Greinasafn fyrir merki: WWII (1939-1945)

HMCS Skeena (+1944)

Heimild; Wikipedia.is/skeena

HMCS Skeena var kanadískur tundurspillir sem strandaði við Viðey 24. október 1944. Skeena var olíuknúið gufuskip, smíðað árið 1930. Skipið tók þátt í innrásinni í Normandí og fleiri hernaðaraðgerðum.

Kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaður (Ljósmynd; Skafti Guðjónsson, mbl.is 24.10.20014)

Skipið losnaði frá akkeri en það var þá á milli Engeyjar og Viðeyjar. Skipið rak þá upp að vesturenda Viðeyjar og strandaði þar.

Fimmtán áhafnarmeðlimir fórust en 198 var bjargað. Skipverjum var skipað að yfirgefa skipið og fóru 21 skipverjar þá á tveimur björgunarflekum en þá rak inn eftir Kollafirði og björguðust sex þeirra.

Skeena á strandstað í Viðey. (Heimild; Progress is fine.)

Skipun um að yfirgefa skipið var afturkölluð og héldu skipverjar sem eftir voru kyrru fyrir þangað til þeim var bjargað.

Einar Sigurðsson útgerðarmaður og skipstjóri á Aðalbjörgu RE 5 tókst að flytja erlent björgunarlið út í Viðey með því að brimlenda innrásarpramma frá bandaríska hernum í Sandvíkinni. Skipið var selt í brotajárn.

Kanadíski tundurspillirinn HMCS SKEENA

Minnismerki um strandið er á vesturenda Viðeyjar en þar er minningarskjöldur og önnur skrúfa skipsins og upplýsingaskilti.

_________________________________________________

Sagt er að við köfun á strandstað Skeenu megi finna allskyns muni frá tíma strandsins.

Minnisvarði í Viðey um strand Skeena.

_______________________________________________

Heimildir og linkar

Max Pemberton RE-278 (+1944)

Eitt mesta mannfall á Íslandi árið 1944 varð þegar togarinn Max Pemberton RE 278 „Maxinn“ fórst með allri áhöfn þann 11. janúar 1944.

Um borð í togaranum voru 29 manns. Skipsflakið hefur aldrei fundist.

Kort sem sýnir staðsetningu á Malarrifi á suðurhluta Snæfellsnes. (Loftmynd: Loftmyndir.is)
Max Pemberton RE-278

Áhöfnin hafði verið við veiðar suður af Malarrifi, Snæfellsnesi. Vont veður var á ofangreindum tíma og talið er að hann hafi ofhlaðinn og yfirvigt því ástæða hvarfsins. Þess ber þó að geta að á þessum tíma stóð seinni heimstyrjöldin yfir og vitað var að þýskir kafbátar voru á ferli á Faxaflóa. En þar sem skipsflakið hefur aldrei fundist þá er ómögulegt að segja hver ástæðan er fyrir hvarfi togarans.

Heilmikið skarð var skorið í íslenskt samfélag á þessum árum en fleiri skipsskaðar voru fleiri á árinu 1944.

Max Pemberton RE 278 1939-1941 (Heimild: Sarpur / Þjóðminjasafn Íslands)

Þeir sem fórust með skipinu voru (29 manns):

Pétur A. Maack skipstjóri, Reykjavík, 51 árs,
 Pétur A. Maack, 1. stýrimaður, Reykjavík, 28 ára,
 Jón Sigurgeirsson, 2. stýrimaður, Reykjavík, 31 árs,
 Þorsteinn Þórðarson, 1. vélstjóri, Reykjavík, 51 árs,
 Þórður Þorsteinsson, 2. vélstjóri, Reykjavík, 19 ára,
 Valdimar Guðjónsson matsveinn, Reykjavík, 46 ára,
 Gísli Eiríksson bátsmaður, Reykjavík, 49 ára,
 Guðmundur Þorvaldsson bræðslumaður, Hafnarfirði, 44 ára,
 Guðmundur Einarsson netamaður, Reykjavík, 45 ára,
 Guðni Kr. Sigurðsson netamaður, Reykjavík, 50 ára,
 Sigurður V. Pálmason netamaður, Reykjavík, 49 ára,
 Sæmundur Halldórsson netamaður, Reykjavík, 33 ára,
 Aðalsteinn Árnason háseti, Seyðisfirði, 19 ára,
 Ari Friðriksson háseti, Látrum, Aðalvík, 19 ára,
 Arnór Sigmundsson háseti, Reykjavík, 52 ára,
 Björgvin H. Björnsson háseti, Reykjavík, 28 ára,
 Guðjón Björnsson háseti, Reykjavík, 17 ára,
 Gunnlaugur Guðmundsson háseti, Reykjavík, 26 ára,
 Halldór Sigurðsson háseti, Jaðarkoti í Villingaholtshreppi, Árnessýslu, 23 áraHlöðver Ólafsson háseti, Reykjavík, 22 ára,
Jens Konráðsson háseti, Reykjavík, 26 ára,
Jón Þ. Hafliðason háseti, Reykjavík, 28 ára,
Jón M. Jónsson háseti, Reykjavík 29 ára,
Jón Ólafsson háseti, Keflavík, 39 ára,
Kristján Halldórsson háseti, Innri-Njarðvík, 37 ára,
Magnús Jónsson háseti, Reykjavík, 23 ára,
Benedikt R. Sigurðsson kyndari, Reykjavík, 19 ára,
Hilmar Jóhannesson kyndari, Reykjavík, 19 ára,
Kristján Kristinsson aðstoðarmatsveinn, Reykjavík, 14 ára.

Minningarathöfnin fór fram í Dómkirkjunni þann 3. febrúar 1944.

Pétur Maack skipstjóri (Heimild: Fálkinn 21.01.1944)
 Þorsteinn Þórðarson, 1. vélstjóri (Heimild: Fálkinn 21.01.1944)
(Heimild: Fálkinn 21.01.1944)
(Heimild: Fálkinn 21.01.1944)

Viðbótar heimildir og upplýsingar; 12.11.2020

Þýskur kafbátur?

Að Max Pemberton hafi farist á Faxaflóa af völdum þýsks kafbáts er svo ekki ósennilegt miðað við þennan tíma. Síðast heyrðist frá áhöfninni á hinum „venjulega“ sambandstíma togaranna um morgunin þann 11. janúar (1944) klukkan 07:30 (Þriðjudagur). Samkvæmt þeim upplýsingum/heimildum þá var Max Pamberton út af Malarrifi á leið til Reykjavíkur (#1 „Lónum innan við Malarrif“) (#2 „Lónaði innan við Malarrif“). Síðan heyrðist ekkert meir frá áhöfninni á næsta kalltíma. Gera má ráð fyrir að þessu að skipið hafi verið komið suður fyrir Malarrif.

Veður?

Veðurskilyrði á þeim tíma, tíma hvarfsins hafði breytt um átt og komin norð-austan kaldi og fjögur vindstig (kaldi = 4 vindstig, sem telst ekki mjög mikið). Miðað við vindátt og vindstig á þessum stað, Faxaflóa og þá líka miðað við heimildir á umræddum tíma var sjór nokkuð sléttur á Faxaflóa. Sama má segja um norðanverðan Faxaflóa, nema smávægileg bára á sunnanverðum Flóanum.

