Greinasafn fyrir merki: skipstrand

Talisman EA 23 (+1922)

Talisman EA 23 var þilskip (Kútter) ætlaður til fiskveiða og flutnings, m.a. á fiskiafurðum.

Talisman lagði frá Akureyri 18.-19. mars 1922, og var ferðinni heitið til Vestmannaeyja með 200 tunnur af beitisíld. Frá Akureyri fór skipið til Siglufjarðar.

Talisman strandar við Súgandafjörð

Talisman fór frá Siglufirði fimmtudaginn 23 mars. kl. 21:30 og hreppti stórhríð um miðjan dag. í Húnaflóanum fékk það áfall; brotnaði þá ofan af káetunni og hana fyllti að sjó. Skipið hélt síðan áfram vestur fyrir land. Um laugardagsnótt sáu skipverjar vita og álitu það vera Straumnesvita.

Beygðu þeir þá að landi og ætluðu að hleypa inn á Ísafjarðardjúp. En vitinn, sem þeir sáu var ekki, á Straumnesi heldur vestan megin Súgandafjarðar og af þessum orsökum sigldu þeir til skipbrots upp á Sauðanes, milli Súgandafjarðar og Önundarfjarðar, Súgandafjarðarmegin.

Þar gekk óbrotinn sjór á land. Skipið brotnaði þegar allmikið og gerðu sjö af skipverjunum tilraun að komast á stórsiglunni til lands. 4 af þeim komust lífs af, og heilir á húfi en 3 fórust. Þeir 9 sem eftir voru á skipsfjöl fórust allir, því skipið brotnaði mjög fljótt.

Alls fórust því 12 menn en fjórir komust af.

Kort sem sýnir strandstað Talisman, við Kleifavík. Skipbrotsmennirnir komust í skjól á Stað, sem var um 30 mínútna ganga frá strandstað. (Kort/heimild: Tíminn 1963)
Strandstaður Talisman (rauður kassi) og svo Staður (rauður hringur) þar sem skipbrotsmennirnir komust í skjól. Kálfeyri (blár kassi) er þar sem Einar Guðbjartsson komast í land. (Loftmynd; map24 – Atlas kort)

Um þilskipið Talisman

Talisman (þýðing; „verndargripur“) var þilskip (kútter), 40 til 50 smálesta (46 rúmlesta) fiskiskip. Smíðaður í Englandi 1876. Keyptur frá bretlandi um aldamótin (1900). Talismann var eign Ásgeirs Péturssonar, (keyptur 1917) útgerðarmanns á Akureyri. Hafði Ásgeir endurbætt skipið eftir að það hafi komið í hans eigu, meðal annars bætt við hjálparvél, 40 hestafla Hein-vél.

Rætt var um það á þeim tíma að skipið hafi verið gott sjóskip, og ætið aflasælt.

Skipslíkan af Talisman EA 23. (Heimild, heimasíða Þórhallur Sófusson Gjöverad)

Þeir fjórir sem lifðu af strandið

  • Einar Guðbjartsson, Grenivík (Hann komst til Kálfeyrar eftir strandið)
  • Jakob Einarsson, Akureyri (Viðtal í Vísi 23.12.1966)
  • Jóhann Sigvaldason, Hörgárdal
  • Arinbjörn Árnason úr Möðruvallasókn, háseti

Þeir sem fórust í sjóslysinu

Nöfn þeirra sem fórust í sjóslysinu, alls 12 manns. En lík þeirra allra fundust, á víð og dreifð um kletta og sker. Sumir þeirra höfðu drukknað, aðrir fórust úr vosbúð og kulda.

  • Mikael Guðmundsson (f.1886-d.1922), Skipstjóri Talisman, frá Hrísey, búsettur á Akureyri.
  • Þorsteinn Jónsson, Grímsnesi, 2. stýrimaður
  • Stefán Arngrímsson, Akureyri, vélarstjóri
  • Stefán Jóhansson, Nunnuhóli í Möðruvallarsókn, matreiðslusveinn
  • Sigurður Þorkellsson, Siglufirði
  • Jóhannes Jóhannesson, Kúgili í Þorvaldsdal
  • Benedikt Jónsson, Akureyri (líkið af honum fannst fyrst)
  • Sæmundur Friðriksson, Glerárþorpi
  • Ásgeir Sigurðsson (fóstursonur skipseiganda)
  • Sigtryggur Davíðsson, Dalvík
  • Bjarni Emilsson, Hjalteyri
  • Gunnar Vigfússon, Siglufirði
Mikael Guðmundsson frá Hrísey (f.1886 – d.1922) var skipstjóri Talismann EA23. En hann fórst í þessu hörmulega sjóslysi þann 25.mars 1922.
Mjög vel gert myndband sem Eyþór Edvardsson gerði um Talisman EA 23 og um atburðinn í Súgandafirði. Hlekkur hér;

Strandstaðurinn og flakið af Talisman

Vantar upplýsingar!

Hefurðu frekari upplýsingar um þennan atburð? Hefurðu upplýsingar um strandstað Talisman eða eitthvað um flakið? Hafðu samband við mig, sendu mér tölvupóst; diveexplorer@dive-ecxplorer.com, eða skrifaðu hér á síðuna.

Upplýsingar, tenglar og heimildir:

Gamlaeyri – Mýrar Snæfellsnes (+1870)

Af og til stingst upp úr sandinum leifar gamalla tíma, og þá eru gömul skipsströnd/skipsflök meðtalin.

Á Snæfellsnesi, á Mýrunum við Gömlueyri eru tvö slík flök að finna.

Á Gömlueyri eru tvö skipsflök af frönskum skútum (fiskiduggur) sem strönduðu í fjörunni árið 1870. Veður var gott á tíma strandsins og komst áhöfnin öll lífs af í land. Annað skipið hét „Puebla“ frá Dieppa en hitt „Saint Joseph“ frá Portrieux. Samkvæmt heimildum er ekki ólíklegt að þessir staðir séu gamlir fiskibæir við Ermasundið.

Gamlaeyri er um það bil 5km langt sandrif. (Kort; Map.is-18.03.2020)

Það var þann 29. mars 1870 sem Ólafur Þorvaldsson (1830- ) bóndi á Litla-Hrauni opnaði bæ sinn um morguninn á leið í búið sitt þegar útlendir menn, alls 43 talsins voru staddir á jörð hans. Þeir virtust allir vera sæmilega vel á sig komnir og lítt hraktir og ómeiddir. Ljóst var að þarna voru á ferð áhöfn strandaðs skips eða skipa.

Bærinn Litlahraun er um 5 km frá strandstaðnum (Kort; Atlas, LMI.is)

Í mars mánuði 2020 flaug Axel Sölvason yfir Gömlueyri og náði neðangreindum ljósmyndum af öðru skipsflakinu. Ljósmyndir Axels sýna að skipsflakið gamla sést enn vel og er greinilegt í sandinum.

Hvort þarna sé skipsflakið af Puebla eða Saint Joseph er ekki vitað. (Þó ég giska á að þetta sé Puebla, miðað við heimildir??)

Á tíma strandsins var vitað að Saint Joseph var gamalt skip og illa farið. Puebla var nýrra skip, og heillegra eftir strandið en Saint Joseph. Reynt var að koma Puebla aftur út á sjó en án árangurs.

Uppboð á sjóreki og strandgóssi úr báðum skipunum urðu í nálægum sveitum þar sem mikið af vörum voru seldar.

Gamlaeyri – Skipsskrokkur (Ljósmynd; Axel Sölvason, mars 2020)
Gamlaeyri – Skipsskrokkur (Ljósmynd; Axel Sölvason, mars 2020)
Gamlaeyri – Skipsskrokkur (Ljósmynd; Axel Sölvason, mars 2020)

Lík reka á land í Staðarsveit

Á svipuðum tíma og á svipuðum slóðum þar sem frönsku skúturnar St. Joseph og Puebla strönduðu þá ráku á land 20 lík, í Staðarsveit, og svo mögulega eitt því til viðbótar (alls 21 lík) þó nokkuð vestar.

Samkvæmt heimildum töldu menn að þarna hefði ein önnur skúta farist eða jafnvel tvær, og að þær áhafnir hefði ekki verið eins heppnar og þær sem björguðust á land í Gamlaeyri.

Hefurðu upplýsingar sem þú getur bætt við í þessar heimildir? Hafðu samband, sendu mér töluvpóst; diveexplorer@dive-explorer.com.

Do you have any additional informations about this shipwrecks? Please contact me: DiveExplorer.

Heimildir og tenglar:

  1. Bókin Snæfellingar og Hnappdælingar, eftir Þorstein Jónsson – 2000.
  2. Tímarit.is (Þjóðólfur 16. apríl 1870)
  3. Instagram síða Harðar Hauks