Línuveiðarinn Papey GK-8 (áður Kakali ÍS 425) fór á veiðar frá Reykjavíkurhöfn í febrúar 1933. Um borð voru 17 skipverjar.
Þegar Papey GK8 var um tvær sjómílur frá Engey rakst skipið á þýska flutningaskipið Brigitte Sturm, sem var á leið til Reykjavíkur frá Stykkishólmi.
Stefni Brigitte Sturm stóð langt inn í Papey við áreksturinn sem sökk á skammri stundu.
8 skipverjar komust lífs af en 9 manns drukknuðu. Allir nema vélstjórarnir voru undir þiljum þegar slysið átti sér stað. Því var talað um að menn hafi sogast niður með skipinu er það skyndilega sökk, en það hafði sokkið á aðeins 2 til 3 mínútum samkvæmt frásögnum vitna.
Sjóréttur var haldinn og lesa má hluta þess í heimildum Morgunblaðsins þann 22. febrúar 1933.
Þýska flutningaskipið Brigitte Sturm sem lenti í árekstri við Papey GK 8. Það hét síðar Richard Borchard og fórst 1938 út af Helgoland.
Um Papey GK-8
Línuveiðarinn Papey var smíðaður í Hollandi árið 1913 (1914?). Hann var 107 bruttólesta með 220 HA 3 þrennslu gufuvél. Var hann í sinni fyrstu ferð, nýlega leigður af Guðmundi Magnússyni skipstjóra af Útvegsbankanum. Guðmundur komst lífs af úr slysinu, en var illa haldinn. Áður hafði Papey verið í eigu Vals í Hafnarfirði.
Módel / líkan af línuveiðaranum Papey GK8.
Skipsflakið af Papey
Ekki hef ég upplýsingar um hvar flakið af Papey sé að finna eða hvort það hafi fundist, og þar af leiðandi hvort kafað hafi verið niður á það.
Samkvæmt upplýsingum frá tíma slyssins þá er talað um að flakið sé að finna á 35 metra dýpi, tvær sjómílur VNV af Engey. Almennt dýpi á þessum slóðum er 30 til 50 metrar.
Sjókort VNV af Engey – NV af Gróttu (Navionics)
Ef þú hefur frekari upplýsingar um þetta slys, upplýsingar um flakið eða eitthvað frekar þá geturðu komið því á framfæri með því að skrifa hér á síðunni, eða senda mér tövlupóst á: diveexplorer@dive-explorer.com
Franska skonnortan „H“ fórst í óveðri í desember 1908. Var mikið stórviðri og vindur í suðaustan átt.
Voru mörg skip í vari á meðan þessu óviðri stóð yfir.
Ljósmynd af skonnortu. Alls ekki ólíklegt að „H“ hafi litið svipað út. (Google.is)
Sagt var að „H“ hafi verið gamall dallur en hafi verið gerður upp í „dráttarbrautinni“.
Leit að skipsflakinu „H“.
Leit hófst árið 2015, kom þá nokkur áhugaverð frávik í ljós, en ekkert sem gaf neitt sérstakt til kynna að um skipsflak væri að ræða. En vitað var að þau voru nokkur á þessum slóðum.
Nokkrum árum síðar var farið aftur í leit að flakinu. Sá leiðangur fór fram þann 8. desember 2018. Fóru þá Arnar Þór Egilsson, kafari og Ragnar Edvardsson frá rannsóknarsetri Háskólans á Vestfjörðum í stuttan leiðangur. Kom í ljós nokkur „frávik“ og við nánari skoðun á gögnunum kom í ljós mögulegt skipsflak.
Tvígeislamæling (Side Scan Sonar mynd) af fráviki. Lengdarmæling gefur til kynna 30 metra langt frávik og 14 metra breitt. (08.12.2018 DiveExplorer / Ragnar Edvardsson)
For-rannsókn / könnun með neðansjávarmyndavél – 01. febrúar 2019
Þann 01. febrúar 2019 var farið í aðra leit, og þá með neðansjávarmyndavél, en veður á þessum tíma var ekki hentugt í köfun og það var líka nauðsynlegt að skoða fleiri en einn stað.
Á einum á þessum stöðum kom klárlega í ljós skipsflak sem leiða má líkum af að sé af „H“.
Nauðsynlegt verður að skoða það frekar og þá með köfun niður á flakið og gera mælingar og meta hvaða hluti/muni þetta flak hefur að geyma.
Könnunarköfun 30.05.2019
Könnunarleiðangur niður á flakið var farið þann 30.05.2019. Leiðangursmenn voru Heimir Haraldsson, kafari og skipstjóri leiðangursins. Fornleifafræðingurinn Doktor Ragnar Edvardson frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum (Bolungarvík) og Arnar Þór Egilsson, kafari og áhugamaður um skipsflök. Myndatökumaður frá Ríkissjónvarpinu var með í för, en verið var að gera myndefni fyrir sjónvarpsþáttinn Landann, um rannsóknir á skipsflökum.
Á línunni niður á skipsflakið. (Arnar & Ragnar – 30.05.2019)Undirbúningur fyrir köfun. Frábært veður þennan dag (DiveExplorer – 30.05.2019)
Könnunarköfun þann 26. september 2019.
Farið var í könnunarköfun í flakið þann 26. september 2019. Veður aðstæður voru með allra besta móti. Farið var niður á flakið, en því miður var skyggni sáralítið, en frábær köfun – margt að sjá. Tekið var samt upp myndir og video.
Frekari rannsóknir, sem og leiðangrar eiga eftir að fara fram.
Kafarinn SAWÓ (Samúel) að skrásetja hluti á flakinu. (DiveExplorer 26.09.2019)Hér er mjög líklega gamall olíulampi sem hefur verið um borð í skipinu. Köfun þennan dag var skyggni mjög lítið. (AÞE, HH & SAWÓ_26.09.2019)Hér er mjög líklega gamall olíulampi sem hefur verið um borð í skipinu. Köfun þennan dag var skyggni mjög lítið. (AÞE, HH og SAWÓ_26.09.2019)
Ein mesta ráðgáta í flugvélaheiminum og um leið einnig einn mesti harmleikur í flugvélasögunni á Íslandi er hvarfið á flugvélinni Glitfaxa árið 1951.
Uppfært 11.2.2023
Samkvæmt fréttaskýringu á netmiðlinum Mannlíf þann 10.2.2023 kemur fram að kafari nokkurn hafi fundið, og öllu heldur kafað niður að flaki GLITFAXA fyrir allmörgum árum. Þar vildi umræddur kafari ekki koma undir nafni.. hann lætur ekki í tjé neinar nánari upplýsingar annað en það að hann hafi staðfest að um er að ræða flakið af umræddri flugvél Glitfaxa.. einhvers staðar í Faxaflóa… (það eru 3-4 flugvélar í Faxaflóa og nágrenni m.a. þessi hér, og hér:) ekki koma neinar aðrar upplýsingar fram eins og, nánari staðsetning, dýpi þar sem flakið á að liggja,, botngerð,,, skyggni,,, ástand flaks,, hvaða ár hann átti að hafa kafað eða fundið flakið,, með hverjum (þú gerir svona ekki einn),, hvernig og hvaðan þessar upplýsingar hafa komið frá…eru til myndir? Þannig að miðað við þessar upplýsingar.. sem hljóma ekkert annað en frekar ótrúverðugar og órökstuddar… rétt eins og hefur heyrst í gegnum árin er varðar flakið af Goðafossi.. Þá er flakið af Glitfaxa ófundið.
