Glitfaxi TF-ISG (+1951)

Hvar er flakið af Glitfaxa ?

Ein mesta ráðgáta í flugvélaheiminum og um leið einnig einn mesti harmleikur í flugvélasögunni á Íslandi er hvarfið á flugvélinni Glitfaxa árið 1951.

Uppfært 11.2.2023

Samkvæmt fréttaskýringu á netmiðlinum Mannlíf þann 10.2.2023 kemur fram að kafari nokkurn hafi fundið, og öllu heldur kafað niður að flaki GLITFAXA fyrir allmörgum árum. Þar vildi umræddur kafari ekki koma undir nafni.. hann lætur ekki í tjé neinar nánari upplýsingar annað en það að hann hafi staðfest að um er að ræða flakið af umræddri flugvél Glitfaxa.. einhvers staðar í Faxaflóa… (það eru 3-4 flugvélar í Faxaflóa og nágrenni m.a. þessi hér, og hér:) ekki koma neinar aðrar upplýsingar fram eins og, nánari staðsetning, dýpi þar sem flakið á að liggja,, botngerð,,, skyggni,,, ástand flaks,, hvaða ár hann átti að hafa kafað eða fundið flakið,, með hverjum (þú gerir svona ekki einn),, hvernig og hvaðan þessar upplýsingar hafa komið fráeru til myndir? Þannig að miðað við þessar upplýsingar.. sem hljóma ekkert annað en frekar ótrúverðugar og órökstuddar… rétt eins og hefur heyrst í gegnum árin er varðar flakið af Goðafossi.. Þá er flakið af Glitfaxa ófundið.

Nú ef „þessi“ kafari vill gefa upp frekari og nánari upplýsingar þá endilega hafðu samband, að bera við að þetta sé vot gröf og ber að virða.. jú það er rétt.. en ættingjarnir hafa líka verið að óska eftir þessum upplýsingum þannig að hafðu samband; Tölvupósturinn er diveexplorer@dive-explorer.com

Ef staðfesta eigi slysstað, flakið af Glitfaxa, er best að hafa samband við diveexplorer@dive-explorer.com.. hér er aðeins að finna fagmennsku og vísindalega nálgun í slíkri vinnu. Sönnun fyrir slíku má finna víða á þessari heimasíðu.

Vinnumappa; heimildir, vinnugögn og kort. (DE_26.2.2023)
Vinnumappa; Afrit af upprunalegum heimildum, fjarskiptasamskipti milli flugturns og TF-ISG (Glitfaxa), skömmu fyrir hvarfið. (DE_26.2.2023)

_____________________

GLITFAXI, TF-ISG


GÖMUL STRÍÐSVÉL
Glitfaxi var af gerðinni Douglas C-47 og var gömul herflugvél frá Bandaríkjunum, smíðuð árið 1942. Flugfélag Íslands keypti hana af Scottish Aviation í nóvember 1946, sem hafði breytt henni til farþegaflutninga. Flugvélin þótti afar öflug á sínum tíma. Hún var útbúin sætum fyrir 21 farþega og fjögurra manna áhöfn.
Minningareitur í Fossvogskirkjugarði um flugslysið árið 1951.
Flugvélin Glitfaxi TF-ISG, og þeir 20 íslendingar sem fórust í því slysi. Ekkert þeirra fannst, og flugvélin ekki heldur.

__________________________________________________________

Heimild; MORGUNBLAÐIÐ 31. JANÚAR 2011

Flugvélin sem hvarf

  • Sextíu ár eru síðan Glitfaxi fórst með tuttugu manns
  • Var í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli og steyptist í sjóinn
  • Enginn veit fyrir víst hvar flakið liggur en hlutar úr vélinni hafa fundist

Við erum komnir niður í 700 fet. statikkin er byrjuð. Ég veit ekki hvernig þetta verður.“

Þetta voru síðustu orðin sem heyrðust frá áhöfn Glitfaxa, áður en hann steyptist í sjóinn og fórst. Enginn veit fyrir víst hvar hann féll í sína votu gröf. Þó er víst að það var grátlega skammt frá áfangastað, Reykjavík.

Glitfaxi lagði af stað í sína hinstu flugferð síðdegis hinn 31. janúar árið 1951 frá Vestmannaeyjum. Fyrr um daginn hafði Glitfaxi flogið norður á Sauðárkrók. Við heimkomuna í Reykjavík var Ólafi Jóhannssyni flugstjóra tilkynnt að fljúga þyrfti til Vestmannaeyja. Vélin var þétt setin og hlaðin ýmsum vörum. Eyjar höfðu verið lokaðar í þrjá daga fyrir flugumferð, sökum veðurs.

Glitfaxi fór ekki einn til Vestmannaeyja. Glófaxi, vél frá Flugfélagi Íslands, kom í humátt á eftir. Flugvél Loftleiða hafði reynt að fljúga til Eyja fljótlega eftir hádegi, en snúið við. En síðan þá hafði veðrið lagast í Eyjum, að sögn heimamanna.

Sautján farþegar fóru um borð í Glitfaxa í Eyjum. Enginn kaus að fara með Glófaxa sem lenti í Eyjum um það bil þegar Glitfaxi fór í loftið. Farþegar voru í kappi við veðrið, því vindur fór vaxandi.

Veðrið í Reykjavík hafði versnað í millitíðinni. Snorri Snorrason, fyrrum flugstjóri, var staddur á Reykjavíkurflugvelli við vinnu hinn örlagaríka dag.

„Það var suðaustan kaldi, strekkingur – kannski fimm eða sex vindstig. Það var ekkert óveður, en moksnjókoma og ekkert sjónflugsskyggni,“ segir Snorri. Hann starfaði sem hlaðmaður á vellinum á þessum tíma jafnramt því að sinna starfi flugmanns í afleysingum.

Eftir að Glitfaxi var kominn í loftið bárust fregnir af því úr flugturni Reykjavíkurflugvallar að veðrið væri „mjög vafasamt“. Veðurfræðingur á staðnum trúði því að flugvöllurinn myndi jafnvel alveg lokast. Glitfaxi hélt áfram.

Laust fyrir fimm var Glitfaxi staddur yfir stefnuvita Reykjavíkurflugvallar á Álftanesi. Honum var gefin heimild til að lækka flugið og stefna í átt að flugbrautinni í sjónflugi. Þegar Glitfaxi nálgaðist var flugbrautin hvergi sjáanleg. Ólafur stýrði vélinni aftur upp samkvæmt ráðum flugturnsins.

„…það var svo mikil statik þarna að ég heyrði ekki nokkurn skapaðan hlut og ég þorði ekki að halda áfram,“ sagði flugstjórinn við flugturninn. Veðrið var farið að hafa áhrif á sambandið á milli vélarinnar og jarðar. Glitfaxi flaug á haf út.

Turninn kallaði: „Ég geri ráð fyrir að hyggilegt væri að reyna annað aðflug núna strax, reyna annað aðflug strax. Það er að byrja að lyfta til aftur, það er að byrja að lyfta til aftur.“

Ólafur flugstjóri og Garðar Gíslason, flugmaður vélarinnar, fylgdu ráðum turnsins og gerðu sig reiðubúna í aðflug. Þeir voru komnir í rétta stefnu og lækkuðu flugið á nýjan leik.

Skömmu síðar hættu að berast svör úr Glitfaxa. Hann var horfinn.

GLITFAXI, TF-ISG


GÖMUL STRÍÐSVÉL
Glitfaxi var af gerðinni Douglas C-47 og var gömul herflugvél frá Bandaríkjunum, smíðuð árið 1942. Flugfélag Íslands keypti hana af Scottish Aviation í nóvember 1946, sem hafði breytt henni til farþegaflutninga. Flugvélin þótti afar öflug á sínum tíma. Hún var útbúin sætum fyrir 21 farþega og fjögurra manna áhöfn. (Mynd; )

Fundu hluta úr vélinni

Eftir að mönnum varð ljóst að Glitfaxi var horfinn var byrjað að leita þegar í stað. Einhverjir voru sendir út í myrkrið um kvöldið. Það bar engan árangur. Daginn eftir var bæði leitað á landi, sjó og úr lofti. Leitarmenn fundu tvo stóra fleka úr gólfi Glitfaxa á hafsvæðinu út af Straumsvík og björgunarvesti úr flugvélinni við Vatnsleysuströnd. Þeir töldu sig einnig hafa fundið olíubrák úr vélinni. Síðar kom í ljós að brákin var sjávardýrafita.

Leitað var áfram á næstu dögum. Varðskipið Ægir og síldveiðiskipið Fanney leituðu á svæðinu með dýptarmælum og hið síðarnefnda slæddi sjávarbotninn með botnvörpu. Poki af sængurfötum, sem tilheyrði yngsta farþega Glitfaxa, fannst viku eftir slysið á hafi úti. Heyrnartól úr Glitfaxa og annar fleki úr vélinni, fundust í byrjun marsmánaðar við bæinn Hvol á Seltjarnarnesi.

Nýlegasti fundurinn var árið 1982. Þá rak á fjöruna á Álftanesi svo kallaðan „Hat rack“ eða farangursgeymslu yfir sætunum. Jón Pálsson, yfir skoðunarmaður Flugfélags Íslands, þekkti hann þegar í stað og staðfesti að hann væri úr Glitfaxa.

Allir þessir hlutir, auk frásagna flugstjórnarmanna, gefa til kynna að vélin hafi steypst í sjóinn út af Álftanesi. Enginn hefur fundið flakið af Glitfaxa, en ætla má að það liggi á hafsbotni skammt undan landi.

Hvar brotlenti Glitfaxi ? (Sjókort)

Þjóðarsorg

„Þegar slíkir atburðir gerast eins og nú hefur orðið er það þungt áfall, ekki einasta fyrir ástvini þeirra, er farist hafa, heldur fyrir óskir og vonir þjóðarinnar allrar. Slíkur atburður veldur þjóðarsorg.“

Þannig komst Jón Pálmason, forseti Sameinaðs þings, að orði í samúðarávarpi sem hann flutti á þingi tveimur dögum eftir slysið.

Þriggja manna áhöfn og sautján farþegar létu lífið þegar Glitfaxi steyptist í sjóinn. Lík hinna látnu hafa aldrei fundist. Flestir farþeganna voru frá Vestmanneyjum, þar á meðal yngsti farþeginn, hinn fimm mánaða gamli Bjarni Gunnarsson.

Mennirnir sem fórust létu eftir sig 48 börn, þar af 26 innan fermingaraldurs. Þar að auki voru tvö börn hinna látnu í móðurkviði og fæddust skömmu eftir slysið. Alls misstu því fimmtíu börn föður sinn. Barnflesta heimilið var í Þingholti í Vestmannaeyjum. Þar misstu tólf börn föður sinn og fyrirvinnu, Pál Jónsson skipstjóra.

Í leiðara Morgunblaðsins hinn 2. febrúar 1951 var skrifað: „Glitfaxi er horfinn – Jelinu ljettir, en skuggi kvíða, og síðan sorgar og saknaðar leggst yfir heimili þess fólks sem átti vini og venslamenn með hinni týndu flugvjel.“

Mannlíf 3. febrúar 2023

Glitfaxi – flugvélin sem hvarf: „Hún reyndi hvað hún gat að telja afa hughvarf. (Björgvin Gunnarsson)

Þann 31. janúar 1951 lagði Dagota flugvél Flugfélags Íslands að nafni Glitfaxi af stað í áætlunarflug frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Um borð var þriggja manna áhöfn og sautján farþegar. Veðrið var vafasamt en hríðabil var úti og ekki hafði verið flogið til eða frá Eyjum í þrjá daga vegna veðursins. Rétt fyrir fimm var Glitfaxi staddur yfir stefnuvita Reykjavíkurflugvallar á Álftanesi en flugstjóranum, Ólafi Jóhannssyni var gefin heimild til að lækka flug og stefna í átt að flugbrautinn í snjónflugi. Flaug flugstjórinn vélinni niður en þá var flugbrautin hvergi sjáanleg. Stýrði Ólafur því vélinni aftur upp að ráði flugturnsins og flaug út á Faxaflóa. Var honum þá tilkynnt af flugturninum að nú væri veðrið orðið skárra og honum ráðlagt að reyna annað aðflug. Lækkaði Ólafur því flugið og setti flugvélina í stefnu en skyndilega rofnaði allt samband við vélina. Glitfaxi var horfinn í sæinn.

Um er að ræða eitt dularfyllsta flugslys Íslandssögunnar en flak flugvélarinnar hefur aldrei fundist.

Tíminn fjallaði um flugslysið á sínum tíma:

Glitfaxi hefir farizt milli Álftaness og Keilisness

Olíubrák á sjónum út af Hraunsnesi, björgunarbelti á floti nokkru utar, tveir flekar úr hreyfli flugvélarinnar út af Keilisnesi

Það má nú telja víst, að flugvélin Glitfaxi hafi farið í sjóinn einhvers staðar á svæðinu milli Álftaness og Keilisness, og allir, sem í henni voru farizt þar. Fannst á þessum slóðum brak úr gólfi flugvélar og eitt björgunarbelti, og brák á sjónum út af Hraunsnesi. Virðist allt benda til þess, að slysið hafi borið mjög skjótt að og fólkið drukknað þegar í stað.

Reköld finnast

Jóhannes flugstjóri Snorrason kom fyrstur manna auga á brakið um þrjúleytið í gær, og tilkynnti þegar, að hann sæi á tveim stöðum eitthvað í sjónum, sem gæti verið fleki úr flugvélargólfi. Risi það á rönd upp úr sjónum, og sæi í nýlegt brotsár. Voru flök þessi út af Keilisnesi i stefnu frá Akrafjalli á Keflavík. Sendi Jóhannes svohljóðandi skeyti: „Hef fundið brak á sjónum. Það líkist krossviðarfleka, brotið á hliðum og upp úr því stendur eitthvað. Gæti verið hluti af gólfi úr flugvél.“ Varðskipið Ægir var þá statt í sex mílna fjarlægð, og kom það nú á vettvang. Kastaði björgunarflugvél frá Keflavíkurflugvelli út fljótandi blysi til þess að merkja staðinn, þar sem flökin voru. Fann Ægir brátt reköldin og auk þess eitt björgunarbelti. Kom hann með þetta til Reykjavíkur í gærkvöldi.

Brakið tvímælalaust úr Glitfaxa

Þegar er Ægír var kominn að landi, var brakið, sem fundizt hafði, tekið til rannsóknar og varð niðurstaðan sú, að brakið væri tvímælalaust úr Glitfaxa. Var um að ræða tvo gólffleka, um tveggja metra langa eða rösklega það, og var annar mun mjórri en hinn. Er talið, að annar hafi verið hægra megin úr gólfi flugvélarinnar, en hinn vinstra megin. Stærri flekinn var flagnaður og brotinn í annan endann og skein þar í hvítan balsavið. Við fleka þennan voru einnig brot af stólafestingum, og hluti af áklæði af einum stólnum. Björgunarbeltið, sem fannst, var með órofnu innsigli, og hafði því sýnilega ekki verið notað. Hluti þessa alla töldu flugvirkjar og flugmenn sig þekkja, að væru úr Glitfaxa, enda voru brotsár á viði og málmi alveg ný, og ekki um brak úr annarri flugvél að gera á þessum slóðum. Umfangsmikil leit. Þegar brakið úr flugvélinni hafði fundizt, og sýnt þótti, að það væri úr Glitfaxa, voru leitarflokkar allir á landi kvaddir heim, og skip og flugvélar beðin að hætta leit. — Höfðu tólf flugvélar tekið þátt í Ieitinni, en auk þess mörg skip og bátar og fjöldi fóiks á landi allt umhverfis Faxaflóa. Var leitað allt frá sjávarmáli upp til fjalla.

Fólkið, sem fórst

Eins og skýrt var frá í gær voru margir Vestmannaeyingar meðal beirra, sem fórust með Glitfaxa. Páll Jónsson skipstjóri var að koma hingað til þess að taka við bátnum Faxaborg, og var í för með honum sumt af mönnunum, sem átti að vera á bátnum. — Kona sú, sem í blaðinu í gær var samkvæmt farþegalistanum sögð heita Marta Hjartardóttir, hét María Hjartarson, og barn hennar var kornungt sveinbarn, aðeins fimm mánaða. Bræðurnir Magnús Guðmundsson úr Reykjavík (ranglega sagður úr Keflavík í gær) og Guðmann Guðmundsson í Keflavík voru að koma frá arfaskiptum, sem farið höfðu fram eftir látinn bróður þeirra í Eyjum. Loks skal það leiðrétt, að Guðmundur bóndi í Arnarholti var ranglega nefndur Guðbjörnsson i gær. Hann var Guðbjarnason. Flugstjóri á Glitfaxa, Ólafur Jóhannsson, var sonur Jóhanns Þ. Jósefssonar alþingismanns.

Minnist afa síns

Sigfús Guttormsson frá Krossi í Fellasveit á Austurlandi skrifaði fallega færslu á Facebook á dögunum. Í færslunni segir hann sögu afa síns og alnafna, Sigfús Guttormsson á Krossi en hann fórst með Glitfaxa þennan afdrífaríka dag fyrir 72 árum. Gaf hann Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta færsluna

„Í janúar 1951 fór afi á Krossi, Sigfús Guttormsson, til Vestmannaeyja. Hann hafði kennt sér meins og fór að hitta Einar bróður sinn sem var lengi læknir í eyjum til að ráðfæra sig við hann. Reyndar bjó Guðlaugur bróðir þeirra líka í Vestmannaeyjum

Miðvikudaginn 31. janúar vildi afa fara með flugi frá eyjum til Reykjavíkur. Hann vildi fara að koma sér áleiðis heim þar sem amma, Sólrún Eiríksdóttir, var ein heima á Krossi með sjö af börnum þeirra. Oddur, Guðný Sólveig, Guttormur, Sveinn Eiríkur, Baldur, Jón og Oddbjörg voru heima. Páll elsti sonurinn var þennan vetur í skóla á Eiðum. Þórey ólst upp á Reyðarfirði. Níu börn afa og ömmu komust til fullorðinsára.

Hjónin á Krossi

Veður var ekki sem best og það mokaði niður snjó í logni í Vestmannaeyjum. Að afi skyldi endilega vilja fara með flugi þennan dag í þessu veðri lagðist illa í Margréti konu Einars bróður afa. Hún reyndi hvað hún gat að telja afa hughvarf og bað hann að um að fresta för sinni til morguns. Afi hélt sínu striki með þá ætlun sína að komast sem fyrst heim til fjölskyldu sinnar sem beið hans.

Seinni partinn tók flugvélin Glitfaxi á loft frá flugvellinum í Vestmannaeyjum. Áfangastaður var Reykjavíkurflugvöllur. Flugvélin kom til aðflugs en varð frá að hverfa vegna þess að dimmt él gekk yfir borgina. Flugmennirnir fengu skilaboð frá flugturni um að fljúga hring og bíða þess að birti til. Í þessu flugi lenti Glitfaxi í hafinu og fórst. Önnur flugvél fór, á svipuðum tíma þetta síðdegi, sömu flugleið frá eyjum og til Reykjavíkur. Hún lenti heilu og höldnu í Reykjavík.

Margar spurningar og kenningar vöknuðu í kjölfarið á slysinu og hafa lifað með fjölskyldum allra þeirra sem fórust. Svör hafa ekki legið á lausu. Mörgum sem tengjast harmleiknum hefur fundist að hægt væri að varpa ljósi á eitt og annað. Opinberlega er staðsetning flaks Glitfaxa óþekkt. Með Glitfaxa fórust 20 manns.

Frásögnin hér að ofan kemur til mín frá pabba, systkinum hans, tveimur börnum Einars læknis og fleirum. Þetta er okkar saga. Fjölskyldur allra hinna sem fórust eiga sér sínar sögur.

Í dag eru 72 ár liðin frá því að afi fórst. Í kvöld logar á kerti á ferðakofforti afa hér í stofunni.

Hvíl í friði!“

__________________

Heimildir: Mannlíf 3tlb. 2023

Mannlíf 3tlb. 2023
Mannlíf 3.tlb. 2023

_____________________

Hefurðu upplýsingar um GLITFAXA TF-ISG, eða nánari staðsetningu á mögulegu flaki þess. Eitthvað sem þú vilt bæta við? Hafðu samband, skrifaðu hér á síðuna eða sendu mér tölvupóst: diveexplorer@dive-explorer.com

Information, something about GLITFAXA TF-ISG airplane? Write me, email: diveexplorer@dive-explorer.com

__________________________

Heimildir, upplýsingar og fréttir:

2 athugasemdir við “Glitfaxi TF-ISG (+1951)”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s