de Melckmeyt (Mjaltarstúlkan)
Í gömlu höfninni í Flatey, liggja tvö flök, annað þeirra hollenskt kaupfar „de Melckmeyt“ (Mjaltarstúlkan) og hitt, dönsk skonnortta sem hét Charlotte (+1882).
Á Íslandi hafði sjávarfornleifafræðileg athugun aldrei farið fram áður. Þó var vitað, og hefur verið staðfest enn frekar í beinu framhaldi af rannsóknunum, að feikimörg skipsflök liggja á sjávarbotni við Íslandsstrendur. Er mér ekki örgrannt um að vitað sé um enn eldri flök heldur en Melchmeyt, hér við land, þó það hafi ekki borist til eyrna minjavörslunar í landinu enn. Nefni ég hugsanleg Baska-flök, enskar duggur frá 15. öld og þýska kugga frá 12-14. öld.
Til Íslands komu menn í upphafi vega á haffærum fleyum. Án þeirra væri engin byggð í landinu. Í dag eru haffær fley, stærri og kröftugri en fyrrum, undirstaða búsetu í landinu. Þessi saga ferða yfir Atlantshafið er saga landsins sjálfs og því er það skylda okkar að hlúa að henni sem og öðum þáttum sögunnar.
Án sjávarfornleifafræðilegrar reynslu verður fundur skipsflaka af því tagi, sem getið var hér að ofan tiltölulega gagnslaus, en ef þau kynnu að finnast, yrðu þau hugsanlega ævintýramönnum að bráð. Áhugamaður um köfun og skipsflök lætur boð og bönn ekki aftra sér frá eilitlu fikti við hugsanleg „gömul“ flök og er það skiljanlegt að mörgu leyti.
Aðdragandi
Þann 8. ágúst 1992 voru áhugakafararnir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason að kafa einu sinni sem oftar í Höfninni gömlu við Flatey. Er Höfnin þessi inni í gömlum gýg sem nú gerir engum mein, beint fyrir utan þorpið í kallfæri frá ströndinni og heitir eyjan Hafnarey. Fundu þeir félagar bátsflak (yngra flak), sem lá utan í Hafnareynni vestanverðri.
Nokkru síðar, eða þann 22. ágúst, voru þeir Erlendur og Sævar aftur við köfun og enn að leita að flaki. Ástæðan fyrir því var að þeim félögum hafði borist til eyrna upplýsingarnar í Ballarárannál um að hollenskt kaupfar hafi sokkið í Höfninni árið 1659. Var það einn bænda í eynni, Magnús Arnar Jónsson, sem hafði bent þeim á annálinn og upplýsingarnar þar. Þegar þeir höfðu rótað eilítið í þaranum fundu þeir hvítan disk með bláu skrauti á. Stuttu síðar fundu þeir flakið (eldra flak) sjálft undir þara, sandi og leir.
Sögulegt yfirlit, ágrip „Skonnortan Charlotte frá Rudkøbing á Langalandi kom frá Kaupmannahöfn til Flateyjar og losaði þar vörur í maí 1882. Skipið var 82 tonn og skipstjóri P. Petersen.
25. maí, þegar Charlotte var ferðbúin frá Flatey, slitnaði hún upp og rak upp í kletta vestanvert í Hafnarey. Áhöfn virðist öll hafa bjargast. Uppboð á skipsflakinu og því, sem bjargaðist af varningi, var haldið í Flatey í júní 1882. Í skjölum sýslumanns Barðastrandasýslu er m.a. að finna farmskrá skipsins við brottför frá Kaupmannahöfn í apríl 1882 og farmskrá, þegar skipið var ferðbúið frá Flatey 23. maí 1882. Einnig er þar listi yfir allt, sem bjargað var og selt á uppboðinu.“
Á Handels- og Søfartsmuseet í Kronborg í Helsingör er að finna nánari upplýsingar um skonnortuna. Þar kemur m.a. fram að skipið var byggt í Hobro árið 1857 og því breytt í Álaborg árið 1861. Eitt dekk var á því og tvö möstur. Afturskipið var flatt, stefnið „krølle“ og „kravel“ úr eik. Lengdin var 76,3 (fetþ), breiddin 17,8 (fetþ) hæðin eða dýptin 9,1 (fetþ).
Skipstjórinn hét fullu nafni Peter Jensen Petersen og var hann jafnframt útgerðarmaður til hálfs við Carl Petersen skipstjóra, og keyptu þeir félagar Petersen skipið í apríl 1879 á kr. 12.000 danskar.
Skipið slitnaði upp við festar vegna þess að akkeriskeðjan brast og 5 manna áhöfn var bjargað í land. Flakið var selt á uppboði og keypti það J. Gudmansen kaupmaður á kr. 910. Farmurinn var einnig seldur og fengust fyrir hann ca. 4.800 kr. Ekki er alveg víst að flakið í Flatey sé umrædd Charlotte.
Eldra flakið
Árið 1659 var hollenskt kaupfar sent til Íslands með verslunarvarning til handa Íslendingum. Frá Íslandi átti skipið að taka þær vörur sem frá Íslandi komu að öllu jöfnu, fengið staðfest í annálum, enda stangast þau lítillega á eftirfarandi klausur úr annálum.
Í Kjósarannál er sagt frá skipsskaðanum á eftirfarandi hátt:
„Í Septembri brotnaði skip hollenzkt við Flatey á Breiðafirði, tapaðist góss og einn maður. Smíðuð dugga úr því skipi um veturinn.“.
Ballarárannáll hermir eftirfarandi um þennan skipsskaða árið 1659:
„Eitt varð eptir á Flateyjarhöfn, og var fraktað með blautan fisk, 60.000 fiska, og nokkuð kjöt. En um haustið, þá það var búið til siglingar, kom geysilegur norðan stormur, svo það brotnaði á Flateyjarhöfn og í kaf, nema sást á það aptan. Þar sátu upp á mennirnir í sjórótinu og frostinu nær því um 2 dægur; urðu ej fyr sóttir fyrir veðrinu; andaðist einn af þeim, en allir hinir lítt færir, en urðu þó með heilbrigði. Rak upp á Flatey nokkuð eður mestallt af því, þeir áttu, en skipsfraktin heil fordjarfaðist öll. Fimmtán voru mennirnir, því skipið var stórt með 14 fallstykkjum, og þau náðust öll, með seglum og köðlum; náðust nokkur grjón og brauð. Höfðu þeir það sér til matar um veturinn, með því öðru, sem þeir til fengu, og góðgjarnir menn gáfu þeim. Þeir héldu stórustofuna í Flatey um veturinn eptir skipsbrotið.“
Árið eftir segir í Ballarárannál:
„Og smíðuðu (þeir) hér í Flatey þann vetur hafskip úr grenivið af stóru skipsmöstrunum og greniborðum. Kjölurinn á því var mér sagt, að verið hefði 26 álnir. Var hátt skip og breitt, og á því sigldu þeir allir skipsbrotsmennirnir um sumarið. Fengu þeir menn góðan vitnisburð af fólkinu í Flatey.“
Samkvæmt annálum, voru 60.000 „blautir fiskar“ um borð í skipinu og eitthvað af kjöti þegar það sökk. Ef reynt er að umreikna þetta yfir í burðargetu skipsins og reiknað með að fiskurinn hafi verið þorskur gæti dæmið litið þannig út:
Venjulegur saltfiskur, sem ekki er þurrkaður, er varla undir 1,5 kg og er þá lágt reiknað skv. viðtali sem ég átti við atvinnusjómann. Við skulum því reikna með að meðalþyngd fisksins hafi verið 1,5 kg. Samanlögð þyngd 60. 000 „blautra fiska“ verður því 90. 000 kg. Að auki var eitthvað af kjöti og ýmsum vistum fyrir áhöfnina. Meira máli skiptir þó að verulegur þungi hefur verið í þeim 14 fallstykkjum sem skipið bar. Þannig má ætla að skipið hafi alls ekki verið undir 100 tonnum. Sennilega töluvert meir.
Allan annan byrðinginn vantar í skipið. Ástæðan kann að vera sú, að Þegar skipið lagðist á hliðina, stóð sá er vantar alveg, eða að mestu, upp úr sjónum. Því gátu menn nálgast hann og nýtt aftur í annað skip eða, eins og er trúlegra, í hús (sjá Ballarárannál). Hinn byrðingurinn lagðist á botninn og yfir hann helltist ballestin. Hún var og er enn að miklum hluta yfir þeim byrðingnum.
Eftir öllu neðsta borðinu og neðst á böndunum niður við kjöl, var brunarönd. Við suðurendann beygði þessi brunarönd upp og hélt nær beint upp eftir allri síðunni. Einnig var borð eitt með ferhyrndu gati eða öllu heldur með ferhyrndu úrtaki (við reit I 8-9) brennt. Á milli voru lítil eða óveruleg merki bruna og engin merki bruna á ljósu borðunum. Er það túlkun mín að á milli þessara brunabletta hafi verið einskonar herbergi eða afmarkað rými þar sem eldur hefur ekki herjað. Einmitt í þessu herbergi var keramikið trúlega geymt. Giska ég á að við þær hamfarir sem geisuðu er skipið fórst hafi eldur kviknað ofarlega í skipinu. Smám saman hefur hann náð að komast í neðsta hluta skipsins en slokknað tiltölulega fljótt þegar sjór flæddi inn í skipið. Ljósu borðin, sem ég trúi að hafi verið dekkþiljur, hafa síðar lagst ofan á innri byrðing þegar skipið féll endanlega saman. Ekki virðist eldurinn hafa náð að bíta sig í ytri byrðinginn. Ferhyrnda gatið, sem ég gat um að ofan, gæti hugsanlega hafa verið fyrir einhverja stífu sem hefur tengst möstrunum eða seglabúnaðinum á einhvern hátt. Hvert hlutverk þess getur hafa verið annað er mér ekki ljóst.
Nær engin merki um bruna sáust á keramíkinu en hinsvegar voru nánast öll brot úr tini brennd. Voru brot þessi úr diskum áhafnarinnar og höfðu trúlega verið geymd í eldhúsi. Gæti eldurinn því hafa komið upp þar! Aðrir gripir en keramík sem funndust við eldra flakið voru skósóli, flöskur, blýstykki og naglar.
Tæplega 300 keramíkbrot fundust við rannsóknina og yfirgnæfandi meirihluti af Delftware-týpu, eða hvítglerjaður hvítleir („fiance“) með bláu skrauti. Voru m.a. blómaskraut, landslag, dýr og hjálmur goðsagnapersónu á meðal skrautsins. Keramík þetta er einkennandi fyrir 17. öldina. Ég giska á að samtals sé magnið u.þ.b. 30 kg og er þetta því sennilega stærsta safn 17. aldar keramíks frá einum stað, sem funndist hefur á Íslandi. Er því safnið mjög þýðingarmikið fyrir framtíðarannsóknir á Íslandi og þó víðar væri leitað. Mun keramíksafnið jafnvel skipta Hollendinga miklu máli. Nokkrum árum eftir að Melchmeyd sökk var keramíkverkstæði komið á legg í Þýskalandi sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að reynst hefur erfitt að greina sundur hollenskt keramík og keramík frá þessu versktæði. Flatey getur vel varpað ljósi á þetta atriði.
Þar sem þykkt borða í ytri byrðingi voru mæld, voru þau allt að 7 sm á þykkt. Neðarlega lágu borðin –_–_ , en þegar ofar kom, lágu hins-vegar borðin kant í kant eða rönd í rönd. Hlýtur þetta að vera skipstæknileg ráðstöfun af einhverju tagi (styrkur, sveigjanleiki, þétting o.s.frv.). Innri byrðingurinn virðist aftur á móti alltaf vera kant í kant.
Tel ég víst að byrðingur og bönd séu úr eik. Er það á skjön við upplýsingarnar í Ballarárannál um að borðin og jafnvel möstrin hafi verið úr grenivið. Reyndar má telja alla frásögnina í Ballarárannál um smíði haffærs skips í Flatey og brottför skipsbrotsmannanna þaðan fremur ótrúlega. Varla hefur verið sú aðstaða (verkfæri, kunnátta áhafnar eða heimamanna, aðstaða o.s.frv.) í Flatey sem leyfði smíði af þessu tagi. Hefur skip þetta verið rétt tæpir 15 m. Hefur það þá verið stærra en flest íslensk skip á þessum tíma. Ekki náðist kjölurinn og hlýtur það að hafa verið ákveðið vandamál.
Að lokum er vert að taka það fram að rannsókn þessi er afar lítil á mælikvarða venjulegra sjávarfornleifafræðilegra rannsókna. En hún er alltént einhverskonar byrjun og gaf okkur sem að henni stóðum geysilega dýrmæta reynslu sem kanski kemur að notum, þó síðar verði. Vissulega hefði verið gaman að fá að rannsaka aðeins stærri part af skipinu, en á því voru engin tök eins og ég hef skýrt út hér að framan.
Ég er þess fullviss að við Íslandsstrendur liggur fjársjóður af upplýsingum um sögu þessa lands hvort sem við köllum þá sögu verslunarsögu, almenna sögu eða einhverja annarskonar sögu. Sennilega er þessi sjóður stærri og áhugaverðari en við gerum okkur í hugarlund og á ég þá bæði við áþreifanlega gripi og upplýsingar. Til að veiða þennan fjársjóð úr hafinu þarf mikla þolinmæði og reynslu og mikinn fjárhagslegan stuð.
Hvað sem þessu líður hurfu Hollendingarnir á braut frá Flatey og það gerðum við einnig þó að við hefðum ekki dvalið í eynni nema hálfan mánuð.
Heimildir:
- Bjarni F. Einarsson, 1994. „Mjaltastúlkan í gígnum.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1993. Reykjavík.
- Heimasíða Wikipedia um sjávarfornleifafræði. Sjá hér.
________________________________________________________________
Hollenska skipið Melkmeyt, Mjaltastúlkan, sökk við Flatey á Breiðafirði árið 1659.
Skipið var hlaðið varningi, líklegast vöru sem skipverjar seldu vel álnuðum Íslendingum til að drýgja hlut sinn. Skip, eins og það sem lagðist að við Viðey, var líklega á ferð til ýmissa hafna Hollendinga á norðurslóðum til að sækja lýsi og fisk. Mesta magn leirkera, sem fundist hafa í einni og sömu fornleifarannsókninni á Íslandi, fannst við köfun dr. Bjarna F. Einarssonar og félaga niður á flakið árið 1993 (sjá skýrslu Bjarna í Árbók hins íslenska Fornaleifafélags árið 1993), en ég var að nafninu til stjórnandi rannsóknarinnar, enda landkrabbi.
Leirkerabrotin í Melkmeyt eru miklar gersemar. Flest leirkerabrotin úr Melkmeyt eru hollensk að uppruna. Melkmeyt er í raun „Gullskipið“. Öll leit af Het Wapen van Amsterdam var út í hött.
Ég fór árið 1995 gagngert til Hollands með brot af nokkrum leirmunum, sem mig grunaði að gætu verið lengra að komin en úr Harlem og Delft eða nærliggjandi plássum í Hollandi, þaðan sem meginþorri leirtausins er ættaður. Í Amsturdammi gekk þar á fund sérfræðings, sem heitir Jan M. Baarts. Jan samþykkti að skoða leirkerabrotin og myndir af öðrum brotum sem honum yrðu send. Hann var á sömu skoðun og ég. Skipverjarnir á Melkmeyt ætluðu greinilega að selja Íslendingum gæðadiska frá Ítalíu. En septembernótt árið 1659 gerði mikinn storm á Breiðafirði og eldur braust út um borð á Melkmeyt, sem kom í veg fyrir frekari sölumennsku skipverja.
Brotið hér að neðan er frá Norður-Ítalíu. Áður en ítölsku diskabrotin fundust í Flatey, höfðu sérfræðingar í Hollandi aldursgreint þessa tegund leirtaus til 1650-1660. Aldur brotanna í flaki Melkmeyts passar eins og flís í rass á þeirri aldursgreiningu og gerðafræði annarra forngripa í flakinu.
Samkvæmt Kjósarannáll tókst meðal annars að bjarga hrísgrjónum úr flakinu og hafði áhöfnin þau til matar um veturinn, en Íslendingar gaukuðu að þeim öðru matarkyns og hafa vonandi fengið hrísgrjónagraut hjá Hollendingum og smá jenever sem þakkir fyrir hjálpina við skipbrotsmennina.
Gaman væri að heyra álit manna á því hvort ekki sé kominn tími til að klára rannsóknina í Viðey.
Þetta væri verkefni sem íslensk stórfyrirtæki gætu með góðu móti styrkt. Heyri ég gjarnan frá einu þeirra.
Heimildir & tenglar: