Greinasafn fyrir merki: VIÐEYJARSUND

HMCS Skeena (+1944)

Heimild; Wikipedia.is/skeena

HMCS Skeena var kanadískur tundurspillir sem strandaði við Viðey 24. október 1944. Skeena var olíuknúið gufuskip, smíðað árið 1930. Skipið tók þátt í innrásinni í Normandí og fleiri hernaðaraðgerðum.

Kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaður (Ljósmynd; Skafti Guðjónsson, mbl.is 24.10.20014)

Skipið losnaði frá akkeri en það var þá á milli Engeyjar og Viðeyjar. Skipið rak þá upp að vesturenda Viðeyjar og strandaði þar.

Fimmtán áhafnarmeðlimir fórust en 198 var bjargað. Skipverjum var skipað að yfirgefa skipið og fóru 21 skipverjar þá á tveimur björgunarflekum en þá rak inn eftir Kollafirði og björguðust sex þeirra.

Skeena á strandstað í Viðey. (Heimild; Progress is fine.)

Skipun um að yfirgefa skipið var afturkölluð og héldu skipverjar sem eftir voru kyrru fyrir þangað til þeim var bjargað.

Einar Sigurðsson útgerðarmaður og skipstjóri á Aðalbjörgu RE 5 tókst að flytja erlent björgunarlið út í Viðey með því að brimlenda innrásarpramma frá bandaríska hernum í Sandvíkinni. Skipið var selt í brotajárn.

Kanadíski tundurspillirinn HMCS SKEENA

Minnismerki um strandið er á vesturenda Viðeyjar en þar er minningarskjöldur og önnur skrúfa skipsins og upplýsingaskilti.

_________________________________________________

Sagt er að við köfun á strandstað Skeenu megi finna allskyns muni frá tíma strandsins.

Minnisvarði í Viðey um strand Skeena.

_______________________________________________

Heimildir og linkar

Vélbátur (+19??)

Lítill mótorbátur fannst fyrir tilviljun þegar Hafmynd (Teledyne) var að prófa kafbátinn Gavia á Viðeyjarsundi skammt frá Skarfaskeri. Reyndist þetta vera 8 metra langur stálbátur, afturbyggður. Heiti bátsins er ekki vitað, eða hvenær eða hvers vegna hann sökk. Hann liggur uppréttur á 8 metra dýpi.

Tvígeislamælingar í leiðangri þann 05. júní 2015. (Sónargögn; Arnar Þór Egilsson. dagsett 05.06.2015)
Tvígeislamælingar í leiðangri þann 05. júní 2015. (Sónargögn; Arnar Þór Egilsson. dagsett 05.06.2015)
Kortamynd af staðsetningu vélbátsins. (Mynd: Google Earth – 2002)
Sjókort/ dýptarkort af svæðinu kringum Skarfasker (Kort: Navionics – 04.10.2019)

Gps hnit vélbáts er: 64° 09,602 – 21° 52, 875 (Gæti verið einhver skekkja)

__________________________________________________________________

Heimild: Scuba.is

Bátsflak finnst á Viðeyjarsundi

Bátsflak hefur fundist á Viðeyjarsundi. Bátsflakið kom fram fyrir tilviljun á sónartæki kafbáts sem fyrirtækið Hafmynd er að þróa.
Flakið fannst sl.haust þegar kafbáturinn var við leit á svæðinu.

Síðustu helgi tók scuba.is þátt í leiðangri til að rannsaka flakið nánar. Kafarar í leiðangrinum voru Vilhjálmur Hallgrímsson, Einar Magnús Magnússon, Sveinn Magnússon, Brynjar Gestsson og Árni Ingason.

Flakið liggur á botninum nálægt Skarfaskeri í Viðeyjarsundi á um 16 metra dýpi. Flakið er af afturbyggðum, opnum stálbát sem er rúmir 8 metrar á lengd og tæpir 4 metrar á breidd. Flakið er vélbátur og hefur skrúfuhlíf verið utan um skrúfuna. Skrúfan fannst þó ekki og er stefnisrörið tómt.

Leiðangursmönnum sem köfuðu niður að flakinu er ekki kunnugt um, um hvaða bát er að ræða eða hvers vegna hann fórst.

Eins og sést á meðfylgjandi sónarmynd er flakið frekar heillegt. Flakið er að miklu leiti sokkið í leirkenndan botninn að framanverðu en afturhlutinn stendur vel upp úr botninum. Yfirbyggingin að aftanverðu er einnig úr stáli. Á henni er einn gluggi sem snýr aftur. Yfirbyggingin er vel opin að framaverðu og má leiða líkum að því að gengið hafi verið inn í hana að framanverðu frá dekkinu, í gegn um tréhurð sem nú er horfin.

Tvígeislamæling (e. side scan sonar) úr kafbátnum Gavia (Heimild; scuba.is / Teledyne.com)

Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir:

  • Scuba.is

Tryggvi – prammi (+1967)

Dýpkunarpramminn Tryggvi sökk á sundunum milli Viðeyjar og Engeyjar árið 1967. Varð eitthvert óhapp til þess að pramminn sökk, en átta manns voru um borð í prammanum. Komust þeir allir í björgunarbáta. Voru þeir í vinnu við dýpkun Sundahafnar þegar slysið varð til.

Pramminn hvílir nú á u.þ.b 14 metra dýpi. Rétt fyrir norðan pramman liggur pípulögn sem var lögð mörgum árum síðar.