Nú ef „þessi“ kafari vill gefa upp frekari og nánari upplýsingar þá endilega hafðu samband, að bera við að þetta sé vot gröf og ber að virða.. jú það er rétt.. en ættingjarnir hafa líka verið að óska eftir þessum upplýsingum þannig að hafðu samband; Tölvupósturinn er diveexplorer@dive-explorer.com
Ef staðfesta eigi slysstað, flakið af Glitfaxa, er best að hafa samband við diveexplorer@dive-explorer.com.. hér er aðeins að finna fagmennsku og vísindalega nálgun í slíkri vinnu. Sönnun fyrir slíku má finna víða á þessari heimasíðu.
Vinnumappa; heimildir, vinnugögn og kort. (DE_26.2.2023)Vinnumappa; Afrit af upprunalegum heimildum, fjarskiptasamskipti milli flugturns og TF-ISG (Glitfaxa), skömmu fyrir hvarfið. (DE_26.2.2023)
_____________________
GLITFAXI, TF-ISG
GÖMUL STRÍÐSVÉL Glitfaxi var af gerðinni Douglas C-47 og var gömul herflugvél frá Bandaríkjunum, smíðuð árið 1942. Flugfélag Íslands keypti hana af Scottish Aviation í nóvember 1946, sem hafði breytt henni til farþegaflutninga. Flugvélin þótti afar öflug á sínum tíma. Hún var útbúin sætum fyrir 21 farþega og fjögurra manna áhöfn. Minningareitur í Fossvogskirkjugarði um flugslysið árið 1951. Flugvélin Glitfaxi TF-ISG, og þeir 20 íslendingar sem fórust í því slysi. Ekkert þeirra fannst, og flugvélin ekki heldur.
Sextíu ár eru síðan Glitfaxi fórst með tuttugu manns
Var í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli og steyptist í sjóinn
Enginn veit fyrir víst hvar flakið liggur en hlutar úr vélinni hafa fundist
Við erum komnir niður í 700 fet. statikkin er byrjuð. Ég veit ekki hvernig þetta verður.“
Þetta voru síðustu orðin sem heyrðust frá áhöfn Glitfaxa, áður en hann steyptist í sjóinn og fórst. Enginn veit fyrir víst hvar hann féll í sína votu gröf. Þó er víst að það var grátlega skammt frá áfangastað, Reykjavík.
Glitfaxi lagði af stað í sína hinstu flugferð síðdegis hinn 31. janúar árið 1951 frá Vestmannaeyjum. Fyrr um daginn hafði Glitfaxi flogið norður á Sauðárkrók. Við heimkomuna í Reykjavík var Ólafi Jóhannssyni flugstjóra tilkynnt að fljúga þyrfti til Vestmannaeyja. Vélin var þétt setin og hlaðin ýmsum vörum. Eyjar höfðu verið lokaðar í þrjá daga fyrir flugumferð, sökum veðurs.
Glitfaxi fór ekki einn til Vestmannaeyja. Glófaxi, vél frá Flugfélagi Íslands, kom í humátt á eftir. Flugvél Loftleiða hafði reynt að fljúga til Eyja fljótlega eftir hádegi, en snúið við. En síðan þá hafði veðrið lagast í Eyjum, að sögn heimamanna.
Sautján farþegar fóru um borð í Glitfaxa í Eyjum. Enginn kaus að fara með Glófaxa sem lenti í Eyjum um það bil þegar Glitfaxi fór í loftið. Farþegar voru í kappi við veðrið, því vindur fór vaxandi.
Veðrið í Reykjavík hafði versnað í millitíðinni. Snorri Snorrason, fyrrum flugstjóri, var staddur á Reykjavíkurflugvelli við vinnu hinn örlagaríka dag.
„Það var suðaustan kaldi, strekkingur – kannski fimm eða sex vindstig. Það var ekkert óveður, en moksnjókoma og ekkert sjónflugsskyggni,“ segir Snorri. Hann starfaði sem hlaðmaður á vellinum á þessum tíma jafnramt því að sinna starfi flugmanns í afleysingum.
Eftir að Glitfaxi var kominn í loftið bárust fregnir af því úr flugturni Reykjavíkurflugvallar að veðrið væri „mjög vafasamt“. Veðurfræðingur á staðnum trúði því að flugvöllurinn myndi jafnvel alveg lokast. Glitfaxi hélt áfram.
Laust fyrir fimm var Glitfaxi staddur yfir stefnuvita Reykjavíkurflugvallar á Álftanesi. Honum var gefin heimild til að lækka flugið og stefna í átt að flugbrautinni í sjónflugi. Þegar Glitfaxi nálgaðist var flugbrautin hvergi sjáanleg. Ólafur stýrði vélinni aftur upp samkvæmt ráðum flugturnsins.
„…það var svo mikil statik þarna að ég heyrði ekki nokkurn skapaðan hlut og ég þorði ekki að halda áfram,“ sagði flugstjórinn við flugturninn. Veðrið var farið að hafa áhrif á sambandið á milli vélarinnar og jarðar. Glitfaxi flaug á haf út.
Turninn kallaði: „Ég geri ráð fyrir að hyggilegt væri að reyna annað aðflug núna strax, reyna annað aðflug strax. Það er að byrja að lyfta til aftur, það er að byrja að lyfta til aftur.“
Ólafur flugstjóri og Garðar Gíslason, flugmaður vélarinnar, fylgdu ráðum turnsins og gerðu sig reiðubúna í aðflug. Þeir voru komnir í rétta stefnu og lækkuðu flugið á nýjan leik.
Skömmu síðar hættu að berast svör úr Glitfaxa. Hann var horfinn.
GLITFAXI, TF-ISG
GÖMUL STRÍÐSVÉL Glitfaxi var af gerðinni Douglas C-47 og var gömul herflugvél frá Bandaríkjunum, smíðuð árið 1942. Flugfélag Íslands keypti hana af Scottish Aviation í nóvember 1946, sem hafði breytt henni til farþegaflutninga. Flugvélin þótti afar öflug á sínum tíma. Hún var útbúin sætum fyrir 21 farþega og fjögurra manna áhöfn. (Mynd; )
Fundu hluta úr vélinni
Eftir að mönnum varð ljóst að Glitfaxi var horfinn var byrjað að leita þegar í stað. Einhverjir voru sendir út í myrkrið um kvöldið. Það bar engan árangur. Daginn eftir var bæði leitað á landi, sjó og úr lofti. Leitarmenn fundu tvo stóra fleka úr gólfi Glitfaxa á hafsvæðinu út af Straumsvík og björgunarvesti úr flugvélinni við Vatnsleysuströnd. Þeir töldu sig einnig hafa fundið olíubrák úr vélinni. Síðar kom í ljós að brákin var sjávardýrafita.
Leitað var áfram á næstu dögum. Varðskipið Ægir og síldveiðiskipið Fanney leituðu á svæðinu með dýptarmælum og hið síðarnefnda slæddi sjávarbotninn með botnvörpu. Poki af sængurfötum, sem tilheyrði yngsta farþega Glitfaxa, fannst viku eftir slysið á hafi úti. Heyrnartól úr Glitfaxa og annar fleki úr vélinni, fundust í byrjun marsmánaðar við bæinn Hvol á Seltjarnarnesi.
Nýlegasti fundurinn var árið 1982. Þá rak á fjöruna á Álftanesi svo kallaðan „Hat rack“ eða farangursgeymslu yfir sætunum. Jón Pálsson, yfir skoðunarmaður Flugfélags Íslands, þekkti hann þegar í stað og staðfesti að hann væri úr Glitfaxa.
Allir þessir hlutir, auk frásagna flugstjórnarmanna, gefa til kynna að vélin hafi steypst í sjóinn út af Álftanesi. Enginn hefur fundið flakið af Glitfaxa, en ætla má að það liggi á hafsbotni skammt undan landi.
Hvar brotlenti Glitfaxi ? (Sjókort)
Þjóðarsorg
„Þegar slíkir atburðir gerast eins og nú hefur orðið er það þungt áfall, ekki einasta fyrir ástvini þeirra, er farist hafa, heldur fyrir óskir og vonir þjóðarinnar allrar. Slíkur atburður veldur þjóðarsorg.“
Þannig komst Jón Pálmason, forseti Sameinaðs þings, að orði í samúðarávarpi sem hann flutti á þingi tveimur dögum eftir slysið.
Þriggja manna áhöfn og sautján farþegar létu lífið þegar Glitfaxi steyptist í sjóinn. Lík hinna látnu hafa aldrei fundist. Flestir farþeganna voru frá Vestmanneyjum, þar á meðal yngsti farþeginn, hinn fimm mánaða gamli Bjarni Gunnarsson.
Mennirnir sem fórust létu eftir sig 48 börn, þar af 26 innan fermingaraldurs. Þar að auki voru tvö börn hinna látnu í móðurkviði og fæddust skömmu eftir slysið. Alls misstu því fimmtíu börn föður sinn. Barnflesta heimilið var í Þingholti í Vestmannaeyjum. Þar misstu tólf börn föður sinn og fyrirvinnu, Pál Jónsson skipstjóra.
Í leiðara Morgunblaðsins hinn 2. febrúar 1951 var skrifað: „Glitfaxi er horfinn – Jelinu ljettir, en skuggi kvíða, og síðan sorgar og saknaðar leggst yfir heimili þess fólks sem átti vini og venslamenn með hinni týndu flugvjel.“
Mannlíf 3. febrúar 2023
Glitfaxi – flugvélin sem hvarf: „Hún reyndi hvað hún gat að telja afa hughvarf. (Björgvin Gunnarsson)
Þann 31. janúar 1951 lagði Dagota flugvél Flugfélags Íslands að nafni Glitfaxi af stað í áætlunarflug frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Um borð var þriggja manna áhöfn og sautján farþegar. Veðrið var vafasamt en hríðabil var úti og ekki hafði verið flogið til eða frá Eyjum í þrjá daga vegna veðursins. Rétt fyrir fimm var Glitfaxi staddur yfir stefnuvita Reykjavíkurflugvallar á Álftanesi en flugstjóranum, Ólafi Jóhannssyni var gefin heimild til að lækka flug og stefna í átt að flugbrautinn í snjónflugi. Flaug flugstjórinn vélinni niður en þá var flugbrautin hvergi sjáanleg. Stýrði Ólafur því vélinni aftur upp að ráði flugturnsins og flaug út á Faxaflóa. Var honum þá tilkynnt af flugturninum að nú væri veðrið orðið skárra og honum ráðlagt að reyna annað aðflug. Lækkaði Ólafur því flugið og setti flugvélina í stefnu en skyndilega rofnaði allt samband við vélina. Glitfaxi var horfinn í sæinn.
Um er að ræða eitt dularfyllsta flugslys Íslandssögunnar en flak flugvélarinnar hefur aldrei fundist.
Tíminn fjallaði um flugslysið á sínum tíma:
Glitfaxi hefir farizt milli Álftaness og Keilisness
Olíubrák á sjónum út af Hraunsnesi, björgunarbelti á floti nokkru utar, tveir flekar úr hreyfli flugvélarinnar út af Keilisnesi
Það má nú telja víst, að flugvélin Glitfaxi hafi farið í sjóinn einhvers staðar á svæðinu milli Álftaness og Keilisness, og allir, sem í henni voru farizt þar. Fannst á þessum slóðum brak úr gólfi flugvélar og eitt björgunarbelti, og brák á sjónum út af Hraunsnesi. Virðist allt benda til þess, að slysið hafi borið mjög skjótt að og fólkið drukknað þegar í stað.
Reköld finnast
Jóhannes flugstjóri Snorrason kom fyrstur manna auga á brakið um þrjúleytið í gær, og tilkynnti þegar, að hann sæi á tveim stöðum eitthvað í sjónum, sem gæti verið fleki úr flugvélargólfi. Risi það á rönd upp úr sjónum, og sæi í nýlegt brotsár. Voru flök þessi út af Keilisnesi i stefnu frá Akrafjalli á Keflavík. Sendi Jóhannes svohljóðandi skeyti: „Hef fundið brak á sjónum. Það líkist krossviðarfleka, brotið á hliðum og upp úr því stendur eitthvað. Gæti verið hluti af gólfi úr flugvél.“ Varðskipið Ægir var þá statt í sex mílna fjarlægð, og kom það nú á vettvang. Kastaði björgunarflugvél frá Keflavíkurflugvelli út fljótandi blysi til þess að merkja staðinn, þar sem flökin voru. Fann Ægir brátt reköldin og auk þess eitt björgunarbelti. Kom hann með þetta til Reykjavíkur í gærkvöldi.
Brakið tvímælalaust úr Glitfaxa
Þegar er Ægír var kominn að landi, var brakið, sem fundizt hafði, tekið til rannsóknar og varð niðurstaðan sú, að brakið væri tvímælalaust úr Glitfaxa. Var um að ræða tvo gólffleka, um tveggja metra langa eða rösklega það, og var annar mun mjórri en hinn. Er talið, að annar hafi verið hægra megin úr gólfi flugvélarinnar, en hinn vinstra megin. Stærri flekinn var flagnaður og brotinn í annan endann og skein þar í hvítan balsavið. Við fleka þennan voru einnig brot af stólafestingum, og hluti af áklæði af einum stólnum. Björgunarbeltið, sem fannst, var með órofnu innsigli, og hafði því sýnilega ekki verið notað. Hluti þessa alla töldu flugvirkjar og flugmenn sig þekkja, að væru úr Glitfaxa, enda voru brotsár á viði og málmi alveg ný, og ekki um brak úr annarri flugvél að gera á þessum slóðum. Umfangsmikil leit. Þegar brakið úr flugvélinni hafði fundizt, og sýnt þótti, að það væri úr Glitfaxa, voru leitarflokkar allir á landi kvaddir heim, og skip og flugvélar beðin að hætta leit. — Höfðu tólf flugvélar tekið þátt í Ieitinni, en auk þess mörg skip og bátar og fjöldi fóiks á landi allt umhverfis Faxaflóa. Var leitað allt frá sjávarmáli upp til fjalla.
Fólkið, sem fórst
Eins og skýrt var frá í gær voru margir Vestmannaeyingar meðal beirra, sem fórust með Glitfaxa. Páll Jónsson skipstjóri var að koma hingað til þess að taka við bátnum Faxaborg, og var í för með honum sumt af mönnunum, sem átti að vera á bátnum. — Kona sú, sem í blaðinu í gær var samkvæmt farþegalistanum sögð heita Marta Hjartardóttir, hét María Hjartarson, og barn hennar var kornungt sveinbarn, aðeins fimm mánaða. Bræðurnir Magnús Guðmundsson úr Reykjavík (ranglega sagður úr Keflavík í gær) og Guðmann Guðmundsson í Keflavík voru að koma frá arfaskiptum, sem farið höfðu fram eftir látinn bróður þeirra í Eyjum. Loks skal það leiðrétt, að Guðmundur bóndi í Arnarholti var ranglega nefndur Guðbjörnsson i gær. Hann var Guðbjarnason. Flugstjóri á Glitfaxa, Ólafur Jóhannsson, var sonur Jóhanns Þ. Jósefssonar alþingismanns.
Minnist afa síns
Sigfús Guttormsson frá Krossi í Fellasveit á Austurlandi skrifaði fallega færslu á Facebook á dögunum. Í færslunni segir hann sögu afa síns og alnafna, Sigfús Guttormsson á Krossi en hann fórst með Glitfaxa þennan afdrífaríka dag fyrir 72 árum. Gaf hann Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta færsluna
„Í janúar 1951 fór afi á Krossi, Sigfús Guttormsson, til Vestmannaeyja. Hann hafði kennt sér meins og fór að hitta Einar bróður sinn sem var lengi læknir í eyjum til að ráðfæra sig við hann. Reyndar bjó Guðlaugur bróðir þeirra líka í Vestmannaeyjum
Miðvikudaginn 31. janúar vildi afa fara með flugi frá eyjum til Reykjavíkur. Hann vildi fara að koma sér áleiðis heim þar sem amma, Sólrún Eiríksdóttir, var ein heima á Krossi með sjö af börnum þeirra. Oddur, Guðný Sólveig, Guttormur, Sveinn Eiríkur, Baldur, Jón og Oddbjörg voru heima. Páll elsti sonurinn var þennan vetur í skóla á Eiðum. Þórey ólst upp á Reyðarfirði. Níu börn afa og ömmu komust til fullorðinsára.
Hjónin á Krossi
Veður var ekki sem best og það mokaði niður snjó í logni í Vestmannaeyjum. Að afi skyldi endilega vilja fara með flugi þennan dag í þessu veðri lagðist illa í Margréti konu Einars bróður afa. Hún reyndi hvað hún gat að telja afa hughvarf og bað hann að um að fresta för sinni til morguns. Afi hélt sínu striki með þá ætlun sína að komast sem fyrst heim til fjölskyldu sinnar sem beið hans.
Seinni partinn tók flugvélin Glitfaxi á loft frá flugvellinum í Vestmannaeyjum. Áfangastaður var Reykjavíkurflugvöllur. Flugvélin kom til aðflugs en varð frá að hverfa vegna þess að dimmt él gekk yfir borgina. Flugmennirnir fengu skilaboð frá flugturni um að fljúga hring og bíða þess að birti til. Í þessu flugi lenti Glitfaxi í hafinu og fórst. Önnur flugvél fór, á svipuðum tíma þetta síðdegi, sömu flugleið frá eyjum og til Reykjavíkur. Hún lenti heilu og höldnu í Reykjavík.
Margar spurningar og kenningar vöknuðu í kjölfarið á slysinu og hafa lifað með fjölskyldum allra þeirra sem fórust. Svör hafa ekki legið á lausu. Mörgum sem tengjast harmleiknum hefur fundist að hægt væri að varpa ljósi á eitt og annað. Opinberlega er staðsetning flaks Glitfaxa óþekkt. Með Glitfaxa fórust 20 manns.
Frásögnin hér að ofan kemur til mín frá pabba, systkinum hans, tveimur börnum Einars læknis og fleirum. Þetta er okkar saga. Fjölskyldur allra hinna sem fórust eiga sér sínar sögur.
Í dag eru 72 ár liðin frá því að afi fórst. Í kvöld logar á kerti á ferðakofforti afa hér í stofunni.
Hefurðu upplýsingar um GLITFAXA TF-ISG, eða nánari staðsetningu á mögulegu flaki þess. Eitthvað sem þú vilt bæta við? Hafðu samband, skrifaðu hér á síðuna eða sendu mér tölvupóst: diveexplorer@dive-explorer.com
Information, something about GLITFAXA TF-ISG airplane? Write me, email: diveexplorer@dive-explorer.com
Wigry var pólskt flutningaskip sem var á leið frá Hafnarfirði til Bandaríkjanna. Aðalfarmur skipsins var fiskur. Þann dag sem Wigry lagði frá Hafnarfjarðarhöfn var stormur, mjög hvasst og lítið skyggni, innan við 100 metrar.
Allt gekk þó samkvæmt áætlun þar til einn af gufukötlum Wigra sprakk. Við sprenginguna slösuðust nokkrir skipverjanna. Við sprenginguna og það að skipið hafi misst einn gufuketil þá hafði skipið ekki nægt vélarafl til að halda í við veðrið.
Flutningaskipið Wigry.
Skipið rak þar til það strandaði. Samkvæmt fyrstu heimildum þá var talið að skipið hefði strandað undan strönd Skógarness á Snæfellsnesi. Það er ekki rétt. Skipið strandaði á skeri við Hjörsey á Mýrum.
Hjörsey. Kort Landmælingar Íslands (www.lmi.is)
Þegar Wigry strandaði náðu nokkrir skipverjar að losa björgunarbátanna. Þrír skipverjar neituðu þó að fara um borð í björgunarbátanna, og því miður þá drukknuðu þeir er Wigry sökk til botns.
Eins og fyrr sagði var veðrið afar slæmt og ekki bætti úr að komið myrkur. Ekki tókst að koma björgunarbátunum í land, svo skipverjarnir biðu um borð í þeim eftir betra veðri. En í veðurofsanum ultu björgunarbátarnir og nokkrir menn til viðbótar drukknuðu. Þeir menn sem höfðu slasast í ketilsprengingunni drukknuðu líka.
Fimm skipverjar náðu þó að halda sér upp í kili björgunarbátsins, en eftir því sem tímanum leið misstu þeir tökin, einn af öðrum þar til aðeins þrír urðu eftir á kilinum.
Þeir reyndu svo að synda í land, en aðeins tveimur tókst að komast lifandi í land. Annar þeirra missti meðvitundi en öðrum þeirra komast á sveitabæ til að kalla eftir hjálp.
Minningarvarði í Skógarnesi á Snæfellsnesi. Á þessum stað komu björgunarbátur Wigry í land. En einmitt þarna framundan fórst póstgufuskipið Phönix árið 1881. (Mynd; AÞE-2019)
Þeir tveir sem komust lífs af úr þessum harmleik voru annars vegar Íslendingurinn Bragi Kristjánsson og svo Pólverjinn Smolski.
Árið 1961 (9. september 1961) var reistur minnisvarði í Fossvogskirkjugarði um slysið.
Minningarreitur í Fossvogskirkjugarði um þá látnu sem voru um borð í Wigry. (Mynd; AÞE-2009)
Laust eftir hádegi þann 10. nóvember 1944 var Goðafossi, farþegaskipi Eimskipafélags Íslands, sökkt af þýskum kafbáti skammt utan við Garðskaga. Með skipinu fórust 43, fjórtán skipverjar og tíu farþegar auk 19 skipverja af olíuskipinu Shirvan sem áhöfn Goðafoss hafði bjargað stuttu áður. Aðeins 19 var bjargað, þar af einum skipverja af Shirvan. Þetta atvik markar djúp spor í íslenska siglingasögu enda mesta blóðtaka sem Íslendingar hafa orðið fyrir af völdum stríðsátaka. Svavar Hávarðsson leit til baka og rifjaði upp atburðarásina þennan örlagaríka dag.
Strax í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari lýstu Þjóðverjar yfir bannsvæði umhverfis Bretlandseyjar. Upphaflega markmiðið var að knýja Breta til uppgjafar með því að koma í veg fyrir birgðaflutninga til landsins. Þjóðverjar hófu strax kafbátaárásir á skip og hjuggu þeir djúp skörð í kaupskipaflota bandamanna, sérstaklega á fyrstu árum styrjaldarinnar.
Úlfahjörð
Kafbátahernaður Þjóðverja var áhrifaríkastur þegar þeir söfnuðust saman í svokallaðar úlfahjarðir og réðust á skipalestir. Undir forystu reyndra kafbátaforingja gátu þessir hópar kafbáta valdið ótrúlegum skaða. Í september 1940 réðust til dæmis kafbátar á skipalest sem taldi 41 skip og sökktu 12 þeirra og í október sama ár var ráðist á skipalestina SC-7 þar sem aðeins 15 skip af 35 náðu höfn í Bretlandi. Þjóðverjar misstu ekki einn einasta kafbát í þessum tveim árásum.
Árið 1944 var vitað að senn drægi að lokum heimsstyrjaldarinnar. Hernaðarstyrkur bandamanna óx dag frá degi á meðan iðnaðarmáttur og stríðsframleiðsla Þjóðverja dróst saman. Þjóðverjar voru á undanhaldi á helstu vígstöðvum og það átti einnig við um úthöfin. Seint á árinu 1943 höfðu þýskir kafbátar hætt að gera hópárásir og tóku að sigla einir. Ein ástæðan var að eldsneytisskortur var farinn að há Þjóðverjum og í stað þess að flakka um úthöfin í hópum lágu þeir við strendur og réðust á skip þegar þau komu af hafi. Innsiglingarleiðir stærri hafna var eitt þeirra uppáhalds fylgsni.
Skipalestin UR-142
Í byrjun nóvember árið 1944 var Goðafoss á heimleið með skipalestinni UR-142 eftir tæplega mánaðar ferð til New York með viðkomu í Loch Ewe á Skotlandi. Goðafoss, sem hafði áfallalaust verið í siglingum öll stríðsárin, var forystuskip lestarinnar en auk þess voru fjögur önnur kaupskip og fimm vopnaðir togarar. Engin herskip fylgdu skipalestinni sem var ekki óvenjulegt. Vopnaðir togarar sáu yfirleitt um varnir þeirra skipalesta sem íslensk skip sigldu með. Þegar skipalestin nálgaðist Ísland um kvöldið 9. nóvember lenti hún í slæmu veðri og ákvað skipstjórinn á Goðafossi, Sigurður Helgason, að bíða af sér veðrið.
Þar sem Goðafoss var forystuskip skipalestarinnar var komið merkjum til hinna skipanna um að gera slíkt hið sama. Þegar birti af degi kom í ljós að skipin hafði rekið í sundur og voru ekki lengur í sjónfæri hvert við annað. Í grennd við Goðafoss voru þó þrjú af skipunum, eitt kaupskip og tvö fylgdarskip. Þar sem skipstjórinn á Goðafossi vissi ekki hvar hin skipin voru sigldi hann ásamt hinum skipunum þremur hefðbundna leið fyrir Garðskaga á leið til Reykjavíkur. Ekki leið á löngu þangað til Goðafoss sigldi fram á tvo björgunarbáta af einu af skipunum úr lestinni, breska olíuskipinu Shirvan, sem brann við sjónarrönd. Í bátunum tveim voru 20 skipsbrotsmenn, margir þeirra illa særðir. Hlynnt var að þeim þegar þeir voru komnir um borð og þar fór fremstur í flokki Friðgeir Ólason læknir sem var farþegi um borð í Goðafossi ásamt eiginkonu sinni og þremur ungum börnum.
Svartur fáni á lofti
Þýski kafbáturinn U-300 undir stjórn foringjans Fritz Heins hafði grandað breska olíuskipinu fyrr um morguninn. Ólíkt því sem tíðkaðist ákvað kafbátaforinginn að bíða í nágrenninu, sennilega til að tryggja að olíuskipið sykki en einnig í von um að fleiri skip bæri að. Stuttu eftir að skipsbrotsmennirnir voru komnir um borð drógu fylgdarskipin upp svartan fána, en það var merki um það að kafbátur væri í grennd. Einn skipsverja á Goðafossi var á þessari stundu að sækja fatnað fyrir skipsbrotsmennina í einn af fjórum björgunarbátum skipsins en var litið af tilviljun yfir hafflötinn á bakborða. Þar sá hann því sem líktist hvítri rák sem nálgaðist skipið hratt. Um aðeins eitt gat verið að ræða.
Sjö metra langt tundurskeyti kafbátsins U-300 skall á skipið rétt aftan við miðja bakborðssíðuna og sprakk af svo miklu afli að það lyftist upp af haffletinum. Hávaðinn og titringurinn sem fylgdi sprengingunni var yfirþyrmandi og skipið kastaðist 35 til 40 gráður yfir í stjórnborða. Sumir farþeganna misstu meðvitund við höggið, aðrir, sérstaklega þeir sem voru í vélarrúmi og neðan þilja, létu líklega lífið samstundis.
U-300 var af gerðinni VII-C.
Goðafoss sekkur
Risavaxið gat kom á bakborðssíðu Goðafoss sem einn eftirlifenda hefur lýst sem svo að strætisvagn hefði komist fyrir í því. Skipið sökk hratt, að talið er á sjö til tíu mínútum. Menn sem horfðu á hildarleikinn frá Garðskagavita sögðu að fyrst hafi skipið sigið rólega niður að aftan en síðan hafi það farið lóðrétt niður með stefnið á undan.
Eftir að skipið var horfið sjónum sáu þeir ekkert á sjónum, enga lífbáta og ekkert fólk, aðeins fylgdarskipin sem leituðu kafbátarins. Þeir sem lifðu sprenginguna af áttu um fátt að velja. Farþegar og áhöfn söfnuðust saman á bátadekkinu og reyndu að losa um björgunarbáta og fleka. Þegar tekist hafði að koma bát og flekum frá skipinu varð hver og einn að reyna að bjarga sér. Það var erfitt að komast á flekana með því að stökkva af skipinu, svo að flestir þurftu að henda sér í sjóinn og synda að rekaldi til að halda sér á floti.
Sökkvandi skipið var dauðagildra og allir vissu eftir tíðar björgunaræfingar að nauðsynlegt var að komast töluvert frá skipinu til að eiga það ekki á hættu að sogast niður með því þegar það sykki. Þetta var erfitt í öldurótinu og ekki síst fyrir þá sem voru meira eða minna slasaðir. Einhverjum tókst það þó.
Eftirlifendur
Óttar Sveinsson skrifaði bók um árásina á Goðafoss árið 2003 og talaði þá við nokkra eftirlifendur slyssins. Lýsingar þeirra eru eina leiðin til að nálgast skilning á því sem gerðist á þeim mínútum sem tók Goðafoss að sökkva og klukkutímunum áður en þeim sem lifðu var bjargað.
Einn hásetinn á Goðafossi þurfti að stökkva í sjóinn og tók með sér lítinn dreng þar sem hann sá hvergi foreldra hans. „Það þurfti afl til að komast frá soginu. Allt í einu missti ég takið á drengnum. Aðeins ein hugsun komst að. Bjarga sér, bjarga sér, komast – upp, upp, upp. Anda. Ég saup sjó, brimsaltan sjó, og fann til yfirþyrmandi óþæginda í munni, nefi og eyrum.“ Annar skipverji sagði frá því að ömurlegast hafi honum þótt að horfa á fólkið sem flaut um allan sjó innan um brak úr skipinu. Erfiðast var að hlusta á neyðaróp barnanna og geta ekkert gert til að bjarga þeim. Fram hjá honum flaut einn breski sjómaðurinn af Shirvan. „Þetta var maðurinn sem hafði fengið eldgusu framan í sig, augun farin, nefið brunnið, hendur og allt.
Ég sá þennan mann koma fljótandi fram hjá okkur í sjónum, liggjandi á bakinu. Andlitið var skelfilega brunnið en vesalings maðurinn var enn á lífi þarna í köldum sjónum.“ Annar skipverji komst á fleka. „Vinnufélagar mínir voru þarna í kringum mig, ýmist lifandi, látnir eða í bráðum lífsháska. Það var svo stutt síðan við höfðum verið að búa okkur undir heimkomu en nú vorum við blautir og kaldir á björgunarfleka meðan breskir korvettumenn jusu djúpsprengjum frá borði.“ Skipsbrotsfólkið beið allan eftirmiðdaginn eftir hjálp. Það vissi að björgun gat dregist því gæsluskipin höfðu skipanir um að einbeita sér að því að finna kafbátinn, fólkið varð að bíða.
Milli fjögur og fimm um daginn var fólkinu loks bjargað, flestum af gæsluskipinu Northern Reward. Eftir að um borð var komið hélt leitin að kafbátnum áfram í ellefu klukkustundir. Klukkan hálf þrjú aðfaranótt 11. nóvember kom Northern Reward inn á Reykjavíkurhöfn með skipsbrotsmennina. Þaðan voru flestir fluttir á Sjúkrahúsið í Laugarnesi.
Leitin að Goðafossi
Flakarannsóknarfélag Íslands, sem er félagsskapur atvinnukafara, áhugakafara, sérfræðinga og söguáhugamanna, hefur það sem eitt af sínum meginmarkmiðum að finna flakið af Goðafossi.
Tilgangur félagsins er ekki að kafa niður á flakið, heldur einfaldlega að staðsetja það. Félagsmenn eru meðvitaðir um hversu miklu máli flakið skiptir fjölmarga, og mikilvægi þess að staðsetja það þess vegna.
Flakinu verður sýnd sama virðing og um grafreit eða kirkjugarð sé að ræða. Ætlunin er ekki að hreyfa við neinu enda gengur það gegn siðareglum félagsins.
Landhelgisgæslan hefur einnig leitað flaksins sem sýnir að þessari sögu lýkur ekki fyrr en flakið er fundið. Það má segja að Goðafoss nái ekki höfn fyrr. ■
Helstu heimildir:
Óttar Sveinsson, Árás á Goðafoss.
Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir, Í skotlínu.
Tómas Þór Tómasson, Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945
Mynd: Goðafoss
At 14.59 hours on 10 Nov, 1944, the Godafoss from the storm scattered convoy UR-142 was hit by one LUT torpedo from U-300 off Reykjanes and sank within seven minutes. The ship had stopped against orders to rescue survivors from the burning Shirvan when torpedoed. 14 crew members and ten passengers, among them a family of five (two young doctors returning from Harvard and their 3 children) were lost. 43 (24 dead and 19 survivors). (uboat.net)
Í grænum bragga í Garðinum reynir Ásgeir Hjálmarsson skipstjóri að varpa ljósi á það hvar Goðafossi, skipi Eimskipafélagsins, var sökkt í síðari heimsstyrjöld. Hann sýnir líkan af Goðafossi og húsum í Garðinum, sem hann er búinn að smíða, til að fá sem nákvæmasta staðsetningu á atburði, sem reyndist mesti mannskaði Íslendinga í stríðinu.
Í þættinum Um land allt kemur fram að Garðmenn telja sig vita nokkurn veginn út frá lýsingum sjónarvotta og skipverja sem björguðust hvar staðurinn er. Samt hefur flakið ekki fundist.
„Þetta er bara óskiljanlegt,“ segir Ásgeir.
Ásgeir reynir að leysa gátuna um það hvar Goðafoss sökk árið 1944. Skipið var 70 metra langt en talið hafa rekið afturhlutann niður í hafsbotninn þar sem var 38 metra dýpi þannig að stefnið stóð lóðrétt upp úr. (Mynd: Arnar Halldórsson, vísir 28.11.2020)
Garðskagi geymir mikla stríðssögu. Þar gerði breski herinn fyrsta flugvöll Suðurnesja og þar má enn sjá móta fyrir flugbrautinni.
Hér var flugbraut breska hersins á Garðskaga, 1.050 metra löng og 90 metra breið. (Mynd: Arnar Halldórsson, vísir 28.11.2020)
Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com
Tómas J. Knútsson,
sportkafari og forsvarsmaður Bláa hersins, segist sannfærður um að hann hafi
fundið flak Goðafoss, sem sökkt var í síðari heimsstyrjöldinni á Faxaflóa eftir
sprengjuárás þýsks kafbáts. Tómas hefur komist í samband við fjársterkan aðila
og nú er beðið eftir réttu tækifæri til að kafa niður að flaki skipsins með
neðansjávarkvikmyndabúnaði og mynda skipið. Myndirnar verða síðan notaðar í
kvikmynd um Goðafoss sem landsþekktur þáttagerðarmaður er að vinna að.
Skipið Goðafoss
„Fyrir rúmum 20 árum
kviknaði áhugi hjá mér að leita að E/S Goðafossi. Síðasta sjóferð þessa skips
var mikil harmsaga og margir fórust með skipinu. Fjölmargir sjónarvottar voru
að atburðinum er skipið sökk eftir sprengjuárás þýsks kafbáts. Í nokkur ár
safnaði ég að mér vitnisburði nokkurra manna og geymdi þá með mér,“ sagði Tómas
J. Knútsson, kafari í samtali við Víkurfréttir.
Tómas hefur kafað á þeim
slóðum sem skipið fórst og á miðjum áttunda áratug síðustu aldar kafaði Tómas
niður að flaki skips sem bæði var illa farið og á miklu dýpi. „Ég var
sannfærður um að þetta væri skipið. Köfun á þessum slóðum er hins vegar
stórhættuleg sökum strauma, dýpis og myrkurs,“ segir Tómas.
En hvað varð til þess að
nú skal ráðist í að kvikmynda flakið neðansjávar?
„Undanfarin ár hefur áhugi
minn á flakinu vaknað á ný og þá sérstaklega að ljósmynda það eða jafnvel
kvikmynda. Það var síðan fyrir tæpum tveimur árum sem þekktur sjónvarpsmaður
kom að máli við mig, þar sem hann var að vinna að kvikmynd um Goðafoss. Með
okkur tóks samkomulag um að ég skyldi finna styrktaraðila sem gæti hjálpað
okkur með leigu á neðansjávarkvikmyndabúnaði fyrir verkið. Þá væri hægt að
klára myndina og sýna hana hér heima“.
Tómas sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri staðan sú að fjársterkur aðili hafi sýnt verkefninu áhuga. „Nú bíður áhugahópur minn eftir rétta tækifærinu til að ljúka verkefninu og vonandi tekst það sem allra fyrst. Megi Guðs blessun hvíla yfir þeim sem fórust þennan örlagaríka dag árið 1944,“ sagði Tómas J. Knútsson í samtali við Víkurfréttir.
_____________________________
Segir ekki búið að finna Goðafoss – 10.09.2016
Íslenskur kafari sem stýrt hefur leit að flakinu af Goðafossi segir það rangt að búið sé að finna flakið, eins og þýskur kafari heldur fram.
Þýski kafarinn Thomas Weyer heldur því fram í þýska tímaritinu Spiegel og Morgunblaðið greinir frá, að flakið af Goðafossi sé fundið. Goðafossi var sökkt af þýskum kafbáti úti fyrir Garðskaga í nóvember árið 1944. Weyer hefur tekið þátt í leitinni að Goðafossi með Gunnari Birgissyni sem leitað hefur flaksins síðan árið 1997. Gunnar segir fullyrðingu Weyers um að skipið sé fundið ekki rétta.
„Nei alls ekki. Það er nú þannig að við fundum eitthvað sem leit út fyrir að geta verið kannski jafnvel flak eða eitthvað á botninum, en svo þegar var kafað þarna niður þá fannst ekki neitt. Hvort það sé tækjabilun eða hvað það er sem um ræðir eða hvort þetta sé bara einhver draugur í tækjunum, þá er hann ekki fundinn. Við höfum ekkert í höndunum sem í rauninni getur sagt það að hann sé fundinn. Það er ekkert áþreifanlegt, það eru engin haldbær sönnunargögn. Við sáum þarna eitthvað í þessum tækjum, en þegar við skönnuðum yfir aftur þá fundum við ekki neitt, þegar var kafað niður þá var ekki neitt. Þannig að þetta er bara eiginlega hálfgerð vitleysa“ segir Gunnar.
Hann segist hafa boðið Weyer inn í verkefnið á sínum tíma og að það skipti Weyer mestu málið að geta sagst hafa fundið Goðafoss. Gunnar segir ekki hægt að útiloka neitt, en alls ekki sé hægt að fullyrða að flakið sé fundið. Hann segir að leitin muni halda áfram.
Veistu eitthvað meira?… Geturðu bætt við upplýsingum? Hafðu samband, höfum söguna á hreinu; diveexplorer@dive-explorer.com
Flakið af M/S
Vestra liggur á tæplega 40 m dýpi nálægt Akranesbauju. Að flakinu er einungis
hægt að komast með báti. Skyggnið er yfirleitt nokkuð gott en fer þó eftir
vindátt.
Teikning af M/s Vestra. Sjókort sem sýnir staðsetningu á flaki M/s Vestra
Flakið er nokkuð
heillegt. Þarna er einnig töluvert dýralíf. Útveggur brúarinnar hefur fallið af
þannig að brúin er vel opin, en þar fyrir innan má sjá stórt tréstýri og
viðargólf. Á næstu hæð fyrir neðan eru vistarverur og eldhús, Öll þil eru
horfin þannig að hæðin er nú stór geimur fyrir utan stálskorstein sem liggur
upp í gegn um alla yfirbygginguna. Lestar skipsins eru tvær og eru þær
galopnar. Frammi á bakka eru spil og keðjur.
Ekki þykir
ráðlegt að fara inn í lestar né yfirbyggingu skipsins. Flakið liggur dýpst á um
40 metrum. Skipið er um 300 rml flutningaskip, byggt í Danmörku 1964 en það
fórst í febrúar 1974. Flakið fannst í September 2002. Flakið sem er tæplega 50
m langt liggur á stjórnborðssíðunni og er það mjög heillegt.
Fjölgeislamynd (multibeam) af Vestra
Skipið var að
leiðinni upp í Borgarnes, með mjöl farm. Skipið var vitlaust, eða illa lestað
og þegar það fór fyrir Akranesbaugju þá valt það á hliðina og sökk.
10 manns voru í
áhöfn en allir björguðust.
Botninn er malarbotn og gruggast ekki mikið upp þótt hann sé snertur. Nokkur straumur getur verið á svæðinu þannig að best er að kafa í flakið á fallaskiptum og á fjöru.
Vísbendingar sjómanna um að skipsflak væri að finna á hafsbotni skammt undan Garðskaga leiddu til þess að vísindamenn á vegum Hafmyndar ehf. og Háskóla Íslands héldu í könnunarleiðangur um hafsvæðið ásamt Landhelgisgæslunni.
Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðisns fengu að fljóta með í ferðina sem farin var á varðskipinu Tý.
Notast var við íslenskan kafbát, af gerðinni Gavia, við leitina að flakinu. Kafbáturinn, sem er í eigu Háskóla Íslands, er framleiddur af íslenska fyrirtækinu Hafmynd ehf.
Tvígeislamæling (e. Side Scan Sonar) af flaki Shirvan. Tekin með sjálfstýrða kafbátnum Gavia. (Heimild: Morgunblaðið 28.7.2010)
Flak Shirvans liggur á hliðinni á um 100 metra dýpi og af myndum að dæma hefur skipið brotnað í þrjá parta. Af fyrstu rannsóknum að dæma bendir fátt til þess að olía sé enn í tönkum skipsins.
Örlagavaldur Goðafoss
Líklegast þótti að um flak Shirvans væri að ræða. Getgátur voru uppi um hvort flakið væri af Goðafossi, sem var grandað í sömu árás og Shirvan. Það fær þó ekki staðist sé tekið mið af stærð og staðsetningu flaksins.
Tvígeislamæling (e. Side Scan Sonar) af flaki Shirvan. Tekin með sjálfstýrða kafbátnum Gavia. (Heimild: Morgunblaðið 28.7.2010)
Hinn 10. nóvember 1944 var skipalest á siglingu til Íslands. Í fararbroddi var skip Eimskipafélagsins, Goðafoss, en í hópnum var einnig breska olíuskipið SS Shirvan. „Mikið óveður varð til þess að Shirvan villtist af leið,“ segir Óttar Sveinsson, höfundur bókarinnar Útkall: Árás á Goðafoss. „Shirvan lenti í klóm þýsks kafbáts sem grandaði skipinu með tundurskeyti.
Skipið stóð eftir árásina í ljósum logum en með elju náði hópur áhafnarmeðlima að komast í björgunarbáta, margir mjög illa leiknir.“ Óttar segir að skipverjar Goðafoss hafi náð að bjarga 19 skipbrotsmönnum um borð. „Stuttu síðar komst Goðafoss sjálfur í skotfæri hjá þýska kafbátnum sem grandaði honum með afleiðingum sem flestir Íslendingar kannast við.“
Það er af Shirvan að segja að skipið rak mannlaust, í ljósum logum, á haf út þar sem það sökk.
Tvígeislamæling (e. Side Scan Sonar) af flaki Shirvan. Tekin með sjálfstýrða kafbátnum Gavia. (Heimild: Morgunblaðið 28.7.2010)
Breska olíuflutningaskipið Shirvan (Mynd; Uboat.net / Photo courtesy of the National Maritime Museum, Greenwich, P24037 )Fjölgeislamæling (e. Multi-beam) mynd af flaki Shirvan.
Hefurðu upplýsingar? Viltu bæta einhverju við eða laga?
Bætum við söguna um SHIRVAN! Hafðu samband: diveexplorer@dive-explorer.com
Flak breska dráttarbátsins Empire Wold sem fórst með allt að 17 mönnum í nóvember 1944 fannst nýverið á innanverðum Faxaflóa (2018). Íslenskum aðstandendum eins skipverjans hefur verið tilkynnt um fundinn og breska sendiráðinu gert viðvart.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Mynd: Landhelgisgæslan
Í lok apríl var varðskipið Þór við sjómælingar þar sem dýpi var mælt með fjölgeisladýptarmæli skipsins. Á innanverðum Faxaflóa urðu skipverjar og sjómælingamenn um borð í varðskipinu varir við þúst á hafsbotni sem vakti sérstaka athygli og var talið mögulegt að um skipsflak væri að ræða.
Landhelgisgæslan var ekki með neina vitneskju um skipsflak á þessum slóðum og því var ákveðið að kanna málið betur. Sjómælingabáturinn Baldur var þá sendur út til rannsókna með fjölgeisladýptarmæli en einnig var hafður með í för sjálfstýrður kafbátur frá Teledyne Gavia sem skannaði þústina með hliðarhljóðsjá.
Gögn frá mælingum Baldurs og Gavia staðfestu að um flak væri að ræða.
Skipslíkan af Empire Wold (Mynd; Morgunblaðið)
Fórst með 17 menn um borð
Þar sem ekki var unnt að staðfesta hvaða skip ætti í hlut fór Baldur í annan leiðangur með neðansjávarmyndavél Árna Kópssonar. Með gögnum úr þeim leiðangri var hægt að staðfesta að flakið væri af breska dráttarbátnum Empire Wold sem fórst í innanverðum Faxaflóa í nóvember 1944 og með honum allt að 17 menn.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunnie eru örlög dráttarbátsins Empire Wold tengd hildarleiknum þegar flutningaskipinu Goðafossi og tankskipinu Shirvan var sökkt af þýskum kafbáti við Garðskaga þann 10. nóvember 1944. „Saga Goðafoss og Shirvan er vel þekkt en færri hafa heyrt um dráttarbátinn sem sendur var frá Reykjavík til að reyna að bjarga tankskipinu. Shirvan hélst nokkuð lengi á floti þrátt fyrir skemmdir eftir tundurskeytið og rak logandi undan veðri og vindum,“ segir í fréttatilkynningunni.
Talið er að um borð í Empire Wold hafi verið níu manna áhöfn og átta bandarískir sjóliðar. Empire Wold hélt út frá Reykjavík um klukkan þrjú síðdegis þann 10. nóvember 1944 og sigldi til vesturs í átt að Shirvan. Síðan þá hefur ekkert spurst til skipsins fyrr en nú, 74 árum síðar.
Mynd: Landhelgisgæslan
Skildi eftir sig eiginkonu og 9 mánaða dóttur á Íslandi
„Ýmsar getgátur hafa verið uppi um hugsanleg örlög Empire Wold, meðal annars þær að skipinu kynni að hafa verið sökkt af kafbáti eða að það hefði siglt á tundurdufl. Ekkert kom hins vegar fram í gögnum Þjóðverja um að kafbátur hafi sökkt dráttarbáti við Ísland og var því seinna farið að horfa til þess hvort veður og sjólag kynnu að hafa grandað Empire Wold.“
Eftir rannsóknir Landhelgisgæslunnar á flakinu bendir ekkert til þess að skipið hafi sokkið af völdum tundurdufls eða tundurskeytis. Ekki er því hægt að skera úr um orsök þess að Empire Wold fórst í Faxaflóa.
Fundur flaks Empire Wold var tilkynntur til breska sendiráðsins og einnig til íslenskra aðstandenda eins skipverjans en 2. vélstjóri dráttarbátsins var kvæntur íslenskri konu og áttu þau 9 mánaða gamla dóttur þegar slysið varð.
Sigurjón Arnlaugsson HF 210. Smíðaður í Noregi árið 1960. Hann bar fjölmörg nöfn áður en hann fékk nafnið Sigurjón.
Hann var afskráður árið 1990 og honum sökkt og notaður sem æfingarstöð fyrir kafara. Hann liggur uppréttur á u.þ.b. 25 metra dýpi, rétt 400 metra vestan við Þerney.
GPS hnit: 64° 11.259’N – 21° 48.065’W
Togarinn Sigurjón Arnlaugsson HF210 (Mynd; Gunnar H. Jónsson / batarogskip.123.is)
Staðsetning á flaki Sigurjóns Arnlaugssonar, rétt norð/vestan megin við Þerney. (Kort: Google Earth)
Togarinn Sigurjón Arnlaugsson á siglingu. (Mynd; Þorgeir Baldursson)
Tvígeisla mynd (side scan sonar) úr Gavia AUV af flaki Sigurjóns Arnlaugssonar HF210 (Mynd: HÍ / Warsha Sing / DiveExplorer 24.07.2015 )
Side Scan sónar myndir þessar eru teknar með Gavia AUV.
Tvígeisla mynd (side scan sonar) úr Gavia AUV af flaki Sigurjóns Arnlaugssonar HF210 (Mynd: HÍ / Warsha Sing / DiveExplorer 24.07.2015 )
Tvígeisla mynd (side scan sonar) úr Gavia AUV af flaki Sigurjóns Arnlaugssonar HF210(Mynd: HÍ / Warsha Sing / DiveExplorer 24.07.2015 )
Sjókort sem sýnir staðsetninguna á flaki Sigurjóns ( Kort; Navionics )