Skipsflakið í Álftafirði – „Bergljót“
Í Álftafirði á Vestfjörðum, ekki langt frá Súðavík, liggur skipsflak sem hefur í gegnum tíðina verið kallað „Bergljót“ – þó ekki sé með vissu vitað að það hafi raunverulega borið það nafn. Sumir hafa einnig þekkt það undir öðrum nöfnum, svo sem Berglind.
Á svæðinu sem flakið hvílir var starfrækt hvalveiðistöð um og upp úr aldamótunum 1900. Sagt er að skipinu hafi verið ætlað að þjóna sem hluti af bryggju við stöðina. Í dag liggur það á 4–8 metra dýpi, aðeins um 100 metra frá landi, þar sem stór hluti þess er enn klæddur koparbyrðingi.
Skipið var upphaflega norskt timburskip, ætlað til flutninga milli Íslands og Noregs. Á einni slíkri ferð hreppti það storm og skemmdist svo mikið að ákveðið var að selja það á Íslandi. Nafnið sem það bar í norskri eigu hefur ekki fundist í heimildum, en líklegt er að hægt væri að grafast fyrir um það. Eftir sölu var skipið flutt vestur á firði og nýtt við hvalveiðistöðina um tíma, þar til það var lagt til hliðar og ætlað sem bryggjubrot.
Heimildir um sögu skipsins eru fáar og að mestu byggðar á frásögnum heimamanna. Munnmælin eru þó ólík og ekki vitað með vissu hvort skipið hafi nokkurn tímann borið nafnið „Bergljót“, eða hvort það festist einfaldlega við það í seinni tíð.
Dr. Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknarsetur Háskólans á Vestfjörðum, hefur gert mælingar og rannsóknir á flakinu. Niðurstöður hans benda til þess að skipið hafi í raun verið norsk skonnorta, smíðuð árið 1879. Hún hafi fyrst verið notuð til flutninga á byggingarefni, en svo skilin eftir í kringum aldamótin 1900.

Tvígeislamælingar (e. side scan sonar & bathymetric survey).
26. ágúst 2011
Tvígeislamælingar voru gerðar af flaki Bergljótu í Álftafirði. Markmiðið var kortlagning með neðansjávartækni til að meta umfang og kanna umhverfið í kringum flakið.
Dr. Ragnar Edvardsson, neðansjávarfornleifafræðingur og Arnar Þór Egilsson, kafari og neðansjávarrannsakari sáu um verkefnið.
Sjá mátti ýmsa muni sem leyndust víða í kringum flakið, m.a. hvalbein.



Þrívíddargerð 3D (e. Underwater photogrammatry)
27. ágúst 2025
Við, ég ásamt Dr. Ragnari Edvardssyni hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands og Heimi Haraldssyni kafara, könnuðum flakið nýlega og unnum þar neðansjávarljósmyndun, og gerð var þrívíddarmynd (Photogrammatry) af flakinu.
Ragnar hefur einnig framkvæmt ýmsar rannsóknir á svæðinu og kortlagt flakið að hluta. Í þetta sinn tókum við um 6000 ljósmyndir í tveimur köfunum.
Mikill gróður var á flakinu, agnir í sjónum og ákveðið takmarkað skyggni gerði myndatökurnar nokkuð krefjandi.



Heimild 1. september 2025
Ég er fædd á býli afa míns og ömmu, Dvergasteini og að hluta alin þar upp. Ég hef aldrei heyrt nokkuð annað nafn á þessu skipi en Bergljót. Afi minn fæddur 1901 var alinn upp í Súðavík sagði mér að Bergljót hafi verið kolaskip og þegar hún slitnaði frá bryggjunni (ég man vel eftir bryggjustaurunum fram undan bænum) og sökk þá hafi verið kafað eftir kolunum – enda verðmæti í þeim. Við ólumst upp við að sjá flakið blasa við í sjónum frá tröppunum á logndögum. Einhvern veturinn fyrir nokkrum tugum ára færðist flakið á aðeins meira dýpi í ofsaveðri. Við krakkarnir vorum vön að dorga eftir bútung í kringum Bergljótu og ég man vel eftir opnu lestaropinu (í kringum 1960 – 1965) á dekkinu. Þá var hún merkilega heil. Eins man ég eftir að hluti af stýrirhúsi sást á stórstreymsfjörum. Ef ég man rétt var Bergljót að nálgast starfslok og til stóð að nota hana sem brjót eða bryggju þarna. Afi minn þekkti fullt af fólki sem unnið hafði þarna í „stassjóninni“ á Dvergasteinseyrinni og hefði örugglega nefnt það ef einhver áhöld hefðu verið um nafnið á skipinu.
Bestu kveðjur
Dagbjört Hjaltadóttir,
Súðavík
Færðu inn athugasemd