Tvígeislamæling (Side Scan Sonar mynd) af prammanum Tryggva þar sem hann liggur. Fyrir norðan hann liggur pípulögn.
Sjókort sem sýnir staðsetninguna á Tryggva. Dýpi á þessum slóðum er um 20 metrar. (Kort; Navionics)

GPS staðsetning: 64° 10, 011 – 21° 53,121

Heimildir og tenglar:

Kútter Ingvar (+1906)

Kútter Ingvar ferst við Viðey. 20 manns farast.

Alla fyrstu vikuna í apríl 1906 hafði geysað stórviðri sunnanlands, og átti það eftir að versna. Fréttir bárust um að Kútter Ingvar, sem var í eigu Duus verslunar hefði sést suður í Garðsjó og hefði laskast í óveðrinu. Skemmdir hefðu orðið á seglbúnaði skipsins.

Kútter Ingvar í Kaupmannahöfn .

Skömmu fyrir hádegi þann, 7. apríl, sást til fiskiskips frá Reykjavík. Töldu menn að þar væri komin Kútter Ingvar, en sökum veðurs var erfitt að sjá það með vissu. Þó voru allar líkur á því þar sem seglbúnaður þess skips var laskaður.

Áhöfn Ingvars ætlaði fyrst að sigla þá venjulegu leið milli Örfirseyjar og Engeyjar inn á Reykjavíkurhöfn, en náði því ekki sökum skemmds seglbúnaðar. Hraktist skipið norður með Engey, en síðan reyndu menn að sigla inn sundið milli Engeyjar og Viðeyjar. En sú leið er hættuleg skipum sökum grynninga og skerja syðst í sundinu, og þar fyrir innan. Það sem gerði þessa siglingu enn hættulegri var veðurofsinn og brimið á sundinu.

Þegar Kútter Ingvar var á móts við Viðeyjartún, steytti það á blindskeri. Talið er að skipverjar hafi reynt að kasta út akkeri til þess eins að halda skipinu föstu. Fólk í Laugarnesi og Viðey sáu þegar skipið strandaði.

Á þessum tíma var bátur í Viðey en sökum veðurs treystu menn sér ekki til að leggja í björgunarleiðangur. Þá sömu sögu var að segja frá Reykjavík, en þar urðu fjöldi fólks vitni að þessum hörmungum en gátu ekkert gert til að koma mönnunum til bjargar. Svo fór sem fór að nánast allir skipverjar enduðu í sjónum og týndu lífi sínu. Hafði einn skipverjanna náð að binda sig við siglutréð, en eftir 3 klukkustunda baráttu við hafið og veðraöflin fórst hann einnig.

Í þessu slysi dóu 20 manns, og urðu fjöldi fólks sjónarvottar af því án þess að geta nokkuð að gert. Mikið var rætt í kjölfar þessa slyss, og komu þá upp hugmyndir að hafa tiltækann björgunarbúnað eða bát.

Kútter Ingvar var gert til fiskveiða, 77 smálestir að stærð.  Kútter Ingvar var ekki eina skipið sem fórst þennan dag, en skipin „Emilie“ og „Sophie Wheatley“ (einnig minnst á í færslu um Balholm) hurfu einnig út á sjó. Með þessum þremur skipum fórust 68 manns, sem verður að teljast mikil blóðtaka á einum degi.

Mikið er til af heimildum um Ingvarsslysið, þeir sem hafa áhuga að kynna sér þessa sögu geta nýtt sér eitthvað af krækjunum sem eru hér neðar á síðunni.

Hjallasker séð frá Viðey. (DE-23.7.22)
Akkeri kútter Ingvars – í baksýn strandstaðurinn, Hjallasker. Í fjarska sést í Reykjavík, og Engey. (DE-23.7.22)

Leitin að flaki Kútter Ingvars, akkerið finnst

Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi hafði forgöngu fyrir því að koma af stað leit að flakinu. Örlygur fékk í lið með sér Stefán S. Skúlason, kafara við leitina. Örlygur hafði sankað að sér gögnum og upplýsingum um atburðina og hófu skipulagða leit á slysstaðnum. Eftir einhverja leit og köfun á vettvangi fannst akkeri er talið vera úr flaki Kútter Ingvars. Akkerið fannst u.þ.b. 80 árum eftir atburðina.

Fundarstaður akkeris við Hjallasker.

Þessu akkeri var komið fyrir í Viðey, og settur á það minningarskjöldur, til þess að minnast þessa sorglega slyss, sem og annarra sem urðu þennan dag. Stendur nú akkerið á ströndinni í Viðey og snýr að vettvangi slyssins, Hjallaskeri.

Ekki eru frekari heimildir fyrir því hvort eitthvað fleira hafi fundist af flakinu eða hvort reynt hafi verið að leita eitthvað frekar. Eftir slysið rak á fjörur í Viðey timbur úr Ingvari og voru fjalirnar m.a. notaðar til byggingar á íbúðarhúsi í eynni.

Þar sem nú eru meira en 100 ár liðin frá þessum atburði er flakið og allir mögulegir gripir eða munir sem tengjast því friðaðir skv. þjóðminjalögum.

Mynd úr lesbók mbl frá árinu 1986 þegar akkerinu var komið á þurrt land. Á myndinni eru Hjördís Þórisdóttir, Stefán S. Skúlason kafari og aðstoðarmaður hans, Óttar Sigurðsson.
Akkeri Kútter Ingvars í Viðey.
Minningarskjöldur í Viðey um slysið.

Hefurðu frekari upplýsingar… komdu þeim á framfæri.. hafðu samband við mig: diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir: