Greinasafn fyrir merki: NORÐURLAND

Bláhvalur (+1930?)

Sumarið 2009 var verið að kortleggja hafsbotninn fyrir norðan Sandgerðisbótina á Akureyri. Við þá kortlagningu kom í ljós á fjölgeislamæli (e. Multibeam) skipsflak.

Kafararnir Erlendur Bogason, Gunnar Agnar Vilhjálmsson og Tómas Pálmi Pétursson köfuðu niður að flakinu sem lá á 18 til 20 metra dýpi. Skyggnið á þessum tíma var lélegt eða eingöngu um 2 metrar.

Ekki er vitað með vissu hvaða skipsflak þetta var en samkvæmt heimildum gæti þetta átt við flakið af norska gufuskipinu Bláhval sem var sökkt á þessum stað á árunum 1930 til 1940.

Kort sem sýnir staðsetningu á flakinu (Kort; Google Earth)
Sjókort sem sýnir staðsetninguna á flakinu (Kort: Navionics)

____________________________________________________________________

Heimild: Strýtan.is

Flak finnst utan við sandgerðisbótina á Akureyri

Aug 18, 2009

Við kortlagningu á botninum norðan við sandgerðisbótina á Akureyri kom í ljós skipsflak á 20 metra dýpi. Kafararnir Erlendur Bogason, Gunnar Agnar Vilhjálmsson og Tómas Pálmi Pétursson köfuðu niður að flakinu 18.08.2009. Samkvæmt heimildum sem Gústaf Njálsson hefur eftir föður sínum er hér um að ræða norska gufudamparann Bláhval sem var sökkt á þessum slóðum á árunum 1930-1940. Miðað við lýsingar Gústafs á skipinu getum við staðfest að svo sé en Bláhvalur er um 26 metra langur og um 6 metra breiður. Bláhvalur er timburskip en járnklæddur að hluta. Skyggni var lélegt á 20 metra dýpi eða um 2 metrar.

Neðansjávarmynd af flakinu (Mynd: Strýtan.is)
Kafarar skoða flakið (Mynd: Strýtan.is)

_______________________________________________________

Heimild: Akureyri.is

Dularfullt skipsflak

Í sumar var farið í dýptarmælingar norðan Sandgerðisbótar vegna staðsetningar á legu nýrrar útrásar frá fyrirhugaðri skólphreinsistöð. Útrásin verður um 500m löng og var farið í dýptarmælingarnar til að finna heppilegustu legu lagnarinnar.

Fjölgreislamynd (e. Multibeam) af kortlögðu svæði þar sem flakið kom í ljós. (Heimild: Akureyri.is)

Við mælingarnar kom í ljós skipsflak sem er um 25m langt og um 6m breitt. Á meðfylgjandi mynd má sjá staðsetningu flaksins um 150m norð-austur af Langatanga við Sílabás. Einnig fylgir stækkuð mynd.

Ekki liggur fyrir hvaða skip er um að ræða, þótt vitað hafi verið af því. Heyrst hafa kenningar um að þarna sé að ræða gufuskipið (gufudamparann) Bláhval sem sökkt var á þessum slóðum tímabilið 1930-40.

Nærmynd úr fjölgeislatæki (e. Multibeam) af flakinu. (Heimild: Akureyri.is)

Gaman væri að fá frekari upplýsingar um skipið frá lesendum, hvort um Bláhval er að ræða eða ekki. Allar ábendingar væru vel þegnar.

_________________________________________________

Heimildir og linkar:

Lati-Brúnn (+1928)

Flak Lata-Brúns fundinn

Skrokkur hákarlaskipsins Lata-Brúns er fundinn. Það var kafarinn Erlendur Guðmundsson á Akureyri sem fann hann er hann kafaði í Siglufirði 1. júlí síðastliðinn. 


Með honum í för var Pétur Davíðsson. Meðfylgjandi mynd tók Erlendur og sendi Síldarminjasafninu og sjást þar tvö af böndum skipsins sem rísa upp úr sandbotninum og móta útlínur skipsins. Fyrir þremur árum stóð safnið að leit sem gerð var að Lata-Brún í samvinnu við kafaraklúbb í Reykjavík þar sem Einar Magnús Magnússon og Árni Kópsson komu við sögu ásamt Björgunarsveitinni Strákum. 

Líkan af Lata-Brún. Smíðað af Njerði S. Jóhannssyni. (Heimasíða; siglfirdingur.is/latibrunn/)

Leitin að þessu gamla skipi bar þá ekki árangur vegna slæms skyggnis af völdum þörungagróðurs. Lati-Brúnn var eitt af fyrstu þilskipum Siglfirðinga og byggður á Eyrinni 1857 af Jóhanni Kröyer í Höfn. Hann gekk til hákarlaveiða til 1910 en eftir það notaður til síldveiða í allmörg ár og síðast var hann notaður sem slógprammi í höfninni.

Hann sökk 1928 þar sem hann lá bundinn við Svíastaurana svokölluðu syðst á Pollinum.

Staðsetning á Lata-Brún kemur heim og saman við upplýsingar frá Jörgen Hólm og Birni Þórðarsyni frá árinu 1990 og teiknað var þá á kort Síldarminjasafsins yfir fornleifar á hafsbotni Siglufjarðar.

Heimildir & greinar:

Standard – Skútan (+1917)

Standard er nafn á flaki skútu, sem kafararnir Erlendur Bogason og Öivind Kaasa, fundu á botni Pollsins á Akureyri í byrjun desember árið 1996. Erlendur telur sig hafa upplýsingar um að þetta sé skútan Standard. Hann hefur gert ýmsar mælingar á flakinu og mældist kjölurinn 55 metra langur en heildarlengd flaksins er yfir 60 metrar. Ástand flaksins er nokkuð gott miðað við þann tíma sem það hefur verið neðansjávar enda er mikið ferskvatn í pollinum og skjólgott á þessum stað.

Samkvæmt þýskum gögnum, sem til eru á skrifstofu Samherja á Akureyri, hóf þýska fyrirtækið NORDSEE síldveiðar í hringnót við Ísland sumarið 1905. Móðurskip fyrir þessar veiðar var seglskipið Standard, sem smíðað var í Bandaríkjunum árið 1876. Skipið var gert klárt í Norderham gufuskipum og fór ásamt fimm til Íslands. Gufuskipin drógu móðurskipið til Íslands og til baka aftur að lokinni sumarvertíð hér við land, sem stóð frá 15. júlí til 15. september. Móðurskipið Standard lá á Pollinum en veiðiskipin fóru á miðin og lönduðu afla sínum um borð í móðurskipið.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á árið 1914 var síldveiðum með hringnót hætt. Í byrjun stríðsins, í ágúst árið 1914, var Standard kyrrsett á Akureyri en í óveðri árið 1917 losnaði skútan frá, rak á land, skemmdist og sökk. Nú er hún einn skemmtilegasti köfunarstaður sem völ er á með sögulegan bakgrunn og auðveldu aðgengi þar sem hún liggur 70-100 metra fyrir utan Eimskipabryggjuna á Akureyri.

_____________________________________________________________________

Skútan STANDARD liggur um 70-100 metra fyrir utan Eimskipabryggjuna á Akureyri. Lítil bauja er sjáanleg þegar staðið er á bryggjunni og ef synt er að þessari bauju þá liggur spotti frá henni niður að flaki skútunnar. Spottinn endar við miðja skútuna.  

Skyggni getur verið ágætt eftir að verður hefur verið gott í einhverja daga. Skyggnið getur hinsvegar orðið lítið sem ekkert ef vindur eykst og öldurót en einnig vegna leysinga og sanddæluskipa.

Staðsetning á Skútunni í Pollinum, við Akureyri. (Mynd; Google Earth)

Óvenju mikið er af sæfíflum á skrokki skútunnar, flakið er bókstaflega þakið þeim. Þar er líka mikið af þorsk, ýsu og öðrum fisktegundum eins og jafnan í skipsflökum hér við land. Skútan er ein af skemmtilegri köfunarstöðum við landið og vel þess virði að heimsækja ef reynsla og réttindi eru í samræmi við kröfur staðarins. Áður nefndur spotti endar við miðja skútuna á um það bil 16 metra dýpi. Hins vegar eru 27 metrar niður á botninn sem skútan liggur á. Innviði skútunnar eru engin enda var hún bara notuð til flutninga og því engar vistaverur um borð.

ATH! FÁ ÞARF SÉRTAKT LEYFI HAFNARYFIRVALDA Á AKUREYRI TIL AÐ FÁ AÐ KAFA Í SKÚTUNA.

GPS hnit: 65° 40.970’N – 18° 4.947’W

Heimildir & linkar:

Tordenskjold (+19??)

Laugardaginn 21. apríl 2012 fann kafarinn, Erlendur Guðmundsson flak Tordenskjolds á botni Siglufjarðar þar sem það hefur legið í nærri 90 ár.

Um skeið hefur verið samvinna milli Erlends og Síldarminjasafnsins um að grafast fyrir um staðsetningu flaksins.

Heimasíða:
http://www.navalhistory.dk/Danish/Skibene/T/Tordenskjold(1854).htm#Fotos

Þótt Tordenskjold hafi verið freigáta búin til styrjalda þá endaði hann „lífdaga“ sína ekki síður sem nokkurs konar síldarminjar, hálfgrafnar í sand og litríkan sjávargróður.


Hér sést m.a. freigát­an Tor­d­enskjold á ol­íu­mál­verki danska lista­manns­ins Vil­helms Arnesen (1865-1948). Af vefn­um Sigl­f­irðing­ur

En eins og áður hefur komið fram hér á fréttavefnum, var sá gamli dreginn yfir Atlantsála eftir að hann lauk hernaðarhlutverki sínu og var notaður sem lagerskip í síldarhöfninni frægu – rúinn öllum fyrri búnaði og virðuleika.


Búist til köfunar, Laufey, Þorbergur og Erlendur – Ljósm: ÖK

Skipið var sjósett 1852, og var það 50.4 m. á lengd og 12.9 m. á breidd, 1.453 tonn og bar allt að 80 fallbyssur. Stærð flaksins kemur heim og saman við þessi mál og mörg önnur söguleg atriði staðfesta að þarna liggur Tordenskjold.                                                               

Hluti skutsins rís upp úr sandinum – ljósm. Erlendur Guðmundsson

Erlendur Guðmundsson er atvinnukafari og býr á Akureyri. Eitt helsta áhugamál hans er neðansjávarljósmyndun og kvikmyndun. Hann var hér með konu sinni, Laufeyju Böðvarsdóttur, og syni þeirra, Þorbergi, sem einnig kafaði við þessa leit.                                                                                                                                                           Ekki verður gefið meira upp að sinni um staðsetningu flaksins en að það liggur norðan Eyrarinnar (Siglufjarðareyrar/Þormóðseyrar/Hvanneyrar).

Næsta skref í athugun Síldarminjasafnsins á Tordenskjold er að fá kafara Fornleifaverndar ríkisins til að skoða skipsleifarnar. 

Heimildir og tenglar: