Lýsing á flakinu – Phönix (+1881)

Phönix var 60 metra langt og 7 metra breitt. Það hafnaði á skeri 31. janúar 1881, sunnan við Syðra-Skógarnes, um kílómeter frá landi, milli Litla-Fiskhamars og Tjaldurseyja. Skerið sem Phönix strandaði á fékk síðar nafnbótina, Fönixarflaga.

Fönixarflaga er langt og mjótt sker sem hefst 500 metra frá landi. Skerið teygir sig frá NNA til SSV. Skerið er 400 metra langt, 50 metra breitt þar sem það er mjóast en 112 metra breitt þar sem það er breiðast.

Dýpi niður á skerið er 2 metrar miðað við meðalstraumsfjöru. En allt að 4 metrar niður á það á flóði. Á fjöru teygir sjávargróður sig upp á yfirborðið og auðvelt er að flækja skrúfur utanborðsmótora. Skerið er stórgrýtt, gróðurríkt af stórum hrúðurkarlar, krossfiskar, skeljar og Steinbítar hafa sést oft í kringum skerið og flakið.

Fönixarflaga. Skerið sem Phönix strandaði á og sökk við.

Dýpi niður á flakið er misjafnt þar sem hluti flaksins, stefnið, situr enn á skerinu er minnsta dýpið niður á flakið. Skuturinn sem liggur á mesta dýpi flaksins á u.þ.b. 9 metra dýpi en stefnið er á 2-3 metra dýpi. Bakborðssíða flaksins liggur upp við skerið frá skut og alveg fram að farmlestinni, er þar fyrir framan er hluti flaksins farið að liggja upp á skerinu. Stefni flaksins liggur alveg ofan á skerinu.

Við köfun er vanalega hent út í botnlóði með uppstigslínu og belg á gps hnitum í námunda við skut eða skrúfu flaksins.

Reynt verður að lýsa ástandi flaksins frá skut og að stefni.

Lýsing á flakinu

Skuturinn

Þegar niður á botn er komið blasir við lítill partur úr skuti skipsins sem enn stendur uppréttur. Skuturinn liggur mest 10 – 12 metra frá skerinu. Skuturinn liggur í skeljasandi á u.þ.b 9 metra dýpi. Rétt hjá, um 1. meter fyrir aftan skutinn, stendur skipsskrúfan, tvö skrúfu blöð, af fjórum, standa upp úr sandinum.

Kafari við skrúfublað Phönix.

Skrúfublöðin eru nokkuð stór, þau eru víða þakin hrúðurkörlum og eitthvað af sjávargróðri sem teygja sig upp í átt að yfirborðinu. Hæð skrúfublaðanna frá botni og upp er ca. 1,5.

Sama má segja um þann part af skutnum sem stendur enn, nokkur þaragróður er á honum, þó fer það eftir árstíma og hitastigi sjávar hversu mikill og þéttur hann er. Talið er að skrúfan sé úr stáli en það hefur ekki verið kannað nákvæmlega. 2011 var settur niður mælingapunktur 4 metra fyrir aftan skrúfuna. 2012 leiðangrinum var þessi mælingapunktur nánast að öllu leyti grafinn í sand og 2013 var hann horfinn. 2013 hafði mikill sandur safnast fyrir ofan á flakinu og hulið marga hluta flaksins.

Skuturinn sem enn stendur er brot úr bakborðssíðunni. Sá partur er ca. 4 x 4 m. og stendur 2 – 3 m. á hæð frá botni. Stjórnborðshluti (skutsins) er fallinn niður og hefur verið grafinn í sand meira og minna alla þá leiðangra sem farnir hafa verið frá 2009. Í 2011 leiðangrinum þá hafði talsverðan sand blásið af flakinu. Þá hafði meðal annars farið sandur af bakborðsbyrðingnum og þá mátti einnig greina brot úr stýri skipsins sem var staðsett fyrir aftan skipsskrúfuna hægra meginn, stjórnborðsmeginn (austan megin).

Að innanverðu, á þeim hluta skutsins sem enn stóð mátti sjá hluta drifskaftsins. Tenging drifskaftsins við vélina hefur losnað í sundur, og stendur aðeins brot af drifskaftinu út úr byrðingnum. Hinn hluti drifskaftsins liggur undir bakborðsbyrðingnum. Styrkingar á skutnum má sjá að innanverðu, en skuturinn er víða brotinn og hallar í átt að stjórnborðshliðinni.

Stjórnborðs og bakborðsbyrðingur frá skut fram að vél

Bakborðsbyrðingurinn hefur brotnað niður, þ.e. sá hluti sem var fyrir framan skutinn fram að vél.

Sá byrðingur hefur fallið inn á við og lokar af, hylur, að öllu leyti geymslurýmið og kjölinn sem hefur verið fyrir aftan vélina. 2011 þá hafði sand blásið af byrðingnum og þá mátti sjá hversu stór stálbyrðingur það hefur verið sem hafði fallið niður. Er þá verið að horfa á ytri hlið byrðingsins. Sá hluti er eitthvað heill en á nokkrum stöðum hefur hann brotnað vegna þunga og eru göt og sprungur á honum vegna tæringar. Gróður á til að safnast á honum á vorinn og sumrin þegar hann er ekki hulinn sandi.

Hluti skipssíðunnar, bakborðsmeginn.

Stjórnborðsbyrðingurinn hefur fallið út á við en sá hluti hefur verið meira og minna hulinn sandi, alla þá leiðangra sem hafa verið farnir hingað til og því hefur hann ekki verið sýnilegur. Gera má samt ráð fyrir því að hann liggi í sandinum en ekki er vitað hversu djúpt niður hann gæti legið niður á hann.

Þegar komið er fram að vél fór að bera á fleiri stórum hlutum og einnig smáhlutum.  

Vél og fram að gufukatli     

Vélin í Phönix skv. heimildum var ein single stage expansion vél (1S), 2 cyl, frá A/S Burmaster & Wain´s Maskin- & skibsbyggeri, Kaupmannahöfn (uppfærð í Phönix árið 1878).

Vélin hvílir nokkurn veginn enn á sínum stað, 2-3 metrum hægra megin við vélina (stjórnborðsmegin) liggur mögulega hluti úr vélinni. Nákvæm skoðun á hlutnum hefur ekki farið fram, en hann er þakinn gróðri og hluti þess grafinn í sand. Hluturinn er ekki mjög stór, mögulega 1,5 m á lengd, og 1 meter á hæð.

Hluti úr vélinni.

Í kringum vélina mátti sjá ýmislegt brak úr skipinu meðal annars einn af 8 björgunargálgum (bátsuglum) skipsins.

Bakborðsmeginn við vélina mátti sjá hluta af byrðingnum, og hvílir hluti af honum utan í skerinu. Á köflum er hann mjög illa farinn og brotinn.

Hægt er að kafa að hluta til undir bakborðsbyrðinginn og komast þannig „undir“ flakið þar sem sá hluti liggur utan í skerinu.

Vél fram að gufukatli

Gufuketillinn í Phönix var uppfærður samkvæmt heimildum 1878.

Hann var af gerðinni, (1. (SB) Scotch 3(f) GS56 HS2000) Single ended boiler, smíðaður af A/S Burmeister & Wain´s Maskin- og Skibsbeggeri í Kaupmannahöfn.

(SB = Single ended boiler)

(f = furnace)

(GS = grate surface (in square feet)

(HS = Heating surface (in square feet)

Gufuketillinn liggur um það bil 80 til 90° á stjórnborða, hallar frá skerinu í austur. Það hefur sjálfsagt gerst þegar skipið strandaði og síðar meir sökk þá hallaði skipið frá skerinu og niður á dýpið stjórnborðsmegin. Með tímanum þegar skipið brotnaði upp, þá hefur þungi gufuketilsins hallað á og þrýst á stjórnborðsbyrðinginn sem hefur síðan fallið niður á botninn.

Því liggur gufuketillinn svona á hliðina og að hluta til ofan á stjórnborðsbyrðingnum.

Gufuketill Phönix.

Sjávardýpi niður á gufuketil hefur verið 2-4 metrar. Talsverður þaraskógur hvílir á honum á vorin og sumrin. Hæð gufuketils niður á botn, eða gólf flaksins er um það bil 4 metrar.

Hægra megin við gufuketillinn, um 2-3 metra frá á honum, í sandinum, liggja tveir nokkuð stórir hlutir. Mögulega úr gufukatlinum. Annar hluturinn er holóttur að innan. Hann gæti hafa verið hluti af eða úr háfinum, hann er það stór og gatið það stórt að kafari getur synt í gegnum hann.

Milli gufuketils og þessara hluta eru nokkrir þekkjanlegir smáhlutir, eins og krani úr messing. Liggur hann einn og sér ásamt flönsum, skrúfur sem hafa haldið honum föstum hafa eyðst í burtu með tímanum. Pípur úr messing og kopar eru víða þarna í kring, en það nokkuð eðlilegt í kringum gufuketil og vélina. Rétt undir gufukatlinum, stjórnborðsmeginn, má sjá kýrauga ásamt festihring úr messing. Voru þessir hlutir orðnir talsvert steinmyndaðir. Óþekktur hlutur úr messing, liggur hjá kýrauganu. Þar rétt hjá var einnig annar krani úr kopar, lítill að stærð.

Milli tveggja stóru hlutanna úr gufukatlinum mátti sjá postulín, tvo diska og eina súpuskál. Diskarnir eru sjáanlega brotnir og eru nokkuð fastir við flakið. En steinmyndun hefur valdið því ásamt hlutum sem hefur fallið niður á þá og eru þeir huldir að hluta til. Súpuskálin liggur á hvolfi, svo merkingar á henni eru sýnilegar. Greina mátti hvar súpuskálin hafði verið framleidd og af hvaða fyrirtæki. Virðist hún ekki vera eins föst eins og diskarnir en þörf er á sérhæfðum verkfærum til að losa hana og mikla vandvirkni ef möguleiki á að losa hana án þess að hún brotni.

Lengra stjórnborðsmegin út frá þessum stóru hlutum úr gufukatlinum hefur byrðingurinn fallið niður á sjávarbotninn. Á þessum byrðingi mátti sjá tvö kýraugu, eitt liggur fast í byrðingnum, enn með glerið heilt. Þar rétt hjá var kýrauga, alveg laust, þar sem skrúfur sem heldu því föstu höfðu með tímanum eyðst í burtu. Kýrauga þetta var án glers.

Á þessum hluta byrðings mátti sjá enn einn af 8 björgunagálgum (bátsuglum) skipsins. Liggur efsti hluti þess ofan í sandi en neðri hlutinn er enn fastur við byrðinginn sem hefur fallið niður á botn.

Farmlestin, fyrir framan gufuketil

Svæðið, flöturinn fyrir framan gufuketilinn, lestin, er víða mikið brotin og opið niður á sjávarbotn. Stórgrýti standa einnig upp úr gólfinu, kjölnum. Byrðingurinn bakborðmeginn hefur lagst upp að skerinu. Byrðingur stjórnborðsmeginn liggur á sjávarbotninum hægra meginn við flakið. Hann er að miklu leyti grafinn í sand, brot úr byrðingnum standa þó enn uppi.

Stjórnborðsmeginn, inn á milli grindanna (bandanna) var að sjá koparhaldfang. Það var laust. Þar hjá á gólfinu utan í byrðingnum að utanverðu lá laust kýrauga úr kopar, án glers. Á byrðingnum, stjórnborðsmeginn, sem grafinn var í sand sást glitta í kýrauga, að innanverðu. Kýraugað var án glers.

Á svæði farmlestarinnar mátti sjá hluta af fram-mastrinu (fokku-mastur) og fæti/festingu hennar. Frammasturið var höggvin/söguð niður á tíma strandsins, þannig aðeins hluti hennar er til staðar. Það lá ofan á hlutum þarna í kring en það hefur lítið verið skoðað.

Skammt frá framsiglunni er hjól en hlutverk þess er óþekkt. Þar fyrir ofan var fjögurra blaða skrúfa, sjálfsagt varaskrúfa skipsins eða hluti af farmi skipsins. Skrúfa þessi var líklega úr stáli.  Hún er nokkuð ógreinileg þar sem þessi hluti flaksins er oft hulinn gróðri og lítt verið skoðað.

Stjórnborðsmegin í sandinum liggja sjálfsagt brot/munir úr flakinu. Sést hefur í nokkurra tuga metra fjarlægð frá meginhluta flaksins búta úr flakinu sem standa upp úr sandinum. Þeir hlutar eru óþekktir en lítið hefur svæðið verið kannað með þetta í huga.

Teikning af flaki, og brakasvæði Phönix. Ragnar Edvardsson mældi flakið upp og teiknaði þessa mynd.

Stefnið

Fyrir framan farmlestina liggur sjálfsagt stefnið, ofan á skerinu, en það hefur lítið verið skoðað og þar af margt ókannað. 

Sést hafa stál/þil plötur sem hafa legið frá farmlestinni og upp á skerið. Á þessu svæði er talsverður og þéttur þaraskógur sem hefur gert sjónskoðun takmarkaða og tímafreka. Akkeri, akkerisvindur og keðjur hafa enn ekki sést svo dæmi séu tekin.

Gera má ráð fyrir að stefnið sé mikið brotið, jafnvel dreift. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að hluti stefnisins liggi eitthvað aðeins frá megin hluta flaksins.

Stjórnborðsmeginn, aðeins austan meginn við „stefnið“ er lítil röst/gjá í skerinu. Í einni köfunni komu í ljós bútar og munir úr flakinu. Meðal annars koparhnúðar sem hafa verið notaðar sem festingar á grindverki skipsins.

Samantekt:

Síðan flakið af Phönix fannst, 2009, þá hefur verið kafað 60 sínnum niður á það. Þær kafanir hafa varað í alls 2428 min eða 40,5 klst. Þetta er ekki allt vinnukafanir því margar af þessum köfunum hafa eingöngu verið til að kanna og skoða.

Fornleifafræðingurinn Dr. Ragnar Edvardsson að teikna upp flak póstskipsins Phönix (Mynd Arnar Þór Egilsson)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s