Greinasafn fyrir merki: vísindaleiðangur

Spánverjavígin – Reykjafjörður (+1615)

SPÁNVERJAVÍGIN 1615

Sumarið 1615 höfðu þrjú spænsk skip stundað hvalveiðar við landið og strandað í Reykjarfirði á Ströndum þann 21. september. Eftir strandið voru þeir fimm daga skipreika meðfram strandlengjunni en enduðu loks í Jökulfjörðum þar sem leiðir þeirra skildust. Hluti hópsins sigldi til Dýrafjarðar þar sem þeir voru drepnir 5. október við Skaganaust yst á norðanverðum Dýrafirði. Annar hópur komst inn í Ísafjarðardjúp og í Æðey.

Þegar fréttist að Baskarnir væru í Æðey safnaði sýslumaðurinn Ari Magnússon í Ögri að sér miklu liði og fór á skipum út í eyjuna. Þegar þangað var komið voru þar fyrir aðeins fimm menn og voru þeir allir vegnir. Hinir höfðu farið út á Sandeyri á Snæfjallaströnd að skera hval. Þangað héldu þá menn Ara í Ögri og luku verki sínu. Víg þessi mæltust misjafnlega fyrir, en Ari sýslumaður hélt mikla sigurhátíð með liði sínu eftir þá landhreinsun sem hann þóttist hafa framkvæmt. Þess ber að geta, Ara til varnar, að á þessum tíma hafði konungur gefið út þá tilskipun að erlendir sjómenn væru réttdræpir hvar sem til þeirra næðist ef þeir yrðu uppvísir af ránum og óspektum.

Strandamaðurinn Jón lærði Guðmundsson virðist hafa mótmælt drápunum og fyrir það þurft að hrökklast af Vestfjörðum undan Ara vegna skrifa sinna um málið. Örfáir Spánverjar sem lifðu af komust til Vatneyrar við Patreksfjörð þar sem þeir höfðu vetursetu áður en þeir komust undan með enskum sjómönnum vorið 1616.

Árið 1615 í september gerðist sá atburður í Reykjarfirði hinum syðri á Ströndum að þrjú hvalveiðiskip frá Spáni rak á land undan hafís í ofsaveðri. Höfðu þeir legið inn á firðinum. Skipverjar voru Baskar 82 eða 83 að tölu. Lentu þeir í deilum við bændur og hafði það raunar einnig komið fyrir árið áður. Skipbrotsmenn fréttu af haffæru skipi að Dynjanda í Jökulfjörðum og sigldu á átta skipsbátum sem notaðir voru til hvalveiðanna norður fyrir Hornstrandir og í Jökulfirði. Ekki fannst þeim skútan á Dynjanda merkilegt skip en tóku hana samt til nota. Um 50 skipverjar sigldu skipinu úr Jökulfjörðum og suður með Vestfjörðum. Tveir skipsbátar með 14 mönnum fóru til Súgandafjarðar og áfram þaðan að Fjallaskaga í Dýrafirði. Höfðu þá verið send boð norðan úr Árneshreppi á Ströndum um Spánverjana um alla Vestfirði. Höfðu þeir einnig verið lýstir réttdræpir. Dýrfirðingar fóru að Spánverjunum á Fjallaskaga og drápu þá alla utan einn sem komst undan. Hann bjargaðist í Dynjandaskútuna og hélt hún til Patreksfjarðar og hertóku Spánverjar hús kaupmanna þar og höfðu í þeim vetursetu. Síðan hertóku þeir enska fiskiskútu út á miðum er þeir reru til fiskjar. Logn var og komst skútan því ekki undan. Einnig náðu þeir öðru ensku fiskiskipi síðar og sigldu til Spánar er byr gafst. Þarna komust undan 50 manns.

Tveir skipsbátarnir með 18 mönnum héldu inn til Æðeyjar í Ísafjarðardjúpi og settust þar að. Ekki veittust þeir að heimamönnum að öðru leyti en því að fá hjá þeim mjólk og eldivið. Reru þeir til fiskjar um Djúpið og skutluðu hvali sér til lífsviðurværis. Sýslumaður Ísfirðinga, Ari Magnússon í Ögri, safnaði að sér miklu liði eftir að hafa lýst skipbrotsmennina réttdræpa á þingi í Súðavík. Þegar svo fréttist í Ögur að Spánverjar hefðu skutlað hval og hluti þeirra væri staddur við hvalskurð á Sandeyri var látið til skarar skríða gegn þeim. Fimm Spánverjar voru í Æðey og voru þeir allir drepnir og líkin flett klæðum, bundin saman og varpað í sjóinn. Rak þau seinna í Fæti, nesinu milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar vestan Djúps. Síðan hélt liðið að Sandeyri í hvassviðri og var varla fært upp á land. Sendi Ari eftir séra Jóni Þorleifssyni út að Snæfjöllum. Jón þessi var faðir Snæfjalladraugsins sem áður er getið. Þarna var líka staddur séra Jón Grímsson í Árnesi og heimaprestur í Ögri.

Dugði nú ekki minna en þrír prestar Ara til fulltingis. Slógu þeir síðan hring um bæinn. Voru nú allir Spánverjarnir felldir 13 að tölu. Líkin voru flett klæðum, skorin rauf í háls þeirra til að spyrða þau saman og að því búnu sökkt í sjó. Eftir afrek þetta hélt Ari sýslumaður liðsmönnum sínum sigurfagnað í Ögri af víni Spánverjanna. Mæltust manndráp þessi misjafnlega fyrir á Íslandi. Sagt er að Spánverjar þeir er undan komust hafi komist til Spánar og sagt yfirvöldum frá meðferð Íslendinga á hinum útlendu skipbrotsmönnum. Hafi þá komið til tals að senda flota herskipa til Íslands til hefnda.

Spánverjavígin á Youtube (trailer). Spænskur þáttur um atburðina á Íslandi 1615.

Leitir að Baskaflökunum í Reykjafirði:

Hér eru greinar og upplýsingar um leiðangra sem hafa verið farnir til þess að freista þess að finna flökin í Reykjafirði. Sjá hér: Leitir að flökunum í Reykjafirði

Heimildir og greinar: