í einkaeigu og mögulega er talið vera stýrið úr skipinu. Stýrið er merkilega heillegt og það mætti segja að það væri kraftaverk ef það komst svo heilt frá slysinu.

Viktoría og Sigurður komast að ýmsu áhugaverðu um örlög skipsins. Þau heimsækja meðal annars Inga Ingason sem hefur í fórum sínum stýri sem hann telur vera úr skipinu. Albert Guðmundsson afi hans fékk stýrið frá bónda sem fullyrti að það væri úr flakinu.

Rúv; Fyrir alla muni – 17.01.2021; Stýrið úr Pourquoi-Pas?

_______________________________________________

Meira hér: Saga Pourquoi-Pas?

Og svo hér líka: Könnunarleiðangur 2011

___________________________________________________

Heimildir og greinar: