Leitin – Póstskipið Phönix (+1881)

Leitin að flakinu 

Vinna við „Leitina að Póstskipinu“ hófst í janúar 2006. Leitað var heimilda um skipið og strandið. Síðan hófst vinna við gerð áætlana og semja drög að leiðöngrum til þess að kanna möguleika þess á að finna flakið. Eftir svona mörg ár í sjó eru oft ekki miklar líkur á því að mikið hafi varðveists. Taka þarf tillit til marga þátta áður en farið er út í leit sem þessa, ekki bara hver kostnaðurinn er, heldur hvort það sé raunhæft. Að leita að skipsflaki sem hefur verið í sjónum í langan tíma er aldrei einfalt eða auðvelt.


Afrit af upprunalegri skýrslu sýslumannsins í Snæfellsnessýslu, Sigurðar Jónssonar, þar sem hann kynnir amtmanninum í Reykjavík frá strandi póstskipsins 8. janúar 1881.

Eftir margar vettvangsferðir, samantektir á heimildum, vinnu við kortagerð og leyfis frá landeigendum, fannst okkur ekki ólíklegt að möguleiki væri á að finna flakið. 1 árs vinna lá að baki þar til það kom að næsta þætti.

Til stóð að fara í köfunarleiðangur sumarið 2007 en vegna skamms undirbúningstíma tókst ekki að setja saman leiðangur. Frekari undirbúningsvinnu við leitina var því haldið áfram. Meðal annars voru allar upplýsingar færðar inn í tölvu og fullkomið og nákvæmt kort útbúið. Til þessa þurftu leiðangursmenn að fara nokkrar vettvangsferðir vestur til að afla gagna, setja niður hnit svo nákvæmnin yrði sem allra best. Kortavinnan gekk vel. Að því loknu var leitarsvæði afmarkað. 

Merki sem búið var til í tenglsum við verkefnið Phönix. Þeir sem tóku þátt í leiðöngrum eða aðstoðuðu við verkefnið fengu slík merki.

Í maí 2008 kom að fyrsta köfunarleiðangrinum. Veður var einstaklega gott og náðust nokkrir köfunardagar. Ekki tókst að leita allt leitarsvæðið, sem lagt var upp með. Þrátt fyrir það og ekkert hafi fundist náðist að safna miklu af upplýsingum í gagnagrunninn. Einnig náðist að fá betri tilfinning fyrir svæðinu og aðstæðum. Slíkt skiptir miklu máli við flakaleit því vanda þarf mjög vel og velja að kostgæfni hvaða svæði skulu leituð. Köfunartími er takmarkaður af mörgum aðstæðum, nýta þarf tímann vel.

Kafarar gera sig klára fyrir leit. Leitarleiðangur í maí 2008.

Að loknum köfunarleiðangrinum í maí 2008 var vinnu haldið áfram. Var hafinn undirbúningur og skipulagning að næstu ferð. Var ákveðið að sú ferð yrði farinn með þá tækni og búnað sem okkur stóð til boða og gæti nýst okkur. Næsta leit yrði framkvæmd með köfurum og hljóðbylgjutæki sem greinir hluti á hafsbotni. En bið yrði á þeim leiðangri fram á vorið 2009.

Í apríl 2009 var farinn leitarleiðangur. Þrír kafarar/leitarmenn fóru í leiðangurinn, Arnar Egilsson (AÞE), Eggert Magnússon (EM) og Eiríkur Ó. Jónsson (EÓJ). Veður þessa leitardaga var gott. Sjólag hentugt fyrir leit og köfun. Menn voru einbeittir og jákvæðir þessa daga sem leitað var.

Fór stór hluti leitarinnar fram um borð í bát með notkun á hljóðbylgjutæki. Upplýsingar úr honum voru greindar og metnar, en töluverðar reynslu þarf til að lesa úr gögnum. Ef eitthvað kom fram í gögnum sem þurfti frekari skoðunar við, var kafari sendur niður til að skoða málið.

Það var svo 16. apríl 2009, skömmu eftir hádegi, að Eiríkur var sendur niður til að skoða og rannsaka. Ekki leið löng stund að hann kæmi upp á yfirborðið með fréttir þess efnis að hann hefði séð eitthvað manngert þarna niðri, skipsflak. En spurningin var, var það flakið af Póstskipinu?

Eftir fundinn hófst vinna við að skoða og meta flakið. Það var ljósmyndað, videomyndir voru teknar og allt saman skráð. Unnum við eftir hugmyndafræðinni „taking pictures and leave only bubbles“. Sem þýðir það að við hreyfðum ekki við neinu og tókum ekki neitt. Flakið var allveg jafn ósnert og áður en við fundum það.

Það tók okkur nokkrar kafanir bara til þess átta okkur á því sem við höfðum fundið og vorum að sjá. Svo magnað var þetta! Allt benti til að þarna væri flakið af Póstskipinu. Eftir svona mörg ár í sjó hafa hlutir breyst í lögum sökum tæringa, sjávargróðurs og annars. Einnig vorum við að sjá hluti og tækni sem voru yfir 100 ára gömul og okkur ókunnug. Hlutir sem voru kannski eðlilegir fyrir 100 árum en eru almennt óþekktir af okkar kynslóð. Fór það ekki á milli mála í huga okkar að við höfðum fundið flakið af Póstskipinu Phönix, rúmum 130 árum eftir að það sökk. Heimildirnar,, staðsetning,, tegund flaksins,,, allt virtist passa…

Á undirbúningsstað fyrir köfun.

Í kjölfarið var haft samband við Fornleifavernd ríkisins og þeim tilkynnt um fundinn. Haldinn var fundur með Fornleifavernd og næstu skref ákveðin í samráði við hana. Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands var fenginn til að aðstoða. Í júní 2009 var farin köfunarleiðangur með kafara frá Fornleifavernd ríkisins. Ætlunin var að skoða og meta flakið þannig að gera mætti áætlanir um hvað tæki næst við.

Undirbúningur fyrir köfun. Arnar og Eggert ásamt starfsmönnum (köfurum) frá fornleifavernd Ríkisins. Með í för var Kristinn Hrafnsson sem sá um heimildargerð í þessum leiðangri.

Skipsflök svona gömul finnast ekki oft og sjaldséð að þau skuli vera heilleg sem að einhverju marki megi teljast. Því þarf að skoða vandlega hvernig spilað er úr hlutunum.

Neðansjávarfornleifafræði hefur lítið verið stundað hér á Íslandi. Einu sinni áður hefur verið framkvæmd neðansjávarrannsókn á skipsflaki að einhverju marki en það vart gert í Flatey árið 1993.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s