Því er talið útilokað að Max Pemberton hafi farist sökum veðurs.

Ketilsprenging?

Önnur hugmynd kom upp að ketilsprenging hafi orsakað hvarfið, en það var talið útilokað líka. Þar sem vaktaskipti vélstjóra hafi verið um klukkan 06:00 og þar hafði verið að störfum vanur vélstjóri og kyndari.

Tundurdulf ?

Í lok seinni heimstyrjaldinnar tilkynntu Þjóðverjar um að kafbátar Nasista hefðu lagt 2 tundurduflasvæði. Annað svæðið hafði verið sunnan Kolluál, en hitt fyrir norðan Kolluál.

Sjóskipið Max Pemberton

Sagt var að skipið hafi verið afar gott sjóskip og skipstjórinn Pétur maack hafi verið í flokki afburða skipstjóra. Skipinu hafði verið breytt og lestin verið stækkuð. Í stríðinu hafði verið sett brynvörn á brúna, 1150 kg að þyngd, og á móti bætt við 14 tonnum í botninn. Þetta hafði gert það að verkum að skipið varð enn betra sjóskip.

Það var smíðað árið 1917 og því 26 ára gamalt þegar hann hvarf. Skipið var upphaflega 320 lestir. Aðaleigandi skipsins var Halldór Þorsteinsson skipstjóri í Reykjavík.

Max Pemberton (Heimild; Morgunblaðið 1984)

Leitin

Leit var hafin á fimmtudeginum og fram til laugardags. Leitað var úr lofti að skipinu, eða braki úr því en án árangurs. Annað hvort hefur skipið farist mjög hratt eða það horfið á slóðum utan leitarsvæðis.

Fréttagrein í Vísi 14. janúar 1944, leitin að Max Pemberton.

Skipsflakið Max Pemberton

Hvar flakið af Max Pemberton er að finna veit enginn. Að minnsta kosti ekki að svo stöddu.

Hafdýpið á þeim slóðum sem talið er að flakið hafi farist er á bilinu 100 til 250 (300) metra dýpi? Hvort sjómenn hafi „lent“ í festum á þessum slóðum er alls ekki ólíklegt, en amk. eru ekki komnar neinar heimildir eða upplýsingar um að einhver hafi fengið „festu“ í Max Pemberton.

Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu þá samband við mig, höfum söguna á hreinu; sendu mér tölvupóst á diveexplorer@dive-explorer.com

If you have any information’s about the trawler Max Pemberton, some data, info, or anything you want to share please contact me; diveexplorer@dive-explorer.com.

_______________________________________________

Heimildir & Linkar

Brodrene (+1942)

Gunnar A Birgisson fann her prammann Brodrene um 15 metrum frá gömlu steinbryggjunni við Hvítanes í Hvalfirði. Notaður var tvígeislamælir (e. side scan sonar) við leitina. Að loknum fundinum köfuðu Gunnar A Birgisson og Anton Smári Sigurjónsson í flakið af Brodrene og staðfestu það.

Mynd: Gunnar A. Birgisson (Tveigeislamynd (Side Scan Sonar / Humminbird)
Sjókort Hvalfjörður / Hvítanes. ( Kort; Navionics )

____________________________________________________________________

1942 December 26 – Harbour duty vessel BRODRENE (R, 1922), sunk in collision, Hvalfiord, Iceland

____________________________________________________________________

Heimildir & tenglar:

Arctic Convoy QP-13 (+1942)

Í júlí 1942 var skipalestin QP-13 að koma frá norður Rússlandi, hafnarborginni Arkhangelsk. Veður út af Vestfjörðum var nokkuð slæmt, mikil þoka og þar af leiðandi lítið skyggni. Þegar þarna var komið voru skipin í skipalestinni 19 talsins.

Norður út frá Straumnesi (Grænlandssundi) lá tundurdulfabelti, sem hafði verið lagt af Bretum, til þess að stöðva eða granda kafbátum Nasista í seinni heimstyrjöldinni. Skipalestin QP-13 villtist, og fann ekki réttu leiðina í gegnum tundurtuflabeltið og sigldi inn í það. Úr varð eitt mesta sjóslys í Íslandssögunni. 6 skip fórust með 240 manns.

Skipin sem fórust og sukku í þessu slysi voru:

  • HMS NIGER – Minesweeper (UK-Royal Navy) 149 fórust
  • FREIGHTER HYBERT (USA) 17 fórust
  • FREIGHTER HEFFRON (USA)
  • FREIGHTER MASSMAR (USA)
  • RODINA (USSR) 39 fórust

Skip sem skemmdust:

  • AMERICAN ROBIN
  • FREIGHTER EXTERMINATOR
  • FREIGHTER JOHN RANDOLPH
Kort sem sýnir staðsetningar á tundurduflabeltum sem voru lögð út frá Straumnesi, af Bretum, í seinni heimstyrjöldinni. (Kort; Lhg.is)
Sjókort sem sýnir staðsetningar á flökum skipalestarinnar QP-13. (Sjókort)
HMS Niger (N73) var hluti af QP-13 og sökk (Mynd; Wikipedia)

__________________________________________________________

Grein eftir Friðþór Eydal sem birtrist í Morgunblaðinu 5 júlí 2014.

Í dag er vígður minnisvarði í Bolungarvík um mesta sjóslys og björgunarafrek Íslandssögunnar. Nærri 240 manns fórust og rúmlega 250 björguðust við hættulegar aðstæður eftir að skipalest bandamanna sigldi inn í breskt tundurduflabelti skammt norður af Straumnesi að kvöldi 5. júlí 1942.

Slysið hefur ekki hlotið mikla almenna athygli hér á landi enda um erlend skip að ræða og ríkjandi fréttabann í hringiðu heimsstyrjaldarinnar síðari. Áhafnir þriggja fylgdarskipa sem veittu skipalestinni vopnaða vernd á siglingunni unnu einstætt björgunarafrek og mótorbáturinn Vébjörn frá Ísafirði hélt einnig til aðstoðar þrátt fyrir mikla hættu.

Eftirfarandi er stutt frásögn af slysinu sem byggð er á sama efni í bók minni Vígdrekar og vopnagnýr sem út kom árið 1997, ásamt frekari könnun á skjalfestum gögnum og öðrum samtímaheimildum.

Bandamenn héldu uppi umfangsmiklum birgðaflutningum til hafna í Norður-Rússlandi í síðari heimsstyrjöldinni. Til ársloka 1942 sameinuðust skipalestir í Hvalfirði til siglingar á þessari hættulegu siglingaleið. Nafntogaðasta skipalest sögunnar, PQ-17, hélt úr Hvalfirði 27. júní 1942 og sama dag lét skipalestin QP-13 úr höfn við Hvítahaf á vesturleið. Mættust þær 2. júlí og skömmu síðar hófust linnulausar árásir á PQ-17 sem lyktaði með því að 20 kaupskipanna 32 sem lögðu upp var grandað.

Ferð QP-13 var viðburðalítil framan af en undan Langanesi skildi leiðir skipa sem héldu til Skotlands og 19 skipa sem stefndu með Norðurlandi til Hvalfjarðar. Hvasst var af norðaustan með litlu skyggni og erfitt að ná staðarákvörðun. Stuðst var við dýptarmælingar og kl. rúmlega fimm síðdegis 5. júlí sýndist staðsetning geta verið um 21 sjómílu norð-norð-vestur af Horni. Mynduðu skipin tvær samsíða raðir til siglingar um 7 sjómílna breiða rennu með landinu innan við breskt tundurduflabelti út af Straumnesi.

Um kl. 18 var talið að skipin færu að nálgast Horn og var stefnunni breytt til suðvesturs. Tveimur klukkustundum síðar tilkynnti forystuskipið, H.M.S. Niger, að sést hefði til lands að Horni. Skyldi þegar breytt um stefnu til vesturs fyrir Kögur og Straumnes.

40 mínútum síðar tilkynnti herskipið að landsýnin hefði verið borgarísjaki og skyldi stefnunni aftur breytt til suðvesturs til þess að sleppa við tundurduflin. Örskömmu síðar sá áhöfn annars fylgdarskips hvar Niger sundraðist í sprengingu og svo til samtímis lentu fimm kaupskip einnig á tundurduflum og sukku.

Bresku togararnir Lady Madeleine og St. Elstan hófu þegar leit að kafbátum og vörpuðu djúpsprengjum. Skipstjóri frönsku korvettunnar Roselys ályktaði réttilega að skipin hefðu lent á tundurduflum og hóf þegar björgun skipbrotsmanna og togararnir einnig skömmu síðar. Var það ekki auðunnið verk í norðaustan brælu og slæmu skyggni innan um stórhættuleg segultundurdufl.

Einstætt björgunarafrek

Björgunarstarfið tók um sex og hálfa klukkustund og náði Roselys 179 skipbrotsmönnum. Heimildum ber ekki saman um heildartölu þeirra sem bjargað var en benda til að þeir hafi verið a.m.k. 254. Er það eitt mesta björgunarafrek við Íslandsstrendur og hlutu áhafnir skipanna þriggja verðskuldaða viðurkenningu fyrir frammistöðuna.

Atburðir kvöldsins fóru ekki fram hjá íbúum í Aðalvík sem fylgdust með útvarpsfréttum af talningu í alþingiskosningunum sem fram fóru sama dag. Var hald manna að mikil sjóorrusta stæði skammt undan landi. Síldarbátar á leið til Siglufjarðar höfðu leitað vars í Aðalvík vegna brælunnar og fékk yfirmaður bresku ratsjárstöðvarinnar á Sæbóli vélbátinn Vébjörn frá Ísafirði til þess að halda til björgunar. Náðust nokkur lík sem sett voru um borð í Roselys um nóttina. Ritaði breska flotastjórnin Halldóri Sigurðssyni skipstjóra þakkarbréf fyrir þátt áhafnarinnar á Vébirni í björgunaraðgerðunum.

Auk H.M.S. Niger fórust rússneska skipið Rodina og bandarísku skipin Hybert, Heffron, Massmar og John Randolph. Framhluti Lyberty-skipsins John Randolph, fannst á reki út daginn eftir og var dreginn til Reykjavíkur. Flutningaskipið Exterminator sem sigldi undir Panamafána náði til hafnar af eigin rammleik þrátt fyrir miklar skemmdir. A.m.k. eitt annað skip hlaut minni skemmdir.

Lík rekur af hafi

Slysið var versta áfall bandamanna við Íslandsstrendur í styrjöldinni. Alls munu nærri 500 manns hafa verið á skipunum sex sem fórust, þar á meðal nokkrar konur og börn á Rodyna auk fjölmargra skipbrotsmanna af skipum sem sökkt hafði verið í fyrri skipalestum. Með Niger fórust 146, þ.ám. tugir manna af breska beitiskipinu Edinburgh en einungis átta mönnum var bjargað. Heimildir benda til þess að a.m.k. 253 hafi farist.

Eitt lík rak í Aðalvík og nokkur á Ströndum vikurnar eftir slysið. Nokkur til viðbótar fundust á reki og var eitt flutt til Bíldudals og fjögur til Ísafjarðar og jarðsett þar. Sex lík sem rak á svæðinu frá Barðsvík að Bjarnarnesi voru greftruð í Furufirði ásamt „beinum úr hermannslíki“ sem fundust rekin þar um haustið. Eitt lík rak í Guðlaugsvík við innanverðan Húnaflóa, annað í Skálholtsvík og eitt á Kolbeinsá. Voru þau flutt til greftrunar í Reykjavík. Björgunarskip settu nokkur lík á land í Reykjavík og voru a.m.k. 16 bandarískir sjómenn og sjóliðar af áðurnefndum skipum jarðsettir þar auk þriggja úr áhöfn Niger.

Af munum og búnaði líkamsleifanna á Ísafirði, Bíldudal og í Furufirði var talið mega ráða að þær væru af Bandaríkjamönnum. Að styrjöldinni lokinni stóð Bandaríkjastjórn fyrir sameiningu líkamsleifa fallinna hermanna og sjómanna í stórum grafreitum á nokkrum stöðum í Evrópu og víðar um heim. Voru allar líkamsleifar á Íslandi, Grænlandi og í Kanada fluttar heim til Bandaríkjanna árið 1947. Líkið sem rak í Aðalvík var af ungum breskum sjóliða af H.M.S. Niger og var hann grafinn í Staðarkirkjugarði en fluttur í breska hermannagrafreitinn í Reykjavík eftir stríð.

___________________________

Uppfært: 25.07.2021
Neðansjávarmyndir af skipsflökum úr skipalestinni QP-13

Flikr síða Gunnars Birgissonar; Myndir síðan 2010.

___________________________

Hefurðu frekari upplýsingar? Hafðu samband við mig, sendu mér póst: diveexplorer@dive-explorer.com

Do you have more information? Something to share? Please contact me; diveexplorer@dive-explorer.com

___________________________

Heimildir og linkar:

Goðafoss (+1944)

Laust eftir hádegi þann 10. nóvember 1944 var Goðafossi, farþegaskipi Eimskipafélags Íslands, sökkt af þýskum kafbáti skammt utan við Garðskaga. Með skipinu fórust 43, fjórtán skipverjar og tíu farþegar auk 19 skipverja af olíuskipinu Shirvan sem áhöfn Goðafoss hafði bjargað stuttu áður. Aðeins 19 var bjargað, þar af einum skipverja af Shirvan. Þetta atvik markar djúp spor í íslenska siglingasögu enda mesta blóðtaka sem Íslendingar hafa orðið fyrir af völdum stríðsátaka. Svavar Hávarðsson leit til baka og rifjaði upp atburðarásina þennan örlagaríka dag.

Strax í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari lýstu Þjóðverjar yfir bannsvæði umhverfis Bretlandseyjar. Upphaflega markmiðið var að knýja Breta til uppgjafar með því að koma í veg fyrir birgðaflutninga til landsins. Þjóðverjar hófu strax kafbátaárásir á skip og hjuggu þeir djúp skörð í kaupskipaflota bandamanna, sérstaklega á fyrstu árum styrjaldarinnar.

Úlfahjörð

Kafbátahernaður Þjóðverja var áhrifaríkastur þegar þeir söfnuðust saman í svokallaðar úlfahjarðir og réðust á skipalestir. Undir forystu reyndra kafbátaforingja gátu þessir hópar kafbáta valdið ótrúlegum skaða. Í september 1940 réðust til dæmis kafbátar á skipalest sem taldi 41 skip og sökktu 12 þeirra og í október sama ár var ráðist á skipalestina SC-7 þar sem aðeins 15 skip af 35 náðu höfn í Bretlandi. Þjóðverjar misstu ekki einn einasta kafbát í þessum tveim árásum.

Árið 1944 var vitað að senn drægi að lokum heimsstyrjaldarinnar. Hernaðarstyrkur bandamanna óx dag frá degi á meðan iðnaðarmáttur og stríðsframleiðsla Þjóðverja dróst saman. Þjóðverjar voru á undanhaldi á helstu vígstöðvum og það átti einnig við um úthöfin. Seint á árinu 1943 höfðu þýskir kafbátar hætt að gera hópárásir og tóku að sigla einir. Ein ástæðan var að eldsneytisskortur var farinn að há Þjóðverjum og í stað þess að flakka um úthöfin í hópum lágu þeir við strendur og réðust á skip þegar þau komu af hafi. Innsiglingarleiðir stærri hafna var eitt þeirra uppáhalds fylgsni.

Skipalestin UR-142

Í byrjun nóvember árið 1944 var Goðafoss á heimleið með skipalestinni UR-142 eftir tæplega mánaðar ferð til New York með viðkomu í Loch Ewe á Skotlandi. Goðafoss, sem hafði áfallalaust verið í siglingum öll stríðsárin, var forystuskip lestarinnar en auk þess voru fjögur önnur kaupskip og fimm vopnaðir togarar. Engin herskip fylgdu skipalestinni sem var ekki óvenjulegt. Vopnaðir togarar sáu yfirleitt um varnir þeirra skipalesta sem íslensk skip sigldu með. Þegar skipalestin nálgaðist Ísland um kvöldið 9. nóvember lenti hún í slæmu veðri og ákvað skipstjórinn á Goðafossi, Sigurður Helgason, að bíða af sér veðrið.

Þar sem Goðafoss var forystuskip skipalestarinnar var komið merkjum til hinna skipanna um að gera slíkt hið sama. Þegar birti af degi kom í ljós að skipin hafði rekið í sundur og voru ekki lengur í sjónfæri hvert við annað. Í grennd við Goðafoss voru þó þrjú af skipunum, eitt kaupskip og tvö fylgdarskip. Þar sem skipstjórinn á Goðafossi vissi ekki hvar hin skipin voru sigldi hann ásamt hinum skipunum þremur hefðbundna leið fyrir Garðskaga á leið til Reykjavíkur. Ekki leið á löngu þangað til Goðafoss sigldi fram á tvo björgunarbáta af einu af skipunum úr lestinni, breska olíuskipinu Shirvan, sem brann við sjónarrönd. Í bátunum tveim voru 20 skipsbrotsmenn, margir þeirra illa særðir. Hlynnt var að þeim þegar þeir voru komnir um borð og þar fór fremstur í flokki Friðgeir Ólason læknir sem var farþegi um borð í Goðafossi ásamt eiginkonu sinni og þremur ungum börnum.

Svartur fáni á lofti

Þýski kafbáturinn U-300 undir stjórn foringjans Fritz Heins hafði grandað breska olíuskipinu fyrr um morguninn. Ólíkt því sem tíðkaðist ákvað kafbátaforinginn að bíða í nágrenninu, sennilega til að tryggja að olíuskipið sykki en einnig í von um að fleiri skip bæri að. Stuttu eftir að skipsbrotsmennirnir voru komnir um borð drógu fylgdarskipin upp svartan fána, en það var merki um það að kafbátur væri í grennd. Einn skipsverja á Goðafossi var á þessari stundu að sækja fatnað fyrir skipsbrotsmennina í einn af fjórum björgunarbátum skipsins en var litið af tilviljun yfir hafflötinn á bakborða. Þar sá hann því sem líktist hvítri rák sem nálgaðist skipið hratt. Um aðeins eitt gat verið að ræða.

Sjö metra langt tundurskeyti kafbátsins U-300 skall á skipið rétt aftan við miðja bakborðssíðuna og sprakk af svo miklu afli að það lyftist upp af haffletinum. Hávaðinn og titringurinn sem fylgdi sprengingunni var yfirþyrmandi og skipið kastaðist 35 til 40 gráður yfir í stjórnborða. Sumir farþeganna misstu meðvitund við höggið, aðrir, sérstaklega þeir sem voru í vélarrúmi og neðan þilja, létu líklega lífið samstundis.

U-300 var af gerðinni VII-C.

Goðafoss sekkur

Risavaxið gat kom á bakborðssíðu Goðafoss sem einn eftirlifenda hefur lýst sem svo að strætisvagn hefði komist fyrir í því. Skipið sökk hratt, að talið er á sjö til tíu mínútum. Menn sem horfðu á hildarleikinn frá Garðskagavita sögðu að fyrst hafi skipið sigið rólega niður að aftan en síðan hafi það farið lóðrétt niður með stefnið á undan.

Eftir að skipið var horfið sjónum sáu þeir ekkert á sjónum, enga lífbáta og ekkert fólk, aðeins fylgdarskipin sem leituðu kafbátarins. Þeir sem lifðu sprenginguna af áttu um fátt að velja. Farþegar og áhöfn söfnuðust saman á bátadekkinu og reyndu að losa um björgunarbáta og fleka. Þegar tekist hafði að koma bát og flekum frá skipinu varð hver og einn að reyna að bjarga sér. Það var erfitt að komast á flekana með því að stökkva af skipinu, svo að flestir þurftu að henda sér í sjóinn og synda að rekaldi til að halda sér á floti.

Sökkvandi skipið var dauðagildra og allir vissu eftir tíðar björgunaræfingar að nauðsynlegt var að komast töluvert frá skipinu til að eiga það ekki á hættu að sogast niður með því þegar það sykki. Þetta var erfitt í öldurótinu og ekki síst fyrir þá sem voru meira eða minna slasaðir. Einhverjum tókst það þó.

Eftirlifendur

Óttar Sveinsson skrifaði bók um árásina á Goðafoss árið 2003 og talaði þá við nokkra eftirlifendur slyssins. Lýsingar þeirra eru eina leiðin til að nálgast skilning á því sem gerðist á þeim mínútum sem tók Goðafoss að sökkva og klukkutímunum áður en þeim sem lifðu var bjargað.

Einn hásetinn á Goðafossi þurfti að stökkva í sjóinn og tók með sér lítinn dreng þar sem hann sá hvergi foreldra hans. „Það þurfti afl til að komast frá soginu. Allt í einu missti ég takið á drengnum. Aðeins ein hugsun komst að. Bjarga sér, bjarga sér, komast – upp, upp, upp. Anda. Ég saup sjó, brimsaltan sjó, og fann til yfirþyrmandi óþæginda í munni, nefi og eyrum.“ Annar skipverji sagði frá því að ömurlegast hafi honum þótt að horfa á fólkið sem flaut um allan sjó innan um brak úr skipinu. Erfiðast var að hlusta á neyðaróp barnanna og geta ekkert gert til að bjarga þeim. Fram hjá honum flaut einn breski sjómaðurinn af Shirvan. „Þetta var maðurinn sem hafði fengið eldgusu framan í sig, augun farin, nefið brunnið, hendur og allt.

Ég sá þennan mann koma fljótandi fram hjá okkur í sjónum, liggjandi á bakinu. Andlitið var skelfilega brunnið en vesalings maðurinn var enn á lífi þarna í köldum sjónum.“ Annar skipverji komst á fleka. „Vinnufélagar mínir voru þarna í kringum mig, ýmist lifandi, látnir eða í bráðum lífsháska. Það var svo stutt síðan við höfðum verið að búa okkur undir heimkomu en nú vorum við blautir og kaldir á björgunarfleka meðan breskir korvettumenn jusu djúpsprengjum frá borði.“ Skipsbrotsfólkið beið allan eftirmiðdaginn eftir hjálp. Það vissi að björgun gat dregist því gæsluskipin höfðu skipanir um að einbeita sér að því að finna kafbátinn, fólkið varð að bíða.

Milli fjögur og fimm um daginn var fólkinu loks bjargað, flestum af gæsluskipinu Northern Reward. Eftir að um borð var komið hélt leitin að kafbátnum áfram í ellefu klukkustundir. Klukkan hálf þrjú aðfaranótt 11. nóvember kom Northern Reward inn á Reykjavíkurhöfn með skipsbrotsmennina. Þaðan voru flestir fluttir á Sjúkrahúsið í Laugarnesi.

Leitin að Goðafossi

Flakarannsóknarfélag Íslands, sem er félagsskapur atvinnukafara, áhugakafara, sérfræðinga og söguáhugamanna, hefur það sem eitt af sínum meginmarkmiðum að finna flakið af Goðafossi.

Tilgangur félagsins er ekki að kafa niður á flakið, heldur einfaldlega að staðsetja það. Félagsmenn eru meðvitaðir um hversu miklu máli flakið skiptir fjölmarga, og mikilvægi þess að staðsetja það þess vegna.

Flakinu verður sýnd sama virðing og um grafreit eða kirkjugarð sé að ræða. Ætlunin er ekki að hreyfa við neinu enda gengur það gegn siðareglum félagsins.

Landhelgisgæslan hefur einnig leitað flaksins sem sýnir að þessari sögu lýkur ekki fyrr en flakið er fundið. Það má segja að Goðafoss nái ekki höfn fyrr. ■

Helstu heimildir:

  • Óttar Sveinsson, Árás á Goðafoss.
  • Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir, Í skotlínu.
  • Tómas Þór Tómasson, Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945
Mynd: Goðafoss

At 14.59 hours on 10 Nov, 1944, the Godafoss from the storm scattered convoy UR-142 was hit by one LUT torpedo from U-300 off Reykjanes and sank within seven minutes. The ship had stopped against orders to rescue survivors from the burning Shirvan when torpedoed. 14 crew members and ten passengers, among them a family of five (two young doctors returning from Harvard and their 3 children) were lost. 43 (24 dead and 19 survivors). (uboat.net)

Mynd: Goðafoss

Frétt Vísi; 28.11.2020

Furðulegt að flakið af Goðafossi finnist ekki

Í grænum bragga í Garðinum reynir Ásgeir Hjálmarsson skipstjóri að varpa ljósi á það hvar Goðafossi, skipi Eimskipafélagsins, var sökkt í síðari heimsstyrjöld. Hann sýnir líkan af Goðafossi og húsum í Garðinum, sem hann er búinn að smíða, til að fá sem nákvæmasta staðsetningu á atburði, sem reyndist mesti mannskaði Íslendinga í stríðinu.

Í þættinum Um land allt kemur fram að Garðmenn telja sig vita nokkurn veginn út frá lýsingum sjónarvotta og skipverja sem björguðust hvar staðurinn er. Samt hefur flakið ekki fundist.

„Þetta er bara óskiljanlegt,“ segir Ásgeir.

Ásgeir reynir að leysa gátuna um það hvar Goðafoss sökk árið 1944. Skipið var 70 metra langt en talið hafa rekið afturhlutann niður í hafsbotninn þar sem var 38 metra dýpi þannig að stefnið stóð lóðrétt upp úr. (Mynd: Arnar Halldórsson, vísir 28.11.2020)

Garðskagi geymir mikla stríðssögu. Þar gerði breski herinn fyrsta flugvöll Suðurnesja og þar má enn sjá móta fyrir flugbrautinni.

Hér var flugbraut breska hersins á Garðskaga, 1.050 metra löng og 90 metra breið. (Mynd: Arnar Halldórsson, vísir 28.11.2020)

Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og tenglar:

Leitin að Goðafossi

Telur sig hafa fundið flak Goðafoss í Faxaflóa

Tómas J. Knútsson, sportkafari og forsvarsmaður Bláa hersins, segist sannfærður um að hann hafi fundið flak Goðafoss, sem sökkt var í síðari heimsstyrjöldinni á Faxaflóa eftir sprengjuárás þýsks kafbáts. Tómas hefur komist í samband við fjársterkan aðila og nú er beðið eftir réttu tækifæri til að kafa niður að flaki skipsins með neðansjávarkvikmyndabúnaði og mynda skipið. Myndirnar verða síðan notaðar í kvikmynd um Goðafoss sem landsþekktur þáttagerðarmaður er að vinna að.

Skipið Goðafoss

„Fyrir rúmum 20 árum kviknaði áhugi hjá mér að leita að E/S Goðafossi. Síðasta sjóferð þessa skips var mikil harmsaga og margir fórust með skipinu. Fjölmargir sjónarvottar voru að atburðinum er skipið sökk eftir sprengjuárás þýsks kafbáts. Í nokkur ár safnaði ég að mér vitnisburði nokkurra manna og geymdi þá með mér,“ sagði Tómas J. Knútsson, kafari í samtali við Víkurfréttir.

Tómas hefur kafað á þeim slóðum sem skipið fórst og á miðjum áttunda áratug síðustu aldar kafaði Tómas niður að flaki skips sem bæði var illa farið og á miklu dýpi. „Ég var sannfærður um að þetta væri skipið. Köfun á þessum slóðum er hins vegar stórhættuleg sökum strauma, dýpis og myrkurs,“ segir Tómas.

En hvað varð til þess að nú skal ráðist í að kvikmynda flakið neðansjávar?

„Undanfarin ár hefur áhugi minn á flakinu vaknað á ný og þá sérstaklega að ljósmynda það eða jafnvel kvikmynda. Það var síðan fyrir tæpum tveimur árum sem þekktur sjónvarpsmaður kom að máli við mig, þar sem hann var að vinna að kvikmynd um Goðafoss. Með okkur tóks samkomulag um að ég skyldi finna styrktaraðila sem gæti hjálpað okkur með leigu á neðansjávarkvikmyndabúnaði fyrir verkið. Þá væri hægt að klára myndina og sýna hana hér heima“.

Tómas sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri staðan sú að fjársterkur aðili hafi sýnt verkefninu áhuga. „Nú bíður áhugahópur minn eftir rétta tækifærinu til að ljúka verkefninu og vonandi tekst það sem allra fyrst. Megi Guðs blessun hvíla yfir þeim sem fórust þennan örlagaríka dag árið 1944,“ sagði Tómas J. Knútsson í samtali við Víkurfréttir.

_____________________________

Segir ekki búið að finna Goðafoss –
10.09.2016

Íslenskur kafari sem stýrt hefur leit að flakinu af Goðafossi segir það rangt að búið sé að finna flakið,  eins og þýskur kafari heldur fram.

Þýski kafarinn Thomas Weyer heldur því fram í þýska tímaritinu Spiegel og Morgunblaðið greinir frá, að flakið af Goðafossi sé fundið. Goðafossi var sökkt af þýskum kafbáti úti fyrir Garðskaga í nóvember árið 1944.  Weyer hefur tekið þátt í leitinni að Goðafossi með Gunnari Birgissyni sem leitað hefur flaksins síðan árið 1997. Gunnar segir fullyrðingu Weyers um að skipið sé fundið ekki rétta.

„Nei alls ekki. Það er nú þannig að við fundum eitthvað sem leit út fyrir að geta verið kannski jafnvel flak eða eitthvað á botninum, en svo þegar var kafað þarna niður þá fannst ekki neitt. Hvort það sé tækjabilun eða hvað það er sem um ræðir eða hvort þetta sé bara einhver draugur í tækjunum,  þá er hann ekki fundinn. Við höfum ekkert í höndunum sem í rauninni getur sagt það að hann sé fundinn. Það er ekkert áþreifanlegt, það eru engin haldbær sönnunargögn. Við sáum þarna eitthvað í þessum tækjum, en þegar við skönnuðum yfir aftur þá fundum við ekki neitt, þegar var kafað niður þá var ekki neitt. Þannig að þetta er bara eiginlega hálfgerð vitleysa“ segir Gunnar.

Hann segist hafa boðið Weyer inn í verkefnið á sínum tíma og að það skipti Weyer mestu málið að geta sagst hafa fundið Goðafoss. Gunnar segir ekki hægt að útiloka neitt, en alls ekki sé hægt að fullyrða að flakið sé fundið. Hann segir að leitin muni halda áfram.

Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og tenglar:

Northrop N-3PB (+1941?)

Í ágúst 2002 fann Landhelgisgæsla Íslands flak af flugvél í Skerjafirði. Fannst flakið er sjómælingabátur Landhelgisgæslunnar var við fjölgeislamælingar í firðinum. Er kafarar landhelgisgæslunnar fóru niður á flakið og hófu frekari rannsóknir á því kom í ljós að um var að ræða norska her-sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB. Þessar flugvélar voru notaðar í seinni heimstyrjöldinni en norðmenn voru með aðstöðu í Skerjafirði á stríðsárunum.

NORTHROP N-3PB

Þessar flugvélar eru sjaldgæfar, en ekki voru margar framleiddar í stríðinu. Í kringum 1970 fannst ein slík herflugvél í Þjórsá. Henni var lyft upp, gerð upp og príðir hún núna safn í flugminjasafni í Gardemeri í Noregi.  Einu merkingarnar sem hafa fundist á vélinni en það eru norskir einkennislitir undir vængjum og númer á olíukæli. Svo virðist vera að flugvélin hafi farist í lendingu því að svokallaðir flapsar eru niðri, skrúfublöð bogin og flot rifin af. Flugvélar þessarar gerðar gátu borið um 2000 pund af sprengjum, þ.e. tundurskeytum, djúpsprengjum eða venjulegum sprengjum. Þar sem flugvélin var í notkun á stríðstímum þegar hún fórst verður að reikna með sprengjum í eða við flakið. Köfunarbann er í gildi bæði vegna hættu á sprengjum og þar sem líkur benda til að um vota gröf sé að ræða.

Fornleifavernd ríkisins hefur gefið út friðlýsingarskjal þar sem flak Northrop flugvélarinnar sem fannst í Skerjafirði 27. ágúst 2002 er friðlýst.  Friðlýsingin felur í sér köfunarbann yfir flakinu og í 20 metra radíus í kringum það.  Friðlýsingin gildir þar til annað verður ákveðið af Fornleifavernd ríkisins í samráði við Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneyti. 

Multibeam mynd(Fjölgeislamæling)

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa haft yfirumsjón með köfun við flakið og rannsókn á því. Þeir hafa aflað sér margvíslegra heimilda um það m.a. frá Northrop Gruman verksmiðjunum, flugsafninu í Kaliforníu og breska og norska sendiráðinu.

Eins og áður hefur komið fram fannst vélin með fjölgeislamæli sem bandaríski sjóherinn lánaði Landhelgisgæslunni síðasta sumar.  Einu merkingarnar sem hafa fundist á vélinni eru norskir einkennislitir undir vængjum og númer á olíukæli.  Flugvélin var í notkun á stríðstímum og því má reikna með sprengjum í eða við flakið.  Ekki hefur verið staðfest hvort áhöfn vélarinnar fórst er hún sökk á sínum tíma og hvort líkamsleifar eru í vélinni.

Kort sem sýnir staðsetninguna á flugvélaflakinu.

Landhelgisgæslan hefur haldið áfram rannsókn á flugvélarflakinu sem fannst í síðustu viku í Skerjafirði og hefur m.a. verið í sambandi við norska sendiráðið og Northrop flugvélaverksmiðjurnar í Kaliforníu sem smíðuðu vélina. Einnig hefur Landhelgisgæslan fengið gögn frá upplýsingamiðstöð NATO varðandi vopnabúnað flugvélarinnar.

Mynd: GAVIA AUV (Teledyne.com)

Landhelgisgæslan hefur staðfest að flakið er af sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB og virðist hún hafa farist í lendingu því að svokallaðir flapsar eru niðri, skrúfublöð bogin og flot rifin af. Ekki hefur enn tekist að staðfesta hvort líkamsleifar eru í vélinni en staðfest er að flugstjórnarklefi er lokaður.

Samkvæmt norskum heimildum gætu verið lík þriggja manna í flakinu en Landhelgisgæslan á von á upplýsingum varðandi það frá breskum yfirvöldum þar sem flugvélin var undir breskri yfirstjórn á stríðsárunum.

Þrátt fyrir ítarlega leit hefur ekki tekist að finna aðrar merkingar á vélinni en norska einkennisliti undir vængjum og númer á olíukæli sem sent hefur verið til Northrop í Kaliforníu.

Flugvélar þessarar gerðar gátu borið um 2000 pund af sprengjum, þ.e. tundurskeytum, djúpsprengjum eða venjulegum sprengjum. Þar sem flugvélin var í notkun á stríðstímum þegar hún fórst verður að reikna með sprengjum í eða við flakið.

Köfunarbann verður áfram í gildi bæði vegna hættu á sprengjum og þar sem líkur benda til að um vota gröf sé að ræða. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að fylgst sé með umferð yfir flakinu, að sögn Landhelgisgæslunnar.

Mynd: GAVIA AUV (Teledyne.com)

Heimildir:

  • LHG.is
  • Köfun.is
  • Minjavernd Íslands
  • Teledyne.com (GAVIA AUV)

Minden (+1939)

Það er margt á huldu er varðar flakið af þýska flutningaskipinu S.S. Minden. Það sem vitað er með nokkurri vissu er að skipið var á leið frá Rio de Janero, Brazilíu, til Þýskalands árið 1939. Áhöfn skipsins ákvað að sökkva því eftir að það var vart við bresk herskip í nágrenninu (HMS Calypso & HMS Dunedin) og vildu ekki að bretar gætu náð skipinu… og þá farminum?

Orðrómur/heimildir? eru fyrir því að Nazistar hafi tekið úr bönkum í suður-Ameríku gullforða sinn (4 tonn?) og verið að flytja hann til Þýskalands í upphafi stríðsins. Adolf Hitler hafi fyrirskipað um að skipinu yrði sökkt frekar en að lenda í óvinahöndum. Skipinu var sökkt 24. september 1939.

Áhöfninni úr SS Minden var bjargað af HMS Dunedin, og þaðan var siglt í höfn í Scapa Flow í Orkneyjum.

_______________________________________________________________________

Heimild: RÚV – 14.04.2017 (IS)

Umhverfisstofnun fékk það staðfest frá lögmanni breska fyrirtækisins Advanced Marine Services strax í maí síðastliðnum að fyrirtækið er á eftir gulli og/eða silfri sem það telur vera um borð í þýska flutningaskipinu SS Minden, sem liggur á hafsbotni 120 sjómílur suðaustur af Íslandi.

Staðsetning SS MInden. 120 sjómílur frá Íslandi.

Nánast tilviljun réði því að Landhelgisgæslan veitti rannsóknarskipinu Seabed Constructor athygli segir verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Á meðan flugvélin Sif sé erlendis sé eftirlit með efnahagslögsögunni  ófullnægjandi.

Líklegt að þetta sé mynd af S.S. Porta, sem var systurkip S.S Minden. Mynd: Wikipedia

Landhelgisgæslan hætti í gær afskiptum af Seabed Constructor eftir að búnaður sem notaður var til að komast inn  í flak Minden hafði verið hífður um borð að nýju og skipið hélt á brott. Leynd hvílir yfir því eftir hverju var verið að sækjast, en skipverjar hafa sagst vera að bjarga verðmætum málmum, ekkert meira hefur verið gert opinbert. Svo virðist sem Seabed Constructor hafi siglt beint á staðinn.

Rannsóknarskipið Seabed Constructor séð úr brúnni í skipi LHG. Mynd LHG.

„Já það lítur út fyrir að þeir hafi haft nákvæmar upplýsingar um staðsetningu skipsins sem segir okkur að það voru einhverjar rannsóknir búnar að fara fram áður, hvort sem það var þetta skip eða eitthvað annað, þá hefur sú rannsókn farið fram áður,“ segir Auðunn F. Kristinsson verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Neðansjávarmynd tekin úr SS Minden.

Hann segir það nánast tilviljun að Landhelgisgæslan varð vör við rannsóknarskipið.

„Við sjáum þetta skip í gegnum gervitunglaeftirlit, sem er mjög stopult. Málið er að flugvélin okkar er búin að vera erlendis undanfarið og á meðan hún er erlendis þá er eftirlit með ytri svæðum efnahagslögsögunnar bara mjög lítið, þannig að það er nánast tilviljun að við sjáum þetta skip, já.“

Rannsóknar og djúprannsóknarskipið Seabed Constructor. Mynd LHG.

Auðunn segir að Sif geti í þremur ferðum fylgst með allri efnahagslögsögunni, en að eftirlitið sé ófullnægjandi þegar hennar nýtur ekki við.

„Þá geta skip athafnað sig hér innan lögsögu, hvort sem það eru fiskveiðar eða rannsóknir eða hvaða önnur verkefni sem eru, án okkar vitneskju. Mjög líklegt að þeir sleppi framhjá augum okkar,“ segir Auðunn F. Kristinsson.

Rannsóknarskipið Seabed Contstructor í Reykjavík, að Skarfabryggju Sundahöfn, eftir að því var skipað af Landhelgisgæslunni að fara í höfn á meðan rannsókn á málinu færi fram. (Mynd; DiveExplorer 10.04.2017)

Heimild: Icelandmag.is – 10 juli 2018 (EN)

Hunt for mysterious Nazi treasure in Icelandic waters must be called off by midnight

Treasure hunters who are trying to recover valuables from the wreck of a German vessel, which was sunk off the coast of South Iceland during WWII, have until tonight to wrap up their mission.  The official objective of the treasure hunt is a safe which is believed to contain gold bars. The safe could contain as much as 113 million USD (96 million EUR) worth of gold. However, rumor has it that the gold is not ultimate or real objective of the mission. Other unidentified treasures are said to be onboard the ship, SS Minden.

In the spring of 2017 the Icelandic Coast Guard boarded a research vessel, Seabed Constructor, off the south coast of Iceland. The research vessel, which had been rented by a UK company called Advanced Marine Services, was engaged in unothorized seabed exploration. The crew told local authorities it was attempting to salvage valuables from the wreck of a German merchant vessel SS Minden which was sunk in the early days of WWII. SS Minden was returning from South America to Germany when it was sunk by the Royal Navy.

According to the official ship manifest of the SS Minden the vessel was carrying resin from Brazil intended for industrial use. The ship is not known to have carried any minerals or valuables. The crew of the Seabed Constructor told the Coast Guard that they were attempting to recover a safe from the ship, believed to contain gold bars.

The value of the treasure onboard the SS Minden must be significant, as it costs at least 100,000 USD per day to rent a research vessel like the Seabed Constructor.

SEABED WORKER The research vessel has been rented by a UK based company to mount a salvage operation onboard the wreck of SS Minden. Photo/Óskar P. Friðriksson
SS PORTA One of four sister ships of SS Minden. The SS Minden was returning from Brazil when it was attacked and sunk by the Royal Navy. Photo/Wikimedia commons

A mysterious treasure
The sources of the local newspaper Fréttablaðið onboard the Seabed Constructer claim that recovering the gold is not real objective of the mission, as the wreck of the SS Minden is said to hide some other unidentified valuables. According to these sources the real objective of the search is known by only a handful of people onboard the research vessel.

After the Seabed Constructor was brought to harbor in the spring of 2017 the company Advanced Marine Services was notified that the ship could not be allowed to continue its search of the wreck without a permit. The company then applied for a permit to explore the wreck of the SS Minden, with the stated purpose of recovering a safe containing the gold bars. 

A 72 hour permit was granted for exploration in the fall of 2017, but due to poor weather and extremely difficult conditions the treasure hunters were unable to use the permit, but were granted permission to continue their search this year. The treasure hunters returned to the wreck of the SS Minden last week on the research vessel Seabed Worker to continue the hunt for the mysterious treasure. The permit expires at midnight tonight.

Hefurðu upplýsingar um MINDEN ? Hafðu samband við mig; diveexplorer@dive-explorer.com. Trúnaði heitið ef þörf er.

Dou have information about MINDEN? Please contact me; diveexplorer@dive-explorer.com. Information´s can be classified.

Heimildir og tenglar

Shirvan (+1944)

Heimild: Morgunblaðið 28. júlí 2010

Fundu flak bresks olíuskips

Júlí 28, 2010

Höfundar: Árni Sæberg – Hjalti Geir Erlendsson

Fundist hefur flak breska olíuskipsins SS Shirvan sem sökkt var skammt undan ströndum Íslands í nóvember árið 1944.

Varð fyrir árás sama þýska kafbáts og Goðafoss.

Vísbendingar sjómanna um að skipsflak væri að finna á hafsbotni skammt undan Garðskaga leiddu til þess að vísindamenn á vegum Hafmyndar ehf. og Háskóla Íslands héldu í könnunarleiðangur um hafsvæðið ásamt Landhelgisgæslunni.

Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðisns fengu að fljóta með í ferðina sem farin var á varðskipinu Tý.

Notast var við íslenskan kafbát, af gerðinni Gavia, við leitina að flakinu. Kafbáturinn, sem er í eigu Háskóla Íslands, er framleiddur af íslenska fyrirtækinu Hafmynd ehf.

Tvígeislamæling (e. Side Scan Sonar) af flaki Shirvan. Tekin með sjálfstýrða kafbátnum Gavia. (Heimild: Morgunblaðið 28.7.2010)

Flak Shirvans liggur á hliðinni á um 100 metra dýpi og af myndum að dæma hefur skipið brotnað í þrjá parta. Af fyrstu rannsóknum að dæma bendir fátt til þess að olía sé enn í tönkum skipsins.

Örlagavaldur Goðafoss

Líklegast þótti að um flak Shirvans væri að ræða. Getgátur voru uppi um hvort flakið væri af Goðafossi, sem var grandað í sömu árás og Shirvan. Það fær þó ekki staðist sé tekið mið af stærð og staðsetningu flaksins.

Tvígeislamæling (e. Side Scan Sonar) af flaki Shirvan. Tekin með sjálfstýrða kafbátnum Gavia. (Heimild: Morgunblaðið 28.7.2010)

Hinn 10. nóvember 1944 var skipalest á siglingu til Íslands. Í fararbroddi var skip Eimskipafélagsins, Goðafoss, en í hópnum var einnig breska olíuskipið SS Shirvan. „Mikið óveður varð til þess að Shirvan villtist af leið,“ segir Óttar Sveinsson, höfundur bókarinnar Útkall: Árás á Goðafoss. „Shirvan lenti í klóm þýsks kafbáts sem grandaði skipinu með tundurskeyti.

Skipið stóð eftir árásina í ljósum logum en með elju náði hópur áhafnarmeðlima að komast í björgunarbáta, margir mjög illa leiknir.“ Óttar segir að skipverjar Goðafoss hafi náð að bjarga 19 skipbrotsmönnum um borð. „Stuttu síðar komst Goðafoss sjálfur í skotfæri hjá þýska kafbátnum sem grandaði honum með afleiðingum sem flestir Íslendingar kannast við.“

Það er af Shirvan að segja að skipið rak mannlaust, í ljósum logum, á haf út þar sem það sökk.

Tvígeislamæling (e. Side Scan Sonar) af flaki Shirvan. Tekin með sjálfstýrða kafbátnum Gavia. (Heimild: Morgunblaðið 28.7.2010)

__________________________________________________________________

Breska olíuflutningaskipið Shirvan (Mynd; Uboat.net / Photo courtesy of the National Maritime Museum, Greenwich, P24037 )
Fjölgeislamæling (e. Multi-beam) mynd af flaki Shirvan.

Hefurðu upplýsingar? Viltu bæta einhverju við eða laga?

Bætum við söguna um SHIRVAN! Hafðu samband: diveexplorer@dive-explorer.com

Heimildir og linkar:

Empire World (+1944)

Flak breska dráttarbátsins Empire Wold sem fórst með allt að 17 mönnum í nóvember 1944 fannst nýverið á innanverðum Faxaflóa (2018). Íslenskum aðstandendum eins skipverjans hefur verið tilkynnt um fundinn og breska sendiráðinu gert viðvart.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Mynd: Landhelgisgæslan

Í lok apríl var varðskipið Þór við sjómælingar þar sem dýpi var mælt með fjölgeisladýptarmæli skipsins. Á innanverðum Faxaflóa urðu skipverjar og sjómælingamenn um borð í varðskipinu varir við þúst á hafsbotni sem vakti sérstaka athygli og var talið mögulegt að um skipsflak væri að ræða. 

Landhelgisgæslan var ekki með neina vitneskju um skipsflak á þessum slóðum og því var ákveðið að kanna málið betur. Sjómælingabáturinn Baldur var þá sendur út til rannsókna með fjölgeisladýptarmæli en einnig var hafður með í för sjálfstýrður kafbátur frá Teledyne Gavia sem skannaði þústina með hliðarhljóðsjá.

Gögn frá mælingum Baldurs og Gavia staðfestu að um flak væri að ræða. 

Skipslíkan af Empire Wold (Mynd; Morgunblaðið)

Fórst með 17 menn um borð

Þar sem ekki var unnt að staðfesta hvaða skip ætti í hlut fór Baldur í annan leiðangur með neðansjávarmyndavél Árna Kópssonar. Með gögnum úr þeim leiðangri var hægt að staðfesta að flakið væri af breska dráttarbátnum Empire Wold sem fórst í innanverðum Faxaflóa í nóvember 1944 og með honum allt að 17 menn.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunnie eru örlög dráttarbátsins Empire Wold tengd hildarleiknum þegar flutningaskipinu Goðafossi og tankskipinu Shirvan var sökkt af þýskum kafbáti við Garðskaga þann 10. nóvember 1944. „Saga Goðafoss og Shirvan er vel þekkt en færri hafa heyrt um dráttarbátinn sem sendur var frá Reykjavík til að reyna að bjarga tankskipinu. Shirvan hélst nokkuð lengi á floti þrátt fyrir skemmdir eftir tundurskeytið og rak logandi undan veðri og vindum,“ segir í fréttatilkynningunni.

Talið er að um borð í Empire Wold hafi verið níu manna áhöfn og átta bandarískir sjóliðar. Empire Wold hélt út frá Reykjavík um klukkan þrjú síðdegis þann 10. nóvember 1944 og sigldi til vesturs í átt að Shirvan. Síðan þá hefur ekkert spurst til skipsins fyrr en nú, 74 árum síðar. 

Mynd: Landhelgisgæslan

Skildi eftir sig eiginkonu og 9 mánaða dóttur á Íslandi

„Ýmsar getgátur hafa verið uppi um hugsanleg örlög Empire Wold, meðal annars þær að skipinu kynni að hafa verið sökkt af kafbáti eða að það hefði siglt á tundurdufl. Ekkert kom hins vegar fram í gögnum Þjóðverja um að kafbátur hafi sökkt dráttarbáti við Ísland og var því seinna farið að horfa til þess hvort veður og sjólag kynnu að hafa grandað Empire Wold.“

Eftir rannsóknir Landhelgisgæslunnar á flakinu bendir ekkert til þess að skipið hafi sokkið af völdum tundurdufls eða tundurskeytis. Ekki er því hægt að skera úr um orsök þess að Empire Wold fórst í Faxaflóa. 

Fundur flaks Empire Wold var tilkynntur til breska sendiráðsins og einnig til íslenskra aðstandenda eins skipverjans en 2. vélstjóri dráttarbátsins var kvæntur íslenskri konu og áttu þau 9 mánaða gamla dóttur þegar slysið varð.

Heimildir og tenglar: